William Keegan skrifar í Observer um gengisfall dollarans og áhrif þess á evruna, sem hefur hækkað óðfluga undanfarnar vikur. Bandaríkjastjórn er farin að þrýsta dollarnum niður til að efla útflutning og koma auknu lífi í atvinnulífið fyrir næstu forsetakosningar. Keegan kallar þetta yfirlýsingu um stríð gegn evrunni og telur, að evrópski seðlabankinn muni neyðast til að slaka á andstöðunni við hugsanlega verðbólgu til að hindra frekari gengishækkun evrunnar. Vandamál Evrópu séu stöðnun og verðhjöðnun, en ekki spenna og verðbólga. Ef tveir helztu gjaldmiðlar heimsins falla í verði, má búast við að íslenzka krónan hækki óþægilega mikið og valdi erfiðleikum í útflutningi íslenzkra afurða.