Author Archive

Tveir reiðilestrar Reynis

Fjölmiðlun

Reiðilestur Reynis Traustasonar í leiðara DV í dag um vinstri pólitík minnir á reiðilestur hans um vantrúarhunda fyrr í vetur. Hvort tveggja var ólíkt Reyni og ólíkt hversdagslegum stíl blaðsins. Flestir játa, að í senn þurfi að hækka skatta og spara í ríkisrekstri. Flestir játa, að vinnuaflsfrekar aðgerðir á kostnað ríkisins henti í slæmri stöðu. Það er eins og Reynir vilji herða atvinnuleysið. Að hætti frjálshyggju kallar hann félagslegar aðgerðir fátæktargildru. En þjóðin er komin í nýjan fasa núna. Hún mun hvorki trúa róttækum hægri texta gegn vantrú né gegn félagslegum lausnum.

Benjamínsást fjölmiðlunga

Fjölmiðlun

Ógeðfelldur er áhugi fjölmiðla á sífelldum viðtölum við kjaftforan Benjamín Þór Þorgrímsson. Það er eins og hann sé sérstakur vinur fjölmiðla. Frægastur er Benjamín fyrir að hafa nauðgað barni og látið félaga sinn halda barninu á meðan. Það eitt sýnir persónu Benjamíns. Fyrir nauðgunina var hann dæmdur. Nú hefur hann verið dæmdur fyrir að misþyrma manni. Í millitíðinni var hann innanbúðar hjá World Class. Enn rífur Benjamín kjaft og enn eru fjölmiðlar fullir af einhliða viðtölum við hann. Á Benjamíns-ástinni aldrei að linna? Hvaða sálsýki er þetta hjá viðkomandi fjölmiðlum? Málgagn hans er visir.is.

Rannsókna-fúsk á leiðarenda

Punktar

Rannsakendur hafa ekki notað aðgang að sérfræðingum í fjármagnsflutningum, skattaskjólum og peningaþvotti. Samt hefur slíkur aðgangur staðið til boða síðan í september. Þetta er enn eitt dæmið um framhald á seinagangi, sem markaði störf rannsóknaraðila í tíð fyrri ríkisstjórnar. Ég efast um, að nýja ríkisstjórnin hafi efni á að hafa aumingja eina í rannsóknum á hruni bankanna. Einkum hefur sérstakur saksóknari í þeim efnum hagað sér eins og vofa. Sumir eru svo vanhæfir, að þeir verða ekki lagaðir með áminningum og eftirrekstri. Þeim verður að skipta út, þeir eru arfur vanhæfrar stjórnar.

Tvö slæm formannsefni

Punktar

Kristján Þór Júlíusson er fulltrúi útgerðar- og kvótakónga í innsta hring Sjálfstæðisflokksins. Þjóðin kann þessum greifum litlar þakkir fyrir að hafa náð af henni auðlind hafsins og veðsett hana útlendingum. Ég held, að hann verði slæmur formaður Flokksins. Keppinautur hans er Bjarni Benediktsson, sem er inngróinn og sérvalinn formaður flokkseigenda. Hann er fulltrúi gamla peningavaldsins í Flokknum. Hann verður líka slæmur formaður. Munur þeirra tveggja er, að Bjarni er opnari fyrir Evrópusambandinu. En það er því miður eitraður þáttur stjórnmálanna um þessar mundir, Bjarna ekki til velfarnaðar.

Óskabarnið er fallið

Punktar

Útrásarævintýri Sjálfstæðis og Framsóknar hjá Reykjavíkurborg dregur þungan dilk á eftir sér. Iceland America Energy, bandarískt félag í eigu REI, er við gjaldþrot. Tæplega tveggja milljarða króna fjárfesting Orkuveitunnar er glötuð. Fallið er óskabarn Vilhjálms Vilhjálmssonar, þáverandi borgarstjóra, og Björns Inga Hrafnssonar, sem þá var erfðaprins Framsóknar. Hann er núna ritstjóri Markaðarins, málgagns útrásarvíkinga á Stöð 2. Þótt þeim mistækist að gefa REI mannauð Orkuveitunnar, koma í ljós eftirhreytur misheppnaðrar græðgisvæðingar Reykjavíkurborgar. Verður nokkur látinn sæta ábyrgð þarna?

Leiðinlegur Nyhedsavisen

Fjölmiðlun

Höfundar bókarinnar um Nyhedsavisen átta sig ekki á tveimur stærstu göllum blaðsins. Í fyrsta lagi gekk íslenzka módelið ekki upp. Dreifing í hús er flóknari í Danmörku en á Íslandi. Fleiri búa þar í fjölbýlishúsum, þar sem gilda strangar reglur um dreifingu á frípósti. Nyhedsavisen neyddist að hluta til að dreifa eins og önnur fríblöð og þá var sérstaðan fokin. Í öðru lagi var danska framlagið, ritstjórnin, alveg misheppnað. Nyhedsavisen var frámunalega leiðinlegt blað sterílt með eindregnum langhundum. Ég nennti aldrei að lesa það. Höfundar bókarinnar eru lélegir dómarar í eigin sök.

Pétur: Fé án hirðis

Punktar

“Fé án hirðis” eru einkunnarorð Péturs H. Blöndal alþingismanns. Einkavæðing Spron var honum hjartans mál. Flutti það víða sem álitsgjafi í fjölmiðlum. Oft var Pétur meiri spámaður frjálshyggjunnar en sjálfur Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Pétur taldi sparisjóði vonlausa. Þar bæri að innleiða gróðafíkn bankanna. Honum tókst það, Spron var einkavæddur. Stjórnin eignaðist hlutabréf, sem hún seldi á loftbóluverði í tæka tíð. Guðmundur Hauksson sparisjóðshirðir var eins gróðafíkinn og lærifeðurnir í Kaupþingi. Spron fór á dúndrandi hausinn, er orðinn ríkisbanki. Dæmigert hrun frjálshyggjunnar.

Segja Davíð verstan

Punktar

Dagens Nyheter telur Davíð Oddsson langversta seðlabankastjóra í Evrópu. Hann hafi sem forsætisráðherra smíðað hagkerfi, sem við köllum frjálshyggju. Síðan tók hann að sér sem seðlabankastjóri að varðveita kerfið. Það tókst ekki, spilaborgin hrundi yfir hann. Dagens Nyheter finnst athyglisverðast, að Davíð finni enga sök hjá sjálfum sér. Hann telji kreppuna öllum öðrum að kenna. Vísar í marklausa minnismiða, sem hann vill ekki sýna öðrum. Dylgjar um vitneskju, sem hann vill ekki segja frá. Dagens Nyheter telur engan seðlabankastjóra komast nálægt Davíð, þótt margir hafi staðið sig illa.

Alvaran búin – grínið kemur

Punktar

Spaugstofan er að fara í frí. Á tíma kosningabaráttu telur Ríkisútvarpið óráðlegt að hafa þátt um alvöru lífsins í pólitík. Í staðinn verður grínið innleitt, kosningabarátta. Búnir verða til þættir, þar sem pólitíkusar segja ekki satt orð, hver um annan þveran. Smám saman á að skafa raunsæið af áhorfendum og leiða þá inn í heim ímyndana. Guðlaugur Þór Þórðarson er farinn að kenna vinstri grænum um hrunið. Þótt hann hafi sjálfur verið við völd. Þannig verða næstu vikur eins og hjá Lísu í Undralandi. Vont er að hafa alvöru lífsins í boði á Spaugstofunni á tíma botnlausrar gamansemi.

Sama skoðun í þrjátíu ár

Punktar

Í flestu hef ég skipt um skoðun á löngum tíma. Ekki frá degi til dags heldur á áratug eða lengri tíma. Sem álitsgjafi í hálfa öld hef ég aðrar skoðanir núna en ég hafði upp úr síðari heimsstyrjöldinni. Viðhorfin til frjálshyggju eru gott dæmi um það. Á einu sviði hef ég þó haft sömu skoðun í þrjátíu ár. Það er skoðun mín á kostum og löstum veitingahúsa. Ég tók 1980 upp kenningar Cousine Nouvelle, frönsku bylgjunnar, sem fór þá eins og eldur í sinu um Frakkland. Hún var afbökuð á ýmsan hátt og sigldi í strand vegna rangra viðbragða neytenda. Ég tel enn, að sú matreiðsla sé langsamlega bezt.

Skapandi færi í fimm borgum

Punktar

Skapandi stétta bíða tækifæri erlendis, þegar kreppir að hér heima. Ekki þarf að fara lengra en til Kaupmannahafnar. Þar er fullt af fyrirtækjum, sem skortir starfsfólk í hönnun og sköpun, tölvum og þekkingu. Næst kemur Barcelona, sem hefur svipað aðdráttarafl. Síðan koma Amsterdam, Dublin og Vínarborg. Flestar þessar borgir eru Íslendingum að góðu kunnar. Samkvæmt rannsókn á vegum Hamborgar eru þetta fimm borgir tækifæranna. Tilefni rannsóknarinnar var, að Hamborg vildi finna, hvernig hún gæti komizt í þennan úrvalsflokk. Þar sem 42%-65% mannaflans eru í skapandi greinum.

Gegnsæi án heimsendis

Punktar

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn tregðuðust lengst við að gefa upplýsingar um fjármál sín og styrkjendur. Sjálfsagt hafa þeir talið þetta vera viðkvæm einkamál. Nú hafa þeir gefizt upp og fjármálin orðin gegnsæ. Birtar eru gamlar tölur frá 2007. Vonandi gengur betur að svæla út tölur ársins 2008. Og hvað hefur gerzt, eru menn í sjokki? Því fer fjarri, fólk les bara listana án þess að gera sér rellu út af, hver styrkir hvern. Eina fréttin var, að Neyðarlínan styrkti bara Sjálfstæðis, og er það raunar vel við hæfi. Gegnsæið er ekki eins skelfilegt og óvinir þess hafa haldið fram.

Bjarni Ben er freistarinn

Punktar

Bjarni Benediktsson formannsefni boðar í Fréttablaðinu í dag stuðning við umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það mun freista margra framámanna í Samfylkingunni. Þeir eru meðteknir af sambandinu, telja það allra meina bót. Þessir aðilar munu hamla gegn yfirlýsingu flokksins um óbreytt samstarf um ríkisstjórn eftir kosningar. Vinstri grænir og Framsókn hafa lýst andstöðu við samstarf við Sjálfstæðið, en Samfylkingin hefur ekki gert það. Að vísu hafa flokksfélögin á Ísafirði og Bifröst gert það, líklega til að knýja flokkinn til að gera upp hug sinn. En suma langar enn í nýja hrunstjórn.

Ábyrgðarmenn kúlulánanna

Punktar

Yfirmenn banka gáfu kúlulán. Lántakandi var einkahlutafélag, sem átti ekki krónu og gat ekki endurgreitt. Var vitað frá upphafi. Gæludýr innan og utan bankans fengu lánin. Galdra átti fé út úr engu. Lánin mundu endurgreiðast af fríðindum við kaup og sölu hlutabréfa í bönkum og eignarhaldsfélögum. Það var sjúk hugsunm málsaðila. Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri hélt sig þannig hafa eignazt 850 milljónir. Þorbjörg Katrín Gunnarsdóttir trúði líka, svo og Björn Ingi Hrafnsson. Þetta var einfaldur stuldur. Yfirmenn í bönkum svínuðu á hagsmunum bankanna. Því eru þeir ekki strax dregnir til ábyrgðar?

Misvísandi vefsíðumælingar

Fjölmiðlun

Modernus er íslenzka vefsíðumælingin, mælir notendur, innlit og flettingar, notuð af fyrirtækjum, sem hafa ráð á því. Stóru fjölmiðlarnir kynna einkum flettingar og hafa gert þær að staðli, sem flestir nota. Sá galli er á, að skrautlegar síður með ljósmyndum, teikningum og auglýsingum mæla fleiri en eitt innlit eða eina flettingu í hverri síðu. Allt upp í tíu innlit eða flettingar á síðu. Þetta er svo sem í lagi, þegar stórir og skrautlegir miðlar á netinu eru bornir saman. En virkar of stórt í samanburði við einyrkja, sem eru bara með texta á sinni heimasíðu og ekkert skraut.