Ýmsar skoðanir komu fram í síðasta tölublaði Eiðfaxa um, hversu mikið ofnæmi sé í hrossum okkar fyrir flugunni culicoides, sem veldur sumarexemi. Nefndar vöru tölur frá 20% upp í 80%. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma fór bil beggja og nefndi töluna 50%.
Auðvitað finnst mörgum uggvænlegt, að helmingur íslenzka hrossastofnsins muni verða útilokaður frá sölu til útlanda, ef tekið verði upp hér á landi næmispróf, sem þróað hefur verið í Hannover.
Þetta lítur þó ekki eins hrikalega út, ef haft er í huga, að 80.000 hross eru á Íslandi og aðeins 2.000 hross eru flutt út á hverju ári. Ef helmingur íslenzkra hrossa er lítt eða ekki veikur fyrir sumarexemi, er nóg til af heilbrigðum góðhrossum til að gefa af sér 2.000 hross í útflutning.
Gengi hrossa frá Íslandi mun hækka verulega, ef þau fá góða niðurstöðu úr næmisprófi. Slíkt mun efla útflutninginn. Nóg er til af heilbrigðum ræktunarhrossum til að gefa af sér til dæmis 4.000 útflutningshæf góðhross á hverju ári, þegar eftirspurnin eykst.
Auk þess má telja, að næmispróf mundu fljótlega leiða til tilfærslu í hrossaræktinni frá hrossum, sem eru veik fyrir exemi, yfir í hross, sem líklegri eru til að standast fluguna. Slíkt væri einmeitt eitt af ákjósanlegustu ræktunarmarkmiðum hrossaræktarinnar um þessar mundir, rétt eins og að byggja upp stofn, sem er lítt eða ekki næmur fyrir spatti.
Félagslegar ástæður valda því, að róttækar leiðir hafa ekki enn verið valdar og útflutningurinn hefur koðnað niður í sögulegt lágmark. Menn óttast, að breytingar komi misjafnt niður á ræktendum og fari illa með suma. Spurningin er þá sú, hvort hrossaræktin hafi efni á þessu hugarfari.
Með því að ganga rösklega til verks og losa íslenzka hrossastofninn að mestu við exem og spatt er kippt fótum undan áróðri gegn hrossum, sem eru fædd á Íslandi. Hvort tveggja er þá gert í senn, þjónað sjónarmiðum dýraverndar og þjónað veltu- og hagnaðarþörf íslenzkrar hrossaræktar í heild.
Til þess að slíkt sé unnt, þurfa hryssueigendur að vita, hvaða hryssur þeirra séu sennilega lítt næmar fyrir spatti og exemi og hvaða stóðhestar í boði séu sennilega lítt næmir fyrir hvoru tveggja.
Þekkingin er undirstaða framfara. Allir tapa, ef hrossabransinn sem heild stingur höfðinu í sandinn, þegar minnst er á spatt og exem. Vandamálinu á að breyta í verkefni sem fyrst. Það kostar sársauka í skamman tíma, en gefur arð til langs tíma.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 6.tbl. 2003