Author Archive

Leyndó gekk út í öfgar

Fjölmiðlun

Leyndarstefna hefur rutt gegnsæi til hliðar á mörgum stöðum og þannig klippt á þroska lýðræðis. Umsvifamesta stofnunin á því sviði er Persónuvernd, sem túlkar fé og eignir sem einkamál. Hún hefur valdið lýðræði á Íslandi miklum skaða. Önnur stofnun á því sviði er Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem heldur skjölum leyndum. Nú hafa menn skyndilega áttað sig á, að leyndin gengur út í öfgar. Alls staðar heimta menn meira gegnsæi. Meirihluti er á Alþingi fyrir auknu gegnsæi. Frumvarp um saksóknara gerir ráð fyrir afnámi bankaleyndar. Nú þarf líka að taka til á öðrum póstum leyndarstefnunnar.

Síðdegismartröðin mín

Punktar

Fékk martröð í síðdegisblundinum í gær. Var að horfa á hópmynd frambjóðenda Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi. Karlar með hálsbindi eftir tízku um miðja síðustu öld. Flestir með dulmagnað Mona Lisa bros, hún var með skemmdar tennur. Þeir líktust frambjóðendum í bæklingi Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum. Eins hálsbindi, eins lokuð bros, eins og Birgir eða Sigurður Kári. Vilja örugglega fara í stjórn með þeim. Vildu endilega fara út í fiskbúð fyrir mig. Ég treysti þeim ekki fyrir peningunum. Fann þó einn mann í lopapeysu og hann leysti málið fyrir mig. Martröðin linaðist.

Höftin virka ekki

Punktar

Gjaldeyrishöft Geirs og Davíðs virka ekki og munu ekki virka. Lítið rjátlast inn af gjaldeyri. Útflutningsatvinnuvegir selja gjaldeyri sinn svart. Hann kaupa erlendir seljendur jöklabréfa, sem þurfa að losna við krónur. Þetta er ólöglegt, en viðgengst samt. Raungengið á svarta markaðinum er mun lakara en gengið á opinberum bankamarkaði. Mánuðum saman þarf Seðlabankinn að puðra út erlenda gjaldeyrisforðanum. Honum er fórnað í fáránlega tilraun til að halda uppi óraunhæfu krónugengi. Jóhönnu og Öygard ber engin skylda til að halda þessu áfram. Tilraunin er löngu er orðin misheppnuð og hefur ekkert skánað.

Tregur útflutningur

Punktar

Búast má við erfiðum tímum í sölu útflutningsafurða. Viðskiptaríki okkar sogast æ þéttar inn í kreppu. Við slíkar aðstæður reyna allir að flytja inn minna af vörum. Sem dæmi má nefna Kínverja, er eiga miklar birgðir af áli, sem þeir niðurgreiða. Þar er því ekki markaður fyrir innflutt ár, til dæmis frá Íslandi. Árum saman verður álverð lágt og sala treg. Svipað er að segja um fiskinn, verðið verður lágt og sala treg. Þannig magnar erlend kreppa íslenzka hrunið, veldur okkur erfiðleikum við að afla gjaldeyristekna. Í þessu er þó einn ljós punktur, erlendar myntir lækka í verði eins og krónan.

Fjárglæfrar viðskiptavildar

Punktar

Við sjáum núna vel, að íslenzka útrásin og krosseignarhaldið var vonlaust dæmi fjárglæframanna. Þeir bjuggu til ímyndaðar eignir í viðskiptavild. Þannig bjó Björgólfur Thor Björgólfsson árið 2007 til ímyndaða viðskiptavild upp á 270 milljarða króna í Actavis. Öll þessi ímyndaða viðskiptavild var veðsett í topp til að afla spilapeninga til fjárglæfra. Íslenzku bönkunum var miskunnarlaust beitt í þessu skyni. Öll féll þessi spilaborg í fang þjóðarinnar í lok september í fyrra. Glæframennirnir eru flúnir brott með herfang sitt til aflandseyja. Börnin okkar og barnabörnin borga brúsann.

Samfellt kraftaverk

Punktar

Næst á undan Ferðafélaginu er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness merkasta félag landsins. Þar er ég auðvitað stofnfélagi. Félögin gefa út ársrit og var tímarit stjörnuskoðunarfélagsins að berast mér í gær. Eins og í fyrra er það fegursta tímarit landsins, fullt af flennistórum dýrðarljósmyndum úr himingeimnum. Pappírinn er að vísu ekki eins lostafullur og í fyrra, en er eigi að síður glæsilegur. Heiðurinn af tímaritinu á fyrst og fremst formaðurinn, Sævar Helgi Bragason. Hann er greinarhöfundur, ljósmyndari, prófarkalesari, hönnuður og umbrotsmaður. Ritið er samfellt kraftaverk hans.

All liðið er enn í boði

Punktar

All liðið er enn í boðiFékk kosningabækling Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi inn um lúguna í gær. Fékk létt áfall, þegar ég sá, að þingmennirnir eru allir í boði aftur. Ég heyri það sama um Björgvin á Suðurlandi, Kristján á Norðausturlandi. Í Reykjavík eru flokkseigendur búnir að skipta með sér þremur efstu sætunum. Eru kjósendur svo skyni skroppnir, að þeir láti bjóða sér allt sama liðið aftur? Þeir sem gerðu þjóðina gjaldþrota í sinnuleysi og hroka. Mér skilst, að liðið telji stjórnarslitin vera næga friðþægingu. En getur verið, að kjósendur muni í vor hafa gleymt ríkisstjórn Geirs og Samfylkingarinnar?

Sýndarveruleiki óraðaðra lista

Punktar

Þegar fjórflokkurinn er búinn að hafa prófkjör eða forval, býður hann ekki fram óraðaða lista. Þeir eiga að færa prófkjörin til sjálfra kosninganna og tryggja takmörkun við aðild stuðningsmanna. Heimild í kosningalögum fyrir óraðaða lista væri bara í þágu hins nýja flokks búsáhaldabyltingarinnar. Hún snerist sumpart um lýðræði af þessu tagi. Fjórflokkurinn kærir sig ekki um slíkt lýðræði og vill ekki breytt kosningalög. Sjálfstæðisflokkurinn tekur á sig að bregða fæti fyrir þau, en stuðningsflokkar stjórnarinnar sleppa fyrir horn. Frumvarpið er sýndarveruleiki stjórnarflokkanna og Framsóknar.

Leyndó í rannsóknanefnd

Punktar

Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið heldur ekki opinberar yfirheyrslur. Þótt það sé gert í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar. Formaðurinn telur hættu á, að þar með yrði rofinn þagnarmúr um fjármál einstaklinga. Páll Hreinsson er hlynntur þagnarmúrum. Samdi og túlkaði lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Þau fela í sér, að nánast ekkert sé gefið upp. Ég hef áður lýst vantrausti á, að nefnd Páls komizt að nothæfri niðurstöðu. Nú þarf gegnsæi, en ekki persónuleynd. Samkvæmt frumvarpi um saksóknara verður bankaleynd afnumin. Brottfall leyndar þarf að ná til vanhæfrar rannsóknarnefndar.

Fiskurinn kom í pottinum

Veitingar

Veitingastofan Dill kúrir notalega í kaffistofu Norræna hússins. Norrænt smart með svörtu gólfi og svörtum stólum, hvítum dúkum og teiknipappír á borðum. Risagluggar veita fínt útsýni yfir miðbæinn í hádeginu. Þá er súpa á 850 krónur, salat á 950 krónur og fiskur dagsins á 1.700 krónur. Súpan var kúmenkryddaður gulrótagrautur. Fiskurinn var soðinn þorskur undir ostþaki með lauk og fenniku og hýðiskartöflum, borinn fram í potti. Fín matreiðsla borin fram af fínni þjónustu. Gunnar Karl og Ólafur Örn heita fagmennirnir. Hafa líka opið þrjú kvöld í viku. Þá er dýr lúxusmatur, meira um það síðar.

Samskipti við aðra heima

Punktar

Samuel Huntington, stjórnmálafræðingur og rithöfundur, er frægastur fyrir bókina Clash Of Civilizations, sem kom út 1996. Hann heldur fram, að 21sta öldin muni einkennast af baráttu milli menningarheima. Einkum milli ríkja kristinna og múslima. Öfugt við Francis Fukuyama, sem skrifaði bókina End of History árið 1992. Fukuyama telur, að vestræn menning hafi sigrað aðra menningarheima og ráði framtíð mannkyns. Síðan hafa atburðir leitt í ljós, að Huntington hafði rétt fyrir sér. Vestræn menning er bara ein af nokkrum. Hún á í miklum erfiðleikum í samskiptum við aðra menningarheima.

Misheppnaði eftirlitsmaðurinn

Punktar

Viðtal Fréttablaðsins við brottvikinn forstjóra Fjármálaeftirlitsins vekur fleiri spurningar en það svarar. Jónas Friðrik Jónsson segir persónumiðjun hrunsins hafa tafið björgunaraðgerðir. Ég held hins vegar, að verkkvíði Geirs Haarde hafi tafið. Brýnt var að tala strax um gerendur hrunsins til að fá þjóðina í lið með stjórnvöldum. Það tókst ekki fyrr en Samfylkingin fór á taugum og sleit ríkisstjórninni fjórum mánuðum eftir hrunið. Almennt fellur Jónas í sömu gryfju og Davíð Oddsson. Báðir tala þeir um sig sem saklausa og valdalausa áhorfendur úti í bæ, en ekki sem misheppnaða eftirlitsmenn.

Ný kynslóð Blair-ista

Punktar

“Þið eruð ekki þjóðín”, sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir við andófsfólkið úr Samfylkingunni. Svo fékk hún þjóðina í skallann og neyddist til að slíta stjórnarsamstarfinu. Fór sjálf frá völdum í bili. Hún telur það nægja til að endurfæða Samfylkinguna. Meira þarf til. Hreinsa þarf út frjálshyggna Blair-ista, einkum Ingibjörgu sjálfa og Össur Skarphéðinsson. Hreinsa þarf út kjördæmispotara, einkum Kristján L. Möller. Hreinsa þarf út ráðherra og þingmenn flokksins og hleypa að nýju fólki, ekki nýrri kynslóð Blair-ista. Hugmyndafræði flokksins er í tætlum og endurfæðingin er öll í óvissu enn.

Algildar forskriftir hættulegar

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að losa sig við þá megintrú frjálshyggjunnar, að eftirlitslausir markaðir séu allra meina bót. Trúin á kenningakerfi kom í stað frjálsrar hugsunar. Hannesar landsins flettu upp í Friedman og Hayek, eins og aðrir flettu upp í Biblíunni eða Karli Marx. Algildar forskriftir eru alltaf hættulegar. Með hruni þjóðarinnar hrundi frjálshyggjan. Hún er samt enn í boði hjá Flokknum. Í endurkjöri eru þingmenn, sem hingað til hafa verið ofsatrúaðir og eru enn. Fáir þeirra hafa beðizt afsökunar á hruninu og það nær skammt. Á landsfundinum þarf flokkurinn að hafna ofstækismönnunum.

Evra eða ekki evra

Punktar

Lélegt haldreipi er í Kenneth Rogoff, sem segir evru mundu hafa reynzt okkur illa í hruninu. Hann bætir þó við, að evran hefði getað komið í veg fyrir hrunið. Þar með er ekki eftir miklu að slægjast fyrir evruandstæðinga. Ég hef ekki heyrt annað en, að tilvist evrunnar á Íslandi hefði getað hindrað hrunið. Margir fræðingar hafa sagt það. Hitt er svo flóknari hugsun, að evran hefði verið vond í hruninu, ef það hefði átt sér stað þrátt fyrir evru. Ég held, að allt þetta þýði á íslenzku, að við hefðum átt að vera búnir að taka upp evru fyrir löngu. Nú er það hins vegar ótímabært.