Author Archive

Stöð 2 siglir í strand

Punktar

Stöð 2 er að missa Óskar Þorvaldsson, síðasta ágenga fréttastjóra landsins. Til viðbótar öðrum atgervisflótta. Áður var rekið Kompásliðið, sem einnig bauð upp á fyrsta flokks fréttamennsku. Hjá helztu rannsóknablaðamönnum landsins, Jóhannesi Kr. Kristjánssyni, Kristni Hrafnssyni og fleirum. Áður voru rekin hjónin Sigmundur Ernir Rúnarsson og Elín Sveinsdóttir, er áttu 50 ára starfsreynslu með sóma. Í staðinn hefur Stöð 2 fengið himpigimpi á borð við blaðurfulltrúa, ímyndunarfræðinga og sendiherra. Ari Edwald útgáfustjóri er í tómu tjóni, skilur ekki blaðamennsku. Siglir Stöð 2 beint í strand.

Fátæklegar varnir hnípins Geirs

Punktar

Fátækleg voru svör Geirs Haarde við spurningum BBC. Sagðist ekki hafa gert nein mistök, en mundi biðjast afsökunar, ef rannsókn leiddi slíkt í ljós. Vildi ekki ræða einkasamtöl við Davíð Oddsson fyrir hrunið, en mundi gera það við rannsóknina. Játaði, að kannski hefði hann átt að kvarta við Gordon Brown yfir hryðjuverkalögunum. Viðtalið sýndi ákvarðanafælinn og verkkvíðinn mann, sem gat ekki veitt þjóðinni forustu. Enda spurður: “Fólk vildi sjá þig sýna raunverulega forystu, en það sá það ekki, er það nokkuð?” Fátt var um svör við því. “Það er ekki mitt að meta það”, sagði hnípinn Geir.

Pútínsdekur banka og Davíðs

Punktar

Alltaf bætist við syndaregistur bankastjóranna og eigenda bankanna. Nú segir Boris Berskovskí fjárglæframaður, að Vladimír Pútín og menn hans hafi keypt Ísland til peningaþvottar. Hann á þá væntanlega við, að þeir hafi keypt einhverja bankana og Björgólfana að minnsta kosti. Hann sagði, að reglur um bankarekstur hefðu verið frjálsari á Íslandi en í Evrópusambandinu. Því neitar utanríkisráðuneyti okkar. Kannski voru reglur til, en Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið beittu þeim ekki. Bereskovskí minntist líka á risalánið, sem Davíð Oddsson þóttist hafa fengið hjá Rússum, sem stóðst svo alls ekki.

Verkkvíði, ákvarðanafælni, ráðleysi

Punktar

Alþingismenn Sjálfstæðisflokksins saka ríkisstjórnina um að leggja fram frumvörp, sem gamla ríkisstjórnin hafi undirbúið. Þeir svara hins vegar ekki, hvers vegna gamla stjórnin gat ekki ungað þeim út. Það stafar auðvitað af ákvarðanafælni, verkkvíða og ráðleysi ríkisstjórnar Geirs Haarde. Nýjan forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, þurfti til að grípa til raunhæfra aðgerða. Ríkisstjórn hennar hefur gert meira á tveimur vikum en stjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar gerði á 3-4 mánuðum. Þar skilur milli feigs og ófeigs á örlagatímum.

Er Franek í flórnum?

Punktar

Landstjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins yfir Íslandi er Franek Rozwadowski. Hann er sagður vera kunnugur Geir Haarde, hafa verið með honum í háskóla. Þetta þarf að staðfesta. Ef Franek er kunningi Geirs, getur hann ekki verið landstjóri yfir Íslandi. Hann getur ekki verið vinur stjórnarandstöðunnar. Hér hafa þá orðið herfileg mistök af hálfu sjóðsins, svipuð mistök og íslenzkir pólitíkusar mundu fremja. Tilgangurinn með erlendum landstjóra er að fara framhjá íslenzkum gaurum. Það gengur ekki að fá útlending til að stjórna landinu, ef hann lendir í sama flórnum og innlendir valdamenn.

Lína Bjarna Benediktssonar

Punktar

Merkilegt er viðtal DV við Bjarna Benediktsson, verðandi flokksformann. Hann gefur kost á þeim möguleika, að Sjálfstæðið beri einhverja ábyrgð á hruninu. Hann efast um, að rétt hafi verið staðið að einkavæðingu bankanna. Hér talar ekki frjálshyggjumaður, heldur gamaldags íhald. Ég hef ekki orðið var við, að talsmenn flokksins hafi áður leyft sér að efast um milligramm af gerðum flokksins. Yfirleitt ræður þar alger afneitun. Geir Haarde er gott dæmi um það, samanber viðtalið við BBC. Ef hinni óvæntu línu Bjarna fylgja gerðir af hálfu flokksins, er hugsanlegt, að flokkurinn nái fyrri yfirburðum í fylgi.

Undanþága þingmanna

Punktar

Alþingi hyggst setja lög um að veita þingmönnum undanþágu frá að gefa upplýsingar um fjármál sín. Slík lög eru einskis virði, nema þau skyldi þingmenn til að gefa upplýsingarnar. En þingmenn eru samir við sig. Þeir halda áfram að skara eld að eigin köku. Það eina, sem þeir kunna. Þeir vilja auðvitað ekki upplýsa, hver á þá.

Ferðast í hægindastól

Punktar

Ferðast í hægindastólNútíma leiðsögubækur koma í stað ferðalaga. Eywitness Guides segja okkur frá öllu skoðunarverðu og birta myndir af því. Truflandi smáatriði eru klippt úr myndfletinum. Bókin verður tærari fyrir vikið. Engar biðraðir á flugvelli, andþrengsli í flugvélum, niðurnídd verksmiðja í úthverfi, bilaður krani í hótelvaski. Í bókinni sjáum við bara hvítan sand, hallandi pálma og tvo elskendur á teppi. Er þá ástæða til að ferðast? Ég er með Feneyjabók, sem sýnir teikningar af öllum höllum við Stóraskurð, alveg án lyktar. Er ekki bara bezt að ferðast um í eigin hægindastól, laus við óþægindi veruleikans.

Vandlega faldir hluthafar

Fjölmiðlun

Hlutafé gengur kaupum og sölum, það er eðli hlutafjár. Ókleift er að setja hömlur á viðskipti með hlutafé. Samt reynir nýi Glitnir að hindra leppa í að bjóða í hlutafé Árvakurs. Það er fallega hugsað að reyna að hindra ljósfælna auðkýfinga í að eignast Moggann. En málefnalega getur bankinn ekki hindrað slíka bragðvísi. Bak við erlenda áhugamenn eru íslenzkir fjárglæframenn, sem munu eignast Moggann, hvað sem hver segir. Þeir eignast Moggann, sem bezt geta borgað, þótt þeir séu vandlega faldir að tjaldabaki. Bankinn á ekki að vasast í svona málum. Hann á bara að reyna að fá sem hæst verð fyrir hræið.

Daniel Barenboim skrifar

Punktar

Flestir vita, hver er Daniel Barenboim, píanisti og hljómsveitarstjóri frá Ísrael. Hann hefur aðrar skoðanir á pólitík en kjósendur í Ísrael, skrifar um þær blaðagreinar. Hann telur loftárásir Ísraelshers styrkja Hamas, hin róttæku samtök Palestínumanna. Hann telur þær líka ómennskar, ósiðlegar og ekki bæta öryggi Ísraels. Hann bendir á, að Hamas sé meirihlutaflokkur á Gaza. Hann vekur sérstaka athygli á siðleysi þess að gera baklandið réttdræpt fyrir verk skæruliða. Collective Punishment er siðlaus stefna Ísraelsríkis. Hún er til þess eins fallin að efla andstöðuna við Ísrael.

Andstæðingur orðinn forseti

Punktar

Vaclav Klaus Tékklandsforseti er orðinn forseti Evrópusambandsins. Sérstæður pólitíkus á hægri jaðri tékkneskra stjórnmála. Hreytir ókvæðisorðum í þingmenn sambandsins, sem koma í heimsókn. Telur breytingar á andrúmsloftinu vera ímyndanir. Segir Evrópusambandið vera kommúnistaríki. Forsetastarfið í sambandinu fer í hring á hálfs árs fresti. Klaus varð forseti um áramótin, í kjölfar Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta. Reiknað er með, að sambandið reki meira eða minna á reiðanum fram að næsta forseta, sem tekur við 1. júlí. Þetta er í fyrsta sinn, að harður andstæðingur Evrópu er forseti álfunnar.

Dýrasta prentvélin keypt

Fjölmiðlun

Ég tók einu sinni þátt í að velja prentvél fyrir fyrirtæki, sem nú heitir Ísafoldarprentsmiðja. Hún var prentstofa DV og síðar Fréttablaðsins. Við keyptum vél í ódýrari kantinum, kölluðum hana Fólksvagninn. Á þessum tíma vöktu prentvélakaup Moggans athygli útlendinga, sem ræddu prentvélar fyrir dagblöð. Mogginn keypti nefnilega dýrustu fáanlegu prentvél. Blaðið hefur síðan ekki getað staðið undir henni. Þetta á mikinn þátt í hruni blaðsins. Gífurlegur kostnaður á pappír og prentun kippti fótunum undan Mogganum. Sá kostnaður sparast, ef gefið er út á vefnum einum. Mogginn ætti að skoða það.

Burt með allan gaflinn

Hestar

Fengum einu sinni ágætan verkfræðing til að áætla, hversu mikil loftskipti þyrfti í hesthúsinu. Ætluðum að kaupa loftræstikerfi við hæfi. Fræðingurinn náði sér í erlent fagrit um kýr. Þar stóð, að kýr prumpuðu ferlega. Eftir mikla útreikninga tjáði hann okkur, að galopna þyrfti allan gaflinn á hesthúsinu, svo mikil loftskipti þyrfti. Við kvöddum hann og rifum ekki gaflinn. Fengum okkur stóra viftu í strompinn í staðinn. Það virkar vel, engin skítalykt eða súrlykt er í hesthúsinu, bara ilmur af spónum. Og þessi ljúfi ilmur af þurrum og hreinum hestum. Sum verkfræði minnir á hagfræði.

Skipt um skoðun

Punktar

Framan af mótmælum hélt lögreglustjórinn því fram, að eitri væri ekki úðað framan í fólk. Tekin voru ótal myndskeið, sem sýndu, að þetta passaði ekki. Nú segir hann, að það sé einmitt reglan, að eitri skuli úða framan í fólk. Grunsamleg U-beygja. Sú séríslenzka regla er ekki notuð í nágrannalöndunum. Að ýmsu öðru leyti gengur löggan hér lengra en í öðrum löndum. Nú er hún farin að amast við hávaðanum, sem andófsfólk fremur. Ég ítreka þá skoðun, að fasismi stjórni ríkislögreglustjóra og lögreglustjóranum í Reykjavík. Þetta eru flokkstengdir embættismenn vanhæfir, sem hreinsa þarf úr starfi.

Davíð í boði Framsóknar

Punktar

Framsóknarflokkurinn er alltaf til skaða. Nú þvælist hann fyrir frumvarpinu um breytingu á Seðlabankanum. Segist vilja víkka kröfur til bankastjórans. Frumvarpið gerir ráð fyrir, að bankastjórinn sé vel menntaður hagfræðingur. Framsókn vill rýmka til fyrir búfræðingum, svo að framsóknarmenn komi til greina. Framsókn vildi líka láta málið fara í viðskiptanefnd, þar sem stjórnin hefur ekki meirihluta. Stjórnarflokkarnir urðu að sætta sig við það, því að Framsókn ræður öllu. Flest bendir til, að Davíð verði áfram bankastjóri. Í boði Framsóknar. Framsóknarflokkurinn er alltaf til skaða.