Ódýrar hrunskýrslur

Punktar

Skýrslurnar þrjár um hrunið voru ódýrar, kostuðu bara hálfan annan milljarð. Það er vel sloppið fyrir ítarlegar upplýsingar um meginþætti í hruninu og falli ýmissa sjóða. Skýrslurnar voru misgóðar, meginskýrslan var bezt og skipti mestu máli. Alþingi lærði hins vegar lítið af skýrslunum. Ísland er „post-literate“ land, þar sem menn kunna að lesa, en notfæra sér það ekki. Nú er fáránlegasta umræðuefni dagsins, að skýrslurnar hafi verið of dýrar. Guðlaugur Þór hrunverji telur, að þvættingur um kostnað muni dreifa athygli fólks frá innihaldi. Svo að þær hætti að valda Flokknum tímabundnum óþægindum. Að nýju megi byrja að sukka.

Komin á leiðarenda

Punktar

Innanríkisráðherra, aðstoðarfólk hennar og lögfræðingur Davíðs reyndu að hafa áhrif á rannsókn leka- og fölsunarmálsins. Ráðherrann hefur ítrekað logið um fjölmarga þætti. Hún hefur farið eins og logi yfir akur, hrakið lögreglustjóra úr embætti, hótað ríkissaksóknara og umboðsmanni alþingis. Fjármálaráðherra virðist láta hana draga sig með sér niður í svaðið með skítkasti í umboðsmann. Undraland Hönnu Birnu er komið á leiðarenda. Innanríkisráðherrann er verri en Davíð, stjórnlaus og óðamála frekja, sem eitrar allt, er hún snertir. Gamlir stuðningsmenn Flokksins horfa í forundran á harmleik Hönnu Birnu og Bjarna Ben.

Þeir seigu eru gulls ígildi

Fjölmiðlun

Ég þekki svo marga málsaðila deilna um eignarhald og stjórn á fjölmiðlum, að ég á erfitt með að tjá mig um málsatvik. Get bara talað almennt um málið. Þungt er í vöfum að ná fram breyttum áherzlum í ritstjórnarstefnu. Þær koma strax í ljós og valda fjölmiðlinum búsifjum. Til dæmis sú kenning, að hrunið hafi stafað af mistökum fremur en glæpum. Hlegið verður að því. Dýrt er að kaupa fjölmiðil til að leggja hann niður. Blaðamenn eru seigir eins og sést af Fréttatímanum, sem blómstrar, og Kjarnanum, sem sífellt er vitnað í. Ég var oft rekinn. Koma og fara fjölmiðlar og tegundir fjölmiðla, en seigir blaðamenn eru gulls ígildi.

Varúð: Skipulagshugsýn

Punktar

Hugsýnir eiga lítið erindi í skipulag. Hættulegt er valdshyggjufólk, sem þykist vita, hvernig borgarbúar eigi að lifa og beitir valdi til að koma því um kring. Nýtt skipulag Reykjavíkur ber merki slíkra hugsýna. Þess vegna er byrjað að þétta byggðina. Koma fyrir risavöxnum steypukössum milli húsa í gamla bænum. Þrengja götur, koma fyrir hindrunum á umferð. Taka græn svæði til afnota fyrir gráðuga verktaka. Saman við hugsýnina fléttist nefnilega ósæmileg greiðvikni við verktaka og lóðarhafa. Sú spilling er raunar eldgömul í borgarskipulagi. Því miður er ofsinn slíkur, að næstu ár eru horfur á stórskemmdum á Reykjavík.

Lygavefur verður fjötur

Punktar

Landsnet er gott dæmi um einokunarfyrirtæki, sem hleður á sig eldum vantrausts. Hefur logið að sveitastjórnum Voga, Akureyrar og Eyjafjarðar. Hefur logið um verð á jarðstrengjum og flutningsþörf þeirra. Hefur logið um tilvist skýrslu um mat á jarðstrengjum vegna Blöndulínu 3. Hefur logið að Hafnfirðingum um strengi í Vallahverfi. Smám saman hleður slík framkoma upp vantrausti á fyrirtækinu og hverju orði talsmanna þess. Getur að vísu logið orkuráðherra og alþingi upp í að auðvelda yfirgang fyrirtækisins. En til lengdar mun lygin harðna og drepa Landsnet í dróma. Sannleikurinn er sagna beztur sagði Jón Hákon almannatengill.

Linum hræðslu við múslima

Punktar

Til að lina hræðslu við múslima ætti ríkið að setja ýmis atriði til öryggis í lög. Banna að nota trúarrit sem gögn við málsmeðferð og dóma. Þar með er átt við „sharia“, sem byggir á kóraninum og túlkunum á honum og jafngildir lögum í sumum ríkjum múslima. Ætti að gilda líka um önnur helgirit, svo sem biblíuna. Gott væri, að allri bókstafstrú sé formlega vísað á dyr. Hún er stórhættuleg, hverrar trúar sem hún er. Einnig má banna sumt, sem raunar er þegar bannað, svo sem undirgefni kvenna, minna vægi kvenna, giftingu barna, heiðursmorð. Vísa slíku fólki úr landi. Svo þarf formlega að leyfa gagnrýni og háð um trúarbrögð.

Lærdómsrík mistök

Punktar

Argentína féllst fyrir löngu á, að bandarískur dómstóll dæmdi í ágreiningi um samning ríkisins við hrægamma. Varð stórslys, því hrægammar fengu kverkatak á þjóðinni. Neita að semja um afslátt. Thomas Griesa frjálshyggju-dómari styður þá. Þar með hefur hann gert þjóðina gjaldþrota, með hörmulegum afleiðingum fyrir heila þjóð. Við þurfum að læra af reynslu Argentínu. Samþykkjum aldrei réttarstöðu hrægamma utan eða ofan við íslenzk lög. Teflum aldrei neinu IceSave eða TISA í þá stöðu, að erlendir dómstólar geti gert okkur gjaldþrota. Semjum allra sízt þannig við erlenda stóriðju. Það er bara ávísun á sult og seyru.

Evrópa á refilstigum

Punktar

Almannatenglar risafyrirtækja flykkjast þúsundum saman á áhrifastaði heims, svo sem Washington og Bruxelles. Halda kontóristum og pólitíkusum uppi á snakki og mútum til að létta rekstur risafyrirtækja. Á kostnað almennings, á kostnað umhverfisins og á kostnað þjóðríkja. Hinir smáu og smáðu eiga engan séns á móti þessu liði. Til skamms tíma vann Evrópusambandið í þágu almennings, svo sem í málum neytenda, umhverfis og vinnuréttar. Í seinni tíð hafa skjöl sambandsins hins vegar verið gegnsýrð þjónustu við almannatengla risafyrirtækjanna. TISA samningsdrög Bandaríkjanna og Evrópu eru gott dæmi um samsæri gegn almenningi.

Vantraustið er varanlegt

Punktar

Þorvaldur Gylfason prófessor vekur í BLOGGI sínu athygli á tölum Transparency og Gallup um íslenzka spillingu og vantraust. Sýna, að Ísland er afar vanþróað í samanburði við nágrannalöndin. Skortir siðræna innviði, sem byggja upp traust milli manna. Líkist Ítalíu að þessu leyti. Þetta eru merkar tölur. Langvinn spilling veldur vantrausti milli manna, hægir á vexti efnahagslífsins. Verzlun og samskipti fólks byggjast á, að það geti treyst hvert öðru. Glatað traust endurheimtist seint og illa, margfalt hægar en sem svarar samdrætti spillingar. Þekkt tregðulögmál, sem á þessum spillingartíma veldur vonleysi og landflótta.

Forstokkaðir kjósendur

Punktar

Svo forstokkaðir eru fyrrverandi kjósendur bófaflokka ríkisstjórnarinnar, að þeir rölta ekki til fylgis við aðra kosti. Í staðinn velja þeir að styðja við stefnulausan flokk, sem fer við fyrsta tækifæri í ból bófaflokkanna. Ekki bara veldur vandræðum hinn sauðtryggi þriðjungur kjósenda, heldur helmingurinn, sé Björt framtíð meðtalin. Allt er komið í ljós um staðreyndirnar. Fátækt magnast hér í hafsjó auðlinda. Fólk gefst óðum upp á að vera Íslendingar. Stofnaður er flokkur um innlimun í Noreg á þeirri forsendu, að þar lukkist allt, sem hér fer úrskeiðis. Hvað á biturt fólk að gera annað, þegar hálf þjóðin er úti á þekju?

Ömurlegasta gengið

Punktar

Bjarni Benediktsson kemur mér fyrir í sjónvarpi sem tiltölulega normal. Skil, hvað hann segir og finnst það gilt, þótt ég sé oftast andvígur því. En hann er líka sá eini normal í ríkisstjórninni. Einn er veruleikafirrtur siðblindingi. Önnur er óþverri og lygalaupur. Þriðja er fattlaus klappstýra, sem kemur engu í verk. Fjórða vill öllum vel, en bara í orði, ekki á borði. Fimmti er tuddi. Sjötti hentar betur sem starfsmaður á plani. Sjöundi gerir atlögu að heilsu fátækra. Sá áttundi er litlaus píanisti. Aldrei í sögu fullveldisins hefur jafn ömurleg hjörð stjórnað ríkinu. Finnið svo sjálf út, hver er hver í lýsingunni.

Taumlaus skógrækt

Punktar

Undantekningarlaust hafa fjölmiðlar athugasemdalaust flutt okkur fullyrðingar um, að skógrækt sé að verða arðbær. Því fer fjarri, því stærstu kostnaðarliði vantar í dæmið, girðingar, plöntur, gróðursetningu. Það eru liðir, sem ríkið borgar að mestu, fyrir hönd skattgreiðenda. Skógræktendur reikna bara kostnað við grisjun skógar, sögun trjáa og flutning á viði. Verst er, að þessi skakka mynd hvetur til framhalds á taumlausri skógrækt. Eins og þeirri í Norðurárdal í Skagafirði, þar sem barri er plantað hæst upp í hlíðar. Fara verður af skynsemi og aðgát í útbreiðslu skóga eins og í aðrar mannsins dellur líðandi stundar.

Minnimáttar ofsatrú

Punktar

Erfið staða íslams í nútímanum og gífurlegt olíufé Sádi-Araba magna róttæka bókstafstrú múslima. Valdabaráttan í miðausturlöndum er ekki milli hersins og framfarasinna, heldur milli hers og ofsatrúaðra. Herinn sigraði í Egyptalandi, Íslamistar á sigurbraut í Tyrklandi, ofsatrúaðir vaða um Írak. Bandaríkin magna bálið með aðild að flóknum flokkadráttum, síðast svo flóknum í Sýrlandi, að enginn skilur neitt. Þannig fjármögnuðu Bandaríkin Ríki íslams og misstu svo stjórnina. Bezt er að láta múslima í friði í þessum löndum. Passa bara, að ofsi bókstafsmanna síist ekki til vesturlanda. Þau hafa áður sagt skilið við hvers konar bókstafstrú.

Hanna Birna tvísaga

Punktar

Nokkrum sinnum hefur Hanna Birna mælt á þennan veg: „Ég hef sagt allt sem ég veit. Ég get ekki upplýst meira, því að ég veit það ekki. Ég hef upplýst allt.“ Nú fréttist annað af henni frá þingflokksfundi: „Hanna Birna gerði grein fyrir sinni hlið á lekamálinu í löngu máli á fundinum og munu þar hafa komið fram allskyns upplýsingar sem ekki hafa komið fram áður. Þingmönnum var mörgum brugðið, að sögn þeirra sem til þekkja.“ Hvort tveggja getur ekki verið satt, í annað skiptið að minnsta kosti hefur Hanna Birna logið. Þetta bætist við fyrri dæmi um, að orð eru henni bara tæki. Þau koma staðreyndum ekki hið minnsta við.

Ríkisstjórn hinna ríkustu

Punktar

Með afnámi auðlegðarskatts, lækkun auðlindarentu og lækkun ferðaþjónustu-vasks hefur ríkisstjórnin minnkað ríkistekjur hastarlega. Stefnir heilsugæzlu og velferð í hættu. Herðir svo haustakið í haust, þarf að eiga fyrir ráðgerðum niðurskurði á lúxusvöru-vaski. Því verður enn hert hengingaról heilsugæzlu og velferðar, jafnvel menntunar. Hún mun auka kostnað sjúklinga og gamlingja, öryrkja og námsmanna. Stefnir að einkavæðingu sjúkdóma og fátæktar að amerískri fyrirmynd. Æ fleiri verða að neita sér um sjúkrahjálp; eiga ekki fyrir sínum síhækkandi kostnaðarhlut. Fallöxin verður svo hin ráðgerða hækkun matarskatts.