Author Archive

Við lifum á vitfirringahæli

Punktar

Við sjáum, að bankarnir voru reknir af blöndu glæpa og glapræðis. Þeir voru miðstöð sjálftökumanna. Eigendur hirtu allt fyrirfinnanlegt fé og lánuðu sér gegn marklausum veðum. Stjórarnir höfðu frumkvæði að skattaskjólum til að stela undan skatti. Þeir höfðu frumkvæði að kúlulánum, sem áttu að gera menn að millum með veði í verðlausum einkahlutafélögum. Rekstur einkabanka var samfellt svínarí fram að hruni. Samt ganga bankastjórar og deildarstjórar bankanna enn lausir. Viðskiptaráðherra er sallarólegur og talar um afnám bankaleyndar á næsta kjörtímabili. Við lifum semsé enn á vitfirringahæli.

Réttur maður á réttum stað

Punktar

Tryggvi Þór Herbertsson átti sér langa sögu, áður en hann varð þingmannsefni Sjálfstæðisflokksins. Einu sinni hét hann Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og gaf verkkaupum hvaða álit, sem þeir vildu fá. Af því varð hann svo vinsæll, að hann var settur yfir banka. Þar fékk hann kúlulán, en reksturinn gekk á afturfótunum. Síðan varð hann efnahagsráðgjafi Geirs Haarde og þjóðin fór umsvifalaust á hausinn. Þá var kominn tími á mann, sem sér alls staðar bjartar hliðar og fínar lausnir. Flytur arfavitlaust kosningayfirboð, leggur til 20% afskrift allra skulda. Með 800 milljarða kostnaði á börnin okkar.

Sex kílómetra stríðið

Punktar

Ekki er tekið út með sældinni að höndla sannleikann og stunda trúboð í öðrum hreppum. Nokkrir Vesturbæingar hafa reynt að siðbæta Seltirninga, kenna þeim að synda í O, en ekki í I í Seltjarnarneslauginni. Heimamenn hafa skipað í varnarsveit gegn trúboðum. Fulltrúar hins gamla siðar synda samhliða Vesturbæingum í Seltjarnarneslauginni, hindra þá í að synda í O. Síðasta sunnudagsmorgunn synti helzti kappi Seltirninga sex kílómetra samfleytt við hlið hringorms og fóru báðir geyst. Trúboðið gekk líka tregt hjá Þorvaldi víðförla og Páli postula. Fylgist með framvindu máls málanna á jonas.is.

Bankastjóri þyrlar ryki

Punktar

Sigurður Einarsson bankastjóri þyrlar upp ryki á flótta undan réttvísinni. Hann skýtur upp hinum hataða Davíð Oddssyni til að rugla okkur í ríminu. Sigurður vill auðvitað bankaleynd sér til verndar og ræðst gegn afnámi hennar. Ljóst er vegna harðra ummæla Evu Joly saksóknara, að séríslenzk bankaleynd verður afnumin. Það skelfist Sigurður og reynir að fæla menn af leið. Vandinn er ekki, að komizt hafi upp um Lúðvík Bergvinsson, Björn Inga Hrafnsson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Vandinn er hinn, að ekki hefur komizt upp um aðra. Bankaleyndina ber að afnema, ekki bráðum, heldur strax.

Bullað um kynslóðaskipti

Punktar

Ólafur Harðarson misles úrslit prófkjöra, þegar hann telur kynslóðaskipti vera aðalmálið. Það er, að upp færðust nokkrir, sem hafa lengi verið á biðlista valdanna. Nýju mennirnir eru eins gamlir í sér og hinir gömlu voru. Engin breyting hefur orðið á tveimur flokkum hrunsins, Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Jóhanna Sigurðardóttir verður að vísu nýr formaður, en hún er einstæðingur í flokki sínum, umkringd frjálshyggjugaurum. Og hún felur ekki í sér neina nýja kynslóð. Megineinkenni prófkjöranna er, að í flokkunum er allt við sama heygarðshornið. Alls ekki að þar hafi orðið kynslóðaskipti.

Minningargrein um Össur

Fjölmiðlun

AMX er fréttastofa, sem ég nota mikið, einkum slúður smáfuglanna. Hún er utarlega á hægri kantinum og slær skjaldborg um Sjálfstæðisflokkinn. Afar sjaldan er ég sammála henni. En hún er áheyrileg og fundvís á skemmtileg og gagnleg skot. AMX segist vera fremsti fréttaskýringavefur landsins. Slíkt væri kokhreysti hjá hverjum, sem það fullyrti, en það stuðar mig ekki. Er bara eins og að segja, að malt sé nærandi og styrkjandi og bæti meltinguna. AMX.is auðgar frétta- og slúðurflóruna. Þar er ágæt minningargrein um Össur Skarphéðinsson og um söluna á sálu Framsóknar fyrir 300 milljónir króna.

Bankaleynd afsköffuð á klukkutíma

Punktar

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir fráleitt, að bankaleynd nái yfir hundraða milljarða lán banka til eigenda sinna. Hann vill setja lög, sem banni slíka túlkun. Hann vill bara ekki gera það strax, gerð frumvarps taki langan tíma. Hann segir það vera verkefni eftir kosningar. Hvað er maðurinn að tala um? Veit hann ekki, að samfélagið er núna á hvolfi út af misnotkun bankaleyndar. Tryggja þarf, að hún spilli ekki rannsóknum núna. Ekki bara einhverjum rannsóknum á næsta kjörtímabili. Það tekur bara klukkustund að þýða lista frá Evu Joly og leggja fram frumvarpið strax. Strax á morgun.

Svokallað aukið gegnsæi

Punktar

Alþingi samþykkti í dag lög um leyndó í störfum Fjármálaeftirlitsins. Þau eru sögð fjalla um “aukið gegnsæi”. Samkvæmt þeim má ekki birta upplýsingar, sem stofnunin telur stefna hagsmunum fjármálamarkaðarins í hættu. Sú spillta stofnun telur allar upplýsingar stefna slíkum hagsmunum í hættu. Mér sýnast lögin staðfesta afkáraleg störf stofnunarinnar til þessa. Þingmenn hafa verið rækilega úti að aka í dag. Þetta minnir á lögin um upplýsingaskyldu stjórnvalda, sem lokuðu á allar upplýsingar. Höfundur og túlkuður þeirra er núna formaður rannsóknarnefndar Alþingis. Við eigum því ekki von á góðu.

Byr fái engan byr

Punktar

Í fyrra greiddu stjórnendur bankans Byrs eigendum bankans samtals þrettán milljarða króna í arð. Það eru 13.471.000.000 krónur, stjarnfræðileg tala. Í kjölfarið fór Byr að ramba og biður nú um tuttugu milljarða króna aðstoð frá ríkinu. Þetta er það frekasta, sem ég hef heyrt af græðgi banka. Viðbrögðin eiga að vera þessi: 1. Ríkið leggur ekki fram krónu. 2. Byr fer á hausinn. 3. Kröfuhafar sækja stjórnendur og eigendur til saka og endurgreiðslu arðs. 4. Stjórnendur, eigendur og Fjármálaeftirlitið dæmast til endurgreiðslu og fangavistar fyrir þjófnað. Taka verður á frekjudöllum af þessu tagi.

Fox varar við búsáhöldum

Fjölmiðlun

Fox er mest notaða sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum. Hún er í eigu Rupert Murdoch fjölmiðlakóngs og er yzt á hægri kantinum. Ber mikla ábyrgð á forheimskun Bandaríkjamanna síðasta áratuginn. Stöðin birti um daginn skrá yfir fimm hættulegustu lönd í heimi. Þau sem Bandaríkjamenn skyldu alls ekki heimsækja. Ísland var eitt af þeim, vegna búsáhaldabyltingar. Fréttin segir margt um áreiðanleika sjónvarpsstöðvarinnar. Hins vegar þýðir ekki að reyna að leiðrétta. Fox leiðréttir sig aldrei. Er eins og Sjálfstæðisflokkurinn.

Glæpamenn gömlu bankanna

Punktar

Eva Joly telur afgerandi líklegt, að stjórnendur gömlu bankanna séu sekir um lögbrot. Hún bendir á atriði í gerðum þeirra, sem í öðrum löndum hafa farið saman við aðra glæpi. Hún telur líklegt, að svo sé einnig hér. Íslenzkir bankastjórar ýktu eignir banka og eigenda, bjuggu til lygavefi, stofnuðu illa lyktandi félög í skattaskjólum. Slíkt er ávísun á glæpahugsun. Hún treystir ekki íslenzkum rannsakendum, segir útlendinga hafa meiri reynslu af svona glæponum. Nýja ríkisstjórnin á að hlusta á þetta. Hún á að fá erlenda aðilda ótengda Íslandi til að stýra rannsókn á glæpamönnum gömlu bankanna.

Greiðslur fyrir fréttaskot

Fjölmiðlun

Áratugina, sem ég var ritstjóri DV, tók blaðið aldrei við greiðslum fyrir birtingu efnis. Auglýsingar voru sér og ritstjórnarefni var sér og aldrei hittust þessi atriði. Lengst af greiddi blaðið hins vegar lága upphæð fyrir fréttaskot, sennilega um 5.000 krónur á núverandi verðlagi. Fréttaskotin voru auglýst daglega á baksíðunni. Þau höfðu sérstakan síma og sérstaka vakt bak við símann. Blaðið greiddi ekki fyrir viðtöl, þótt Egill Helgason og Páll Ásgeir Ásgeirsson segi það. Enda nefna þeir ekki dæmi. Greiðslurnar voru bara fyrir fréttaskot, sem blaðamenn tóku síðan og fengu staðfest eða ekki.

Framsókn betri en Samfylking

Punktar

Formaður Framsóknar hefur lýst Sjálfstæðisflokkinn óstjórntækan, vill ekki starfa með honum. Enda er sá flokkur fastur á harðlínu, kennir prentvillu hjá Evrópusambandinu um hrun Íslands. Hins vegar vill varaformannsefni Samfylkingarinnar ganga óbundinn til kosninga. Árni Páll Árnason telur það heppilegt. Björgvin Sigurðsson tekur Evrópu fram yfir heimilin. Hvorugur er krati, þetta eru frjálshyggjumenn, Blair-istar, sem dreymir um nýja stjórn með Sjálfstæðinu. Kjósendur mega gæta sín á Samfylkingunni í kosningunum. Framsókn er skárri kostur í stöðunni. Kjósendur verða að vita, hvað þeir fá.

Minnisvarðar einkavæðingar

Punktar

Þegar Augusto Pinochet var einræðisherra Chile, var vatn einkavætt að kröfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins árið 1981. Hann taldi einkavæðingu allra meina bót. Smám saman hefur komið í ljós, að hún var þvert á móti skelfileg. Ýmsir bæir urðu vatnslausir og aðrir urðu mannlausir. Fátæklingar hafa ekki efni á að kaupa vatn. Frá þessu segir í International Herald Tribune. Sérfræðingar í Chile eru sammála um, að einkavætt vatn sé ekki sjálfbært. Það leiddi til ofnýtingar og vatnsþurrðar. Vistvæn sjónarmið viku fyrir frekju auðhringja. Vatnið í Chile er minnisvarði um einkavæðingu. Eins og bankarnir á Íslandi.

Glæst útkoma vanhæfra

Punktar

Í stórum dráttum staðfestu prófkjörin traust kjósenda hrunflokkanna á þeim vanhæfu, sem stóðu vaktina í hruninu. Með fáum frávikum fengu þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðis og Samfylkingar glæsta útkomu. Samfylkingin er heldur álbræðsluvænni og minna vistvæn en hún var, þegar Íslandshreyfingin gekk til liðs við hana. Sigurvegarar prófkjöranna voru flestir frjálshyggnir fram yfir hrunið. Ég mundi treysta þeim illa, en kjósendur flokksins eru sáttir við þá. Hræddur er ég um, að væntanlegir samstarfsaðilar eftir kosningar þurfi fljótt að krefjast afgerandi yfirlýsinga Samfylkingar um samstarf.