Author Archive

Græni liturinn dofnar

Punktar

Fall Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráherra úr fyrsta í þriðja sæti á framboðslista í Reykjavík er áfall grænna sjónarmiða. Nýir kjósendur vinstri grænna eru meira rauðir en grænir. Sem þýðir, að búsáhaldabyltingin er meira rauð en græn. Grænn litur flokksins hefur dofnað eins og hjá Samfylkingunni. Ríkisstjórnin er ekki græn. Hún fylgir álbræðslu- og hvalveiðisjónarmiðum Samfylkingar Össurar Skarphéðinssonar. Þar eru vinstri grænir í þögulli innri andstöðu. Verður erfitt til langs tíma, en eykur líkur á samstarfi flokkanna eftir kosningar. Þjóðin er því miður minna græn en talið var.

Viðræður – ekki aðild

Punktar

Vinstri grænir hafa færzt nær sjónarmiðum Samfylkingarinnar. Grænn litur flokksins hefur dofnað í stjórnarsamstarfinu. Þar hafa vinstri grænir ekki þol til að verja græn sjónarmið. Ekki heldur verður Evrópusambandið þröskuldur á næsta kjörtímabili. Vinstri grænir geta sætt sig við, að þjóðin ákveði niðurstöðuna. Þannig geta þeir fallizt á, að hindrunum sé rutt úr vegi og að rætt verði við sambandið um aðild. Í þjóðaratkvæðagreiðslu munu þeir hins vegar greiða atkvæði gegn aðild. Þetta er í samræmi við vilja þjóðarinnar í könnunum. Hún styður aðildarviðræður, en er andvíg aðild.

Erfðagóss Íslandshreyfingar

Punktar

Græn sjónarmið eru svo mikið á undanhaldi, að Ómar Ragnarsson hefur arfleitt Samfylkinguna að flokki sínum. Er hún þó laus við að vera grænn flokkur, fylgir í ríkisstjórninni álbræðslum og hvalveiðum. Ég kaupi ekki útskýringar Ómars á þessari undarlegu arfleiðslu. Að vísu er rétt, að græn sjónarmið ein og sér standa ekki undir heilum stjórnmálaflokki. En fyrr mátti rota en dauðrota með því að afhenda svörtum stjórnmálaflokki arfinn. Ég sé engin merki þess, að Samfylkingin sé að skána í umhverfsimálum. Var ekki betra að leyfa Íslandshreyfingunni að deyja í friði?

Gjaldþrot blasir við Helguvík

Punktar

Um leið og þingflokkar hoppa af frygð kringum fyrirhugað álver í Helguvík er eigandinn að verða gjaldþrota. Gengi hlutabréfa Century Aluminium er komið niður í einn dollar. Svipað og deCode Genetics. Brátt missir það skráningu í kauphöllum. Þá taka lánardrottnar það yfir. Það á Norðurál í Hvalfirði og Helguvíkurdæmið. Gengið var í 55 dollurum, þegar álbræðslan var tilkynnt. Þingflokkum væri nær að segja Suðurnesjamönnum frá þessu en gæla við græðgi þeirra. Ál selzt ekki næstu árin og bræðslur verða unnvörpum gjaldþrota, líka í Hvalfirði. Betra er selja orkuna netþjónabúum, sem eiga þó aur.

Allt er eins og áður var

Punktar

Samfylkingin staðfesti aldurhnigna stöðu sína í gær. Björgvin Sigurðsson ráðherra varð efstur í prófkjöri Suðurlands og Kristján Möller í prófkjöri Norðausturlands. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skammtaði sér, Össuri frænda Skarphéðinssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur efstu sætin í Reykjavík. Þannig hefur Samfylkingin ákveðið að bjóða upp á nákvæmlega sama lið og lá sofandi á vaktinni í hruninu mikla. Samfylkingin er semsagt sátt við þau, sem settu þjóðina á hausinn. Kannski er þjóðin það líka. Fær Samfylkingin aflátsbréf okkar fyrir það eitt að slíta ríkisstjórninni eftir fjögurra mánaða fúsk?

Kynjakvótar hala upp karla

Punktar

Konur röðuðu sér í efstu sætin í prófkjörum Vinstri grænna og Framsóknar um helgina. Vegna fléttustefnu njóta þær þessa ekki til fulls. Nokkrir karlar verða halaðir upp til að koma kynjajafnvægi á listana. Það er óheppilegt, því að konurnar sýnast mér vera mun hæfari en karlarnir. Kannski er þörf á kynjakvóta til að vernda stöðu verri hluta mannkyns. En eru það ekki karlar, sem eiga 90% sök á hruni þjóðarinnar? Er ekki einmitt þörf á, að konur taki við keflinu eins og nú er ástatt? Mér sýnist kynjakvóti vera ein af þessum handaflsaðgerðum, sem stundum geta truflað eðlilega framvindu stjórnmálanna.

Heimsk atvinnubótavinna

Punktar

Ég hef til marks um heimsku Íslendinga, að þeir trúa, að fullvinnsla auki verðgildi sjávarafla. Svo er ekki. Fiskur er því verðmeiri sem hann er líkari upprunalegu ástandi. Ferskur fiskur á Rungis í París er mun dýrari en nokkur unninn afli. Frosnu stautarnir fara í skóla og fangelsi. Raspið fer í kettina. Spriklandi fiskur er langdýrastur. Þegar ríkisstjórnin hyggst búa til atvinnutækifæri með fullvinnslu, býr hún ekki til nein verðmæti. Þvert á móti minnkar hún verð sjávaraflans. Aukin fullvinnsla sjávarafla er bara atvinnubótavinna. Hún er pólitískur fíflagangur, sem hæfir heimskri þjóð.

400 veikir á Feitu öndinni

Veitingar

Ég sagði ykkur um daginn frá The Fat Duck, brezka stjörnustaðnum. Honum var lokað vegna veikinda, sem virtust vera matareitrun. Þá höfðu 40 manns kennt sér meins, en þeir eru núna orðnir 400. Feita öndin er fulltrúi matreiðslu, sem komst í tízku um tíma. Hún byggist á efnafræðiþekkingu. Búin eru til furðufyrirbæri á borð við eggja-og-beikon ís. Þessi veitingahús voru afar dýr, þétt setin yfirmönnum fjármálastofnana. Nú er komin kreppa og fíflaleg matreiðsla er ekki lengur í tízku. Sem betur fer, því að hún hafði skaðleg áhrif á matreiðslumenningu Vesturlanda. Teygði áhrif sín hingað til lands.

Hún er hætt í pólitík

Punktar

Rétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að hætta í pólitík. Hún gerði nokkur mistök sem formaður Samfylkingarinnar. Eins og fleiri oddamenn flokksins tók hún upp Blair-isma, sem fól í sér frjálshyggju með ívafi af fasisma. Á þeim grunni fór hún í eitraða ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Eins en aðrir ráðherrar flokksins svaf hún af sér hrunið. Eftir það tók það hana fjóra mánuði að taka afleiðingum þess og slíta stjórninni. Það flækti málið, að þrjózka meinaði henni að sjá heildarmyndina. Í búsáhaldabyltingunni missti hún tökin á flokknum. Hann og hugmyndafræði hans eru núna í tætlum.

Engar rannsóknir á forsendum

Hestar

Nánast öll ræktunarhross fara í kynbótakeppni. Þar eru þeim gefnar tuttugu einkunnir, sumar fyrir gerð, aðrar fyrir kosti. Ræktunarmarkmið eru ljós, en forsendur þeirra eru yfirleitt huldar þoku. Á arnarnef eða söðulnef að hafa áhrif á ræktunareinkunn? Hvaða lögun á lend framkallar skeið eða tölt? Þótt hér séu risnir búnaðarháskólar, er ekkert um rannsóknir á forsendum ræktunarmarkmiða. Eru þær eiginlegar þessu kyni eða koma þær frá dönskum kerrubrokkurum? Skeiðlausir hestar fá oft hátt fyrir útlit, hvers vegna? Hátimbrað einkunnakerfi er marklaust, ef forsendur þess eru huldar þoku.

Siðlausir þingmenn láta illa

Punktar

Í fjóra mánuði eftir hrun aðhafðist ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins ekkert í vandræðum heimila og fyrirtækja. Nú hefur önnur ríkisstjórn verið önnum kafin við að útbúa þingmál vegna vandræða heimila og fyrirtækja. Samt saka þingmenn Sjálfstæðisflokksins stjórnina um aðgerðaleysi. Þeir eru siðlausir með öllu. Þeir vita, að kjósendur flokksins eru vitgrannir og trúfastir. Þeir muni styðja flokkinn, þótt þingflokkurinn yrði staðinn að mannáti. Staðreyndir skipta fjórðung þjóðarinnar engu máli. Hann gleypir við hverju rugli, sem frá Flokknum kemur. Þess vegna láta þingmennirnir svona illa.

Málfrelsi er takmarkað

Fjölmiðlun

Hæstaréttardómur í máli Goldfingers gegn Vikunni sýnir takmörk málfrelsis á Íslandi. Ekki var kannað, hvað hæft væri í ummælum, sem birtust, bara hvort ummælin væru kurteis. Löggan komst upp með að rannsaka ekki sannleiksgildi ásakana á hendur eiganda Goldfingers. Blaðamaðurinn mátti því ekki hafa sannleikann eftir viðmælanda sínum. Það er auðvitað ófær niðurstaða. Sem stafar af, að þingmenn hafa minni en angan áhuga á frjálsri blaðamennsku. Samt kvarta þeir um skort á rannsóknum í blaðamennsku. Er t.d. hægt að ætlast til, að sagt sé satt um Björgólfana undir hótunum Ásgeirs um málsókn?

Indíafari kennir mannasiði

Punktar

Lögfræðideild Landsbankans er ósátt við Ásmund Stefánsson Indíafara. Telja hann tala niður til sín og líkja sér við fangaverði í Auswitch. Þeir vilja ekki láta hann kenna sér mannasiði. Þeir líkja sér við miðasölumenn fyrir Titanic. Ég held, að mjög brýnt sé að kenna lögfræðideild Landsbankans mannasiði. Hins vegar hefði það verið auðveldara fyrir Ásmund, ef hann hefði byrjað strax að taka til hendinni í bankanum. Í stað þess að leggjast í mánaðarlanga ferð til Indlands. Það er dragbítur að hafa viðurnefnið Indíafari. Og lífið er alltaf erfitt fyrir þá, sem ráða sjálfa sig í vinnu.

Tveir elliflokkar

Punktar

Það er ekki Framsókn, sem er elliflokkur landsins, heldur Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn Stuðningur við þá tvo flokka er öfugur píramíði. Er mestur í elztu aldurshópunum og minnstur í þeim yngstu. Þeir eru eins og Mogginn, sem ekki er lesinn af fólki undir fertugu. Smám saman leiðir þetta til færri stuðningsmanna, því að þeir deyja fremur en annað fólk. Loks verða elliheimilin full af kjósendum Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar, sem stauta sig gegnum minningargreinar í Mogganum. Þegar flokkar byrja að eldast, er harðsótt að snúa því við. Með gömlu naglana enn við flokksvöld.

Þingmenn í kosningaslag

Punktar

Ríkisstjórnin hyggst halda Alþingi opnu fram eftir mánuðinum, þótt þing verði rofið. Jóhanna Sigurðardóttir segir svo mörg mál bíða afgreiðslu, að ekki sé hægt að hætta fyrr. Nefnir hún sérstaklega lög til stuðnings heimilum og fyrirtækjum í kreppunni. Ekkert er svo sem við því að segja, að þingmenn vinni meira en þeim er ljúft. Kosningabarátta þarf ekki að taka langan tíma, ef flokkarnir eru sammála um stutta baráttu. Langur slagur verður fljótt harla leiðinlegur. Flestir þingmenn eru hvort sem er komnir í harðan slag. Þess munu því miður sjást aukin merki í þingstörfunum.