Punktar

Spillingin verðlögð

Punktar

Reiknað hefur verið út, að auglýsingar stjórnmálaflokka í dagblöðum og sjónvarpi voru samtals komnar í 70 milljónir króna um síðustu mánaðamót. Eru þá ótalinn annar áróður, svo sem bæklingar, tímarit, borðar og fleira. Ennfremur er ótalinn kostnaður að baki auglýsinganna, sem er ekki minni en króna á móti krónu, sumir segja tvær krónur á móti krónu. Eftir fylgishlutföllum flokkanna má gera ráð fyrir, að barátta Framsóknarflokksins fari að lokum hátt yfir 100 milljónir króna og barátta Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins nálgist 100 milljónir króna hjá hvorum. Sumt af þessu fæst af ríkisstyrk og hjá sannfærðum flokksmönnum, hvort tveggja misjafnt eftir stærð flokka. Afganginn borga hagsmunaaðilar, sem vilja fá eitthvað fyrir snúð sinn. Spillingarfé Framsóknarflokksins að þessu sinni verður af stærðargráðunni 100 milljónir, sem er nýtt Íslandsmet, Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins af stærðargráðunni 50 milljónir hjá hvorum flokki. Hagsmunagæzlufé þessara alþingiskosninga mun þá nema samtals 200 milljónum króna.

Osama bin Laden vann

Punktar

William Pfaff telur í International Herald Tribune að Osama bin Laden hafi unnið sitt stríð. Hann hafi jafnan lagt megináherzlu á, að vanhelgun væri að setuliði Bandaríkjanna í landinu helga, Sádi-Arabíu, og koma þyrfti því á brott. Nú er verið að skipuleggja brottför þess til Katar. Honum hafi tekizt að koma sértrúarflokki til valda í hirð George W. Bush Bandaríkjaforseta. Sértrúarflokkurinn hafi komið sambúð Bandaríkjanna og Evrópu í slíkar ógöngur, að það taki að minnsta kosti tíu ár að lagfæra hana. Sértrúarflokkurinn hafi stofnað til almennrar fordæmingar Bandaríkjanna um allan heim. Allt hafi þetta byrjað með Osama bin Laden, sem hataði Saddam Hussein og er raunar ekki fundinn enn.

Gereyðingarvopn ófundin

Punktar

Ekki hefur tekizt að finna nein gereyðingarvopn í Írak. Þarlendir vísindamenn, sem handteknir hafa verið, segja allir, að engin slík vopn hafi verið í landinu síðustu árin. Grunsamlegar tunnur reyndust hafa að geyma hefðbundinn áburð og kassi af hvítu dufti reyndist hafa að geyma hefðbundið sprengiefni. Menn spyrja, hvernig hin meintu gereyðingarvopn geti hafa verið ógnun við Bandaríkin, úr því að þau voru ekki notuð til að verjast innrásinni og hafa ekki fundizt enn. Svo virðist sem Bandaríkin hafi nú ekki aðra leið í málinu en þá, sem hér hefur áður verið bent á, að koma gereyðingarvopnum fyrir í Írak og þykjast síðan finna þau.

Erfitt að manna hernám

Punktar

Giles Tremlett og Julian Borger segja frá því í Guardian, að erfiðlega gangi að manna hernámsliðið í Írak. Pólland átti að stjórna einum af þremur svæðunum og leggja til 1500 manns, en nú vill það ekki vera með, nema Bandaríkin borgi og Sameinuðu þjóðirnar samþykki. Spánn átti að leggja til 1500 manns á brezka svæðinu, en vill nú ekki taka þátt í að bæla niður uppþot. Honduras og Nicaragua áttu að vera með Spáni, en vilja nú, að Spánn borgi. Chile og Argentína vilja nú aðeins vera með, ef Sameinuðu þjóðirnar samþykki. Búlgaría átti að senda 450 manns og vill nú, að Bandaríkin borgi. Það lítur því út fyrir, að af undarlegum samtíningi bandamanna sé það einungis brezki hundurinn, sem fylgi Bandaríkjunum skilyrðislaust að hernámi Íraks.

Sagður með lausa skrúfu

Punktar

Kamal Ahmed vitnar í Observer í ýmsa sérfróða menn, sem telja, að Tony Blair sé með lausa skrúfu trúarlegs eðlis. Eins og George W. Bush telji hann sig ekki fyrst og fremst hafa umboð fólksins í landinu, heldur drottins allsherjar sjálfs. Blair sé að upplagi eins og bandarísku sjónvarpsprédikararnir. Lausa skrúfan hans felist í trúnni á hreinleika fullyrðinga sinna og áætlana, þótt hann hafi verið margstaðinn að lygum, einkum í Íraksmálinu. Lausa skrúfan felist líka í trúnni á óhjákvæmilegan sigur sjónvarmiða sinna. Forsætisráðherrum beri hins vegar að starfa á grundvelli kaldrar rökvísi. Illa fari, þegar þeir telji sig ríkja í umboði guðs fremur en þjóða. Þannig ríktu kóngarnir “af guðs náð” í gamla daga og það fór illa.

Samstarf gegn yfirgangi

Punktar

Simon Tisdall segir í Guardian, að ríkisstjórnir Vestur-Evrópu séu í vandræðum með að umgangast taumlausan vilja Bandaríkjaforseta til yfirgangs í heiminum, gegn fyrrverandi bandamönnum sínum í Vestur-Evrópu jafnt sem öðrum. Hann telur, að ráðamenn ríkja á borð við Frakkland og Þýzkaland séu dæmdir, meðal annars vegna almenningsálitsins, til að vinna gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjastjórnar, sem og ráðamenn ríkja á borð við Rússland og Indland. Ekkert ríki af slíkri stærðargráðu geti sætt sig við yfirgang að hætti George W. Bush. Tisdall telur, að andstæðingar yfirgangsins muni neyðast til að sameina kraftana með því að leggja meira af fullveldi ríkja sinna í sameiginlegt púkk á borð við Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar.

Þjóðir hafa fílsminni

Punktar

Peter Preston segir í Guardian, að Bush og Blair geti ekki huggað sig við, að ýmsar ríkisstjórnir í heiminum hafi látið eða muni láta af andstöðu sinni við Íraksstríðið að því loknu. Almenningur í þessum löndum hafi ekki gleymt og muni ekki gleyma niðurlægingunni, sem hann og ríkisstjórnir þeirra hafa þurft að sæta af hálfu Bandaríkjaforseta. Preston, sem lengi hefur verið einn helzti framámaður í alþjóðasamtökum vestrænna ritstjóra, segir, að fjölmiðlamenn, sem hann hefur nýlega hitt úr öllum heimshornum, séu eftir stríðið reiðari en nokkru sinni fyrr. Hann telur, að þjóðir hafi fílsminni og að heimurinn muni aldrei fyrirgefa Bush og Blair þetta stríð.

Samfylking og stýrimennskan

Punktar

Mörgum hlýtur að vera óbærileg tilhugsun, að hinn geðstirði forsætisráðherra og fulltrúi sérhagsmuna verði samtals við völd í sextán ár. Eina leiðin til að hindra það er, að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar taki við af honum eftir kosningar. Að vísu er lítið hald í Samfylkingunni í málum auðlinda hafs og hálendis, en með réttum samstarfsflokkum í ríkisstjórn ætti jákvæð þróun þeirra mála að vera trygg næstu fjögur árin.

Vinstri grænir og víðernin

Punktar

Loðinn úrskurður ráðherra um stífluhæð við Þjórsárver og hinn eindregni brotavilji í túlkun Landsvirkjunar á úrskurðinum minna á, að engin þjóðarsátt er um niðurstöðu ráðherrans. Aðeins Samfylkingin lét blekkjast til fylgis við stjórnarflokkana í máli Þjórsárveralóns eins og hún gerði í máli Kárahnjúkavirkjunar. Hliðarverkun af brotavilja Landsvirkjun er aukið fylgi vinstri grænna sem eina pólitíska varnarafls ósnortinna víðerna landsins.

Frjálslyndir og fyrningin

Punktar

Moggi er kominn á fulla ferð að flytja þann boðskap Sjálfstæðisflokksins, að fyrning veiðiheimilda muni verða ein af hinum stóru plágum Íslandssögunnar. Margir munu láta ginnast af röksemdum talsmanna forréttindahópanna í Mogga. En hliðarverkun þessarar áherzlu á varnir kvótakerfisins er aukið sviðsljós og aukið fylgi Frjálslynda flokksins, sem hefur þjóðareign auðlindarinnar að meginmálefni.

Evrópa er mótvægi

Punktar

William Pfaff segir í International Herald Tribune, að ýmis ríki á meginlandi Evrópu muni ekki sætta sig við hlutverk hundsins í samskiptum við Bandaríkin, þótt Bretland hafi gert það. Bandaríkin séu kófdrukkin af ímyndunum um almætti sitt og heimti skilyrðislausa hlýðni bandamanna sinna. Gamla Evrópa sé hins vegar of gamalgróin og of öflug menningarlega og efnahagslega til að láta valta yfir sig. Evrópusambandið muni fyrr eða síðar neyðast til að taka að sér hlutverk borgaralegs mótvægis við of þröngt hernaðarlega sinnuð Bandaríki og taka að sér að verja stefnu jafnvægis í alþjóðlegum samskiptum.

Dýrkeypt einstefna

Punktar

Daniel Altman telur í New York Times, að Bandaríkin hafi ekki ráð á heimsveldisdraumum George W. Bush forseta. Stærsti skuldunautur heimsins geti ekki leikið einleik í alþjóðamálum. Aukin spenna milli Bandaríkjanna og ýmissa fyrri bandamanna þeirra dragi úr trausti alþjóðlegra fjárfesta á Bandaríkjunum og spilli fyrir samkomulagi í viðskiptadeilum. Stóraukinn halli á fjárlögum ríkisins magni enn vantrú alþjóðlegra fjárfesta. Útlendingar séu ekki hrifnir af að fjármagna stríð við Írak og stórfelldan niðurskurð skatta. Og bandarískar vörur og bandarísk þjónusta muni sæta vaxandi óvinsældum á alþjóðlegum markaði.

Töpuðu á stríðinu

Punktar

Martin Woollacott telur í Guardian, að Bandaríkjastjórn hafi tapað á stríðinu gegn Írak. Fyrirstaða hafi aukizt um allan heim, allt frá Vestur-Evrópu og Rússlandi til Norður-Kóreu og ríkja Íslams. Með tilraunum til handafls gegn fyrri bandamönnum sínum á meginlandi Evrópu hafi Bandaríkin misst stjórn á þeim og muni ekki geta fengið þá til að taka þátt í stríðskostnaði. Það komi sér verr fyrir Bandaríkin en aðra, að Atlantshafsbandalagið sé lamað og muni ekki taka þátt í friðargæzlu í Írak. Bandaríkjastjórn sé veikari á alþjóðavettvangi en hún haldi og sé fær um að veikja sjálfa sig enn frekar í skjóli ranghugmynda sinna um áhrifamátt sinn í heiminum.

Heimamenn hafna heimsveldi

Punktar

Ný og margslungin skoðanakönnun sýnir, að mikill meirihluti Bandaríkjamanna er sama sinnis og mikill meirihluti Evrópumanna í utanríkismálum. Meirihlutinn hafnar einleik Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi, hernaðarstefnu í utanríkismálum og telur Sameinuðu þjóðirnar vera bezta vettvanginn til að leysa alþjóðleg vandamál. Til dæmis vilja 76 gegn 12 af hundraði Bandaríkjamanna samstarf við önnur ríki um lausn alþjóðlegra vandamála. Þeim, sem eru fylgjandi einhliða aðgerðum Bandaríkjanna hefur raunar fækkað úr 17 af hundraði í 12 af hundraði. Þetta er mjög athyglisvert í ljósi stríðsins gegn Írak og linnulausra árása bandarískra stjórnvalda og fjölmiðla á Sameinuðu þjóðirnar og á ráðamenn Frakklands og Þýzkalands, sem hafa fylgt eindregnu almenningsáliti á Vesturlöndum. Frá þessu segir Jim Lobe hjá Inter Press Service.

Bush vill enga umræðu

Punktar

Colum Lynch segir í Washington Post, að George W. Bush Bandaríkjaforseti leggi vaxandi þunga á tilraunir til að kúga Sameinuðu þjóðirnar til að ræða ekki ýmis mál, sem geti leitt til umræðu um stöðu mála í Afganistan og Írak. Tilraunirnar fela meðal annars í sér persónulegar árásir á Kofi Annan, framkvæmdastjóra samtakanna, og Jan Kavan, forseta allsherjarþingsins. Bush vill til dæmis ekki, að rætt verði um mannréttindabrot í Afganistan síðasta aldarfjórðunginn, því að þá muni koma í ljós, að bandaríska hernámsliðið í Afganistan styðjist við þarlenda herstjóra, sem séu sekir um gróf mannréttindabrot. Talið er, að Bush muni takast að kúga Sameinuðu þjóðirnar til hlýðni að þessu leyti.