Punktar

Einföld kosningamál

Punktar

Skoðanakönnun sýnir, að kosningamálin eru aðeins tvö, skattar og velferð. Því er eðlilegt, að stjórnmálaflokkarnir yfirbjóði hver annan í skattalækkunarloforðum og mest Sjálfstæðisflokkurinn. Því er eðlilegt, að stjórnmálaflokkunum þyki þessa dagana ákaflega vænt um alla, sem eru minni máttar, og mest stjórnarflokkunum, sem hafa löngum látið þau mál sitja á hakanum. Í hugum fávísra kjósenda jafngildir Sjálfstæðisflokkurinn skattalækkun og Samfylkingin velferð. Þetta eru líka einu flokkarnir, sem sérstaklega bjóða fram forsætisráðherraefni. Öðrum flokkum duga mál á borð við eignarhald á auðlindum sjávar og virkjanir á hálendinu til smáflokkafylgis. Sérmál Framsóknarflokksins er, að formaður flokksins verði áfram utanríkisráðherra, en fáir hafa játast í skoðanakönnunum undir þá hugsjón.

Hræsni vestræns sjónvarps

Punktar

Peter Preston, útgáfustjóri Guardian blaðanna, gagnrýnir vestræna fjölmiðla, einkum sjónvarpsstöðvar, fyrir að flytja ritskoðaðar og stórlega mildaðar fréttir af blóðbaðinu í Írak. Hann furðar sig á, að stöðvar, sem telja, að samfellt ofbeldi og morð í afþreyingarefni henti áhorfendum sérstaklega vel, skuli telja, að koma þurfi í veg fyrir, áhorfendur þurfi að þola að sjá afleiðingar raunverulegs ofbeldis og fjöldamorða, sem vestrænir aðilar fremja í Írak. Það er einmitt þetta gerilsneydda efni vestrænna sjónvarpsstöðva, sem sýnt er í hlutdrægu sjónvarpi hér á Íslandi.

Bush og Sharon ófriðlegir

Punktar

Ewen MacAskill leiðir rök að því í Guardian, að dæmdar til að fara út um þúfur séu tilraunir Tony Blair til að fá George W. Bush til að leggja fram vegakort fjórveldanna um friðsamlega lausn Palestínudeilunnar. Enginn friður verði fyrir botni Miðjarðarhafs meðan Bush og Sharon séu við völd í Bandaríkjunum og Ísrael. Enginn pólitískur vilji sé í Bandaríkjunum fyrir lausn málsins. Í forsetakosningunum árið 2004 muni Bush sækjast eftir fylgi ofsatrúarhópa kristinna og gyðinga, sem eindregið eru andvígir sjálfstæðri Palestínu.

Sími og tölva eru eitt

Punktar

Nýja Palm Tungsten galdratækið fær einstaklega góða dóma í FCWCOM. Það er allt í einu tæki, farsími á GSM og GPRS bylgjum, SMS skilaboðatæki, netvafri með 320×320 punkta litaskjá, tölvupóststöð og svo auðvitað hefðbundin Palm tölva með skipulagsforritum á borð við dagbók og minnisbók, ritvinnslu og töflureikni. Tækið er selt af www.palm.com og kostar 549 dali.

Nú er deilt um peninga

Punktar

Spennan milli Bandaríkjanna og kjarnaríkja Evrópusambandsins var augljós á fundum Alþjóðabankans og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um helgina. Svo lítið er traustið milli herbúða, að Seðlabanki Evrópu gerði sérstakar ráðstafanir á föstudaginn til að verjast bandarískri árás á evruna. Þýzkaland neitaði að taka þátt í fjármögnun Íraksdeilunnar. James Wolfensohn, bankastjóri Alþjóðabankans, neitaði að senda nefnd til Íraks til að kynna sér stöðu mála, nema Frakkland og Þýzkaland samþykktu ferðina. Þessi ríki og raunar Bretland líka vilja ekki senda nefnd til Bagdað, nema öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjalli um málið. Á föstudagskvöldið samþykktu efnahagsveldin sjö að mæla með afgreiðslu í öryggisráðinu og sendinefnd til Bagdað, svo að úr þeirri flækju kann að greiðast. En ýmis önnur atriði valda deilum í bönkunum tveimur, þar á meðal hinn gífurlegi taprekstur, sem orðinn er á bandaríska ríkissjóðnum, síðan Bill Clinton fór frá völdum og George W. Bush tók við. Um ýmis þessi atriði er fjallað í grein eftir Larry Elliott í Guardian.

Réttlætingar ákaft leitað

Punktar

Bandaríkin og Bretland hafa í kyrrþey komið á fót eigin vopnaleitarliði til að finna bönnuð vopn í Írak og hefur það farið vítt og breitt um landið til reyna að finna réttlætingu fyrir innrásinni. Þetta upplýstu Nicholas Watt, Owen Bowcott og Richard Norton-Taylor í Guardian. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur af þessu gefna tilefni ítrekað, að einungis vopnaleitarnefnd Sameinuðu þjóðanna hafi umboð til slíkrar leitar. Hans Blix, yfirmaður þeirrar nefndar, segir í viðtali við El Pais í Madrid, að Bandaríkin og Bretland hafi engan áhuga haft á vopnaleit Sameinuðu þjóðanna og reynt að framleiða fölsuð sönnunargögn gegn Írak til að réttlæta árásina. Hann sagði, að Írakar hafi nú þjáðst mikið, af því að vopnaleitarnefndinni hafi ekki verið leyft að ljúka störfum. Paul Rogers prófessor við Bradford háskóla segir, að fólk muni ekki trúa uppljóstrunum einkanefndar Bandaríkjanna og Bretlands, af því að þessi ríki séu málsaðilar.

Frjálsir stela og drepa

Punktar

Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sérstakt lag á að ofbjóða öllum, sem ekki eru haldnir sama ofstækinu og hann. Þegar blaðamenn spurðu um rán og gripdeildir í þeim borgum Íraks, sem herir nýlenduveldanna hafa náð á sitt vald, yppti hann öxlum og sagði: “Frjálst fólk má gera mistök og fremja glæpi og gera slæma hluti.” Hundruð manna hafa verið drepin í óöldinni undir verndarvæng herja Bandaríkjanna og Bretlands. Flestu verðmætu hefur verið stolið í þessum borgum og ómetanleg verðmæti eins merkasta þjóðminjasafns í heimi eru horfin út í veður og vind. Sjúkleg viðbrögð Rumsfeld eru dæmigerð fyrir stjórnarfarið í Bandaríkjunum þessa dagana. Frá þessu segir Brian Whitaker í Guardian.

Sagðir sefasjúkir

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að hægri öfgamennirnir, sem ráða Bandaríkjunum, þjáist af ótta við hið ókunna og séu sefasjúkir ofstækismenn. Þeir trúi, að rétt sé að slátra fólki í krafti kennisetninga. Í annarri grein í sama blaði segir Pfaff, að orðstír Bandaríkjanna í heiminum sé horfinn og mörg lýðræðisríki séu farinn að líta á þau sem ógnun. Þessi ríki muni einangra Bandaríkin enn frekar en orðið er. Hann telur, að Bandaríkin muni tapa á því að hafa grafið undan alþjóðsamfélaginu og hefðbundnum vinnubrögðum þess.

Skúrar ekki eftir sig

Punktar

Elizabeth Becker segir í New York Times, að daufar séu undirtektir við tilmælum Bandaríkjastjórnar um fjárstuðning vestrænna ríkja og fjármálastofnana til að borga tjónið, sem Bandaríkin og Bretland hafa valdið Írak. Alþjóðabankinn og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn geti lítið gert, nema málið hafi fengið gæðastimpil Sameinuðu þjóðanna, sem ráðamenn Bandaríkjanna hata og fyrirlíta. Bandaríkjastjórn mun sjálf ekki tíma að borga fyrir endurreisn Íraks fremur en hún tímdi að borga fyrir endurreisn Afganistans. Hún telur sig ekki þurfa að skúra eftir sig. Þess vegna telur Becker, að hún verði að friðmælast við þau ríki, sem voru andvíg hinni tilefnislausu árás á Írak, eða skilja að öðrum kosti við fórnardýr sitt í rústum.

Þráðlaus staðarnet

Punktar

Þráðlausum staðarnetum fjölgar á almannafæri á Vesturlöndum. Þau eru í ýmsum flugstöðvum, hótelum og kontórhúsum. Þeir, sem eru með þráðlaust tengjanlega fartölvu á svæðinu, geta notað þessi staðarnet til að komast á netið og geta síðan notað netið til að tala við fólk úti um heim, án þess að borga símgjald. Roger Collis skrifar í International Herald Tribune um þessar tækninýjungar.

Ég er sterkastur

Punktar

David Hare rithöfundur segir í Guardian í morgun, að ástæðan fyrir blóðugri árás George W. Bush Bandaríkjaforseta á Írak sé hvorki að ná í olíu né að ljúka verki föðurins, hvorki að eyða kjarnavopnum né öðrum gereyðingarvopnum. Bush sé bara að sýna öllum heiminum fram á, að hann geti gert það sem honum sýnist. Hann hafi beinlínis valið Írak, af því að ekkert vit var í að velja Írak. “Ég vil af því að ég get”, segir Hare að sé hin raunverulega ástæða trúarofstækismannsins í Hvíta húsinu. Hann spáir því, að Bush muni ekki láta sér nægja að slátra Írökum, heldur muni fleiri þjóðir verða fórnardýr geðsjúklingsins.

Þrefaldar hörmungar

Punktar

Fyrst þurftu Írakar að þola morð og limlestingar af hálfu stjórnar Saddam Hussein. Næst þurftu Írakar að þola morð og limlestingar af hálfu herja George W. Bush og Tony Blair, sem leiddu til stjórnleysis í landinu, svo að nú síðast þurfa Írakar að þola rán og gripdeildir glæpamanna ofan á fyrri hörmungar. Segja má þó, að ástandið hafi skánað. Saddam myrti tugþúsundir, Bush og Blair myrtu þúsundir og ræningjarnir myrða hundruð þessa dagana. Langt kann þó að vera í friðsamt líf hjá Írökum, því reynslan frá Afganistan sýnir, að Bush er sýnna um að koma á stríði en að koma á friði. Hann gerði til dæmis ekki ráð fyrir neinum kostnaði á fjárlögum þessa ári við friðargæzlu í Afganistan, þar sem löggæzlumenn fá ekki lengur borgað og þar sem nú ríkir óöld herstjóra og trúarofstækismanna eins og fyrir stríð. Ágæt grein um þetta efni eftir Paul Krugman birtist í New York Times í morgun.

Stríðið skaðar hnattvæðingu

Punktar

Maria Livanos Cattaui segir í International Herald Tribune, að fjölþjóðastefnan haldi uppi hnattvæðingunni og bættum efnahag mannkyns. Höfundurinn minnir á, að verzlun milli Evrópu og Bandaríkjanna nemi einum milljarði dollara á degi hverjum. Alþjóðalög og réttur hafi skaðast verulega af einhliða aðgerðum upp á síðkastið. Íraksstríðið hafi rofið sambandið milli Evrópu og Ameríku og úr því verði að bæta hið bráðasta, ef ekki eigi illa að fara.

Segir Bush vera barbara

Punktar

Nóbelshöfundurinn Günther Grass segir í International Herald Tribune, að siðferði heimsveldisins Bandaríkjanna hafi hnignað. Þar séu komnir til valda ofstækisfullir barbarar, sem hafi svikið hugsjónir þeirra, sem stofnuðu Bandaríkin á sínum tíma. Hann telur, að George W. Bush forseti sé að valda Bandaríkjunum gífurlegum skaða og segir andspyrnu þýzku ríkisstjórnarinnar hafa gert sig stoltan af að vera Þjóðverji.

Kjarnasamruni færist nær

Punktar

Kenneth Chang segir í New York Times, að ný orkulind hafi færzt nær okkur í tíma með vel heppnaðri tilraun með kjarnasamruna í Sandia rannsóknastofunni í Philadelphia. Tilraunin bendi til, að ekki þurfi gríðartrausta tanka utan um heitt vetni, heldur sé hægt að framkalla raðsprengingar eins og í bílvél. Þetta muni leiða rannsóknir á vetnisorku inn á nýjar brautir, en eigi að síður muni áratugir líða áður en hægt verði að hagnýta hana í daglegu lífi.