Author Archive

Vísvitandi útúrsnúningar

Punktar

Íslenskt meðlæti heitir fyrirtæki, sem flytur inn frosið grænmeti, pakkar því og merkir með íslenzku fánalitunum. Slík iðja heitir á íslenzku að villa vísvitandi um fyrir neytendum. Pökkun felur ekki í sér framleiðslu, bara virðisauka. Framleiðslan sjálf er útlend. Blekkingin er vísvitandi, hvort sem grænmetið kemur frá Evrópu eða Asíu. Hvort sem íslenzkt grænmeti er fáanlegt eða ekki. Hvort sem varan er góð eða vond. Auðvelt er að átta sig á, að innflutta vöru má ekki merkja sem íslenzka framleiðslu. Vísvitandi útúrsnúningar í yfirlýsingu fyrirtækisins breyta engu um staðreyndirnar.

Hissa á Sigmundi Davíð

Punktar

Ég hef ekki séð Samfylkinguna leggja Sigmund Davíð Gunnlaugsson í einelti á netinu. Hann kvartar samt yfir rógsherferð hennar í bloggi. Hún tali illa um fjármál sín og konu sinnar í tengslum við hlutafé í P. Samúelsson. Að vísu er ég enginn sérfræðingur í bloggi Samfylkingarinnar. Les þó nógu mikið af bloggi til að geta séð dæmi um slíkt, ef það væri til. Ég held, að þetta sé bara vænisýki í Sigmundi Davíð. Mér finnst ekki trúverðugar kvartanir hans í helgarviðtali Fréttablaðsins. Þvert á móti er ég hissa á viðbrögðum hans. Mér finnst hann hlaupa í hóp með Árna Johnsen, sem kvartar yfir morðtilraun.

Röng grisjun Fréttablaðsins

Fjölmiðlun

Fréttablaðið hefur misst Svanborgu Sigmarsdóttur, Auðun Arnórsson, Guðrúnu Helgu Sigurðardóttur og Hrefnu Sigurjónsdóttur úr starfi. Ég held, að blaðið tapi á því, þetta voru valinkunnir blaðamenn. Miklu nær var fyrir blaðið að grisja silkihúfurnar. Þar er mikið af yfirmönnum, aðstoðarviðaukastjórum af ýmsu tagi. Einnig eru þar fullar skrifstofur af stoðdeildum ýmiss konar, markaðsfræðingum og mannauðsstjórum, ívent-fulltrúum og ímyndarfræðingum, blaðurfulltrúum og samskiptasérfræðingum. Slíkir fóru að ryðjast inn á fjölmiðla í lok síðustu aldar. Hafa æ síðan étið upp hagnað fjölmiðlanna.

Illugi er enn í gangi

Punktar

Illugi Gunnarsson alþingismaður er tákn fyrir siðleysi hrunsins. Geir Haarde lét skattgreiðendur borga milljarðatjón, sem fjárglæfrasjóður Illuga í Glitni olli eigendum innistæðna í sjóðnum. Þetta var sértækt ríkishandafl í sjóði númer níu, ríkisrekin frjálshyggja. Var mesti flokkspólitíski glæpur hrunsins. Verra er samt, að Illugi er enn í pólitík. Sækist eftir efsta sæti á lista Flokksins í Reykjavík. Hann hefur ekkert lært og vill fá stuðning þorpsídjótanna til að halda áfram að geta sparkað í skattgreiðendur. Réttmætt væri hins vegar, að hann væri landflótta á fjarlægri aflandseyju.

Kjörorðin eru gamalkunn

Punktar

Skemmtilegast úti að aka í hruninu er Frjálshyggjufélagið. Aðalfundur þess um daginn fagnaði andláti nýfrjálshyggju. Skilgreindi hana sem ríkisrekna frjálshyggju. Samt voru krosseignar- og útrásarvíkingar ekki ríkisreknir og ekki heldur einkavæddir bankar. Eini ríkisþáttur hrunsins var eftirlitsleysi Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, sem störfuðu í anda hefðbundinnar frjálshyggju. Kjörorðín voru frjálshyggjunnar: Light-touch, laissez-faire og hands-off. Ef eitt atriði er orsök hrunsins, er það einmitt hin hefðbundna frjálshyggja Hannesar Hólmsteins og Davíðs, Geirs og Ingibjargar Sólrúnar.

Breitt bak skattgreiðenda

Punktar

Engin ástæða er til, að skattgreiðendur framtíðarinnar beri tjón af völdum hruns frjálshyggjunnar. Ríkisstjórn Geirs Haarde mátti ekki leggja hundruð milljarða króna af væntanlegu skattfé til að greiða tjón innistæðueigenda. Þeir áttu sjálfir að fá að bera sitt tjón. En hún freistaðist til að kasta byrðum á skattgreiðendur. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir má ekki leggja tugi milljarða af væntanlegu skattfé til að greiða tjón skuldara. Hún má bara lengja í lánum og milda vexti. Hún mun samt líklega freistast til að kasta slíkum byrðum á skattgreiðendur. Nú er komið meira en nóg af slíku.c

Hver er þessi Vilhjálmur?

Punktar

Getur ekki einhver rannsóknarblaðamaður upplýst okkur um, hverjir eru nýir bankaráðsmenn Íslandsbanka, áður Glitnis? Hverjir eru óumdeildir fagmenn, hverjir eru gæludýr stjórnmálaflokka. Hver ný nefnd, sem mynduð er, þarf að framkalla nákvæma skoðun á hugarfari þess, sem nefndina skipar. Hver er til dæmis Vilhjálmur H. Vilhjálmsson? Er hann sá, sem stal ritgerðinni um árið? Er rétt að setja í bankaráð mann, sem hefur verið sviptur kandídats-titli. Er gamla spillingin frá gömlu ríkisstjórninni enn á lífi hjá þeirri nýju?

Tveir plús tveir

Punktar

Við höfum fengið skárri ríkisstjórn og erum næstum búin að losna við Davíð. Tvennt gott. Alþingi getur gert tvennt til viðbótar til að gleðja okkur. Í fyrsta lagi leyfa óraðaða framboðslista frá og með kosningnum í apríl. Í öðru lagi smíða ferli stjórnlagaþings. Ég hef áður útskýrt, að auðvelt er að meðhöndla óraðaða lista á atkvæðaseðlum. Ekki er flóknara að gangsetja stjórnlagaþing. Fræðimenn setji í sumar upp ýmsa kosti, sem gætu átt heima í stjórnarskrá. Í haust verði stjórnlagaþingið svo kosið. Það taki afstöðu til kostanna frá sérfræðingunum. Niðurstaðan fari í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Forstokkuð ríkisstjórn

Punktar

Nýja ríkisstjórnin líkist daglega meira þeirri gömlu. Hún er farin að gæla við að fresta kosningum, því að henni líður svo vel við völd. Hún telur sig þurfa meiri tíma til að koma málum fram. Það er hrein og klár valdasýki. Hún er svo forstokkuð, að hún skipar dæmdan þjóf sem formann bankaráðs. Varla er hægt að haga sér gerræðislegar. Ég held hún sé sambandslaus við andófið, sem fleytti henni til valda. Eftir nokkrar vikur verður hún orðin svo óvinsæl, að heimskir kjósendur telja hana, en ekki Geir, hafa komið þjóðinni á haus.

Þingmenn styðja ruglið

Punktar

Fimmtíu manns missa vinnuna hjá Frostfiski í Þorlákshöfn, því að Waitrose í Bretlandi hætti viðskiptum vegna hvalveiða. Samtals munu nokkur hundruð manns missa vinnu vegna Waitrose og er þó ekki á bætandi. Allt gerist þetta, því að hálfbilaður auðmaður vill fórna milljörðum til að halda úti óarðbærum hvalveiðum. Hefur reynt að selja hvalkjötið til Japans, en ekki tekizt. Þar hefur það legið í gámum og auðmaðurinn orðið að kaupa það til baka. Japanir éta ekki lengur hvalkjöt. Ríkisstjórnin ákvað að sætta sig við geðsjúkar hvalveiðar út allt þetta ár. Enda er meirihluti þingmanna fylgjandi ruglinu.

Ekki sonurinn heldur faðirinn

Punktar

Mér er sagt, að það sé ekki sonurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, heldur faðirinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, sem sé formaður bankaráðs Glitnis. Faðirinn er talinn vammlítill sómamaður, en sonurinn brokkgengur. Mér léttir að heyra, að faðirinn er í bankaráðinu, en ekki sonurinn. Heilagur andi var ekki yfir mér, þegar ég ruglaðist á feðgunum.

Marklausar skoðanakannanir

Punktar

Ekkert er að marka skoðanakannanir, sem gerðar eru fyrir hagsmunaaðila. Fyrir því er gömul reynsla, innlend sem erlend. Þess vegna er ekkert að marka kannanir, sem sýna meira fylgi kaupenda kannana en annarra. Bjarni Benediktsson segist hafa meira fylgi en Guðlaugur Þórðarson til formanns. Og Illugi Gunnarsson segist hafa meira fylgi en Guðlaugur Þórðarson til fyrsta sætis á lista. Hvort tveggja getur verið satt, en ekki vegna þess, að Capacent eða annar slíkur aðili segi það. Takið könnunum af þessu tagi með varúð og spyrjið fyrst, hver borgar brúsann.

Svo langt sem það náði

Punktar

Páll Ásgeir Ásgeirsson gerir góðlátlegt grín að orðavali Geirs Haarde: “Ég hafði rétt fyrir mér, svo langt sem það náði.” Það var, þegar Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn bar lygar Geirs til baka. Páll Ásgeir bendir á ýmsar aðstæður, þar sem gott væri að nota orðaval Geirs: Vændur um framhjáhald: “Ég hef verið þér trúr, svo langt sem það nær, góða mín.” Eða stöðvaður af lögreglunni: “Ég ók á löglegum hraða, svo langt sem það náði. Ég var ennfremur allsgáður, svo langt sem það náði.” Loks um símtalið. sem aldrei tókst: “Samtalið við Gordon Brown var gott, svo langt sem það náði.”

Kveinstafir á Bláskjá

Punktar

Þegar búið er að byggja hús langt umfram þarfir, verður erfitt að lífga við byggingaiðnað. Þegar búið er að fjárglæfrast langt umfram þarfir, verður erfitt að lífga við fjármálastarfsemi. Það liggur í hlutarins eðli, að lítil von er í sumum atvinnugreinum. Ég sá viðtal á Bláskjá við kaupsýslumann, sem setti í gang enn eina stórverzlun í byggingaðinaði, þegar hrunið varð. Hann varð að hætta rekstri og kveinar sáran. Hversu veruleikafirrtir geta menn orðið? Heildsalar kveinuðu á Bláskjá yfir fjármagnsskorti í grein sinni. Hann er samt bara dæmi um nauðsynlega grisjun í útbelgdri atvinnugrein.

Persónukjör er einfalt

Punktar

Persónukjör er sáraeinfalt í framkvæmd. Sumir framboðslistar eru með tölum framan við nöfn frambjóðenda. Aðrir eru með auða kassa, þar sem kjósendur setja tölur inn að eigin vali. Ef þeir gera það ekki, krossa bara við listann, fá allir frambjóðendur listans sama vægi á seðlinum. Opnu listarnir eru settir upp í stafrófsröð, en áður dregið um, hvar í stafrófinu þeir skuli byrja. Þetta er einfalt fyrir kjósendur. Þeir geta ráðið, hvort þeir kjósa sinn lista eins og hann leggur sig eða hvort þeir vilja raða sjálfir upp frambjóðendum listans. Þetta er einfalt, en Sjálfstæðið berst gegn því.