Punktar

Eftir mína tíð

Punktar

Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna er gjaldþrota og hefur raunar alltaf verið það. Hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum. Ríkið gerir ráð fyrir, að börn okkar og barnabörn, skattgreiðendur framtíðarinnar, muni spýta mismuninum inn í ríkiskerfið, þegar hinir fullorðnu flykkjast á ellilaun. … Þetta er kallað gegnumstreymi, öfugt við uppsöfnunina, sem gildir í öðrum lífeyrissjóðum. Þeir ekki geta skattlagt börn okkar og barnabörn fyrir sukki íslenzkra landsfeðra, sem lifa fyrir líðandi stund eins og hinn eyðsluglaði Loðvík fimmtándi, er sagði: “Eftir mína tíð kemur hrunið.” …

Þeir munu tapa friðnum

Punktar

Nicholas D. Kristof spyr þriggja spurninga í International Herald Tribune. 1. Verður innrásin í Írak seintekin? Hann bendir á 4.000 manna þorpið Umm Kasr, sem tók fjóra sólarhringa að hertaka. 2. Munu Írakar strá blómum yfir innrásarliðið? Hann bendir á, að viðtöl blaðamanna við fólk á hernumdum svæðum benda til, að innrásarliðið sé ekki velkomið. 3. Munu Bandaríkin byggja Íraksstefnu sína á staðreyndum eða hugmyndafræði? Hann bendir á, að herfræði Rumsfeld stríðsmálaráðherra hafi byggzt á þeirri hugmyndafræði, að Írakar mundu fagna innrásinni, og ekki gert ráð fyrir skæruhernaði. Hann telur að vísu, að Bandaríkin muni vinna stríðið, en friðurinn muni ganga þeim úr greipum.

Forsendan var út í hött

Punktar

Daryl G. Press bendir á það í New York Times, að fyrir stríð hafi George W. Bush talið Bandaríkjamönnum trú um, að innrásin í Írak yrði auðveld og ódýr. Hann telur, að mannfall verði töluvert í liði Bandaríkjamanna. Hann telur ennfremur, að Vesturlandabúar muni verða ókvæða við sjónvarpsmyndum af hörmungum almennings af völdum innrásarliðsins. Hann ráðleggur, að framvegis fari Bandaríkin ekki í stríð á grundvelli þeirrar forsendu, að andstæðingurinn muni umsvifalaust leggja niður vopn.

Hvert stríðið á fætur öðru

Punktar

Jonathan Freedland gefur í Guardian í morgun góða mynd af hugarheimi vitfirringanna í Washington, sem hafa ákveðið að taka öll völd í heiminum. Þeir hafa varpað öllum bandalögum og sáttmálum fyrir borð og stefna að því að hafa hernaðarmátt til að heyja viðstöðulaust hvert stríðið á fætur öðru. Ef einhver annar vill haga sér eins og þeir, tryllast þeir af bræði og vísa til sáttmála, sem þeir sjálfir hunza opinberlega. Geðveikir ráðamenn Bandaríkjanna eru hættulegri heimsfriðnum en geðveikir ráðamenn Sovétríkjanna og Hitlers-Þýzkalands voru, þegar þeir voru skæðastir.

Við borgum tjón Íraks

Punktar

Eðlilegt er, að eftir stríðið borgi Bandaríkin, Bretland og Ástralía tjónið, sem hernaður þeirra veldur á innviðum Íraks. Ekki er hægt að ætlast til, að andstöðuríki stríðsins á borð við Frakkland og Þýzkaland borgi fyrir eyðileggingu, sem þau hafa eindregið varað við. Hins vegar verður Íslendingum væntanlega sendur reikningur fyrir endurreisnina, af því að landsfeður okkar studdu stríðið opinberlega og eru því óbeinir aðilar að eyðileggingunni. Það kostar sitt að þykjast vera stórir strákar í stríðsleik, þótt bak við skrifborð sé.

Magnaður stjórnmálaflokkur

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er magnaður stjórnmálaflokkur. Hann geta allir stutt, sem eindregið eru samþykkir hinni nýju heimsvaldastefnu Bush forseta og fjöldamorðum Bandaríkjanna á Írökum. Hann geta allir stutt, sem eindregið vilja aukinn mun á lífskjörum ríkra og fátækra hér á landi. Hann geta allir stutt, sem eindregið vilja, að samskipti stjórnmálaflokka og peningafursta séu áfram höfð undir huliðshjálmi. Hann geta allir stutt, sem eindregið vilja láta reisa sem flest orkuver í óbyggðum Íslands. Hann geta allir stutt, sem eindregið vilja alls ekki, að rætt sé um hugsanlega aðild okkar að Evrópusambandinu. Hann geta allir stutt, sem eindregið vilja ekki, að þjóðin öll eigi auðlindir sjávar. Hann geta allir stutt, sem eindregið vilja, að ráðherrar beiti valdi sínu gegn framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur skýra stefnu í verki. Hann er nákvæmlega flokkur, sem Íslendingar eiga skilið.

Alþjóðareglur rofnar

Punktar

Sýndar hafa verið myndir af bandarískum hermönnum, sem Írakar hafa tekið til fanga. Það stríðir gegn Genfarsáttmálanum. Minna er fjallað um í fjölmiðlum, að innrásarher Bandaríkjanna gerir nákvæmlega hið sama, birtir myndir af írökskum hermönnum, sem teknir hafa verið til fanga. Rauði krossinn hefur ekki fengið að heimsækja bandarísku fangana. Það stríðir gegn Genfarsáttmálanum. Minna er fjallað um í fjölmiðlum, að nákvæmlega sama gildir un íröksku fangana. Rauðu krossinn hefur ekki fengið að heimsækja þá. Rækilega er fjallað um þetta mál í New York Times í morgun. Þetta segir okkur, að stríðsglæpamenn ráða ferðinni í báðum herbúðum.

Stríðið gengur illa

Punktar

New York Times segir í morgun, að árás Bandaríkjanna og Bretlands á Írak gangi verr en ráð var fyrir gert. Varnarlið Íraks hefur ekki gefizt upp, heldur veitt öfluga mótspyrnu gegn tæknilegu ofurefli. Árásarherinn hefur ekki náð neinni borg landsins á sitt vald. Setið er um Basra og skrúfað hefur verið fyrir vatn og rafmagn til borgarinnar. Það mun valda hörmungum borgarbúa, sem eru sjítar, er fyrir árás voru taldir andsnúnir Saddam Hussein. Ekki er hægt að reikna með, að eftirlifendur í borginni verði mjög hliðhollir Bandaríkjunum, þegar umsátrinu lýkur.

Guði sé lof fyrir vefinn

Punktar

Guði sé lof fyrir, að við þurfum ekki lengur að sæta erlendum fréttum Ríkissjónvarpsins og Morgunblaðsins, hlýðinna málgagna Bandaríkjanna. Á vefnum höfum við aðgang að hafsjó alvörufrétta úr erlendum alvörufjölmiðlum. Fyrst förum við á NewsGoogle og þaðan beint í þúsundir fjölmiðla, þar á meðal sjálfa heimspressuna, sem hefur allt aðra sýn á veruleikann en Ríkissjónvarpið og Morgunblaðið. Vefurinn hefur rofið hliðvörzlu staðbundinna fjölmiðla og gert okkur frjáls að nýju.

Lestur DV hefur minnkað 35%

Punktar

DV hefur vegnað illa síðan ég hætti að vinna þar fyrir rúmu ári. Eftir það hrapaði lestur blaðsins um 16% á skömmum tíma og hefur samkvæmt nýjustu tölum Gallups alls hrapað um 35%. Blaðið safnar tugmilljóna skuldum í mánuði hverjum og stefnir hröðum skrefum til endalokanna. Þetta er blað, sem var selt á meira en milljarð króna fyrir tæpum tveimur árum. Sorglegt er, þegar góð fyrirtæki lenda í höndum manna, sem kunna ekki með að fara.

Engin gereyðingarvopn

Punktar

Í varnarbaráttunni gegn innrás Bandaríkjanna hefur Írak ekki beitt efnavopnum eða öðrum gereyðingarvopnum, sem fullyrt hefur verið, að séu falin þar í landi. Það bendir til, að þar séu raunar ekki slík vopn, enda fundu vopnaleitarmenn Sameinuðu þjóðanna þau ekki. Ef þau finnast ekki í stríðinu, mun bandaríska hernámsliðið planta sönnunargögnum til að sannfæra Bandaríkjamenn um, að mannskæð innrásin hafi verið réttlætanleg.

Bush: Slátrarinn frá Bagdað

Punktar

Lýsingar sjónarvotta benda til, að bandarískir og brezkir fjöldamorðingjar slátri fólki unnvörpum í Írak, einkum úr öruggri fjarlægð í loftárásum á íbúðahverfi, en einnig í návígi á jörðu niðri, þar á meðal fréttamönnum ITN, sem urðu á vegi þeirra. Robert Fisk segir í Independent frá heimsókn til örkumla barna í sjúkrahúsi í Bagdað. Luke Baker og Rosalind Russell segja í Washington Post frá brunnum líkum í eyðimörkinni. Victor Mallet segir í Financial Times frá harðri mótspyrnu gegn innrásinni. Peter Preston segir í Guardian í morgun frá tæknivæddri slátrun af hálfu innrásarliðsins og Aida Kasy segir í sama blaði frá skelfingu saklauss fólks í Bagdað. Peter Preston, djákni brezkra dálkahöfunda, segir svívirðu Bretlands vera mikla. Bandaríski sagnfræðingurinn Arthur Schlesinger segir hið sama um Bandaríkin í Los Angeles Times. Það verður ekki Saddam Hussein, heldur George W. Bush, sem verður minnzt í veraldarsögunni sem slátrarans frá Bagdað.

Frelsaðir gegn vilja sínum

Punktar

Washington Post segir frá ferð Rosalind Russell, fréttaritara Reuters, í áttina að Basra í kjölfar brezka hersins. Unglingarnir við vegbrúnina veifuðu hermönnunum, þegar þeir fóru hjá, en grettu sig, þegar hermennirnir sáu ekki lengur til þeirra. “Við viljum þá ekki hér, þetta er Írak” sagði einn heimamanna. Einn unglinganna tók upp mynd af Saddam Hussein. Þetta er í héraði sjíta, sem sagðir eru andsnúnir miðstjórninni í Bagdað. Svo virðist sem ekki séu margir Írakar áfjáðir í að láta Bandaríkjamenn og Breta frelsa sig. Í fréttinni segir, að leiðin til Basra sé vörðuð brunnum líkum manna. Brezkir og bandarískir fjöldamorðingjar hafa talið sig þurfa að drepa þá til að frelsa þá.

Lögðu ekki niður vopn

Punktar

Hermenn Íraks hafa enn ekki lagt niður vopn og gefizt upp fyrir ofurefli bandaríska hersins, þótt lengi hafi rignt yfir þá bandarískum dreifimiðum um, að slíkt borgaði sig fyrir þá. Það bendir til, að stjórnin í Bagdað sé ekki eins hötuð heima fyrir og áróðursmenn stríðsins hafa viljað vera láta. Það bendir líka til, að stríðið verði ekki eins stutt og áróðursmenn þess hafa viljað vera láta.

Flugleiðir gegn konum

Punktar

Ímynd íslenzkra kvenna í Soprano-þáttum sjónvarps er eðlileg afleiðing af eindregnum og ítrekuðum brotavilja Flugleiða. Árum saman og sennilega í heilan áratug hafa Flugleiðir birt erlendis margs konar auglýsingar, sem gefa í skyn, að íslenzkar konur séu almennt með brókarsótt. Þetta telja rembur félagsins, að auki farþegafjöldann. Annars væru þeir ekki árum saman að birta auglýsingar, sem fela í sér hreint og tært kvenhatur. Einhvern tíma hlaut brotaviljinn að enda með ósköpum. Það hefur nú gerzt í Soprano.