Punktar

Ekkert líf án gemsans

Punktar

Brezk rannsókn, sem staðið hefur í þrjú ár, leiddi í ljós, að gemsar eru orðnir svo ómissandi þáttur í lífi margra, að þeir fara á taugum, ef þeir týna gemsanum. 46% manna telja sig ekki geta lifað án gemsans. Í rannsókninni er fólki skipt í þrjá flokka. Einn skipa þau, sem eru í tilfinningasambandi við gemsann og líta á hann sem hluta af eigin sjálfi. Annan skipa þau, sem enn muna, hvernig lífið gekk fyrir sig fyrir daga gemsans og líta á hann sem framlengingu á eigin sjálfi, fremur en sem hluta af því. Þriðja hópinn skipa þau, sem líta á gemsann sem nytsamleg tæki. Þessi síðasti hópur sendir ekki skilaboð með símanum. Frá þessu segir í fréttum BBC.

Kjaradómur á kjördag

Punktar

Kjaradómur er gott dæmi um bananalýðveldi. Á sjálfan kjördaginn hækkaði hann laun stórhvela ríkisins langt umfram aðra og heldur niðurstöðunni leyndri fram yfir lokun kjörstaða. Vafalaust hefur dómurinn talið, að kjósendur væru ekki hæfir til að frétta af niðurstöðunni áður en þeir greiddu atkvæði. Það er sennilega rétt mat, en það er ekki hlutverk dómsins að framkvæma slíkt mat á hæfni kjósenda. Vinnubrögð Kjaradóms gefa skýra mynd af hugarfari þeirra, sem hann skipa, og þeirra, sem völdu þessa menn umfram aðra til að skipa dóminn.

Dónalegir vísindamenn

Punktar

Bandarískir eyðnisérfræðingar eiga erfitt með að tjá sig um fræði sín, af því að bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið, að þeir megi ekki nota dónaleg orð á borð við “homosexual” í skýrslum eða tölvupósti. Menn fá ekki vísindastyrki, ef þeir passa ekki orðalagið. Vísindamenn Heilsustofnunar ríkisins nota því dulmál til að stuða ekki ráðamenn. Einn þeirra orðaði það svo, að fræðimenn þurfi að ímynda sér, að þeir búi í Sovétríkjum Stalíns, þegar þeir eiga í samskiptum við stjórnvöld. Frá þessu segir Nicholas D. Kristof í New York Times.

Ódýru flugfargjöldin

Punktar

Lággjaldaflugfélögum vegnar vel beggja vegna Atlantshafsins. JetBlue hefur pantað 100 Airbus vélar í bandarísku innanlandsflugi og Ryanair og EasyJet hafa pantað 120 Airbus vélar í Evrópuflugi. Angi þessarar þróunar kom tímabundið til Íslands með Go, sem nú er hluti af Ryanair. Þráðurinn hefur verið tekinn upp í ferðum Iceland Express, sem tengist ódýru flugi annarra flugfélaga frá Stansted. Um daginn kostaði far frá Íslandi um Stansted til Bruxelles minna en 20.000 krónur fram og til baka. Roger Collis skrifar í International Herald Tribune um gott gengi ódýru flugfélaganna.

Sérmál draga skammt

Punktar

Vinsælasta sérsvið pólitískra skoðana er stuðningur við endurheimt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, sem mælist í 7,5% fylgi Frjálslynda flokksins. Næstvinsælasta sérsviðið er stuðningur við ósnortin víðerni landsins, sem mælist í 9% fylgi vinstri grænna, sem væri kannski 6%, ef flokkurinn væri bara grænn. Önnur sérsvið mælast varla. Stuðningur við spillingarfrí stjórnmál er innan við 2%, eins og hann mælist í fylgi Nýs afls. Stuðningur við aðild að Evrópu mælist ekki, því að enginn flokkur fæst til að mæla bót því þjóðþrifaverki. Slíkur flokkur fengi 1% fylgi, ef hann væri til. Afgerandi stefnur, sem eru þess virði að styðja þær, eru ekki fylgisvænar í stjórnmálum Íslands. Fylgisvænni eru loðmulla og miðjumoð. Mest er upp úr stefnuleysi að hafa, samfara “sterku” leiðtogaefni. Þá starta menn í 30% fylgi og framtíðin blasir við flokknum.

Sjónvarpsfréttir kannaðar

Punktar

Russell Smith skrifar í The New York Review of Books og kallar stríðsfréttir bandarískra sjónvarpsstöðva “viðbjóðslega” þjóðernissinnaðar. Bandarískir sjónvarpsfréttamenn hafi látið stjórnvöld hafa sig að fífli. Michael Massing segir í sama blaði, að þeir hafi verið hraðritarar hjá hernum, ekki fréttamenn. Michael Hirsh hjá Newsweek segir í fyrirlestri í Yale, að bandarískar sjónvarpsfréttir af stríðinu við Írak hafi verið “viðurstyggilegar”. Af samanburði á fréttaflutningi bandarískra sjónvarpsstöðva annars vegar og kanadískra og brezkra hins vegar mætti halda, að um tvö gerólík stríð hafi verið að ræða. Danny Schechter skrifar í Japan Today um þessa gagnrýni og ýmsa aðra. Hann telur, að hún verði á endanum talin vera réttmæt og blaðamannastéttin muni þá blygðast sín fyrir bandaríska sjónvarpsfréttamenn.

Gáfust upp á leitinni

Punktar

Bandaríkjamenn virðast hafa gefizt upp á að leita að gereyðingarvopnum í Írak. Nokkrir fjölmiðlar á Vesturlöndum, fyrst Washington Post og síðan Observer og BBC hafa þetta eftir viðtölum við vopnaleitarmenn, sem eru að búa sig undir brottför frá Írak. Svo virðist líka, að Bandaríkjastjórn hafi heykst á að planta slíkum vopnum til að sanna þá fyrstu, aðra og þriðju forsendu ófriðarins, að Írak ætti gereyðingarvopn, sem væru hættuleg Bandaríkjunum. Talið er, að Bandaríkjastjórn hafi metið stöðuna svo, að menn mundu ekki trúa gögnum um fund gereyðingarvopna. Þessi niðurstaða mun auka vantraust manna á Bandaríkjunum, því að ekki hafa heldur fundizt heimildir um hina forsendu stríðsins, samstarf Saddam Hussein og Al Kaída. Manndráp þúsunda og stórfelld eyðilegging af völdum bandarískra og brezkra herja var því af röngu tilefni.

Stríð er pólitísk nauðsyn

Punktar

Francis X. Clines segir í New York Times, að Karl Rove, hinn ítursnjalli og siðlausi kosningastjóri Bandaríkjaforseta, hafi ákveðið, að það verði ekki innanlandsmálin, sem fleyti George W. Bush inn í annað kjörtímabil í kosningunum árið 2004. Það verði stríðið við hryðjuverkin. Samkvæmt þessu er ástandið orðið þannig, að Bandaríkin þurfa sífellt að fara í stríð fyrir kosningar, svo að flokkur forsetans vinni þær. Sigurmyndin af forsetanum í hermannajakka um borð í flugmóðurskipinu Abraham Lincoln eftir stríðið við Írak vakti mikla lukku hjá stríðsglaðri þjóð, sem hefur gleymt, að George W. Bush vék sér undan herþjónustu í Vietnamstríðinu.

Sigurtap og tapsigur

Punktar

Ekkert gerðist í alþingiskosningunum í gær.Allt verður eins og áður var. Flestir bjöllusauðir skiluðu sér heim á stekk. Niðurstöður kosninganna voru í fyrsta lagi, að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði, en ríkisstjórn hans hélt velli, og í öðru lagi að Samfylkingin vann, en náði ekki að velta ríkisstjórninni. Flestir fengu eitthvað út úr kosningunum, en ekki það, sem þeir vildu helzt. Stjórnarflokkarnir halda áfram samstarfinu og munu stjórna með svipuðum hætti og verið hefur. Kjósendur fá þá ríkisstjórn, sem þeir eiga skilið.

Evran á uppleið

Punktar

Slæm fjármálastjórn repúblikana í Bandaríkjunum, mikill halli á ríkisbúskapnum í stað afgangsins, sem var hjá demókrötum, svo og ráðagerðir ríkisstjórnarinnar um stórfelldar skattalækkanir hafa veikt dollarann. Fjárfestar hafa áhyggjur af ástandinu og vilja heldur kaupa evrópska pappíra vegna meiri stöðugleika ríkja Evrópusambandsins og traustari ríkisfjármála á þeim slóðum. 48% skulabréfaútboða í heiminum eru nú í evrum. Verðgildi evrunnar er nú orðið svo hátt, að framleiðendur á hennar svæði hafa áhyggjur af versnandi samkeppnisaðstöðu. En almennt séð styrkir þetta stöðu Evrópu á viðsjárverðum tíma í heimsmálunum.

Berserksgangur Ísraels

Punktar

Ofbeldissveitir ísraelskra hersins hafa nú myrt 3.000 Palestínumenn á öllum aldri, jafnað 10.000 hús Palestínumanna við jörðu, rifið upp 500.000 olífutré Palestínumanna til að svelta þá til hlýðni og tekið 80% af öllu vatni Palestínu til þarfa Ísraels. Frá þessu segir César Chelala í International Herald Tribune. Þetta hryllingsríki nýtur eindregins stuðnings Bandaríkjastjórnar og ýmissa illa innrættra ofsatrúarsafnaða á borð við þá, sem standa að sjónvarpsstöðinni Omega.

Fyrirtæki varaforsetans

Punktar

Fyrirtækið, sem Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, stýrði til skamms tíma, Hallburton, hefur þegar unnið án útboðs fyrir 76,7 milljón dollara í Írak og er nú farið að sjá um rekstur olíulinda og dreifingu olíu. Bandaríski þingmaðurinn Henry Waxman hefur dregið þessar upplýsingar með töngum upp úr lítt samvinnuþýðum stjórnvöldum Bandaríkjanna. Larry Margasak segir frá þessu í International Herald Tribune.

Fréttaþulir til leigu

Punktar

Walter Cronkite, Morley Safer, Aaron Brown og aðrir þekktir sjónvarpsfréttaþulir eru núna óspart notaðir til að hampa ýmsum töfralyfjum í bandarískum auglýsingaþáttum, sem settir eru upp eins og fréttir, svo að áhorfendur ímyndi sér, að um heiðarlegar fréttir sé að ræða. Melody Petersen segir frá þessu í New York Times.

Ósýnileg eiturfjöll

Punktar

Fyrir Íraksstríð héldu George W. Bush Bandaríkjaforseti og hirð hans því fram, að Saddam Hussein hefði yfir að ráða 500 tonnum af sinnepsgasi og taugagasi, 25.000 lítrum af miltisbrandi, 38.000 lítrum af bótúlín, 29.984 bönnuðum efnavopnum, nokkrum tugum Scud-eldflauga, 18 færanlegum efnavopnaverksmiðjum, langdrægum flaugum til að dreifa miltisbrandi og ýmsu fleira góðgæti til manndrápa. Ekkert af þessu var notað í stríðinu og ekkert af því hefur fundizt eftir stríð, þótt sumt af þessu hljóti að vera afar fyrirferðarmikið. Ennfremur flögguðu forsetinn og Colin Powell utanríkisráðherra klaufalega falsaðri leyniskýrslu um, að Írak hafi reynt að kaupa úraníum frá Níger. Yfirlýst markmið stríðsins við Írak var að koma böndum á allt þetta eitur, svo að það yrði ekki notað gegn Bandaríkjunum. Frá þessu segir Nicholas D. Kristof í New York Times.

Fiskar finna til

Punktar

Á vegum Konunglega brezka vísindafélagsins hefur komið út skýrsla um niðurstöðu rannsóknar á tilfinningum fiska. Þar kemur fram, að fiskar finni til sársauka af önglum í holdi þeirra. Þetta hefur valdið miklu hugarangri brezkra sportveiðimanna, sem telja, að andstæðingar brezkra refaveiða, sem hafa verið róttækir í aðgerðum sínum, muni nú snúa sér gegn sportveiðimönnum og jafnvel fiskimönnum. Frá þessu segir Alan Cowell í New York Times.