Author Archive

Trúhneigð fæðubótarþjóð

Punktar

Íslendingar trúa ekki eins mikið á guð og ýmsar aðrar þjóðir. Þeir eru þó ekki trúlausir með öllu, trúa á huldufólk og andafundi og stólpípur. Einna sterkust er trú Íslendinga á fæðubótarefni af ótal tegundum, andoxunarefni, prótein og fitubrennsluefni. Þeir, sem borða fjölbreyttan mat í samræmi við meðmæli Lýðheilsustöðvar, þurfa engin fæðubótarefni. Kannski hinir, sem lifa á ruslfæði. Engin vísindarök eru fyrir fæðubótarefnum. Makalaust er, að við eyddum í fyrra þremur milljörðum króna í fæðubótarefni. 250 tonn af ofsatrú. Þeir rugluðustu borða nánast engan alvörumat, lifa bara á fæðubótarefnum.

Sérstök fyrirgreiðsla

Punktar

Davíð Oddsson upplýsti ekki, hver fyrirtækin og mennirnir voru, sem fengu sérstaka fyrirgreiðslu í bönkunum í tengslum við hrunið. Í Kastljósi sagði hann þessa aðila skipta hundruðum, þar á meðal þekkt fólk í stjórnmálum. Hann hafi bent rannsóknaraðilum á þetta, en ekkert hafi verið gert með það. Lögreglustjórar og Fjármálaeftirlitið hafa stungið þessu undir stól. Nú hefur verið skipaður sérstakur saksóknari, sem væntanlega lætur það verða sitt fyrsta verk að fá listann hjá Davíð. Ef hann er réttur, hefur ósiðlega verið forðazt að velta við steinum í tíð ríkisstjórnar Geirs Haarde.

Litli seðlabankamaðurinn

Punktar

Munið eftir litla landssímamanninum, sem kom upp um svindl í símabransanum. Nú er kominn litli seðlabankamaðurinn. Sá mjatlar út upplýsingum um ólöglegt athæfi banka, fyrirtækja og einstaklinga. Hann vísaði réttvísinni á arabíska sjeikinn, sem fékk að fara í hlutabréfaleik í Kaupþingi. Nú hefur hann gefið í skyn, að tugir fyrirtækja og gæludýra hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu bankanna. Fyrst gaf han það í skyn á fundi í haust, en þá setti hann það fram sem hótun. Nú finnst honum kominn tími til að framkvæma hótunina. Annað hvort til að bjarga sér fyrir horn eða til að taka fleiri með sér í fallinu.

Sprengjan veki saksóknarann

Punktar

Ólafur Þór Hauksson, saksóknari bankahrunsins, hefur skrítna hugmynd um verklag sitt. Hann hvetur Davíð Oddsson til að senda sér ábendingar um refsiverða starfshætti í bönkunum. Saksóknarinn á ekki að sitja á rassi sínum og bíða. Hann á að kalla seðlabankastjórann fyrir, láta lögguna sækja hann. Ólafur Þór á ekki að biðja Davíð um upplýsingar, heldur krefja hann um þær. Davíð er búinn að segja þjóðinni, að nokkur hundruð einkahlutafélög hafi fengið sérfyrirgreiðslu í bönkunum rétt fyrir hrunið. Þar á meðal séu þekktir aðílar í pólitík. Það er sprengja, sem á að vekja saksóknarann.

Óþarft er að trúa Davíð

Punktar

Óþarft er að trúa Davíð
ngin ástæða er til að trúa Davíð Oddssyni í nokkru. Hann er ófyrirleitinn og sleipur pólitíkus, sem komst út á spillingu í Seðlabankann. Öllu, sem hann segir, þarf að taka með varúð. Fullyrðingum um sinnuleysi ríkisstjórnar Geirs Haarde ber ekki að trúa bókstaflega. Ásakanir hans um siðleysi viðskiptabankanna eru samt þess eðlis, að þær þarf að rannsaka. Einnig fullyrðingar hans um sinnuleysið. Allt þarf að koma upp á borð í tengslum við bankahrunið. Hinu er ekki að leyna, að þungu fargi verður létt af þjóðinni, þegar ófyrirleitinn og sleipur pólitíkus hverfur úr Seðlabankanum.

Hægri og vinstri Framsókn

Punktar

Framsókn styður ekki lengur seðlabankafrumvarpið. Hún hefur klofnað milli hægri og vinstri afla og sett aðgerðir í fjármálum í uppnám. Líklega verður Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn að fresta komu fulltrúa sinna meðan þetta uppnám stendur. Vont er fyrir ríkisstjórn að sýna veikleika sína. Hún hefur ekki tök á Framsókn, sem þekkir vel haltu mér – slepptu mér, já já og nei nei. Tæpast verður þó myndaður nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðis, það yrði sjálfsvíg Framsóknar. Nær og nær færist þó sú hugsun, að þetta gangi ekki lengur. Jóhanna getur neyðst til að rjúfa þing og boða strax til kosninga.

Þetta er gamla Framsókn

Punktar

Áhugafólk um einangrun Sjálfstæðisflokksins á ekki að ímynda sér stuðning Framsóknar. Hún getur hallazt til hægri eftir kosningar, þótt hún hafi nú brosað til vinstri í nokkrar vikur. Stuðningur hennar við nýja ríkisstjórn er of dýru verði keyptur og verður dýrari með degi hverjum. Bezt er að rjúfa þing og boða til kosninga eftir sex vikur. Þá verður kosið um ríkisstjórn og seðlabanka. Augljósar rakatætlur Höskuldar Þráinssonar verða fólki í fersku minni. Það hefur séð og heyrt, að hann er ekki frambærilegur. Framsókn mun líða fyrir, að gamalt já-já-og-nei-nei eðli hennar kom óþægilega í ljós.

Prófkjör í þingnefnd

Punktar

Prófkjörsslagur Framsóknar er hafinn, hófst í viðskiptanefnd Alþingis. Þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi fóru þar hvor í sína áttina. Birkir J. Jónsson studdi álit ríkisstjórnarflokkanna og Höskuldur Þórhallsson studdi álit Sjálfstæðisflokksins. Formaðurinn fór heljarstökk við að skýra, að hvort tveggja álitið væri gott. Væri í samræmi við stuðning Framsóknar við ríkisstjórnina. Framsókn væri bara að æfa sig í sjálfstæðri hugsun. Þetta er gamla Framsókn eins og við þekkjum hana. Komin með innanflokksslag frambjóðenda sinna inn í þingnefnd. Og Höskuldur mætir svo bara ekki þar.

Framsókn fer með himintunglum

Punktar

Framsókn samdi bænarskrár og kallar þær tillögur í efnahagsmálum. Ein skráin snýr að landsstjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Hún biður hann um að lækka vexti. Ekki er ákvæði um, hvað gera skuli, ef landsstjórinn verður ekki við bóninni. Önnur bænarskráin snýr að erlendum lánardrottnum bankanna. Þeir eru beðnir um að slá 20% af kröfum sínum í húsnæðislán. Á þeirri forsendu, að þeir séu svo illu vanir, hafi orðið að afskrifa hluta af öðrum lánum. Ekki er ákvæði um, hvað gera skuli, ef þeir verða ekki við bóninni. Framsókn er nefnilega komin í kosningastuð og fer með himintunglum í óskhyggju.

Eiríkur rífur kjaft

Punktar

Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri skammast sín ekki fyrir að setja bankann á hausinn. Ekki heldur fyrir að sofa á verðinum, þegar viðskiptabankarnir fóru á hausinn. Hann þráast við að hunzkast úr bankanum. Þar á ofan telur hann sig geta rifið kjaft við Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að sinna ekki verkum hennar. Fyrir óvönduð vinnubrögð og óviðeigandi yfirlýsingar. Eiríkur ætlar semsagt að yfirgefa bankann í algerri skömm og algeru tjóni. Þarf ekki að höfða mál gegn svona dólgi?

Davíð og andvaraleysið

Punktar

Davíð Oddsson sagði fátt nýtt í kvöld. En skilja mátti, að andvaraleysi ríkisstjórnar Geirs Haarde hafi verið meira en áður var talið. Davíð gerir mikið úr aðvörunum sínum fyrir hrunið. Minnist hins vegar ekki á samhliða skýrslur Seðlabankans, sem sögðu viðskiptabankana í góðu lagi. Og minnist enn síður á, að Seðlabankinn greip ekki í tæka tíð til aðgerða til að hefta óráðsflug bankanna. Að venju dylgjaði hann um kræsilegar upplýsingar, sem hann hefði, en vildi ekki segja frá. Sagði það mundu koma síðar í ljós. Og ekki hrakti hann almennt vantraust umheimsins á seðlabankastjóranum Davíð.

París er það heillin

Ferðir

Ef þú hefur ekki komið til London, tekur þig viku að kynnast miðborginni og því, sem hún hefur að bjóða. Í mannlífi, verzlunum, menningu, minjum. Sama er að segja um Manhattan og Rómarborg. Amsterdam og Kaupmannahöfn taka tæpa viku, svona fjóra daga. Ein heimsborg sker sig úr. Það er París. Þú ert að minnsta kosti þrjár vikur að kynnast henni eins vel og þú kynnist öðrum heimsborgum á viku. Miðborgin í París er órastórt svæði, tíu kílómetrar á kant. Gefðu þér góðan tíma, ef þú vilt kynnast mestu heimsborg heims, mestu mannlífsborginni, mestu verzlunarborginni, mestu menningarborginni.

Svartur og góður

Veitingar

Basil & Lime er ítalskur staður vinsæll við Klapparstíg, þar sem einu sinni var Pasta Basta. Staðurinn er svartur í borðdúkum, stólum og gólfi. Þjónusta þægileg og fagleg. Maturinn er ekki eins góður og á Primavera, en er ódýrari. Forréttir á 1050 kr, pasta á 1450 kr, fiskur á 2850 kr, kjöt á 3600 kr, eftirréttir á 1250 kr. Villisveppa-risotto var bragðsterkt og -gott, en ekki eins maukað og heima í Feneyjum. Sjávarréttasúpa var fínn matur með sterku kræklingsbragði. Ragú taglitelle var betra en nafnið. Saltfiskur var notalega eldaður, með sterku tómatmauki. Góð viðbót við íslenzkt matarlíf.

Misvondir Moggakaupendur

Fjölmiðlun

Ég sé ekki, að Íslandsbanki hafi ráð á að gæðastimpla þá, sem eru bakvið Óskar Magnússon eða Steve Cosser. Hlutverk bankans er ekki að meta, hvers konar stuðningur við Sjálfstæðisflokkinn henti Mogganum. Bankinn á bara að ná eins miklum peningum til baka og unnt er. Honum er það til ævarandi skammar að hafa brennt þrjá milljarða króna á mesta risagjaldþroti fjölmiðlasögunnar. Nóg er komið af slíku rugli. Fyrsta regla við slíkar aðstæður er að hleypa fyrri eigendum ekki að. Önnur regla er, að enginn kaupandi sé betri eða verri en peningarnir, sem hann veifar.

Stjórnin hangir á bláþræði

Punktar

Stjórnarmeirihlutinn féll í viðskiptanefnd. Helmingur Framsóknar greiddi atkvæði með stjórninni, hinn helmingurinn með Sjálfstæðisflokknum. Sýnir ljóslega, að ríkisstjórnin hangir á bláþræði. Hefur ekki þingstyrk til að ná málum fram á þingi. Davíð er enn við völd í boði Framsóknar. Stjórnin verður að rifa seglin og einbeita sér bara að tvennu. Í fyrsta lagi að koma Davíð og frjálshyggjunni frá völdum í peningamálum. Í öðru lagi að standa við lofaðar kosningar í apríllok. Til að koma Davíð frá þarf hún að leyfa Framsókn að stjórna bak við tjöldin. Svo er bara að fara í kosningaslaginn.