Punktar

Kisur í blaðamennsku

Punktar

Gary Younge segir í Guardian, að nú sé talið siðlaust í Bandaríkjunum að efast um utanríkisstefnu George W. Bush forseta. Bandaríkjamenn telji sig vera í heilögu stríði gegn hryðjuverkum og eru svo þjóðernissinnaðir, að þeir vilja ekki hlusta á neinar efasemdir. Younge segir, að lítil vitræn umræða sé í Bandaríkjunum um Íraksstríðið, en meira um upphrópanir og stríðsæsingar. Bandarískri fjölmiðlun sé stjórnað af nokkrum samsteypum, sem fylgja stjórnarstefnunni eindregið. Bandarískir blaðamenn séu flestir marklausar kisur. Bíða verði eftir ljónum sagnfræðinnar til að geta lesið sannleikann um utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Raunar er athyglisvert, að uppljóstranir um fölsun gagna um gereyðingarvopn Íraks hafa ekki vakið neina athygli í Bandaríkjunum, ekki einu sinni í New York Times.

Klapp á bak – tog í háls

Punktar

Bandarískir fjölmiðlar eru í dag uppteknir af smáatriðum í kveðjum, sem George W. Bush kastar á erlenda ráðamenn á G8 fundi auðríkjanna í Evian í Frakklandi. Um þetta má sjá dæmi í New York Times og Washington Post. Lagt er út mismunandi handabandi, þar Blair fékk skólaklúbbskveðju, Koizumi klapp á bakið og Berlusconi tog í hálsinn, en óvinirnir (“Þeir sem eru ekki með mér eru á móti mér”) Chirac, Chrétien og Pútín fengu bara mismunandi hlýtt handtak, Pútín hlýjast. Beðið var í ofvæni eftir, hvernig kveðju Schröder fær, þegar hann kemur. Kannski fær hann ekki einu sinni hlýtt handtak. Svo ætlar Bush að flýja, áður en kemur að vinnufundum landsfeðranna og þá ætlar Chirac að skilja eftir auðan stól fyrir hann. Allt flokkast þetta undir diplómatíu að hætti Séð og heyrt.

Búgarðshæfir ráðamenn

Punktar

David E. Sanger segir í New York Times, að núverandi Bandaríkjaforseti flokki erlenda ráðamenn í þá, sem hægt sé að bjóða á Crawford búgarðinn í Texas og þá sem ekki megi bjóða. Jacques Chirac og Gerhard Schröder verður alls ekki boðið, en hins vegar sé og verði boðið Junichiro Koizumi, Gloria Macapagal Arroyo, John Howard, Tony Blair og José María Aznar, sem studdu árásina á Írak. Ósvarað er spurningunni um, hvort ráðamenn vilji stríða gegn vilja þjóða sinna fyrir að fá að koma á þennan merka búgarð. Guardian segir, að rauðvínið sé vont í Texas og grillsósurnar óhollar.

Útlönd skipta engu

Punktar

Ráðamenn Bandaríkjanna hafa ákveðið, að almenningsálitið í heiminum skipti ekki máli, ekki einu sinni almenningsálitið í fyrrverandi bandalagslöndum í Evrópu. Þeir reyna ekki að klæða ofbeldishneigð sína í dulbúning, heldur koma opinskátt fram með hótanir og ógnanir í garð allra, sem ekki vilja bugta sig skilyrðislaust. Þetta hefur magnað svo andstöðu álitsgjafa og almennings um allan heim, að leitun er að blaðagreinum með stuðningi við Bandaríkin. Þeir, sem áður töldust Bandaríkjavinir, hafa annað hvort skipt um skoðun eða hafa hægt um sig. Gömul inneign Bandaríkjanna á góðviljareikningi sínum hefur gersamlega þurrkazt út.

Fjölmiðlar glata trausti

Punktar

Skrumskældar erlendar fréttir hefðbundinna fjölmiðla í Bretlandi og aðallega í Bandaríkjunum, einkum sjónvarps, hefur gengið svo fram af mörgum, að þeir eru farnir að nota leitarvélina Google til að afla sér upplýsinga og skoðana frá einstaklingum, sem fylgjast vel með gangi mála. Bloggið á vefnum fer fram hjá hliðvörzlu sterku aflanna í þjóðfélaginu, einkum auðfólksins, sem á fjölmiðlana, og ríkisvaldsins, sem vill, að fjölmiðlarnir séu hliðhollir valdinu. Ein afleiðinga allra lyganna í tengslum við Íraksstríðið er hrunið traust á hefðbundnum fjölmiðlum, sem voru notaðir á rammfölskum forsendum til að magna stríðsæsing Breta og Bandaríkjamanna. John Naughton segir þetta í Observer í morgun.

Ónefnanleg kristni

Punktar

Vatíkanið hefur ítrekað gagnrýnt, að kristinnar trúar skuli ekki vera getið í uppkasti Valery Giscard d’Estaing, formanns stjórnarskrárnefndar Evrópusambandsins, að fyrstu stjórnarskrá þess. BBC segir frá viðtali í Corriere della Sera í gær við d’Estaing, þar sem hann svarar þessari gagnrýni. Í uppkastinu minnist hann á sameiginleg andleg áhrif, um gríska-rómverska arfleifð og arfleifð endurreisnarinnar, en minnist ekki á kristni. D’Estaing segir, að ekki hafi verið hægt að nefna kristni án þess að móðga önnur trúarbrögð í Evrópu, en augljóst sé, að átt sé við kristni með orðunum “andleg áhrif”. Vatikanið hefur ekki bara kvartað, heldur ítrekað lýst yfir, að ekki megi taka Tyrkland í sambandið, þar sem það sé íslamskt ríki og raunar ekki í Evrópu. Ólíklegt er, að Vatikanið fái vilja sínum framgengt í þessum efnum, þar sem flest áhrifaríki Evrópusambandsins eru orðin veraldleg í sniðum og þjóðir þeirra ekki lengur kirkjuræknar.

Vandamálum verði breytt í verkefni

Punktar

Ýmsar skoðanir komu fram í síðasta tölublaði Eiðfaxa um, hversu mikið ofnæmi sé í hrossum okkar fyrir flugunni culicoides, sem veldur sumarexemi. Nefndar vöru tölur frá 20% upp í 80%. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma fór bil beggja og nefndi töluna 50%.

Auðvitað finnst mörgum uggvænlegt, að helmingur íslenzka hrossastofnsins muni verða útilokaður frá sölu til útlanda, ef tekið verði upp hér á landi næmispróf, sem þróað hefur verið í Hannover.

Þetta lítur þó ekki eins hrikalega út, ef haft er í huga, að 80.000 hross eru á Íslandi og aðeins 2.000 hross eru flutt út á hverju ári. Ef helmingur íslenzkra hrossa er lítt eða ekki veikur fyrir sumarexemi, er nóg til af heilbrigðum góðhrossum til að gefa af sér 2.000 hross í útflutning.

Gengi hrossa frá Íslandi mun hækka verulega, ef þau fá góða niðurstöðu úr næmisprófi. Slíkt mun efla útflutninginn. Nóg er til af heilbrigðum ræktunarhrossum til að gefa af sér til dæmis 4.000 útflutningshæf góðhross á hverju ári, þegar eftirspurnin eykst.

Auk þess má telja, að næmispróf mundu fljótlega leiða til tilfærslu í hrossaræktinni frá hrossum, sem eru veik fyrir exemi, yfir í hross, sem líklegri eru til að standast fluguna. Slíkt væri einmeitt eitt af ákjósanlegustu ræktunarmarkmiðum hrossaræktarinnar um þessar mundir, rétt eins og að byggja upp stofn, sem er lítt eða ekki næmur fyrir spatti.

Félagslegar ástæður valda því, að róttækar leiðir hafa ekki enn verið valdar og útflutningurinn hefur koðnað niður í sögulegt lágmark. Menn óttast, að breytingar komi misjafnt niður á ræktendum og fari illa með suma. Spurningin er þá sú, hvort hrossaræktin hafi efni á þessu hugarfari.

Með því að ganga rösklega til verks og losa íslenzka hrossastofninn að mestu við exem og spatt er kippt fótum undan áróðri gegn hrossum, sem eru fædd á Íslandi. Hvort tveggja er þá gert í senn, þjónað sjónarmiðum dýraverndar og þjónað veltu- og hagnaðarþörf íslenzkrar hrossaræktar í heild.

Til þess að slíkt sé unnt, þurfa hryssueigendur að vita, hvaða hryssur þeirra séu sennilega lítt næmar fyrir spatti og exemi og hvaða stóðhestar í boði séu sennilega lítt næmir fyrir hvoru tveggja.

Þekkingin er undirstaða framfara. Allir tapa, ef hrossabransinn sem heild stingur höfðinu í sandinn, þegar minnst er á spatt og exem. Vandamálinu á að breyta í verkefni sem fyrst. Það kostar sársauka í skamman tíma, en gefur arð til langs tíma.

Jónas Kristjánsson

Eiðfaxi 6.tbl. 2003

Microsoft herðir tökin

Punktar

Microsoft efldi einræði sitt á bandarískum hugbúnaðarmarkaði í fyrradag, þegar það samdi frið við AOL Time Warner, sem á Netscape, er lengi var helzti keppinautur Microsoft sem vafri á veraldarvefnum. Microsoft borgar AOL 750.000.000 dollara fyrir að hætta við lögsókn vegna einokunaraðgerða Microsoft. Þar að auki fær AOL að nota Microsoft hugbúnað gjaldfrítt í sjö ár. AOL verður nú hreint fjölmiðlafyrirtæki og hættir að þvælast fyrir Microsoft á sviði hugbúnaðar. Jafnframt hefur látið af störfum forstjóri AOL, Stephen Case, sem lengi hefur staðið uppi í hárinu á Bill Gates, forstjóra Microsoft, meðal annars með því að kaupa Netscape árið 1999. Steve Lohr og David D. Kirkpatrick segja frá þessu í New York Times.

Berlusconi nálgast einræði

Punktar

Ritstjóri Corriere della Sera, aðaldagblaðs Ítalíu, Ferruccio De Bortoli, var rekinn í gær fyrir að hafa árum saman farið í taugarnar á Silvio Berlusconi, sem er að verða einræðisherra á Ítalíu. Berlusconi á ýmist sjálfur ítalska fjölmiðla eða stjórnar þeim ríkisreknu, en hefur jafnframt sætt ákærum fyrir margs konar fjármálaspillingu og mútur. Eigendur Corriere della Sera hafa lengi verið beittir þrýstingi til að losna við Bortoli, sem hefur skrifað um þessi mál. Stærsti eigandinn er Agnelli fjölskyldan, sem sækist eftir ríkisaðstoð vegna taprekstrar á Fiat-bílaverksmiðjunum. Nýr ritstjóri blaðsins verður Stefano Folli, sem talinn er hliðhollari Berlusconi. Peter Popham segir frá þessu í Independent.

Hugleiðsla Dalai Lama

Punktar

Dalai Lama segir í New York Times, að hugleiðsla sé gott ráð á tímum reiði, ótta og haturs í heiminum. Þjóðarleiðtogar þurfi að beita hugleiðslu til að sjá leið úr myrkrinu til ljóssins. Hann bendir á, að hugleiðsla sé ódýr, menn þurfi engin fíkniefni, þurfi ekki að verða búddistar eða limir í sértrúarflokki. Hann vitnar í vestræna vísindamenn máli sínu til stuðnings.

Álfar út úr hól

Punktar

Maureen Dowd fjallar í New York Times um skoðanakannir, sem sýna, að traust Bandaríkjamanna á barnamorðingjum hersins hefur aukizt úr 58 í 75 af hundraði frá tímum stríðsins gegn Víetnam til stríðsins gegn Írak. Það minnir á aðrar skoðanakannanir, sem sýna, að meirihluti Bandaríkjamanna hefur látið telja sér trú um, að Írak hafi verið viðriðið árásina á World Trade Center og hafi því fengið makleg málagjöld. Með utangátta kjósendur af þessu tagi að baki sér er róttæk ofstækisstjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta til allra óhæfuverka vís á alþjóðlegum vettvangi.

Blair falsaði vopnaskýrslu

Punktar

Forsætisráðuneytið brezka lét falsa skýrslu brezku leyniþjónustunnar um meint gereyðingarvopn Íraks. Leyniþjónustumenn eru afar ósáttir við fullyrðingar, sem settar voru í skýrsluna að kröfu ráðuneytisins og hafa síðar reynzt vera rangar. Þar á meðal var fullyrðingin um, að Írak gæti beitt gereyðingarvopnum með þriggja kortéra fyrirvara. Á grundvelli fölsunar Tony Blair forsætisráðherra var brezka þinginu og brezkum almenningi talin trú um, að ógn stafaði af Saddam Hussein. Um þetta er fjallað í stórblöðum heimsins í morgun, þar á meðal Washington Post.

Magna óróa og óvissu

Punktar

Simon Tisdal segir í Guardian, að Bandaríkjastjórn sé komin á svipað stig hótana í garð Írans og hún var komin í garð Íraks fyrir innrásina í það land. Hún fullyrðir, að Íran hafi hættuleg gereyðingarvopn, eins og hún fullyrti um Írak áður. Hún virðist telja sig geta hafið stríð út og suður á grundvelli órökstuddra fullyrðinga, sem reynast síðan vera rangar. Dólgsleg ummæli ofstækisfullra ráðamanna Bandaríkjanna valda óróa og óvissu í miðausturlöndum. Tisdal telur þau ekki fallin til að fá ráðamenn þessara ríkja til að skríða í duftið.

Hita upp fyrir hatrið

Punktar

Laurie Goodstein segir í New York Times, að hatur og óbeit á íslam sé óspart prédikað í mörgum söfnuðum kristinnar kirkju í Bandaríkjunum. Þeir eru undir áhrifum þekktra sjónvarpsprédikara, Franklin Graham, Jerry Falwell, Pat Robertson og Jerry Vines, sem hituðu upp fyrir stríðið gegn Írak með hatursárásum á íslam og Múhameð spámann. Þeir gegndu svipuðu hlutverki og bandarískar sjónvarpsstöðvar, sem fengu Bandaríkjamenn til að trúa, að Írak stæði að baki árásarinnar á World Trade Center. Þegar búið er að kynda hatrið í hugum almennings, er auðveldara fyrir ríkisstjórn George W. Bush að breiða styrjöldina út til annarra landa íslams, fyrst til Írans.

Financial Times áttar sig

Punktar

Paul Krugman, einn aðaldálkahöfundanna hjá New York Times, hefur tekið eftir forustugrein í hinu mjög svo íhaldssama Financial Times, sem ég hef misst af. Í grein FT segir, að “geðsjúklingarnir stjórna hælinu”, þegar skattalækkunarstefnu George W. Bush er lýst. FT hefur aldrei áður notað orðið “geðsjúklingar” til að lýsa ráðamönnum ríkis, hvað þá Bandaríkjanna. Krugman segir FT hafa sagt, að ríkisstjórn Bandaríkjanna sé “ekki nóg að rústa skipan alþjóðamála”, heldur hyggist hún líka “rústa tekjuskiptingarkerfi Bandaríkjanna”. Krugman leggur áherzlu á, að stjórn Bandaríkjanna sé ekki skipuð íhaldsmönnum, heldur róttæklingum, sem séu af ásettu ráði að setja allt á annan endann í efnahags- og fjármálum Bandaríkjanna til að afnema velferðarkerfið. Hann telur, að lánardrottnar Bandaríkjanna muni fyrr en síðar hætta afneitun sinni og átta sig á, að efnahagskerfi landsins sé á hraðferð til fjandans.