Ónefnanleg kristni

Punktar

Vatíkanið hefur ítrekað gagnrýnt, að kristinnar trúar skuli ekki vera getið í uppkasti Valery Giscard d’Estaing, formanns stjórnarskrárnefndar Evrópusambandsins, að fyrstu stjórnarskrá þess. BBC segir frá viðtali í Corriere della Sera í gær við d’Estaing, þar sem hann svarar þessari gagnrýni. Í uppkastinu minnist hann á sameiginleg andleg áhrif, um gríska-rómverska arfleifð og arfleifð endurreisnarinnar, en minnist ekki á kristni. D’Estaing segir, að ekki hafi verið hægt að nefna kristni án þess að móðga önnur trúarbrögð í Evrópu, en augljóst sé, að átt sé við kristni með orðunum “andleg áhrif”. Vatikanið hefur ekki bara kvartað, heldur ítrekað lýst yfir, að ekki megi taka Tyrkland í sambandið, þar sem það sé íslamskt ríki og raunar ekki í Evrópu. Ólíklegt er, að Vatikanið fái vilja sínum framgengt í þessum efnum, þar sem flest áhrifaríki Evrópusambandsins eru orðin veraldleg í sniðum og þjóðir þeirra ekki lengur kirkjuræknar.