Author Archive

Sumt tókst – annað ekki

Punktar

Búsáhaldabyltingin losaði okkur við vanhæfa ríkisstjórn, seðlabankastjóra og yfirmann fjármálaeftirlits. Hún færði okkur nýja ríkisstjórn, sem hefur tekið til hendinni eftir eymd og volæði hinnar fyrri. En búsáhaldabyltingin fékk ekki öllum sínum málum framgengt. Hún fær varla óraðaða lista í næstu kosningum, varla stjórnlagaþing og ekki nýja stjórnarskrá. Til þess er ekki nægur meirihluti á Alþingi. Eftir kosningar verður kannski nægur styrkur á þingi til að fá slíka hluti í gegn. En þá verða stuðningsmenn byltingarinnar að vanda sig mjög í vali á flokkum og þingmönnum í kosningunum í apríl.

Firrtasti þingmaðurinn

Punktar

Björgvin Sigurðsson segir Evrópusambandið aðalkosningamál Samfylkingarinnar. Hún muni velja sér samstarf eftir kosningar út frá afstöðu til aðildar. Ég hélt, að hrun heimila væri aðalmálið, en svo er ekki. Þarf fylkingin ekki að koma aga á trylltustu Blair-ista flokksins? Þá, sem hafa ekkert lært og engu gleymt. Sem dreymir um nýja stjórn með Flokknum. Ég hef ekki séð, að neinn flokksmaður hafi sett ofan í við Björgvin fyrir veruleikafirringu. Hún er í þessu svipuð og veruleikafirring hans var í hruninu í haust. Björgvin var endurkjörinn efstur á lista í Suðurkjördæmi. Er það í lagi, Samfylking?

Morfískar lægðir málþófs

Punktar

Í stjórnarandstöðu stunda vinstri grænir málþóf á Alþingi, en eru andvígir því í ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn andvígur málþófi, en fylgjandi því í stjórnarandstöðu. Eini munurinn er, að Flokkurinn sýnir áður óþekkta hugkvæmni í málþófi. Stundar það í málum, sem hann er sammála til að tefja fyrirtöku síðari mála, sem hann er andvígur. Stundar líka andsvör við eigin málþófi. Þannig hefur Flokkurinn náð morfískum lægðum í málþófi. Mér finnst fara þingmönnum hans vel að vera í málþófi. Þeir lifna við eftir áratuga drunga. Bráðum hoppa þeir á borðum og stólum Alþingis.

Ráðherrar heimsækja fífl

Punktar

Ekki skil ég, hvers vegna forsætis- og fjármálaráðherra heiðra Viðskiptaráð með nærveru sinni. Þetta er mesta fíflasamkoma landsins. Hefur árum saman heimtað meiri einkavæðingu. Einkum hefur það horn í síðu Íbúðalánasjóðs, sem er alger vin í eyðimörkinni. Allar hugmyndir og tillögur viðskiptaráðs hafa reynzt vera rugl eitt. Hafa framkallað kreppu. Eini tilgangur ráðherra á svona samkomu væri að lesa yfir hausamótunum á Erlendi Hjaltasyni og hinum fávitunum. Við þá á að tala með tveimur hrútshornum. Bezt væri, að ráðið færi huldu höfði í þrjú ár, meðan við erum að gleyma ábyrgð þess á hruninu.

Blair-istar kasta Jóhönnu

Punktar

Hver samfylkingar-þingmaðurinn á fætur öðrum talar sig út úr samstarfi við Vinstri græna. Fyrstur var Björgvin Sigurðsson og nú er það Ágúst Ólafur Ágústsson. Hann sagði í dag, að Samfylkingin ætti að gera aðild að Evrópu að skilyrði fyrir samstarfi eftir kosningar. Líklegra er, að Flokkurinn mikli uppfylli það skilyrði en Vinstri grænir. Mikilvægt er, að þetta sjónarmið skuli koma fram strax. Það segir okkur, að eftir kosningarnar í vor verður ekki samið um stjórn á félagslegum nótum. Það verður samið um stjórn á nótum Evrópusambandsins. Blair-istarnir ætla að kasta Jóhönnu við fyrsta tækifæri.

Rörsýn á mann

Punktar

Róbert Marshall pólitíkus og Egill Helgason álitsgjafi deildu snarplega í gær á vefnum um NFS sálugu. Það var skammlíf sífréttastofa hjá Stöð 2, stjórnað af Róbert. Í nokkrum atriðum rekur Egill mistök í rekstri NFS, einkum í Silfrinu. Í nokkrum atriðum rekur Róbert, hversu ómögulegur og leiðinlegur Egill sé. Egill talar um málefnið og Róbert talar um persónuna. Röksemdafærsla Róberts heitir reductio ad hominem, rörsýn á mann. Persónulegt skítkast kemur þá í stað raka. Það er sjaldgæf lágkúra erlendis, en skýtur furðanlega oft upp kolli hér á landi. Einkum meðal pólitíkusa.

Þrír velferðarhópar

Punktar

Hugmyndir ríkisstjórna um velferð í kreppunni beinast að þremur hópum, innistæðueigendum, skuldurum og skattgreiðendum. Fyrri ríkisstjórn gætti einkum hags innistæðueigenda. Jós fé í sjóð Illuga Gunnarssonar í Glitni. Lagði fé til ýmissa peningasjóða. Þar með komst ríkissjóður nánast í þrot. Núverandi ríkisstjórn leggur fé til skuldara. Hún segir 30.000 heimili ekki eiga fyrir skuldum. Lækningin setur ríkissjóð á hliðina. Allt þetta eiga skattgreiðendur næstu ára og áratuga að borga. Fyrri og síðari ríkisstjórn leysa vandann með því að senda reikninginn til barna okkar og barnabarna.

Verðlauna góðan mat ódýran

Ferðir

Michelin leiðsögubókunum um matarhús hefur farið fram. Þær eru ekki eins franskar og áður. Flest stjörnuhús bókanna í Evrópu hafa að vísu franska matreiðslu. En japanska bókin gefur japanskri matreiðslu fleiri stjörnur en franskri. Bækurnar eru því orðnar alþjóðlegi. Svo er óþarfi að taka trú á stjörnugjöfina. Bækurnar eru til fleiri hluta nytsamlegar. Um nokkurt skeið hafa matarhús fengið kokkahúfur (Bib Gourmand) í einkunn fyrir fínan mat þríréttaðan á 2000 krónur eða minna. Þeir, sem ekki eru fyrir nýklassíska myndlistareldhúsið (Bocuse) fá því ábendingar við sitt hæfi. Og mitt hæfi.

Bankagreifinn felldur

Punktar

Gunnar Páll Pálsson bankagreifi var felldur í kosningu til formanns VR, varð neðstur þriggja frambjóðenda. Það er frábært. Sýnir, að almenningur er ekki búinn að segja sitt síðasta orð í kröfunni um nýtt Ísland. Vegna kosninganna þóttist Lífeyrissjóður verzlunarmanna geta boðið eigendum lífeyris óbreyttar greiðslur á þessu ári. Þannig átti að fresta vondum fréttum fram yfir kosningar. Það tókst ekki. Fáránleg fjárfestingarstefna sjóðs og félags er flestum ljós. Þess vegna féll Gunnar Páll. Nú missir hann ýmsar sporzlur og lúxusbíl að auki. Það er sanngjarnt, hann er eitt af táknum græðgi og hruns.

Gylfi óttast þjóðina

Punktar

Álit mitt á Gylfa Magnússyni viðskiptaráðherra hrundi í Kastljósinu í gær. Hann gaf léleg svör við tveimur spurningum. Rangt var hjá honum að láta ríkið yfirtaka fjárfestingarbankann Straum. Það eykur byrðar barna okkar og barnabarna. Meira en nóg var að yfirtaka stóru bankana þrjá. Hann er líka kominn með pólitísku veikina, sem felst í ótta við fólkið. Hann vill ekki opinbera skýrslur endurskoðenda um aðdraganda bankahrunsins. Talar um, að þar séu ásakanir, sem einhverjir þurfi að geta svarað. Auðvitað geta þeir svarað, hvenær sem er. Gylfi er bara dauðhræddur við lýðræðislegt gegnsæi.

Landsvirkjun rúllar líka

Punktar

Gaman verður að sjá upplitið á sjálfstæðinu, framsókn og frjálslyndum, Össuri olíufursta og Björgvin Sigurðssyni. Ekkert ál hefur verið flutt út nokkra mánuði og ekkert verður flutt út næstu tvö ár. Geymslurnar eru að fyllast. Bræðslurnar eru sumar næstum komnar á hausinn, einkum Norðurál með Hvalfjörð og Helguvík. Síðan ramba Rio Tinto og Alcoa. Bræðslurnar hætta að lokum að geta borgað orkureikninginn og Landsvirkjun rúllar fyrir rest. Þingmenn verða settir í búr á Austurvelli fyrir að hafa heimtað álver. Sultardropar Húsvíkinga lengjast niður á bringu, ekkert álver á Bakka.

Flokkur andvígur fólki

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn er andvígur frumvarpi um stjórnskipunarlög. Honum finnst of dýrt að hafa hér stjórnlagaþing næstu tvö ár. Hann vill ekki, að náttúruauðlindir verði þjóðareign, að minnsta kosti ekki útgerðarkvótinn. Sjálfstæðisflokkurinn tekur alltaf hagsmuni hinna fáu fram yfir hagsmuni fjöldans. Hann er sérfræðingur í að nota atkvæði fátæklinga til að hlaða undir auðmenn. Þess vegna var ekkert gert í fjárglæfrum auðmanna frá hruni fram að stjórnarskiptum. Síðustu tvo áratugi hefur Sjálfstæðisflokkurinn rekið harða frjálshyggju og markvisst unnið að auknum aðstöðumun stéttanna.

Þessi undarlegi fjórðungur

Punktar

Fjórðungur íslenzkra kjósenda er bundinn Flokknum sem hann væri íþróttafélag og læonsklúbbur og Microsoft. Fólk er sjálfstæðisfólk af lífsstíl. Það er yfirlýsing um aðild að yfirvaldinu. Slíkt hentar yfirleitt í vinnunni, enginn er rekinn út á slíka pólitík. Þessi fjórðungur mundi styðja flokkinn, þótt þingmenn hans væru staðnir að mannáti. Að styðja Sjálfstæðisflokkinn er sumpart eins og að styðja KR. Sumpart eins og að vera í Læons. Sumpart eins og að nota Windows. Fjórðungur þjóðarinnar styður því Flokkinn sinn, þótt oddvitar hans og einkum stefna hans hafi gert þjóðina gjaldþrota.

Mannasiðabókin mín

Punktar

Systir mín gaf mér mannasiðabókina Esquire Etiquette, er ég varð átján. Þar var gnægð gagnlegra upplýsinga um, hversu langt líningar ættu að standa fram úr jakka í kjólfötum. Kafli var um framgöngu í hanastélum. Ég átti að koma þremur kortérum of seint, vera í hálftíma og fara þremur kortérum fyrir boðslok. Einn hring átti ég að fara réttsælis um salinn á hálftímanum til að hitta alla, sem máli skiptu. Sem betur fer lásu ekki aðrir bókina, þá hefðu hanastélin orðið skrítin. Síðar lærði ég viðbótarreglu um hljóðnema-afmæli. Skrifa nafnið í gestabók og fara síðan, áður en ræður hefjast. Frábær regla.

Jóhanna verður formaður

Punktar

Þótt henni sé það óljúft, neyðist Jóhanna Sigurðardóttir til að taka við formennsku af Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttir. Við aðstæður, þar sem enginn framámaður Samfylkingarinnar nýtur trausts, er Jóhanna eina skjólið. Hún hefur breitt bak með teflon-húð, sem flokkurinn þarf að misnota næstu tvö árin. Allir aðrir, sem girnast embættið, eru vanbúnir, benda á hana. Þar á meðal Dagur, Lúðvík og Jón Baldvin. Hún verður að þola að bera gamlan vanhæfnisflokk á bakinu. Þola að þreyja þorrann meðan hann sleikir sárin. Ég sé ekki, að hún geti hafnað örvæntingu laskaðs flokks á gjörgæzludeild.