Punktar

Financial Times áttar sig

Punktar

Paul Krugman, einn aðaldálkahöfundanna hjá New York Times, hefur tekið eftir forustugrein í hinu mjög svo íhaldssama Financial Times, sem ég hef misst af. Í grein FT segir, að “geðsjúklingarnir stjórna hælinu”, þegar skattalækkunarstefnu George W. Bush er lýst. FT hefur aldrei áður notað orðið “geðsjúklingar” til að lýsa ráðamönnum ríkis, hvað þá Bandaríkjanna. Krugman segir FT hafa sagt, að ríkisstjórn Bandaríkjanna sé “ekki nóg að rústa skipan alþjóðamála”, heldur hyggist hún líka “rústa tekjuskiptingarkerfi Bandaríkjanna”. Krugman leggur áherzlu á, að stjórn Bandaríkjanna sé ekki skipuð íhaldsmönnum, heldur róttæklingum, sem séu af ásettu ráði að setja allt á annan endann í efnahags- og fjármálum Bandaríkjanna til að afnema velferðarkerfið. Hann telur, að lánardrottnar Bandaríkjanna muni fyrr en síðar hætta afneitun sinni og átta sig á, að efnahagskerfi landsins sé á hraðferð til fjandans.

Kjúklingurinn drýgður

Punktar

Evrópskur matvælaiðnaður drýgir kjúklingakjöt með afgöngum úr nautakjöti og svínakjöti, svo og kjúklingaskinni, en einkum þó með vatni, segir Felicity Lawrence í Guardian. Evrópusambandið ráðgerir að krefjast merkinga um þetta á umbúðum matvæla, en margir munu ekki sjá merkingarnar, af því að þeir borða í mötuneytum og veitingahúsum eða kaupa heitan mat í bökkum. Matvælaeftirlit í Bretlandi og á meginlandi Evrópu er í gíslingu hjá verksmiðjuiðnaði matvæla að mati Lawrence. Ráðleggur hann lesendum að borða ekki kjúkling.

Misgóð heilbrigðiskerfi

Punktar

Franska heilbrigðiskerfið ber af öðrum að mati Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Í grein í Observer ber Jo Revill það saman við brezka kerfið. Franska kerfið kostar 9,9% af landsframleiðslu, en brezka kerfið 7,7% og það bandaríska 14%. Sjúkrarúm eru helmingi fleiri í Frakklandi en í Bretlandi. Biðlistar eru engir í Frakklandi, en langir í Bretlandi. Allir fá læknisþjónustu í Frakklandi, en í Bandaríkjunum bara þeir, sem geta borgað eða eru sérstaklega tryggðir. Revill segir, að frönsk sjúkrahús séu glæsileg og vel búin. Hann er alveg gáttaður á, að meira að segja maturinn þar sé góður.

Kóngafiðrildið stýrir vel

Punktar

Ég hefði ekki komizt heila 15 kílómetra í fyrradag, ef hestur hefði ekki verið svo vinsamlegur að bera mig. Þess vegna er mér gersamlega óskiljanlegt, að appelsínugula og svarta kóngafiðrildið í Norður-Ameríku skuli geta flogið 3200 kílómetra milli Mexikó og Kanada á um það bil hálfum þriðja mánuði. Það þykir vísindamönnum ekkert merkilegt. Þeim finnst hins vegar merkilegt, að fiðrildið notar innri klukku og sólina til að rata alla þessa vegalengd. Þessi þekking er í genum fiðrildisins, því að hvert fiðrildi flýgur leiðina aðeins einu sinni. Til að lenda á sama stað í Mexikó flýgur fiðrildi í Georgíu 270 gráður vestur, en fiðrildi í Texas flýgur 220 gráður suðvestur. Í >Washington Post og víðar er sagt frá grein í tímaritinu Science um þetta efni.

Leiktjöld í Pétursborg

Punktar

Erlendum mikilmennum hefur verið boðið að taka þátt í hátíð í tilefni af 300 ára afmæli Sankti Pétursborgar í Rússlandi í næstu viku. Til þess að þeir sjái ekki eymd borgarbúa hefur verið reistur tveggja metra hár veggur og tæplega tíu kílómetra langur, frá flugvellinum til borgarinnar. Svoleiðis veggir voru einu sinni kallaðir Pótemkin-tjöld. Byggingar, sem eru að hruni komnar, eru klæddar veggspjöldum. Kveikt var í garði Ekaterinu Mikailovu, svo að mikilmennin þurfi ekki að sjá tómata hennar og geitur úr gluggum Konstantinovsky-hallar. Allt er þetta gert til að sýnast fyrir umheiminum. Nick Paton Walsh segir frá þessu í Guardian.

Dollarinn rýrður markvisst

Punktar

William Keegan skrifar í Observer um gengisfall dollarans og áhrif þess á evruna, sem hefur hækkað óðfluga undanfarnar vikur. Bandaríkjastjórn er farin að þrýsta dollarnum niður til að efla útflutning og koma auknu lífi í atvinnulífið fyrir næstu forsetakosningar. Keegan kallar þetta yfirlýsingu um stríð gegn evrunni og telur, að evrópski seðlabankinn muni neyðast til að slaka á andstöðunni við hugsanlega verðbólgu til að hindra frekari gengishækkun evrunnar. Vandamál Evrópu séu stöðnun og verðhjöðnun, en ekki spenna og verðbólga. Ef tveir helztu gjaldmiðlar heimsins falla í verði, má búast við að íslenzka krónan hækki óþægilega mikið og valdi erfiðleikum í útflutningi íslenzkra afurða.

Nató er sagt vera málþing

Punktar

Atlantshafsbandalagið er tímaskekkja að sögn Robert A. Levine í International Herald Tribune. Eftir lát Sovétríkjanna sé öryggi Evrópu ekki lengur ógnað og bandalagið eigi erfitt með að finna sér nýtt hlutverk. Það hafi verið síðbúið til aðgerða á Balkanskaga á síðasta áratugi síðustu aldar. Það sé illa í stakk búið til að fást við hryðjuverk, vandamál nýrrar aldar. Bandalagið hafi ekki lengur neitt hernaðarlegt gildi. Framvegis verði það skriffinnskustofnun og málþing.

Evrópa fylgir Frakklandi

Punktar

Margir valdamenn í Evrópu munu leggja hart að sér að halda góðu sambandi við Bandaríkin og sumir munu bugta sig mikið í því skyni. Undir niðri mun niðurlægingin svíða, enda er almenningsálitið í allri Evrópu andvígt því, að landsfeður beygi sig í duftið fyrir ruddalegum ráðamönnum Bandaríkjanna. Þótt valdamenn láti ekki á þessu bera, eru þeir óðum að átta sig á, að Gaullismi Frakklands var rétt stefna á sínum tíma og að Evrópa nútímans þarf sinn Gaullisma. Þetta er spurning um þjóðavitund og fullveldi og um stöðu evrópskrar menningar og þjóðskipulags. Þjóðverjar og Belgar eru farnir að hlusta á Frakka, sem hafa langa reynslu af að standa uppi í hárinu á Bandaríkjunum. Evrópa þarf sjálfstæða tilveru gagnvart einþykkum Bandaríkjunum og mun smám saman öðlast hana. Þessu spáir William Pfaff í International Herald Tribune.

Frestuð ráðherraskipti

Punktar

Mannaskipti í ríkisstjórninni sýna viðleitni, einkum Sjálfstæðisflokksins, til að mæta þreytu kjósenda og fylgistapi flokkanna. Valin var óvenjuleg leið með skilgreindu ferli hálft annað ár fram í tímann og jafnvel lengur. Vafalaust er leiðin valin til að milda áhrif hennar á einstaka málsaðila. Það þýðir, að þegar kemur að einstökum breytingum, eru þær viðbrögð við löngu liðnum atburðum, en ekki við verkefnum og atburðum líðandi stundar. Fyrir bragðið sitja sumir eins og lamaðar endur í embættum sínum og aðrir sitja í festum til jafnlengdar. Þetta auðveldar þrýstihópum að hafa áhrif á ráðuneytin og gerir ráðuneytunum erfiðara fyrir um varnir gegn þrýstihópum. Enda eru þess fá dæmi í nálægum löndum, að ráðherraskipti fari fram á þennan frestaða, langvinna hátt.

Vinirnir þekkjast úr

Punktar

Evrópskar stuðningsstjórnir hernaðarins gegn Írak eru auðþekktar. Samkvæmt ársskýrslu Alþjóða blaðastofnunarinnar er ástand prentfrelsis sérstaklega viðkvæmt í Póllandi og Ítalíu. Í Póllandi ofsækir ríkisstjórnin óháða fjölmiðla og reynir að koma í veg fyrir, að hún sæti gagnrýni á opinberum vettvangi. Á Ítalíu eru starfsmenn ríkisfjölmiðla reknir, ef þeir skríða ekki fyrir Berlusconi forsætisráðherra. Hann á sjálfur þar fyrir utan mikinn hluta ítalskrar fjölmiðlunar og beitir henni óspart gegn andstæðingum sínum. Hvorki Póllandi né Ítalía geta talist eðlileg lýðræðisríki, af því að almenningur hefur lítinn aðgang að óhlutdrægum upplýsingum um gang mála. Það er engin tilviljun, að þessar ríkisstjórnir eru einna helztar málpípur Bandaríkjastjórnar í Evrópu.

Hættulegastur vinnustaður

Punktar

Í ársskýrslu Alþjóða blaðastofnunarinnar fyrir árið 2002 kemur fram, að Palestína var hættulegasti vinnustaður blaðamanna í heiminum í fyrra. Fjórir blaðamenn voru drepnir af hermönnum Ísraels, sem beinlínis gera sér leik að því að skjóta á blaðamenn eins og á starfsmenn alþjóðlegra hjálparstofnana. Margir blaðamenn voru limlestir af hermönnum Ísraels, sem ganga berserksgang á hernumdu svæðunum án þess að þurfa nokkru sinni að svara til saka. Heilar kynslóðir brenglaðra manna hafa verið aldir uppi af Ísraelsher í linnulausum ofsóknum Ísraels á hendur Palestínumönnum. Ástandið hefur einkum verið slæmt síðan fjöldamorðinginn Ariel Sharon varð forsætisráðherra Ísraels og hefur í skjóli Bandaríkjastjórnar fengið færi á að brjóta öll ákvæði Genfarsáttmála um meðferð fólks á hernumdum svæðum.

Blaðakóngar ráða ferð

Punktar

Polly Toynbee telur í Guardian, að þrír róttækt hægri sinnaðir blaðakóngar, sem eiga 75% af brezkri pressu, Murdoch, Rothermere og Black, stjórni stuðningi Bretlands við hernað Bandaríkjanna í þriðja heiminum og tregðu Bretlands við að taka upp evruna sem gjaldmiðil. Hún segir, að þeir séu að reyna að draga Bretland úr Evrópusambandinu og Tony Blair forsætisráðherra þori ekki að hunza vilja þeirra. Hann var mikill Evrópusinni, þegar hann komst til valda, en hefur smám saman færzt yfir á hinn kantinn að undirlagi blaðakónganna.

Sundruðu þjóðirnar

Punktar

Að mati Jonathan Steele í Guardian er staða Sameinuðu þjóðanna ekki eins veik og ætla mætti af opinberlega yfirlýstri fyrirlitningu Bandaríkjastjórnar á hinum sundruðu samtökum. Á móti tapi Sameinuðu þjóðanna fyrir Bandaríkjunum í Íraksmálinu kom í ljós töluverð seigla í andstöðu meirihluta öryggisráðsins. Þau 96% jarðarbúa, sem ekki eru Bandaríkjamenn, geta huggað sig við þau áhrif Sameinuðu þjóðanna, að fimm þróunarríki, sem Bandaríkin reyndu að múta og kúga til stuðnings við innrásina, létu ekki undan þrýstingi. Bandaríkin náðu því ekki meirihluta í ráðinu og fengu engan gæðastimpil á innrásina. Þessi seigla gæti haft víðtæk langtímaáhrif í alþjóðamálum.

Afganistan vont fordæmi

Punktar

John Sifton og Sam Zia Zarifi skrifa í International Herald Tribune um tæplega tveggja ára hernám Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Afganistan. Human Rights Watch hefur nýlega komizt að raun um, að öryggi borgaranna fer minnkandi. Illræmdir herstjórar vaða uppi, fjármagnaðir og vopnaðir af Bandaríkjunum. Stuðningur almennings fer vaxandi við neðanjarðarhreyfingu Talibana. Lögregla, her og leynilögregla, sem hernámsliðið kom á fót, taka þátt í glæpum af ýmsu tagi. Víða er ástandið verra en á valdadögum Talibana. Vestræn áhrif eru eingöngu í höfuðborginni Kabúl og jafnvel þar eru herstjórar áhrifamiklir. Reynslan af hernámi Bandaríkjanna í Afganistan boðar ekki neitt gott um hernám Íraks.

Prófessorar gelta í túni

Punktar

Nánasta hirð forsætisráðherra Íslands elskar hefnd og refsingu. Hún leitast við að sá ótta í hjörtu þeirra, sem taldir eru hafa stundað drottinsvik. Hirð Davíð hefur miklu lengri reynslu af þessu en hirð Bush Bandaríkjaforseta. Hin síðarnefnda rekur á alþjóðavettvangi svipaða stefnu hefnda, refsinga og ógnana og hin fyrrnefnda rekur innanlands. Einna fremstir í fylkingu hér á landi fara tveir prófessorar, annar eins konar alvöruprófessor og hinn bréfaskólaprófessor í “instant” lögfræði. Þeir eru sendir út á tún að gelta, þegar hallað er á húsbóndann. Nú hefur alvöruprófessorinn verið opinberlega sakaður um ógnanir í garð starfsbróður í vitna viðurvist.