Reynir er toppmaður

Fjölmiðlun

DV er Reynir Traustason í fyrsta, öðru og þriðja lagi. Hann hefur lengi verið merkisberi staðfastrar blaðamennsku. Í gamla daga á DV sýndi hann mikla seiglu í biskupsmálinu svonefnda og í dúksmáli Árna Johnsen. Aðrir fjölmiðlar vildu ekki snerta málin fyrr en á síðari stigum. Sama er að segja nú um lekamál Hönnu Birnu. Reynir lætur ekki bugast, þótt móti blási um sinn. Vinnubrögð hans hafa einkennt endurreisn DV á síðustu misserum. Því er dapurlegt, ef hluti eigenda blaðsins vill losna við hann eða setja yfirfrakka á hann. Þar hljóta annarleg sjónarmið að vera að baki, enda eiga hér margir bófarnir um sárt að binda.

Búin að vera

Punktar

Hanna Birna á eftir að skaða Sjálfstæðisflokkinn enn meira. Bjarni Benediktsson hefur ekki bein í nefinu til að losa sig við keppinautinn um formennskuna. Því kemst hún upp með að hanga í embætti og ljúga sig frá einu slysinu til annars. Auðvitað er hún rakinn tuddi og á ekki heima í pólitík. Hefur hins vegar ekki greind til að skilja. Umhverfis sig hefur hún aðstoðarmenn, sem þjást af sömu siðblindu. Að baki henni eru engu vitrari klækjamenn, er enn dreymir um, að hún losi þá við Bjarna Ben. Sá gluggi opnaðist á síðasta landsfundi. En skelltist aftur, þegar Hanna Birna var staðin að því að ljúga að alþingi. Búin að vera.

Fjallfoss næstur

Punktar

Fjallfoss í Dynjandi er einn fegursti foss landsins. Einn af þeim fyrstu til að fá mynd af sér á frímerki. Nú vilja hinir orkuóðu fá vatnið í Mjólkárvirkjun og gera Fjallfoss þar með vatnslausan. Það er næsti bær við að taka Gullfoss og hleypa á hann vatni á sunnudögum. Aldrei er hægt að slappa af, því að orkuóðir laumast í kyrrþey. Orkubú Vestfjarða sækir um leyfi til að eyðileggja fossinn. Þjóðin fékk upp í kok af Kárahnjúkavirkjun. Er ekki í stuði til að fórna einni af helztu perlum landsins fyrir kalkþörungaverksmiðju, sem sífellt er í fréttum vegna eitraðs útblásturs. Það er sama harmsagan og í Fjarðaáli á Reyðarfirði.

Valköstur gærdagsins

Punktar

Upplýst er, að Gísli Freyr Valdórsson lak falsaða skjalinu til Fréttablaðsins og Moggans. Líklegt má telja, að hann hafi einnig komið að fölsuninni. Þá hefur Hanna Birna sagt af sér sem lögreglu- og dómsmálaráðherra. En heldur áfram sem ráðherra annarra innanríkismála. Í þriðja lagi er upplýst einstaklega ömurleg stjórnsýsla í ráðuneyti Ragnhildar Hjaltadóttur. Þar er ekki bókhald um málefni mikilvægra embættisfunda ráðherrans. Þeir virðast ekki heldur til á málaskrá. Stjórnsýsla gerræðis í bananaríki, þekkist annars hvergi í vestrænum ríkjum. Álit og virðing ráðherrans og ráðuneytisins er í rúst og ríkisstjórnin löskuð.

Segja aldrei satt

Punktar

Gott væri, að rugludallar fylgdu algengri líkindafræði og hefðu rétt fyrir sér í annað hvert sinn. En rangfærslur eru margs konar, svo þeir geta nánast alltaf haft rangt fyrir sér. Þannig er Sigmundur Davíð ævinlega fáfróður. Sannaði það enn einu sinni í gær, þegar hann fræddi okkur um útlendan sýkil. Vigdís Hauks er eins fáfróð. Opni hún munninn, kemur bara út bull. Eftir sumarhlé opnaði hún sig í vikunni. Sagði ríkisstarfsmenn æviráðna og ekki hægt að reka þá fyrr en eftir þrjár aðvaranir. Sagði umboðsmann skuldara vera á kostnað ríkisins. Sagði ríkisstjórnina hafa aukið ríkistekjur. Allar voru þessar fullyrðingar rangar.

Um útrýmingu katta

Punktar

Þess má vænta, að fyrsta frumvarp forsætisráðherra við setningu alþingis snúist um útrýmingu katta á landinu. Þeir eru nefnilega smitberi sníkils, sem heitir Toxoplasma. Forsætis óttast mjög að hann berist til Íslands við át á eitruðu kjöti í eldhafi Evrópusambandsins. Toxoplasma sníkillinn er því miður þegar í landinu, svo Sigmundur Davíð verður hér innanlands að höggva á rætur meinsins. Forsætis frétti, að kattaplágan valdi breyttri hegðun, jafnvel „breyta hegðun heilu þjóðanna“ (orðalag SDG). Komið hefur í ljós, að sýktar rottur hræðast ekki ketti. Við svo búið má ekki standa, kallið út sérsveitir lögreglunnar.

Ofbeldið komið heim

Punktar

Bandaríkjamenn eru að meðaltali ofbeldishneigðastir í heimi. Velja sér stjórn, sem rekur linnulaust ofbeldi í öllum heimshornum. Ljúga gereyðingarvopnum upp á einræðisherra til að geta drepið fólk og hirt olíuna. Nú er bandaríska ofbeldið komið heim. Víða hefur lögreglan gírað sig upp með búnað til að berja á fólki. Afleiðingar lögregluofbeldis komu rækilega fram í Ferguson í Missouri. Þar eru nú óeirðir á hverri nóttu. Löggan reynir einkum að ná sér niðri á blaðamönnum. Gott er, að ofbeldið er komið heim til sín, þar sem það á heima. Fjölmiðlar og kjósendur þar læra kannski lexíuna. Fara að taka á helzta meini Bandaríkjanna.

Í helgra manna tölu

Punktar

Í fyrra fór Sigmundur Davíð í svo fínt starf, að fjölmiðlum fannst óviðeigandi að röfla. Hefur því afskiptalítið fengið að bulla, ef frá er skilið alræmt viðtal Gísla Marteins. Enda er sá gaur ekki blaðamaður að starfi. Smám saman hafa fleiri rugludallar komizt í helgra manna tölu pólitíkusa, sem fá að bulla í friði. Vigdís Hauksdóttir er þar fremst í flokki. Slíkir pólitíkusar bulla alltaf eitthvað, sem vekur ótal spurningar, sem ekki er spurt. Það er nefnilega ekki lengur fínt í bransanum að ónáða óhæfa pólitíkusa. Slíkt ylli leiðindum og röfli um einelti, ofsóknir og samsæri. Þannig forheimskast þjóðin enn frekar.

 

Varúð: Kaldastríðshetja

Punktar

Anders Fogh Rasmussen fékk forstjórastól NATÓ árið 2009 út á að vera harðasti stríðsæsingamaður álfunnar. Hafði gengið lengst allra þjóðarleiðtoga Evrópu í stuðningi við innrásirnar í Írak og Afganistan. Sagði Saddam Hussein liggja á skelfilegum gereyðingarvopnum í Írak. Halldór Ásgrímsson fullyrti það líka, en hafði ekki vægi til að verða herstjóri, fékk bara kontór í Kaupinhöfn. Vopnin voru ímyndun eins og síðar kom í ljós. Rasmussen hefur einbeitt sér að því að mála skrattann á veginn til að hindra samdrátt hjá NATÓ. Þessa dagana er hann á Íslandi að útmála, hve hættulegir Rússar séu. Vill vekja upp kalda stríðið.

Sögusafn óráðsíunnar

Punktar

Reykjanesbær var svo illa rekinn undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, að hægt er að gera bæinn heimsfrægan. Allur bærinn getur orðið sögusafn um græðgi og hrun. Þar má sýna, hvernig tvöþúsund íbúðir standa auðar á sama tíma og ekki er hægt að finna húsnæði. Selja má sæti í hringferð um bæinn í þessu skyni. Í leiðinni er hægt að koma við í sparisjóðnum, sem var trog fyrir innvígða. Og síðdegiskaffi undir stálbitahvelfingu líksins af álverinu, sem fékk aldrei neitt rafmagn, því það var ekki til. Bærinn tók af krafti þátt í öllu ruglinu og rambar því á barmi gjaldþrots. En gæti núna grætt á sögusafni óráðsíunnar.

Skugginn á gæðatímanum

Fjölmiðlun

Allt í lagi að vera án fasts netsambands? Heimsótti tjaldstæði tvisvar á dag (Já, netið er komið á tjaldstæðin). Kíkti á fésbók, blogggátt og fréttagátt og setti punkta á netið. Oftast um atriði, sem hafa verið í fréttum og umræðu eða verða næstu daga. Þarf ekki að skoða póstinn og kíkja á veðurspána oftar á dag. Alls fara þannig tveir tímar á dag í internetið. Það er bara fjandans ekki nóg. Mig skorti nettíma til að gúgla og wikipedíast við að kíkja bakvið tjöldin. Var því tæpast upplýstur um öll mál dagsins. Sleppti að skrifa um flækjur, tók bara fyrir einföld mál. Skuggahliðin á gæðatíma sveitasælunnar var óþægileg. Hlakkaði til að komast í betri manna netsamband í stórborginni.

Fábjánar við völd

Punktar

Þótt ferðamönnum hafi fjölgað, er landið stórt. Engin lönd í vestanverðri Evrópu hafa færri ferðamenn á ferkílómetra. Ferðaþjónusta er orðinn stærsti atvinnuvegurinn og við ættum að geta ráðið við margfalda fjölgun. Því miður hafa ráðamenn kjósenda lítið vit og engan skilning. Allt snýst um gráðuga kvótagreifa og vinnslustöðvar landbúnaðar. Í ofanálag höfum við getulausan ferðamálaráðherra. Ragnheiður Elín Árnadóttir fabúlerar um náttúrupassa og kemur engu í verk. Fjármunir til lagfæringa og endurbóta á ferðastöðum eru nánast engir, því lækkun skatta á greifum landsins þurrkaði upp ríkissjóð.

Ítrekuð yfirborðsfrétt

Punktar

Fréttablaðinu hefur tvo daga í röð tekizt að flytja fréttir af Hraðbraut án þess að nefna orsök hruns hennar. Hún var svindlbrask á kostnað ríkissjóðs, sem Ríkisendurskoðun ljóstraði upp um. Nú tekst skólanum ekki að endurtaka leikinn, því að lysthafendur eru of fáir. Sífellt oftar sjáum við fréttir af hálfu fréttabarna, sem hvorki þekkja söguna né fagið sjálft. Að vísu er ekki ætlast til, að lesendur borgi þvæluna, en samt forheimskar metnaðarleysið til langs tíma. Með einföldu gúgli ættu fréttabörnin að geta kíkt inn í bakgrunn frétta, þótt þau viti hann ekki sjálf. En sum notfæra sér það ekki.

Hugsaði eins og hestur

Hestar

Í hestaferðum með laus hross er mikið af „farþegum“. Þeir halda ró sinni og njóta landslagsins og samvistar við viljug hross og skemmtilega samferðamenn. Svo eru aðrir, einkum fararstjórar, sem hugsa eins og hrossin. Finna strax, hvernig röng hugsun flæðir leiftursnöggt um hrossahópinn. Passa að þau fari ekki hina leiðina. Loka hliðinu í hinum enda gerðisins, svo hrossin hverfi ekki. Heyra skeifu detta. Gæta þess, að allir passi strenginn, sem dregin er út í áningu. Að fólk og hross þreytist ekki um of. Að farið sé rétt í vað og að riðið sé upp eða niður fyrir gil. Ég var þannig, gekk fyrir tékklistum og adrenalíni allan tímann. Það var rosa gaman. Er nú orðinn gamall og hættur fararstjórn, vel bara friðsældina. Orðinn farþegi.

Innlimun í Noreg

Punktar

Pólitísk samtök Gunnars Smára um innlimun í Noreg fengu fljúgandi start. Þótt þau séu það eina gáfulega í pólitík um áratugi. Menn hafa hingað til gengið fyrir þvættingi um dýrð bófa, er ræna okkur og rupla. Maður býst því ekki við neinu vitrænu af hálfu kjósenda. Þeir hafa nú fengið síðasta tækifærið til að bæta fyrir heimsku fyrri tíma. Annars munu kynslóðirnarnar smám saman greiða atkvæði með fótunum. Hér væru norsk lífskjör, ef við færum vel með auðlindir og afrakstur þeirra. Fólk er loksins að fatta, að rangt er gefið í spilunum, allir ásar lenda hjá greifunum. Að hér er bara frumstætt bananalýðveldi bófa.