Honum er aldrei ofgert

Hestar

Ferðahestar verða til með þjálfun. Þeir hlaupa 30-60 kílómetra á dag, þar af að minnsta kosti 10 kílómetra undir manni. Oft á erfiðum gangi, tölti, sem þeim er ekki eiginlegt. Ferðahestur vill samt alltaf meira. Hann er hress að kvöldi sem morgni. Það stafar af, að honum hefur aldrei verið ofgert. Hægt er að taka fjögurra vetra hest og byrja að láta hann taka þátt í ferðum. Ef áreynslan er hverju sinni í hófi, þroskast hesturinn á nokkrum sumrum að þoli og þreki. Hestur, sem þannig er þjálfaður, finnur, að hann ræður við öll verkefni. Verður glaður og frískur. Ókvíðinn hestur er ferðagæðingur.

Meirihlutinn þarf að vera vís

Punktar

Ef ríkisstjórnin ætlar að keyra nýjan IceSave samning gegnum Alþingi, verður hún að vera viss um meirihlutann. Alls ekki gengur að skríða með ýmsum hætti gegnum einstaka liði laganna eins og um jólin. Með traustum meirihluta er leiðin fær, ef brezkir og hollenzkir viðsemjendur sætta sig við hana. Að öðrum kosti verður að setja IceSave í salt í nokkrar vikur eða mánuði. Fá með afbrigðum heimska þjóð til að skilja, hvað hangir á erlendu lánsfé, sem ekki fæst. Einhvern tíma neyðist fólk til að skilja, að endurreisn er háð lánsfé, sem ekki fæst núna. Nema með friðarsamningi við alþjóðasamfélagið.

Kaþólska kynórakirkjan

Punktar

Umfram flesta kristna söfnuði er kaþólska kirkjan heltekin af kynórum. Heilagur Ágústínus velti sér í þyrnirunnum til að hemja stjórnlausan losta. Vegna kröfu um skírlífi lifa liðþjálfar kaþólskunnar á jaðri kynóra. Þeir lýsa sér ótrúlega oft í barnaníði. Víða um heim sækir kaþólska kirkjan ágjöf af þessum sökum, mest í Bandaríkjunum og Írlandi. Nú hafa böndin borizt að Páfagarði. Stephen Fry hneykslaðist um daginn á ógeðfelldum viðbrögðum Ratzinger páfa við óeðli liðþjálfanna. Sem páfabróðir er viðriðinn. Ég hef enga trú á, að neitt mark verði framvegis tekið á þessari kynórakirkju.

Lækkum laun flugumferðarstjóra

Punktar

Óbragð er að stuðningi samtaka opinberra starfsmanna og háskólamanna við landráðamenn í flugumferðarstjórn. Þeir eru með hæst launuðu stéttum og misnota aðferðir öreiganna. Telja sig hafa haustak á þjóðinni, sem þarf stöðugar gjaldeyristekjur af ferðamönnum. Ríkisstjórnin á að hafa tilbúið frumvarp um bann við verkfalli flugumferðarstjóra og um lækkun launa þeirra. Verður vafalaust samþykkt á Alþingi, þar sem þorri þingmanna fyrirlítur verkfallshetjurnar. Frá því ég man eftir mér hafa þeir skorið sig frá öðrum í linnulausri græðgi og misbeitingu verkfallshótana. Lækkum laun þeirra.

Skattgreiðendur borga ekki meira

Punktar

Hvernig sem menn vilja slá skjaldborg um heimilin, þá verður það ekki gert á kostnað skattgreiðenda. Það er að segja, ríkið tekur ekki að sér að færa niður skuldir fólks um einhverja prósentu. Ríkið á engan pening til þess og fer raunar samt á hausinn á næsta ári. Ríkið komst í botnlausa skuld á valdatíma Geirs Haarde. Mest af henni fór í að gera upp gömlu bankana og koma þeim nýju á flot. Útistandandi eignir bankanna fóru á hálfvirði í nýju bankana. Þess vega er sagt, að bankarnir eigi að lina þjáningu fólks. Þeir tregðast hin vegar við. Bankastjórana þarf að tugta til góðrar hegðunar.

Alhambra var himnaríki

Ferðir

Márar frá Sahara byggðu Alhambra-kastala í Granada á Spáni. Þegar þeir komu til Spánar, urðu þeir hugfangnir af rennandi vatni. Þeim fannst þeir vera komnir til himnaríkis. Er þeir reistu kastalann, veittu þeir vatni í stokk til hans og létu læki hríslast um stofur og garða. Þessi mannvirki standa enn. Þau eru minnisvarði um mesta lúxus heims í huga eyðimerkurbúans. Hér á Íslandi gerum við okkur ekki grein fyrir gildi rennandi vatns. Við höfum svo mikið af því. En ég er samt hissa á, að forfeður okkar skyldu ekki veita vatni í stokkum inn í hús. Sérstaklega á stöðum með heitu yfirborðsvatni.

Rammaáætlun til skammar

Punktar

Ómar Ragnarsson bendir á stórgalla í nýrri rammaáætlun um orkuver. Hún tekur ekki tillit til gildis jarðmyndana á heimsvísu. Er þó Ísland eitt af 40 náttúruundrum heimsins. Hún tekur ekki heldur tillit til fyrirsjáanlegra breytinga á ferðamannastraumi um óbyggðir. Telur til dæmis Gjástykki lítils virði, því að erfitt er að komast þangað. Telur líka fossana í efri hluta Þjórsár lítils virði af sömu ástæðu. Þessir tveir gallar eru svo hrikalegir, að alla rammaáætlunina má telja ómerka. Hún er enn einn hvítþvotturinn á atlögu þjóðarinnar að náttúrunni. Stjórnarflokkunum til ævarandi skammar.

Bankarnir eru aflögufærir

Punktar

Ríkissjóður hefur ekki efni á að leggja meira af mörkum. Hefur endurreist Seðlabankann og bankana og hjálpað fjármagnseigendum. Ræður ekki við meira. Hins vegar eru nýju bankarnir aflögufærir. Eignir gömlu bankanna voru færðar á hálfvirði inn í nýju bankana. Stjórnendur þeirra virðast telja það bara eiga að koma fjárglæframönnum til góða, en ekki almenningi. Alþingi getur sett lög um að koma bönkunum á rétt spor. Til dæmis með því að samþykkja lyklafrumvarpið. Það gerir ráð fyrir, að ofurskuldsett fólk geti skilað lyklum að húsnæði sínu og bíl. Og sleppi þá skuldlaust frá eignarhaldinu.

Vestrið styður peningaöflin

Punktar

Andstæðingar auðvaldsins, svo sem Eva Joly, vilja nota IceSave sem vopn í baráttu við alþjóðaauðvaldið, sem stjórnar heiminum. Stríðið verður seint unnið, því að allar vestrænar ríkisstjórnir styðja peningaöflin. Þær nota allar fé skattgreiðenda til að borga glæpi fjármálaheimsins. Dæmið er alls staðar eins, þótt hlutfallslegar upphæðir séu langhæstar hér á landi. Sú skoðun, að Íslendingar eigi ekki að borga krónu fyrir fjárglæframenn, er samt freistandi. En hún rekst á vegg þeirra, sem telja hana vera þá verstu villutrú, sem hugsast getur. Og Ísland hefur ekki mátt til að bæta heiminn.

Svissarinn tapar Ormarsá

Hestar

Svisslendingurinn Ralph Doppler er að missa Ormarsá á Melrakkasléttu. Það er bezta mál. Hann virðir ekki íslenzk lög. Læsir hliði að gróinni þjóðleið samkvæmt herforingjaráðskortum. Sem nýtur því verndar samkvæmt Járnsíðu og náttúruverndarlögum frá 1999. Þar segir, að ferðamenn megi komast óhindrað um eignarlönd. Til að komast þessa leið hafa menn orðið að klippa víra. Nú fer veiðin í Ormarsá í hendur íslenzkra veiðitaka, er þekkja lög og reglur. Þeir, sem fara um þjóðleiðir á Melrakkasléttu, þurfa því ekki lengur að hafa naglbít með í för. Doppler er farinn, það fór vel, og komi hann ekki aftur.

Nokkrar illar stofnanir

Punktar

Þegar illar stofnanir eru andvígar málum, má gera ráð fyrir, að þau séu góð. Er grátkór útvegsmanna auglýsir átta síður í Viðskiptablaðínu gegn fyrningu aflaheimilda, er fyrningin líklega góð. Viðskiptaráð stjórnaði landinu árum saman í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Og ber ábyrgð á miklu af ruglinu, sem þá varð til. Þegar Viðskiptaráð ályktar núna gegn fjármagnstekjuskatti, má reikna með, að það sé fínn skattur, sem hann er. Þegar bankar efast um, að lyklafrumvarpið sé skynsamlegt, er það örugglega gott frumvarp. Það gerir ráð fyrir, að fólk geti gengið skuldfrjálst frá skuldsettum eignum sínum.

Íslenzka samningatæknin

Punktar

Íslenzkir embættis- og stjórnmálamenn hafa aldrei kunnað samningatækni. Ég er ekki bara að tala um Baldur Guðlaugsson og Svavar Gestsson, sem klúðruðu tveimur fyrstu IceSave samningunum. Líka um Friðrik Sófusson og Valgerði Sverrisdóttir, sem sömdu um stóriðju. Nú er farið að birta tölur um orkuverð til stóriðju og þær eru meginhneyksli. Orkan er nánast gefin stóriðjunni. Vonandi verður ekki aftur samið um stóriðju að hætti Friðriks og Valgerðar. Nú hefur Bandaríkjamaður tekið að sér að semja um IceSave. Lee Bucheit sýnir svo mikla samningshörku, að fjármálaráðherra Hollands kveinar. Það er gott.

Sólveig eldar í Gló

Veitingar

Gló í Listhúsinu við Engjateig er nýjasta skrautblómið í flóru matarhúsa, sem bjóða heilsurétti, einkum fyrir grænmetisætur. Sólveig Eiríksdóttir eldar þar, þekkt af Grænum kosti og matreiðslubókum. Prófaði þar ágætan hnetuborgara með salsa, lárperumauki og salati. Svo og fyrirtaks kjúkling með rósmarín og villisveppasósu. Réttir dagsins kosta 1500 krónur og súpa og salat kosta 1000 krónur. Húsakynni eru tætingsleg á göngum Listhússins og í drungalegu afhýsi. Kryddlegin hjörtu eru annar góður staður af þessum meiði. Maður lifandi, Krúska, Grænn kostur og Á næstu grösum koma næst á eftir.

Blinda skaðar blaðamennsku

Punktar

Blaðamennska veitir fólki upplýsingar, sem gera það frjálst. Skuldbinding hennar er við sannleikann og hollustan er við borgarana. Þetta er andstætt starfi almannatengla og blaðurfulltrúa og ímyndarstjóra. Þeir fanga fólk í neti hagsmunaaðila, ýkja mál sitt og þjóna þeim, sem bezt borga. Samt telur fólk sig geta hoppað hnökralaust milli blaðamennsku og áróðurs. Til dæmis nota menn fjölmiðlafrægð til að ljá rödd sína hagsmunaaðilum. Steingrímur Sævarr Ólafsson sér ekkert rangt við að vera í senn fréttastjóri Pressunnar og rödd Samtaka iðnaðarins á áróðursmyndbandi. Blinda skaðar blaðamennsku.

Vonlaus vegferð án fylgis

Punktar

Ég skil ekki vegferð ríkisstjórnarinnar. Hún sækir um aðild að Evrópu, án þess að hafa fylgi. Hún reynir að ná samningum við Bretland og Holland án þess að hafa fylgi. Fyrir hvorugu málinu hefur hún meirihluta á Alþingi. Framsókn vill ekki samning um IceSave, bara málaferli. Sjálfstæðisflokkurinn mun hlaupast undan merkjum í þessu máli eins og í fyrra. Samninganefnd flokkanna hefur hvorki stuðning stjórnarandstöðunnar né hálfs þingflokks vinstri grænna. Stjórnin þarf að rífa sig úr ógöngunum með því að skipta um fólk á toppnum. Út með Jóhönnu og inn með Guðbjart sáttasemjara Hannesson.