Fjölmiðlun

Gott fólk sendir tölvupóst

Fjölmiðlun

Gott er að fá lesendapóst á jonas@hestur.is frá nafngreindu fólki. Ég jafna því ekki saman við nafnlausu fíflin, sem gera athugasemdir við fréttir. Í dag sá ég marga slíka húðskamma DV. Fyrir að segja sannleikann um samband forsetafrúarinnr við sjóð, sem verðlaunaði forsetann. Auðvitað er sjúkt, að ekki megi segja sannar fréttir af súkkulaðihúðuðum forsetahjónum. Ég hef hins vegar verið að skrifa langsóttan texta um matstaði í Lissabon. Og hef fengið skæðadrífu indælla bréfa frá fólki, sem vill vita meira um svo fjarstæðukennt efni. Það eru ekki bara geðsjúklingar í tölvupóstinum.

Æsifréttir eru fornar

Fjölmiðlun

Æsifréttir eru hluti af eðli frétta. Í eðli sínu er markmið frétta að æsa eða erta. Fá fólk til að staldra við og hlusta á sögumann, lesa eða horfa. Gula pressan er ekki nýjung í blaðamennsku, heldur snar þáttur sögu hennar frá upphafi. Fyrir rúmum tuttugu öldum voru morð og skilnaðir í daglegu veggblaði ríkisins í Róm. Frásögn af mannlegum harmleik er ein elsta tegund prentmiðla, frá 17.öld. Fyrstu vísar að fréttablöðum í Evrópu voru fullir af sögum um vanskapninga og skrímsli. Fólk notar fréttir sér til gagns; sér til afþreyingar og dægrastyttingar; til að fylgjast með dramatísku fólki.

Spunakarlar og blaðamenn

Fjölmiðlun

Getur Steingrímur S. Ólafsson endurfæðst sem blaðamnaður, hafandi verið spunakarl Halldórs Ásgrímssonar? Fæstir slíkir hafa getað það. Dæmi eru þó um, að það hafi tekizt. William Safire, ræðuritari Nixons forseta, var ráðinn dálkahöfundur New York Times. Honum var illa tekið í fyrstu, en vann sér smám saman álit. Hann lét ekki eindregna hægri stefnu sína rugla staðreyndum mála. Fékk Pulitzer-verðlaun fyrir blaðamennsku. Enn skrifar hann í blaðið, núna fínar greinar um meðferð bandarískrar tungu. Reynslan ein sýnir, hvort spunakarlar verða blaðamenn. Það er sjaldgæft, en kleift.

Krítað liðugt til forna

Fjölmiðlun

Júlíus Caesar er stundum kallaður fyrsti ritstjórinn. Sem ræðismaður lét hann kríta daglegt lögbirtinga- og fréttablað á veggi Rómar. Það hét Acta Diurna. Raunar var hann bara fyrsti ritstjóri nafngreinds dagblaðs. Áður, jafnframt og síðar birtust á veggjum Rómar krítaðar fréttir, skoðanir, áróður og auglýsingar. Þaðan kemur málshátturinn “að kríta liðugt”. Þetta tíðkaðist líka áður hjá Aþeningum hinum fornu. Dagblöð eru því mjög gömul í sagnfræðinni, byggðust fyrst á tilvist krítar og útbreiddu læsi borgara. Ætíð hafa kallarar á torgum gegnt svipuðu hlutverki útvarps fyrir ólæsa.

Stórblöðin eru marklaus

Fjölmiðlun

Ég er orðinn gáttaður á stórblöðum Bandaríkjanna. Þau fela fyrir þjóðinni, að George W. Bush skandaliseraði fyrir framan fulltrúa efnahagsvelda heims. Sendimenn Kína og Indlands fussuðu eins og sendimenn Evrópu, þegar fundinum lauk. Maðurinn er fífl, sögðu menn. Bush boðaði til fundarins til að draga athyglina frá umhverfisumræðu Sameinuðu þjóðanna. Það tókst ekki. Allir fulltrúarnir sögðu marklaust að setja umhverfisreglur án markmiða. Eins og hraðatakmarkanir án viðurlaga. Um þetta fjölluðu evrópsk stórblöð í gær. En New York Times og Washington Post reyna að fela hörð viðbrögð umheimsins.

Fréttir finna farveg

Fjölmiðlun

Herstjórnin í Burma gengur lengst allra harðstjóra í að skerða notkun á internetinu. Henni líkar illa að geta ekki stjórnað fréttum af mótmælum. Fréttir og myndir hafa jafnóðum lekið út, um myndsíma og net óbreyttra borgara. Við vitum, hvaða amerískur ferðamaður særðist og hvaða japanskur blaðamaður var myrtur. Í fyrradag var farsímakerfum landsins lokað til að hindra slíkar fréttir. Allt kom fyrir ekki. Fólk notar gervihnattasíma til að flytja fréttir, þegar hefðbundnir fjölmiðlar eru frystir. Tæknin er orðin slík, að engir valdhafar geta lengur hindrað fréttir af harðstjórn.

Slöpp fjölmiðlun

Fjölmiðlun

Ég las í fjölmiðli, að vinstri grænir vilji ekki sambýli fyrir geðfatlaða. Nokkrum dögum síðar leiðrétti fjölmiðillinn sig og sagði, að vinstri grænir taki græn svæði fram yfir geðfatlaða. Hið rétta í málinu er, að vinstri grænir eru andvígir staðsetningu sambýlisins á grænu svæði. Það felur ekki í sér, að fólk taki græn svæði fram yfir sambýli. Skemmtilegt innskot kom svo í öðrum fjölmiðli. Þar segir borgarfulltrúi, að vinstri grænir hafi mislesið skipulagskort og haldið grátt svæði vera grænt. Ekki ætti að vera ofviða fjölmiðli að upplýsa, hvort sé. Fremur en að fara ítrekað með villu.

Niður með yfsilon

Fjölmiðlun

Enska er að ryðjast inn á íslenzkan markað í kjölfar hnattvæðingar. Það stafar af leti hinna hnattvæddu. Þeir lærðu upp á amerísku og vita ekki, að íslenzka er lipur. Hún hefur nútímalega setningafræði, svipaðra enskri. Hún á gott með að innbyrða nýyrði, sem ekki eru slettur. Undarlegar beygingar eru ekki fleiri eða skrítnari í íslenzku en í ensku. Ekkert bendir til, að íslenzka sé úrelt tungumál eða vanhæft í fjármálum og tækni. Ritmálið er hins vegar erfitt í skólum. Ef bókstafurinn yfislon væri afskaffaður, mundi vera auðveldara að læra íslenzku. Það væri gott innlegg í varnarstríðið.

Ókeypis kjallaragreinar

Fjölmiðlun

Á miðnætti í nótt veitti New York Times ókeypis aðgang á vefnum að föstum dálkahöfundum. Einnig að greinasafni blaðsins allt aftur til 1987. Áður var seld áskrift að þessu efni. Forstjóri blaðsins segir meira upp úr því að hafa að selja auglýsingar með ókeypis efni, sem margir nota. Þótt sumir hafi notað seldu áskriftina á vefnum, voru þeir ekki nógu margir til að kalla á auglýsingar. Stefnubreytingin sýnir áhrif leitarvélarinnar Google, þaðan koma flestir notendurnir. Sala auglýsinga er tekin fram yfir blandaða leið með sölu áskrifta, enda meiri upphæðir í húfi. Framtíðin er komin.

Persónuverndun glæpamanna

Fjölmiðlun

Gallinn við persónuvernd er, að hún er einkum í þágu glæpona. Reiðin út af birtingu skattskrár er upprunnin hjá fólki, sem vill ekki láta koma upp um sig. Gagnrýni á eftirlitsmyndavélar og fingraskanna á rætur sínar í óskum fólks að fela sig fyrir lögum og rétti. Heiðarlegt fólk þarf ekki að óttast skattskrá, eftirlitsmyndir, fingraför, ættir, kennitölu. Gegnsætt samfélag er í þágu venjulegs fólks. Aðrir ramba á jaðri samfélagsins, ofbeldismenn, fíkniefnasalar, skattsvikarar. Þeir vilja, að sem minnst sé um sig vitað. Róttækar hugmyndir um persónuvernd eru fyrst og fremst í þágu glæpamanna.

Hræsnin og þjóðernið

Fjölmiðlun

Hræsnisfull þjóðernishyggja Íslandinga sést glöggt í viðhorfi til frétta af einkalífi fólks. Fjölmiðlum er undir forustu Moggans heimilt að velta sér daglega upp úr einkamálum og vandræðum útlendinga. En þeim dettur ekki í hug að ræða einkamál og vandræði Íslendinga. Til þess eru höfð sérstök tímarit. Menn fussa og sveia, þegar þau eru nefnd. Hér eru menn hræsnarar, sem hafa þá skoðun, að til sé tvenns konar fólk. Annars vegar Íslendingar, sem eiga að njóta róttækrar persónuverndar, og hins vegar eru réttir og sléttir útlendingar. Um þá má slúðra þindarlaust. Einkum í Mogganum.

Lexía frá Cronkite

Fjölmiðlun

Walter Cronkite er nestor fréttaþátta í sjónvarpi heimsins yfirleitt. Í ævisögunni gerir hann skemmtilega upp sakirnar við oflátunga, sem tóku við rekstri sjónvarpskeðja. Þeir fóru að laga það, sem ekki var bilað, losuðu sig t.d. við Cronkite. Alveg eins og nú er verið að laga það, sem ekki er bilað í Ríkissjónvarpinu. Spaugstofuna, sem hefur flesta viðskiptavini. Á CBS tókst oflátungunum skjótt að minnka áhorf og rústa fyrirtækið. Ég hef ekki trú á, að breytingar á Spaugstofunni auki notkun hennar. Vitlegra er að breyta þáttum, sem áhorfendur nota lítið. Og láta hina þættina í friði.

Námskeið í ritstjórn

Fjölmiðlun

Senn byrjar námskeið hjá mér í Háskólanum í Reykjavík um ritstjórn. Það er spennandi viðfangsefni. Hafði kennt rannsóknablaðamennsku, fréttamennsku og textastíl þar í fyrra. Engin góð kennslubók er til um ritstjórn, ekki einu sinni á ensku. En ég hef náð saman góðum pakka nýrra bóka, sem samanlagt spanna hugtakið ritstjórn. Bækurnar eru allar skrifaðar af ritstjórum, en ekki fjölmiðlafræðingum. Þær gefa þáttakendum námskeiðanna innsýn í helztu þætti ritstjórnar. Svo sem stjórnun og þjálfun starfsfólks, leiðara og siði, tímarit og sérútgáfur, hönnunar- og myndritstjórn. Mjög gott mál.

Fjölmiðlafræðin

Fjölmiðlun

Mér sýnist við Guðbjörg Kolbeins vera í stórum dráttum sammála um mismun á kennslu í blaðamennsku og í fjölmiðlafræði. Á heimasíðunni kolbeins.blog.is ræðir hún fyrri skrif mín um þennan mun. Hún fer rækilegar í sakirnar á ýmsum sviðum og ég get tekið undir það flest. Setja verður skörp skil milli náms í blaðamennsku, sem er hagnýtt nám, og fjölmiðlafræðinnar. Of margir leggja stund á fjölmiðlafræði og telja sig vera að læra blaðamennsku. Svo er ekki. Ég legg áherzlu á, að hagnýt blaðamennska er betur kennd af fagmönnum í greininni fremur en af fræðingum án langvinnrar starfsreynslu.

Fáfróðir fjölmiðlafræðingar

Fjölmiðlun

Blaðamennsku á að kenna þannig, að hún gagnist blaðamönnum á vinnustað, um leið og hún gagnist vinnustöðunum. Þannig er hún kennd í Bandaríkjunum, af kennurum, sem þekktari eru sem blaðamenn og ritstjórar en sem kennarar. Hún er þar ekki kennd sem fjölmiðlafræði, grein af meiði félagsvísinda. Hér er ekki kennd blaðamennska, heldur fjölmiðlafræði. Flestir kennararnir hafa enga reynslu í faginu og aðrir hafa vonda reynslu. Nám í fjölmiðlafræði kemur verðandi blaðamönnum að engu gagni. Þekkt er í bransanum, að umpóla þarf slíku fólki í upphafi starfs, svo að það standi jafnfætis sjómönnum.