Skriðinn úr skúmaskoti

Punktar

“Sumt gamalt fólk tók ekki einu sinni eftir því” Þetta er minning Geirs H. Haarde um hrunið. Birtist í Guardian. Einstæður hroki manns, sem var ekki og er ekki í neinu sambandi við fátæklinga. Afrekaði það helzt að koma peningum auðmanna undan hruninu. Þúsundum saman varð annað fólk að þola mikla angist og sumir gáfust hreinlega upp. Geir hélt ekki einu sinni ríkisstjórnarfundi og leyndi stöðunni fyrir samráðherrum sínum. Ríkisstjórnin, sem tók við af hrokagikknum, létti byrðar margra fátæklinga. Arftakar hrunverja eru aftur komnir til valda og hrunverjar skríða úr skúmaskotunum í veizlurnar.

 

Ráðherra ruglar

Punktar

Rangt hjá Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra, að fjárlagagatið komi fyrri ríkisstjórn við. 25-30 milljarða útgjöld vantar, því að Gunnar Bragi og félagar ákváðu að skera tekjuhlið fjárlaga niður um þessa upphæð. Þetta er stórgjöfin, sem fór til kvótagreifa, auðgreifa og ferðaþjónustu. Stjórnin getur ekki kennt neinu öðru um skort á fé til Landspítalans og annars slíks. Annars skiptir þessi athugasemd engu máli. Gunnar Bragi er ekki í pólitík til að ræða mál eða að fara með rétt mál. Heldur er hann þarna til að gera það eina, sem hann kann: Að reka erindi fyrir kvótagreifann sinn á Króknum.

Þar eru peningarnir

Punktar

Ríkisstjórnin þarf að falla frá gjöfum sínum til kvótagreifa og auðgreifa. Nota þá tugi milljarða til að bæta stöðu Landspítalans og aðra velferð í landinu. Hækka þarf laun lækna verulega, einnig annars starfsfólks í heilsu og annarri velferð. Kaupa fullt af tækjum. Peningarnir fást í auðlindarentu, auðlegðarskatti og í vaski á ferðaþjónustu. Ríkisstjórnin þarf að falla frá vitlausum fjárlögum og taka upp frumvarp fyrri ríkisstjórnar. Það gerði ráð fyrir óbreyttri heilsu og velferð. Svo verður ríkisstjórnin að falla frá rugluðu lýðskrumi Sigmundar Davíðs um tékka í pósti til helztu sukkaranna.

Aukin stéttaskipting

Punktar

Verði kjör lækna bætt með auknum einkarekstri heilsuþjónustu, mun kostnaður þjónustunnar hækka. Mismuninn munu sjúklingar greiða, því að ríkið hefur ekki ráð á að borga meira. Þetta verður eins og það er í tannlækningunum og eins og það er í Bandaríkjunum. Í báðum tilvikum er þjónustan lakari en í Norður-Evrópu, þar sem heilsuþjónusta er nærri 100% ríkisrekin. Við fáum þjónustu að bandarískum hætti, verri og dýrari þjónustu. Einkavæðingarmenn eru að hefja áróður fyrir, að heilsuvandinn verði leystur á þennan ofurdýra bandaríska hátt. Þar með verður stéttaskiptingu lyft í áður óþekktar hæðir.

Fagnaðarlæti hrunverja

Punktar

Fimm ára afmælis bankahrunsins er fagnað víða um bæ. Fyrst sáum við Ásgeir Jónsson, greiningarstjóra Arion, segja okkur frá þessum merkisatburði. Menn muna eftir þjóðlega bjartsýnum spám hans þá. Síðan kom Geir H. Haarde í sjónvarpið og sagði okkur frá afrekum sínum við að keyra upp hrunið. Urðu um tíma að frægu dómsmáli. Og síðast kemur rúsína pylsuendans í kvöld. Þá mætir Davíð sjálfur Oddsson í sérstakan frelsiskvöldverð og minnist afreka sinna í vönduðu skipulagi hrunsins. Kvöldverðinn sækja hundrað beztu bógar okkar þjóðar og borgar hver fyrir sig þrjátíu þúsund krónur fyrir opinberunina.

 

Guð blessi Ísland

Punktar

Fimm ára afmæli hrunsins minnir á tvo helztu gerendurna, ruglaða tvíeykið á Lækjartorgi og Arnarhóli. Geir og Davíð kunnu ekki til verka og margfölduðu bankatjónið. Verst var að sóa gjaldeyri Seðlabankans í gjaldþrota bankabófa og ábyrgjast innistæður auðgreifa umfram viðurkennt hámark. Við verðum lengi að bíta úr þeirri nálinni. Steingrímur hafði meira vit í kollinum, tókst að halda sjó í fjögur óveðursár. Samt vofir snjóhengjan, krónan ekki gjaldgeng og verður ekki. Einkunnarorð hrunsins verða ætíð þrjú: “Guð blessi Ísland”. Verndi oss fyrir óstjórn pólitíkusa og fávísi kjósenda silfurskeiðunganna.

Skoðanabanki neytenda

Punktar

Hef nokkrum sinnum dásamað TripAdvisor fyrir að auðvelda líf ferðafólks. Tilvalið að víkka hugmyndafræðina, láta hana ná til alls konar neytendamála. Gefa neytendum orðið á fleiri sviðum en í vali hótela og veitingastaða, skoðunarverðra staða og ferðaþjónustu. Láta notendur fá orðið um bakarí og fiskbúðir, stórmarkaði og dagvörubúðir, tízkuvöruverzlanir og alls konar þjónustu. Svo sem þjónustu iðnaðarmanna og lækna, rakara og dekkjaverkstæða. Þetta væri fín viðbót við grunninn, sem þegar er kominn hjá TripAdvisor. Í sumum borgum er sjálfstæðir skoðanabankar, en ekkert er enn til hérlendis.

Ceaucescu-þjóðremba

Punktar

Úldin þjóðremba Ólafs Ragnars Grímssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er ekki frá Jónasi frá Hriflu. Hann leitaði sér víðsýnis í útlandinu, lærði af útlendingum. Vildi innleiða hér margt að utan, svo sem flokkaskiptinguna í pólitík. Varð að vísu illskeyttur með aldrinum og það er önnur saga. Remba forseta og forsætis vors minnir á Nicolae Ceaucescu. Þið munið oflæti hans: Rúmenar eru mestir og beztir, fyrirmynd annarra manna, ofsóttir af Evrópu. Hún er remba þeirra, sem ekki ná pari í Evrópu og sæta þar skopi. Því hata þeir Evrópu, flýja í þekkta minnimáttarkennd miður gefinna afdala-kjósenda.

Túristinn orðinn kóngur

Ferðir

TripAdvisor er dásamlegur vefbanki. Þar sé ég, hvað viðskiptavinir segja um gistingu og veitingar, ferðastaði og afþreyingu. Veitingarýnin er að vísu út og suður, en smám saman lærði ég að finna alvörurýni. Hún er oft frá þeim, sem ferðast víða og skrifa oft, en síður frá þeim, sem skrifa fátt og segja þá “en dásamlegt, skál”. Hokinn af lestri góðrar rýni merki ég í tölvunni 30 ágætar matarholur í miðborg Miklagarðs. Þær fara sjálfvirkt á borgarkortið í símanum. Þannig finn ég staðina fljótt og vel. Sama er að segja um hótelið og áhugaverða skoðunarstaði og ferðaþjónustu. Túristinn er orðinn kóngur.

Löngu fyrir landnám

Punktar

Í náttúruvísindum koma nýjar aðferðir við að efla þekkingu á grunni eldri kenninga. Annað en trúarbrögðin með tilgátur, sem ógerlegt er að sannreyna. Við fornleifafræði bætist nú aðferð við að greina viðarkolakorn í jarðvegi. Kornin falla úr reyk og sóti frá byggð. Þessu er bætt við eldri þekkingu, þar sem greind eru öskulög, svo sem landnámslagið. Viðarkolakorn hafa verið greind í örfáum sniðum. Sýna, að byggð var í Reykjavík árið 720, löngu fyrir landnám. Þannig þarf að greina sýni víða um land og finna, hvort byggð var víða fyrir landnám. Frumkvöðull málsins er Páll Theódórsson eðlisfræðingur.

 

Auðræði sækir fram

Punktar

Lýðræði jafngildir ekki betri stjórn. Lýðurinn er heimskur og flykkist að bófum, sem lofa gulli og grænum skógum, samanber SDG. Tæknin við að ljúga að fólki eykst hraðar en tækni lýðsins við að sjá gegnum lýðskrum. Eini kostur lýðræðis umfram annað er, að það gerir kleift að losna við illa valdhafa án blóðsúthellinga. Smám saman dofnar kosturinn, lýðræðið breytist í auðræði. Ferlið er lengst komið í Bandaríkjunum. Þar eru allir þingmenn og forsetinn á framfæri auðmanna og efla hag þeirra á kostnað almennings. Við erum komin í vítahringinn. Íslenzka lýðræðið er að breytast í auðræði. Í boði kjósenda.

Friðarpostulinn Pútín

Punktar

Eðlilegt er, að Vladimir Pútín sé tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels. Þar sem Barack Obama gat fengið verðlaunin, ætti líka Pútín að geta fengið þau. Síðan geta aðrir snillingar komið í röðum, Bashar Assad og Silvio Berlusconi til dæmis. Eða Alexander Lukashenko og Robert Mugabe. Kim Jong Il og Tamim Hamad al Thani, kóngurinn, sem baðar heimsfótboltann í Quatar í blóði tuga byggingarþræla. Engin vestræn stofnun á Vesturlöndum hefur orðið sér til eins mikillar skammar og Nóbels-nefnd norska Stórþingsins. Hún er vís til að veita Pútín verðlaunin í von um, að hann skáni. Sú var líka vonin með Obama.

Einn tali fyrir alla

Punktar

Aðdragandi hrunsins einkenndist af fastri taktgöngu. Skortur á gagnrýni var forsendna hrunsins, segir í sannleiksskýrslunni frægu. Gagnrýnendur voru smáðir og Þorgerður Katrín vildi þvinga danskan bankamann í endurhæfingu.  Sigmundur Davíð vill endurvekja þessa yndislegu tíma, þegar þjóðin talaði einum rómi. Og trúði í rauninni, að Íslendingar væru fremstir og beztir allra, samkvæmt predikunum Ólafs Ragnars Grímssonar. Sigmundur Davíð mun senn sníða sér skikkju úr þjóðfánanum og láta hátalara spila ættjarðarlög, hvar sem hann fer. Slíðrið sverð yðar og látið yfirbófann einan hafa orðið.

Í örfáum orðum sagt

Punktar

Fyrir kosningar var kjarninn í loforðum Sjálfstæðisflokksins þessi: “Alls konar fyrir aumingja”. Kjarninn hjá Framsókn var þessi: “Allt fyrir aumingja í grænum hvelli”. Eftir kosningar breyttist þetta í: “Allt fyrir auðjöfra”. Og fjárlagafrumvarpið felur í sér þessa staðreynd: “Ekkert fyrir aumingja”. Sumum sjálfstæðismönnum finnst ekki nóg að gert. Meining þeirra er þessi: Okkur tókst að ljúga okkur inn á aumingjana og nú skulum við láta hné fylgja kviði: “Útaf með aumingja. Látum helvítin borga fyrir sig.” Heiðrún Lind Marteinsdóttir, stjórnarmaður Seðlabankans, heimtar blóðugan niðurskurð.

Heimtar 100% lygi

Punktar

Strax er “teygjanlegt” orð, sem þýðir einhvern tíma á kjörtímabilinu, segir Vigdís Hauksdóttir. Í örfáum orðum sést siðleysi hennar. Um þetta snýst umræðan: Af hverju eru loforðin svikin? “Hryggir mig mjög að lof­orð stjórnar­flokkanna virðast hafa verið orðin tóm”. Segir María Rut Kristinsdóttir, sjálfstæðismaður og formaður Stúdentaráðs. En líka eru til vígreifir, sem vilja meira siðleysi en Vigdís og félagar. Heiðrún Lind Marteinsdóttir er stjórnarmaður Seðlabankans og fyrrum formaður Heimdallar. Heimtar blóðugan niðurskurð ótal atriða, sem aldrei voru nefnd fyrir kosningar. Heimtar 100% lygi.