Atvinnulaus Norður-Víkingur

Greinar

Að mati Atlantshafsbandalagsins, varnarliðsins á Keflavíkurvelli og ríkisstjórnar Íslands eru hryðjuverk róttækra umhverfissinna einn alvarlegasti ófriður, sem getur steðjað að Íslendingum á næstunni. Þeir hafa sameinazt um heræfingu gegn þessum vágesti.

Róttækur utanríkisráðherra okkar kann að telja, að siga þurfi varnarliðinu á þá tvo þriðju hluta þjóðarinnar, sem eru andvígir uppistöðulóni á Eyjabökkum. Aðrir telja líklegra, að vondu kallar heræfingarinnar séu einhverjir á borð við Paul Watson í Sea Shepherd.

Við megum samt ekki gleyma, að þeir, sem sökktu hvalbátum í Reykjavíkurhöfn, komu til landsins í farþegaflugi um Keflavíkurvöll. Við megum heldur ekki gleyma, að Watson kom hingað sjálfur til að svara til saka, en stjórnvöld höfðu þá ekki lengur áhuga.

Paul Watson er vandræðamaður, en hann getur seint orðið óvinur þjóðarinnar númer eitt. Stjórnvöld hafa játað það sjálf með því að vilja ekki halda honum í fangelsi. Óvinir þjóðarinnar eru á allt öðrum stöðum í litrófinu og allra sízt á róttæka umhverfiskantinum.

Ef ígildi Watsons á vegum ígildis Sea Shepherd vildi vinna hryðjuverk hér á landi, er einfaldast fyrir stjórnvöld að senda yfirlögregluþjóninn í Reykjavík til að taka hann fastan. Sá er þrautþjálfaður í að taka úr umferð ýmsa þá, sem veifa spjöldum á tyllidögum.

Ef yfirlögregluþjónninn í Reykjavík nægir ekki, má senda sýslumanninn í Rangárþingi á vettvang, enda er hann sérfræðingur í að ná upp vafasömum fánum, sem róttækir umhverfissinnar hafa komið fyrir í uppistöðulónum. Þar með ættum við að geta slakað okkur.

Heræfingin Norður-Víkingur á vegum Atlantshafsbandalagsins, varnarliðsins á Keflavíkurvelli og ríkisstjórnar Íslands lyktar hins vegar að krumpuðum ranghugmyndum um lífið og tilveruna. Hún sýnir, hvað atvinnulitlir herforingjar geta látið sér detta í hug.

Íslandi stafar hætta af kjarnorkuslysum austur í Rússlandi, af eyðingu ozon-lagsins og hitabreytingum í andrúmsloftinu. Íslandi stafar hætta af flutningi úrgangsefna með hafstraumum frá Sellafield og úr ruslahaugum í hafinu frá úreltum kjarnorkuverum.

Öll sú hætta, sem fræðilega getur steðjað að Íslandi á næstu árum, stafar af aðgerðum róttækra stóriðjumanna og herforingja víða um heim, en engin af aðgerðum róttækra umhverfissinna. Þáttakendur Norður-Víkings kunna engin ráð við raunverulegum hryðjuverkum.

Mikilvægt gæti verið að æfa viðbrögð við dauðum fiski, sem flýtur upp um allan sjó vegna eiturefna í straumum. Mikilvægt gæti verið að æfa viðbrögð við stórflóðum á landi vegna skemmda á stíflugörðum af völdum eldgosa, hraunrennslis og jarðskjálfta.

Janiver Solana, David Architzel og Halldór Ásgrímsson eru ekki að æfa aðgerðir til að milda áhrif róttækra umhverfishryðjuverka. Þvert á móti eru þeir að æfa aðgerðir gegn ímyndaðri hættu af völdum þeirra, sem vara okkur við hryðjuverkum gegn umhverfinu.

Í bezta lagi er heræfingin Norður-Víkingur vandræðagangur atvinnulítilla og illa gefinna herforingja og í versta lagi er hún yfirlýsing um illa krumpuð viðhorf til lífsins og tilverunnar. Hvort tveggja er málsaðilum til álitshnekkis, sem rétt er að hafa í flimtingum.

Miklu ódýrara og einfaldara er fyrir Janiver, David og Halldór að fara til Kaliforníu og skiptast þar á vöktum um að fylgjast með ferðum og hátterni Pauls.

Jónas Kristjánsson

DV

Eyjabakkar eru skiptimynt

Greinar

Tvær helztu röksemdir nýskipaðs umhverfisráðherra fyrir því, að ekki þurfi umhverfismat fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar eru, að Samfylkingin sé klofin í málinu og að nokkrir leiðtogar stjórnarandstöðunnar hafi óbeint samþykkt virkjunina fyrir sex árum.

Kjarni málsins er einmitt sá, að fátt hefur breytzt hraðar en almannarómur í umhverfismálum. Fyrir nokkrum árum hafði umhverfið lítinn forgang og fólk vissi lítið um Eyjabakka, en nú hefur það séð kvikmynd um þá og veit, að þeim má alls ekki sökkva.

Siv Friðleifsdóttir ber jafnlitla virðingu fyrir rökum og umhverfinu. Meintur ágreiningur Samfylkingarinnar um málið felst í slæðingi af atkvæðum á Austfjörðum, sem hafa ekki einu sinni mann á þingi. Aðeins henni dytti í hug að flytja slík rök gegn umhverfismati.

Reynslan sýnir, að nýi umhverfisráðherrann er framgjarnari en títt er um stjórnmálamenn og er þá mikið sagt. Hún mun áreiðanlega fyrr eða síðar leggja til atlögu við orkumálaráðherrann um varaformennsku í Framsóknarflokknum, helzta óvini íslenzkrar náttúru.

Ef það hentar Siv að beita umhverfismálum í slagnum við Finn Ingólfsson, mun hún gera það. Ef það hentar henni að halda friðinn til að grafa undan honum, mun hún gera það. Í báðum tilvikum verða umhverfismálin afgangsstærð á framabraut ráðherrans.

Guðmundur Bjarnason var að því leyti skárri umhverfisráðherra, að hann skammaðist sín fyrir að þurfa að láta umhverfið víkja fyrir landbúnaði að kröfu Framsóknarflokksins. Honum leið svo illa út af þessu, að hann hætti hreinlega afskiptum af stjórnmálum.

Hann lenti hvað eftir annað í úlfakreppu milli stóriðjudrauma flokksins og skyldustarfa sinna sem ráðherra, eins og bezt kom í ljós í afskiptum hans af Ríó-samkomulaginu í umhverfismálum og Kyoto-bókuninni í beinu framhaldi. Hann gat í hvorugan fótinn stigið.

Hinn nýi umhverfisráðherra mun því miður ekki lenda í neinni slíkri úlfakreppu. Hún er áhugalaus í umhverfismálum, að öðru leyti en því sem sá málaflokkur kunni að varða tilraunir hennar til að komast upp fyrir orkumálaráðherra í goggunarröð Framsóknar.

Þeir, sem telja, að varðveita beri Eyjabakka eins og Þjórsárver, eiga því ekki aðeins mikið starf fyrir höndum, heldur harða baráttu. Framsóknarflokkurinn gefur ekki með góðu eftir molana, sem hrjóta af allsnægtaborði framkvæmda við orkuver og stóriðju.

Íslenzkt náttúruverndarfólk þarf ekki aðeins að halda vöku sinni, heldur taka upp andóf til að koma í veg fyrir, að Eyjabökkum verði sökkt sem skiptimynt í goggunarstríði ráðherra orku- og umhverfismála. Eyjabakkar verða ekki varðir með nokkrum ráðstefnum.

Framsóknarmenn munu rægja erlenda stuðningsaðila málsins á borð við World Wildlife Fund og kalla þá öfgahópa, sem ætli að segja Íslendingum fyrir verkum. Það mun falla í kram þjóðernissinnaðra öfgamanna, sem eru fjölmennir meðal kjósenda Framsóknarflokksins.

Staðan er verri en hún var fyrir kosningar. Samkvæmt ummælum umhverfisráðherra telja framsóknarmenn sig hafa upp úr kjörkössunum umboð kjósenda til að gera það, sem þeim þóknast gegn náttúru Íslands, þótt kannanir sýni stuðning fólks við Eyjabakka.

Fyrstu ummæli nýs umhverfisráðherra benda til, að baráttan gegn hinum pólitísku landeyðingaröflum þurfi að verða óvenjulega hörð á þessu kjörtímabili.

Jónas Kristjánsson

DV

Lærdómsrík hernaðarsaga

Greinar

Ríki eiga ekki að fara í þorskastríð með því að beita freigátum eins og múrbrjótum. Léttbyggð skip eru dæmd til að tapa árekstrastríði fyrir varðskipum, sem eru styrkt til siglinga innan um ísjaka. Þannig er sagnfræðin full af reynslu, sem getur nýtzt í nútímanum.

Einn merkasti lærdómur hernaðarsagnfræðinnar er, að ríki eiga ekki að fara í hálf stríð eða kvartstríð. Þau eiga annað hvort að fara í heil stríð eða ekki fara í stríð. Þannig áttu Aþeningar ekki að senda tíu herskip til hjálpar Korkýringum, heldur tvöhundruð eða ekkert.

Ríki, sem hafa ætlað sér með sýndarmennsku að spara sér að fara í stríð, hafa lent í að vera dregin stig af stigi út í fullt stríð, sem varð þeim mun dýrara en það hefði orðið, ef þau hefðu tekið slaginn strax. Þannig varð stríðið um Kosovo lengra en það þurfti að vera.

Það er gömul saga, að gróin og þreytt herveldi hafa ranglega ofmetið eina sérgrein hernaðar, venjulega einhverja aðra en landhernað. Í gamla daga var sjóhernaður talinn allra meina bót, en í seinni tíð hafa ráðamenn þreyttra risavelda tekið trú á lofthernað.

Þannig ímynduðu Aþeningar sér, að ósigrandi floti þeirra mundi þreyta landher Spartverja í Pelopsskagastríðinu. Þannig ímynduðu Rómverjar sér, að yfirburðafloti þeirra mundi þreyta landher Hannibals frá Karþagó. Báðir greiddu ímyndunina dýru verði.

Svipað var uppi á teningunum í aðdraganda heimsstyrjalda tuttugustu aldarinnar. Bretar töldu sér trú um, að þeir gætu teflt þær skákir án marktæks landhers, í fyrra skiptið með flota og í síðari skiptið með flugher. Því urðu þeir að heyja illa undirbúin stríð.

Sagan segir okkur, að stríð er jafn algengt og friður og að friður ver sig ekki sjálfkrafa. Það þarf að verja hann með viðbúnaði. Á þessu flöskuðu Vesturveldin í aðdraganda heimsstyrjalda tuttugustu aldarinnar, en unnu síðar kalda stríðið með því að halda vöku sinni.

Stríð byggjast á því, að oftast eru til ófullnægð herveldi, sem vilja komast ofar í goggunarröðina eða þenja út áhrifasvæðið. Reynslan sýnir, að blóðbaðið verður minna, ef þau eru stöðvuð í upphafi. Þannig áttu Vesturveldin að vera búin að stöðva Serbíu í tæka tíð.

Edward Grey í fyrri heimsstyrjöldinni og Neville Chamberlain í hinni síðari töldu sér og öðrum trú um, að ófullnægða útþenslumenn mætti hafa ofan af villu sinni með þrúkki í stíl kjarasamninga. Þessa villu hafa Vesturveldin endurtekið í tvígang á Balkanskaga.

Ronald Reagan vann hins vegar kalda stríðið með því að yfirkeyra Sovétríkin í viðbúnaði. Þau hrundu af því að Reagan hafði hækkað kostnað þeirra við að leika hlutverk heimsveldis. “Stjörnustríð” Reagans leiddi til þess, að kalda stríðinu lauk án blóðsúthellinga.

Sagan segir líka, að sjónhverfingar vinna ekki stríð. Krústjov varð að gefa eftir í Kúbudeilunni, af því að Kennedy skoðaði spilin á hendi Krústjovs og þau reyndust vera hundar. Þessi reynsla kom Vesturveldunum ekki að gagni í þrúkkinu við Serbíu á Balkanskaga.

Mánuðum og misserum saman höfðu Vesturveldin í hótunum við Serbíu út af yfirgangi hennar í Bosníu og síðan Kosovo. Milosevic Serbíuforseti taldi jafnan, að þetta væru orð án innihalds. Hann reyndist lengst af hafa rétt fyrir sér og gekk sífellt lengra á lagið.

Af þessu má ráða, að stórveldisdagarnir séu taldir, þegar ríki má ekki lengur sjá blóð sinna manna. Það er íhugunarefni fyrir Vesturveldin, einkum Bandaríkin.

Jónas Kristjánsson

DV

Léttúð í dauðagildrum

Greinar

Talsmaður Spalar spurði nýlega í fjölmiðlum, hvort slökkviliðið í Reykjavík teldi, að Spölur ætti að borga brunavarnir fyrir það í göngunum í Hvalfirði. Talsmaður Bláa lónsins sagði skömmu síðar í fjölmiðlum, að “fullnægjandi” öryggis væri gætt í lóninu.

Það er tízku hjá mörgum, sem hafa komizt til manna-eða peningaforráða, að vera kokhraustir, þegar vanda ber að höndum. Sjaldgæft er þó, að menn tali af slíkri léttúð á almannafæri um mikinn ábyrgðarhluta eins og þessir tveir hafa hvatvíslega gert að undanförnu.

Hlutur talsmanns Bláa lónsins er að því leyti verri, að Bláa lónið er sagnfræðilega viðurkennd dauðagildra. Þar hafa átta manns farizt á hálfum öðrum áratug eða um það bil einn maður á tveggja ára fresti. Það hæfir ekki aðstandanda þess að tala af léttúð um slík mál.

Þegar næstsíðasta dauðsfallið bar að höndum, lentu talsmenn Bláa lónsins í deilu við eftirlitsaðila, sem töldu öryggi að ýmsu áfátt í lóninu. Tilfærsla lónsins á nýjan stað eftir tvær vikur verður eðlileg afleiðing langvinnrar umræðu um reynsluna af ýmiss konar háska.

Sumir eru drukknir og aðrir veikir. Sumir fara yfir girðingar og aðrir lesa ekki eða geta ekki lesið lesið viðvörunarorð. Lónið er ekki gegnsætt og gufa byrgir mönnum sýn. Dýpi er snögglega breytilegt og hiti er snögglega breytilegur. Allt eru þetta áhættuþættir.

Jafnvel þótt farið sé í hvívetna eftir því, sem samkomulag næst um milli Bláa lónsins og eftirlitsaðila í öryggismálum, er Bláa lónið hættulegur staður. Sagan sannar það og hún sannaði það enn í þessum mánuði, þegar fórst þar útlendingur, sem kunni ekki ensku.

Rökfræðilega er út í hött að fullyrða, að öryggi sé í lagi, þegar fólk ferst á stað, þar sem margir hafa áður farizt. Aðstandendur hafa einfaldlega ekki sett sér nógu harðar öryggiskröfur og magna með hverju mannslátinu hættuna á, að Bláa lónið verði illræmt.

Hvalfjarðargöngin eru ekki sagnfræðileg dauðagildra, því að þar hefur ekkert slys orðið. Umræðan um öryggismálin þar stafar af slysum í hliðstæðum göngum í frönsku Ölpunum. Verið er ræða um, hvort byrgja eigi brunninn áður en barnið dettur í hann.

Bent hefur verið á, að öryggisreglur í göngunum séu vægari en gengur og gerist í Evrópu vestanverðri. Deilt er um, hvort takmarka eigi enn frekar umferð bíla með hættuleg efni eða hvort hreinlega eigi að láta slíka umferð fara inn fyrir fjörðinn fremur en nota göngin.

Þegar reist er mannvirki, sem kallar á allt aðrar og meiri kröfur um brunavarnar en þau mannvirki, sem fyrir eru, hlýtur sá, sem rekur mannvirkið að bera ábyrgð á brunavörnum. Það ber vitni léttúðar að vísa til slökkviliðsins í Reykjavík um öryggi í göngunum.

Slökkviliðið í Reykjavík er útbúið til brunavarna í Reykjavík. Borgin getur með reglugerðum takmarkað frelsi manna til að reisa mannvirki, sem gera meiri kröfur um brunavarnir en slökkviliðið ræður við. Borgin hefur ekkert slíkt vald yfir Hvalfjarðargöngum.

Það er léttúðugt af talsmanni Spalar að segja Reykjavík eiga að kosta brunavarnir í Hvalfirði. Hann gæti rétt eins sagt, að Akranes ætti að borga brúsann. Auðvitað eiga brunavarnir í göngunum fyrst og fremst að vera hluti kostnaðar við gerð nýstárlegs mannvirkis.

Það vekur óhug, að menn í áhrifastöðum á viðkvæmum öryggissviðum skuli tala af eins fullkomnu gáleysi og talsmenn Spalar og Bláa lónsins hafa gert.

Jónas Kristjánsson

DV

Engin lausn án heilaþvottar

Greinar

Þegar Þýzkaland lá í rústum eftir síðari heimsstyrjöldina, ákváðu Vesturveldin og þeir, sem tóku völd í vesturhluta landsins eftir stríð, sameiginlega, að í senn yrðu Vestur-Þjóðverjar heilaþvegnir og Vestur-Þýzkaland yrði endurreist eins og Vestur-Evrópa öll.

Heilaþvotturinn fólst einkum í að stimpla lýðræðishyggju í fólk. Hann gekk lengst í nýjum her Vestur-Þýzkalands, sem nú er her sameinaðs Þýzkalands. Þar voru mönnum ekki síður kennd borgaraleg hugmyndafræði lýðræðis en hefðbundin hermennska.

Árangurinn var frábær. Þjóðverjar tóku mikilvæga stöðu í hópi vestrænna lýðræðisþjóða, höfðu frumkvæði að félagslegum markaðsbúskap og urðu að lokum feiknarlega ríkir og voldugir. Enginn efast lengur í alvöru um, að Þjóðverjar séu sannfærð lýðræðisþjóð.

Lakar tókst til með Japani, enda kom MacArthur hershöfðingi í veg fyrir hliðstæðan heilaþvott þar. Lögð var meiri áherzla á að koma upp formum lýðræðis en innihaldi. Japanir héldu áfram að trúa lygum um stríðið og halda þeim í kennslubókum að æskunni.

Þess vegna hefur Japönum ekki tekizt að finna sér trausta stöðu í umheiminum eins og Þjóðverjar. Japanir eru enn hataðir af nágrannaþjóðunum, sem eru dauðhræddar við þá. Þeir geta ekki tekið pólitíska forustu í sínum heimshluta eins og Þjóðverjar geta.

Í báðum tilvikum byggðist breytingin á skilyrðislausri uppgjöf þeirra, sem báru ábyrgð á óförunum. Ekkert slíkt er uppi á teningnum í Serbíu. Þar hefur Slobodan Milosevic raunar unnið hálfan sigur, því að niðurstaðan er honum mildari en Rambouillet-samkomulagið.

Hann hefur losnað við meirihluta íbúa Kosovo úr landi. Von Atlantshafsbandalagsins um jafntefli í stríðinu byggist á, að allur þorri þessa fólks treysti sér til að hverfa aftur til fyrri heimkynna sinna. En Vesturveldin hafa enga aðstöðu til heilaþvottar á Serbum.

Með tilvísun til sagnfræðinnar er heimskulegt af ráðamönnum Vesturlanda að tönnlast á því, að ekki verði veitt nein aðstoð við uppbyggingu í Serbíu fyrr en Milosevic sé farinn frá. Það er botnlaus misskilningur, að Milosevic einn sé vandamál umheims Serbíu.

Það er þjóðin sjálf, sem er vandamál. Hún þarf á heilaþvotti að halda. Serbar eru rumpulýður Balkanskaga, sem hefur verið þar til vandræða öldum saman. Nú síðast hafa Serbar þúsundum saman vaðið um Kosovo sem morðingjar, nauðgarar og brennuvargar.

Það lagar ekki hugarástand Serba, þótt Milosevic fari frá völdum. Margir stjórnmálamenn landsins eru miklu trylltari en hann. Serbar munu nota vestræna peninga, en þeir munu ekki af sjálfsdáðum taka upp neinar vestrænar mannúðar- og vináttuhugsjónir.

Vesturveldin munu ekki hafa annað en vandræði af endurreisn árásar- og útþenslugjarnrar Serbíu, þegar fram í sækir. Forsenda þess, að Serbía verði til friðs í nánasta umhverfi sínu, er að þar fari fram hliðstæður heilaþvottur og í Þýzkalandi fyrir hálfri öld.

Einkum þarf að endurskrifa sagnfræði Serba, sér í lagi sagnfræði styrjalda þeirra í Slóveníu, Króatíu, Bosníu og Kosovo á síðasta áratug. Hreinsa þarf burtu lygarnar og setja inn sannleikann um ótrúlega mannvonzku þeirra, sem þar hafa komið fram fyrir hönd Serba.

Engin ástæða er til að kasta einni einustu evru í Serbíu án þess skilyrðis, að þjóðin verði heilaþvegin og gerð friðsöm og spök að vestrænum lýðræðishætti.

Jónas Kristjánsson

DV

Lífeyri sóað í byggðagildru

Greinar

Kaup staðbundinna lífeyrissjóða á hlutafé í fallvöltum fyrirtækjum staðarins er enn einn hnykkurinn á skrúfgangi vítahrings byggðagildrunnar. Nú er röðin komin að árás byggðastefnunnar á lífeyrissparnað þeirra, sem eru svo óheppnir að búa í halloka sjávarplássum.

Lífeyrissjóður Vestmannaeyja hefur fjárfest í Vinnslustöðinni, sem stendur höllum fæti. Lífeyrissjóður Vestfjarða hefur fjárfest í Básafelli, sem stendur höllum fæti. Ef þessi fyrirtæki falla, rýrna tekjur margra sjóðfélaga um leið og verðgildi ævisparnaðar þeirra rýrnar.

Það er skylda lífeyrissjóða að taka litla áhættu og dreifa þeirri áhættu, sem þeir taka. Staðbundnir lífeyrissjóðir eiga sízt af öllu að fjárfesta í heimafyrirtækjum, því að sveiflur í atvinnulífi staðarins fara saman við sveiflur í efnahag staðarfólks, sem á lífeyrinn.

Lífeyrissjóður, sem fjárfestir sérstaklega í heimabyggð, setur of mörg egg í veikbyggða körfu. Hann vanrækir lífeyrishagsmuni sjóðfélaga í þágu byggðapólitískra hagsmuna, sem ekki eru á verksviði lífeyrissjóða. Slíkur sjóður misnotar ævisparnað almennings.

Byggðastefnan ræðst með fjölbreyttum hætti að hagsmunum íbúa sjávarplássa, sem eru á undanhaldi. Sveitarfélög nota útsvarstekjur til að fjárfesta í fallvöltum fyrirtækjum í björgunarskyni í stað þess að nota þær til að bæta þjónustu við fólk og gera líf þess þægilegra.

Sagan sýnir, að slíkar fjárfestingar hafa tilhneigingu til að gufa upp og verða að engu. Íbúarnir hafa jafnframt farið á mis við þægindi, sem fallið hafa í skaut íbúum sveitarfélaga, sem ekki hafa tekið þátt í vonlitlum aðgerðum til björgunar fallvöltum fyrirtækjum.

Staðarfólk er jafnframt hvatt til að leggja sjálft fram hlutafé til þessara sömu, fallvöltu fyrirtækja. Víða um land hefur verið skorin upp herör til stuðnings fyrirtækjum, sem talin eru hornsteinar atvinnulífsins. Þetta hlutafé getur fólk ekki notað fyrir sjálft sig.

Með áróðri fyrir bjartsýnisórum eru íbúar þessara sveitarfélaga hvattir til að festa fé sitt í vönduðum og dýrum íbúðarhúsum, sem síðan rýrna að verðgildi og verða að lokum verðlaus með öllu, af því að fólksflótti hefur framkallað offramboð af lausu íbúðarhúsnæði.

Ekki skiptir máli, hvað var til á undan, eggið eða hænan. Aðalatriðið er, að allir þessir þættir snúast á sömu sveif við að herða skrúfganginn í vítahring byggðagildrunnar. Samanlagt magna þeir óhagræði fólks af því að búa á stöðum, þar sem byggðastefna ríkir.

Peningar fólks brenna í óseljanlegum íbúðarhúsum, í verðlausu hlutafé þess í hallærisfyrirtækjum, í útsvarspeningum, sem hverfa í þessum sömu fyrirtækjum og nú síðast einnig í lífeyrissjóðum, sem sóa fé til að kaupa hlutafé í fyrirtækjum, sem verða verðlaus.

Dæmi af hinum endanum er Reykjavík, þar sem engum dettur lengur í hug að halda uppi Bæjarútgerð og menn yppta bara öxlum, ef fyrirtæki eða fólk flytst til sveitarfélaganna í nágrenninu eða út á land. Peningum Reykvíkinga er ekki brennt á altari byggðastefnu.

Kostnaðarsöm verndun fyrirtækja og byggða, sem standa höllum fæti, gleypir alla peninga, sem í hana er kastað. Hún er fen, sem magnar vandann, sem átti að milda. Hún dregur úr getu fólks til að bjarga sér undan á flótta. Hún er byggðagildra, sem lokar fólk inni.

Með því að misnota staðbundna lífeyrissjóði til að soga sparifé staðarfólks inn í vítahring byggðagildrunnar, er stigið stærsta skrefið til siðleysis í byggðastefnu.

Jónas Kristjánsson

DV

Steinbarnið er feimnismál

Greinar

Álverið, sem iðnaðar- og utanríkisráðherra vilja reisa á Reyðarfirði, er ekki lengur álver Norsk Hydro með íslenzkri eignaraðild, heldur íslenzkt álver með 20­25% eignaraðild Norsk Hydro. Þetta eru fréttir, sem ekki hafa legið á lausu fyrr en núna eftir kosningar.

Þrátt fyrir digurbarkaleg ummæli um mikla arðsemi fyrirhugaðs álvers, hefur áhugi Norsk Hydro farið ört minnkandi, ef hann er reiknaður í loforðum um hlutafjárprósentu. Nú er reiknað með, að álverið verði umtalsverður baggi á fjárfestingargetu Íslendinga.

Með því að reyna að veita fjármagnsstraumum Íslands í farveg álvers á Reyðarfirði, eru iðnaðar- og utanríkisráðherra með hjálp ríkisstjórnarinnar allrar að taka upp þriðja heims stefnu í stóriðju. Það sem Svisslendingar hafa losnað við, vilja þeir innleiða hér.

Einu sinni vildu Svisslendingar álver, af því að þeir eiga nóg vatnsafl. Langt er síðan þeir fóru að losa sig við þessi fyrirtæki, sem í senn hafa tiltölulega litla arðsemi og veita tiltölulega litla vinnu. Nú er svo komið, að Svisslendingar hafa losað sig við öll sín álver.

Svipað hefur verið uppi á teningnum í Þýzkalandi. Þar var raunar rifið álver flutt til Íslands og reist að nýju í Hvalfirði. Við erum eins konar ruslakista fyrir atvinnugreinar, sem ríku þjóðirnar vilja losna við, en geta hentað sérhæfðum byggðasjónarmiðum hér á landi.

Orkufrekur iðnaður hefur hröðum skrefum verið að flytjast frá Vesturlöndum til þriðja heimsins, því að Vesturlönd telja sér betur borgið á öðrum sviðum atvinnulífsins, í fjármálum, í þekkingariðnaði, í tölvutækni og ýmsum öðrum nútímalegum atvinnugreinum.

Álverið á Reyðarfirði á raunar sögulegar rætur að rekja til Grímsárvirkjunar, sem endur fyrir löngu var reist austur á Héraði fyrst og fremst til að framleiða byggingarvinnu handa kjósendum. Orkuverið varð frægt fyrir, að vatn skorti í steypuna, þegar það var reist.

Álver framkalla sveiflu. Mikinn mannskap þarf til að reisa þau. Á skömmum byggingartíma flæða peningar um héruð. Sú er ástæðan fyrir því, að þriðja heims stjórnmálamenn á borð við okkar iðnaðar- og utanríkisráðherra vilja troða þessu álveri upp á þjóðina.

Þegar framkvæmdum er lokið, fá tiltölulega fáir vinnu við rekstur álvera. Það er öldudalurinn eftir sveifluna, sem gleymist oft, þegar menn dreymir um orkufrekan iðnað. Miklu meiri atvinnu í héraði er hægt að framleiða með mörgum smáfyrirtækjum í ferðaþjónustu.

Í arðsemisútreikningum verksmiðjunnar er ekki gert ráð fyrir umhverfissjónarmiðum, sem koma til dæmis í veg fyrir, að frægar náttúruvinjar verði lagðar í eyði. Þótt iðnaðar- og utanríkisráðherra sé hjartanlega sama um þær, mun þjóðin aldrei leyfa eyðingu þeirra.

Það er ekki nýtt, að helztu framsóknarflokksmenn þjóðarinnar vilji ganga á skítugum skónum yfir margt af því, sem þjóðinni er kærast. En þjóðin hefur nú vaknað til vitundar um raunveruleg verðmæti landsins og mun ekki lengur láta slíkt viðgangast baráttulaust.

Norsk Hydro hefur raunar áttað sig á, að fyrirtækið hefur engan sóma af aðild sinni á málinu og er smám saman að reyna að draga sig í hlé. Iðnaðar- og utanríkisráðherra sitja með hjálp nýs umhverfisráðherra uppi með steinbarn miðlunarlóns á Eyjabökkum.

Tregða óvina íslenzkrar náttúru við að játa fyrr en seint og um síðir minnkandi áhuga Norsk Hydro sýnir vel, að álverið á Reyðarfirði er feimnismál.

Jónas Kristjánsson

DV

Þangað sækir klárinn

Greinar

Einkennilegt upphlaup hefur orðið í þjóðfélaginu vegna hækkunar iðgjalda í bílatryggingum. Bíleigendur láta eins og þeir hafi orðið fyrir óvæntum hremmingum, sem Fjármálaeftirlitið eða einhverjir aðrir opinberir aðilar eigi í krafti Stóra bróður að láta ganga til baka.

Staðreyndin er hins vegar sú, að markaðurinn ræður því, hvað tryggingafélögin telja sig geta komizt upp með. Fyrir nokkrum árum var til höfuðs þeim stofnað eigið tryggingafélag bíleigenda, sem bauð þá og býður enn miklu lægri iðgjöld en gömlu tryggingafélögin.

Í Bandaríkjunum hefði atburðarásin verið á þá leið, að meirihluti bíleigenda hefði fært sig yfir til ódýra tryggingafélagsins og þar með knúið dýru félögin til skilyrðislausrar uppgjafar. Borgaraleg samstaða Bandaríkjamanna veldur lágu verði á vöru og þjónustu.

Hér hugsa menn allt öðru vísi: Hinir mega taka þátt í að lækka verð trygginga fyrir alla með því að flytja sig til nýja félagsins, en ég ætla að vera frífarþegi á þeirri braut og bíða eftir lækkun míns gamla félags. Þannig fæ ég hagnaðinn, án þess að taka þátt í aðgerðunum.

Gömlu tryggingafélögin hjálpuðu fólki til að vera stikkfrí í verðstríðinu með því að setja bílatryggingarnar í pakka með öðrum tryggingum og veifa þar með óbeint ógnuninni um að hækka iðgjöld á öðrum sviðum, ef menn hætti að tryggja bílana hjá þeim.

Afleiðingin var sú, að flestir sátu um kyrrt hjá gömlu félögunum og sannfærðu ráðamenn þeirra um, að viðskiptamennirnir mundu sitja sem fastast, á hverju sem dyndi. Enda mun koma í ljós, að upphlaup líðandi stundar reynist vera stormur í vatnsglasi.

Reikningsmenn tryggingafélaga eiga auðvelt með að semja útreikninga, sem sýna, að þau þurfi svo og svo mikla hækkun. Reikningsmenn neytendasamtaka og bíleigendafélaga eiga jafnauðvelt með að semja útreikninga, sem sýna, að hækkunin sé að mestu óþörf.

Að undanförnu hafa tryggingafélögin safnað tugum milljarða króna í bótasjóði til að mæta óvæntum áföllum. Nýja hækkunin gerir hvort tveggja í senn að mæta óvæntum áföllum og að halda áfram að safna milljörðum á hverju ári í þessa áfallasjóði án þess að þurfa það.

Reikningarnir eru samt bara eins konar menúett, sem stiginn er formsins vegna. Upphæð iðgjalda ræðst ekki af slíkum útreikningum, heldur af mati ráðamanna gömlu tryggingafélaganna á því, hvað markaðurinn þoli, hvað þeir komist upp með að hækka iðgjöldin mikið.

Þeir gera ráð fyrir, að örlítil bylgja reiðra bíleigenda flytji tryggingar sína, en öldudalurinn komi fljótt á eftir. Hækkunin muni gera margfalt meira en að bæta upp brottfall nokkurra viðskiptamanna. Og þeir meta tryggð þrælslundaðra viðskiptamanna nákvæmlega rétt.

Eins og Bandaríkjamenn geta Íslendingar sjálfir ákveðið, hvað markaðurinn þolir há iðgjöld, eins og þeir geta ákveðið, hvað markaðurinn þolir hátt bensínverð. Reynslan sýnir, að við getum sameinazt um að leggjast á bílflautur, en ekki að taka strætó einn dag.

Við lifum í þjóðfélagi, þar sem máttur vanans er mikill, þar sem menn eru vanir að lúta yfirvaldinu og reyna að finna leiðir til að væla fríðindi út úr því, en eru ófærir um að taka höndum saman um að brjótast úr viðjum þeirra, sem hafa slegið eign sinni á þjóðfélagið.

Einkunnarorð þjóðar, sem þorir hvorki né nennir að taka afleiðingum aðgerðaleysis síns, eru réttilega þessi: Þangað sækir klárinn, sem hann er kvaldastur.

Jónas Kristjánsson

DV

Heybrókaþjóð

Greinar

Biskup hefur sett séra Örn Bárð Jónsson af sem ritara kristnihátíðarnefndar í kjölfar bréfs frá forsætisráðherra um fræga smásögu Arnar, “Íslenska fjallasölu hf.”, og bætir gráu ofan á svart með orðhengilshætti um, að hann hafi ekki vikið Erni úr ritarastarfinu.

Biskupinn hefur með þessu sýnt landlægan undirlægjuhátt, sem einkennir marga þá, sem þurfa að eiga samskipti við forsætisráðherra, enda virðist sá síðarnefndi fremur en ekki hvetja til slíkrar framgöngu, svo sem sjá má af nótuskrifum hans í ýmsar áttir.

Eins og aðrir Íslendingar á biskupinn erfitt með að gera greinarmun á eðlilegum boðskiptum í lýðræðisþjóðfélagi og tilskipunum þeim, sem einvaldskonungar gáfu út fyrir nokkrum öldum. Eins og margir aðrir skelfur hann, þegar hann heyrir forsætisráðherra nefndan.

Í gær birtist í DV lesandabréf frá Íslendingi, sem hefur búið þrjá vetur í Bretlandi og nefnir ýmis dæmi um misjafnt stjórnarfar hér og þar. Endar hann grein sína á orðunum: “Íslendingar geta lært mikið af Bretum, því þeir búa við lýðræði í flestum greinum.”

Við búum við stjórnskipan, sem við höfum ekki unnið fyrir eða ræktað, heldur fengið flutta inn. Bretar eru andstæða okkar að þessu leyti. Þeir ræktuðu með sér lýðræði á löngum tíma í baráttu við konungsvaldið og fluttu það síðan með sér til annarra enskumælandi ríkja.

Norðurlandabúum, öðrum en Íslendingum, hefur tekizt öðrum þjóðum betur að tileinka sér lýðræði og haga sér eftir innihaldi þess. Það sést bezt af því, að ráðherrar taka ábyrgð á ráðuneytum sínum og segja af sér, ef ráðuneytið verður uppvíst að gerræði.

Hér segir enginn af sér, enda ber enginn ábyrgð á neinu. Í stað réttra boðleiða er stjórnað með símtölum og nótum að hætti forsætisráðherra. Þetta hentar þjóð, sem er ekki mynduð af frjálsum borgurum, heldur þegnum, sem skríða hver um annan þveran fyrir yfirvaldinu.

Bráðum verður gengið fram hjá góðum umsækjendum um starf forstjóra flugstöðvarinnar á Keflavíkurvelli. Þá verður stýrimennska hjá stórfyrirtækjum og alþjóðastofnunum einskis metin í samanburði við flokksskírteini annars, sem á skattsvik og skjalafals að baki.

Hin séríslenzka útgáfa lýðræðis er eins konar ráðherralýðræði, þar sem tíu eða tólf smákóngar eru einræðisherrar hver á sínu sviði, framleiða út og suður tilskipanir, svonefndar reglugerðir, og láta hagsmunaaðila viðkomandi sviðs reyna að keppa um hylli sína.

Þetta endurspeglast í þeim þáttum atvinnulífsins, sem tengdust eru ríkiskerfinu. Þannig færði stjórn Kaupfélags Þingeyinga Kaupfélagi Eyfirðinga mjólkursamlag á silfurfati, þótt sala þess á frjálsum markaði hefði hindrað umtalsvert fjárhagstjón þingeyskra bænda.

Í öllum tilvikum komast stórir og smáir kóngar upp með það, sem þeir eru að gera, af því að Íslendingar eru upp til hópa heybrækur, afkomendur fólks, sem kynslóðum saman var kúgað af sýslumönnum og stiftamtmönnum og var síðan gefið frelsi á dönsku silfurfati.

Ef brezkir ráðherrar og aðrir áhrifamenn höguðu sér eins og íslenzkir starfsbræður, yrðu hreinlega uppþot þar í landi. Hér muldra menn í barm sér, en gera ekkert í málinu og kjósa síðan kúgara sína aftur á fjögurra ára fresti. Spillingin er þjóðinni sjálfri í blóð borin.

Þegar biskupinn fær skjálfta af lestri orðsendingar frá stórkónginum og tekur að sér skítverk fyrir hann, er hann aðeins að fylgja fordæmi þrælaþjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrengdir kostir vesturveldanna

Greinar

Louise Arbour, forseti stríðsglæpadómstólsins í Haag, segir ákæru dómsins á hendur Slobodan Milosevic Serbíuforseta og helztu samstarfsmanna hans ekki hafa gert hann að vanhæfum samningamanni um Kosovo. Hún hafi bara sýnt fram á vanhæfni hans.

Hingað til hafa vesturveldin hagað sér eins og þau gætu hugsað sér að semja við Milosevic um niðurstöðu Kosovo-deilunnar. Eftir ákæruna um stríðsglæpi er sú leið úr sögunni. Gegn vilja sínum neyðist Atlantshafsbandalagið til að heyja Kosovo-stríð til enda.

Enginn vestrænn ráðamaður hefur lengur ráð á að láta mynda sig við að handsala samkomulag við Milosevic eða helztu samstarfsmenn hans. Hver sá yrði óhreinn á hendinni alla ævi. Stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur snögglega sýnt þeim fram á þetta.

Ákæran jafngildir því ekki, að Slobodan Milosevic fái makleg málagjöld fyrir hrikalega glæpi gegn mannkyninu. Radovan Karadzic og Ratko Mladic ganga enn lausir í Bosníu undir verndarhendi Atlantshafsbandalagsins þrátt fyrir ákæru stríðsglæpadómstólsins.

Hermála- og utanríkisráðuneyti vesturveldanna, einkum Bandaríkjanna, hafa tregðazt við að afhenda stríðsglæpadómstólnum mikilvæg gögn, sem vitað er um í Bosníumálinu. Ekkert bendir til, að tvískinnungurinn verði minni, þegar kemur að gögnum um Kosovo.

Hingað til hefur Atlantshafsbandalagið ekki aðhafzt neitt, sem auðveldi eða flýti fyrir heimkomu brotthrakinna Kosovara. Glæpasveitir Serba leika lausum hala í Kosovo og njóta algerra yfirburða í lofti, þegar þeir beita lágfleygum þyrlum gegn fólkinu í landinu.

Þegar vel viðrar er Atlantshafsbandalagið á ferðinni hæst í háloftunum og dritar sprengjum með litlum árangri. Það hefur tekið meira en tvo mánuði að gera orkuver Serbíu óvirk. Sprengjur bandalagsins hafa lent út og suður og jafnvel lengst austur í Búlgaríu.

Á meðan hefur Slobodan Milosevic getað óáreittur haldið áfram ætlunarverki sínu. Fljótlega verður hann búinn að losa sig við allan þorra íbúa Kosovo með því að drepa þá eða flæma þá úr landi. Þetta er ekki stríð af hálfu Atlantshafsbandalagsins, heldur stríðsleikur.

Við slíkar aðstæður er frábært, að stríðsglæpadómstóllinn í Haag hefur þrengt kosti vesturveldanna. Þau standa nú andspænis því að verða nauðug viljug að breyta stríðsleiknum í stríð. Þau hafa ekki efni á að hætta fyrr en ósigri hefur verið breytt í sigur.

Hér eftir verður markmið vesturveldanna ekki lengur að knýja Milosevic til að fallast á niðurstöðu Rambouillet-fundarins um lausn Kosovo-deilunnar, heldur að reka hann og helztu samverkamenn hans frá völdum, svo að hægt verði að framkvæma niðurstöðuna.

Þetta þýðir aðeins eitt. Gegn vilja sínum verða vesturveldin að byrja að beita þyrlum til að þurrka út nauðgana- og morðsveitir Serbíuhers í Kosovo og undirbúa innrás, sem hefjist á miðju sumri. Hér eftir vinnst sigur aðeins á vígvellinum, ekki við samningaborðið.

Hér eftir geta ráðamenn vesturveldanna ekki lengur leikið það að tala digurbarkalega og stunda sýndarstríð í háloftunum yfir Balkanskaga. Þeir neyðast til að mæta raunveruleikanum og velja milli þess að gefast upp eftir ósigra vorsins eða hefja stríðsrekstur í alvöru.

Framtak Stríðsglæpadómstólsins í Haag markar þáttaskil í Kosovo. Vesturveldin geta ekki lengur þyrlað upp ryki og verða að fara haga sér eins og stórveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Einokun er endastöð

Greinar

Þótt Baugur sé kominn með rúmlega helmings markaðshlutdeild eftir kaupin á verzlunarkeðjunni 10-11, leiðir það ekki til hækkaðs vöruverðs í náinni framtíð. Hins vegar er ástæða til að óttast þessa þróun í átt til fákeppni, þegar litið er lengra fram á veginn.

Einu sinni hafði Hagkaup forustu um lækkun vöruverðs og lækkun verðbólgu á Íslandi. Síðan tók Bónus við þessu hlutverki og nú síðast hafa 10-11 búðirnar gegnt mikilvægu hlutverki á þessu sviði. Nú eru allar þessar keðjur komnar undir einn hatt Baugs.

Fyrir utan stendur Kaupás með tæplega fjórðungs markaðshlutdeild í keðjunum Nóatúni, 11-11 og KÁ. Tvær stærstu keðjurnar hafa þannig rúmlega þrjá fjórðu hluta alls matvörumarkaðarins og gætu hæglega gert heiðursmannasamkomulag um hóf í samkeppni.

Þetta þrengir kost stjórnvalda. Matvöruverzlunin í landinu hefur á undanförnum áratug verið mikilvægasti bandamaðurinn í lækkandi verðbólgu, vaxandi kaupmætti og auknum vinnufriði í landinu. Snúist dæmið við, verða stjórnvöld hengd, en ekki Baugur.

Neytendur eru á sama báti og stjórnvöld í þessu efni. Ef Baugur og Kaupás fara að gæta hófs í samkeppni sín í milli, sem er tiltölulega einföld ákvörðun tveggja aðila, leiðir það til kaupmáttarskerðingar, sem kemur harðast niður á þeim, sem flesta hafa munna að seðja.

Vandi framleiðenda er annar og meiri. Þeir verða að sæta því, að tveir aðilar ákveði nánast einhliða, hvor út af fyrir sig eða sameiginlega, hvað varan eigi að kosta til Baugs og Kaupáss. Óhjákvæmilegt er, að fákeppnin leiðir til grisjunar í landbúnaði og matvælaiðnaði.

Við erum vitni að heimsþekktu ferli í samskiptum fyrirtækja. Viðskiptafrelsi leiðir til harðnandi samkeppni, sem fyrirtæki svara með samruna til að auka hagkvæmni og losna við kostnaðarsama keppinauta. Samkeppnin breytist í fákeppni og á endanum í einokun.

Síðustu stig ferlisins valda stjórnvöldum, neytendum og framleiðendum staðbundnum vanda, þótt þau séu á ýmsan annan hátt hagkvæm. Þessi staðbundnu vandamál leiða til þess, að stjórnvöld reyna af veikum mætti að spyrna við fótum með lögum og reglugerðum.

Stjórnvöld eiga erfitt með að finna vatnaskilin, enda eru þau breytileg eftir aðstæðum hverju sinni. Spurningin er, hvenær er komið að þeim stað, að vötn renna ekki lengur í átt til hagsældar stjórnvalda og neytenda og fara að renna í öfuga átt við þessa mikilvægu hagsmuni.

Bandarísk stjórnvöld hafa gengið harðast stjórnvalda fram í viðnámi gegn þessu ferli. Þannig var bandaríska símafyrirtækið klippt niður í margar einingar og þannig á ríkið nú í endalausum málaferlum gegn fjölbreyttri einokunaráttu hugbúnaðarrisans Microsoft.

Hér á landi er viðnámið mildara og losaralegra. Óljóst er, hvað Samkeppnisstofnun getur gert í málinu og hvað henni ber í raun að gera. Hún getur svo sem lýst áhyggjum sínum eins og allir hinir, stjórnvöld, neytendur og framleiðendur, og látið að mestu þar við sitja.

Það veikir möguleika stjórnvalda að gera neitt í málinu, að ekki er hægt að reikna með skaðlegum áhrifum af kaupum Baugs á 10-11 búðunum í náinni framtíð. Ef um skaðleg áhrif verður að ræða, munu þau koma svo seint fram, að ekki er þá hægt að grípa í taumana.

Innri þverstæða samkeppninnar er, að hún á sér framtíðarmarkmið og náttúrulega endastöð í einokun og að við vitum ekki, hvort eða hvernig á að bregðast við.

Jónas Kristjánsson

DV

Bændur féflettir

Greinar

Ef Mjólkursamlag Kaupfélags Þingeyinga hefði verið selt á frjálsum markaði, hefði fengizt svo miklu meira fyrir það, að þingeyskir bændur hefðu fengið til baka allt það fé, sem þeir áttu inni hjá kaupfélaginu. Í staðinn tapa þeir 140 milljónum króna á hruni fyrirtækisins.

Bændur selja kaupfélögum afurðir og kaupa af þeim nauðsynjar í staðinn. Viðskiptareikningur hjá kaupfélagi hefur löngum verið ávísanareikningur bænda. Margir Þingeyingar áttu nokkur hundruð þúsund krónur inni á viðskiptareikningi hjá kaupfélagi sýslunnar.

140 milljónir króna af inneign bænda á viðskiptareikningum í kaupfélaginu urðu glatað fé, þegar það hrundi um daginn og mjólkurkýr þess var seld með öðrum eignum til að afla fjár upp í sviptingar, sem teldust vera gjaldþrotaskipti, ef um hlutafélag væri að ræða.

Stjórn Kaupfélags Þingeyinga leitaði ekki tilboða, heldur ákvað að selja mjólkursamlagið til Kaupfélags Eyfirðinga á Akureyri fyrir 237 milljónir króna. Engin tilraun var gerð til að finna, hvort þetta væri rétt verð fyrir samlag með 27 milljón króna árlegan hagnað.

Mjólkursamlagið var eina rósin í hnappagati Kaupfélags Þingeyinga. Það framleiddi undir eigin vörumerki mjólkurvörur, sem vakið höfðu athygli um allt land, þar á meðal á hinum erfiða markaði höfuðborgarsvæðisins. Slíkur orðstír er verðmætur, þegar fyrirtæki er selt.

Kaupsýslumenn höfðu lýst áhuga á að kaupa mjólkursamlagið. Starfsmenn fjármálafyrirtækja sundurgreindu ársreikninga þess og mátu það á 350­400 milljónir króna. Og kaupfélagið þurfti einmitt slíka upphæð, 377 milljónir, til að geta staðið í skilum við bændur.

Þegar slíkar upplýsingar eru fáanlegar, er ábyrgðarlaust að afla ekki tilboða í mjólkursamlagið í stað þess að afhenda það KEA á silfurfati. Greinilegt er, að stjórn kaupfélagsins hefur tekið hagsmuni annars kaupfélags fram yfir hagsmuni sinna eigin félagsmanna.

Þetta þætti glæpsamlegt í hlutafélagarekstri og yrði tekið á því sem slíku. Kaupfélög eru hins vegar svífandi fyrirbæri, þar sem erfitt er að skera úr um, hver á hvað og hver ber ábyrgð á hverju. Niðurstaðan er venjulega, að enginn á neitt og enginn ber ábyrgð á neinu.

Kaupfélögin eru hluti valdakeðju, þar sem aðrir helztu hlekkirnir eru stofnanir landbúnaðarins og landbúnaðarráðuneytið. Í þessari keðju hefur löngum verið venja að taka hagsmuni fyrirtækja og stofnana fram yfir hagsmuni bænda, sem litið hefur verið á sem þræla.

Offramleiðslustefnan, sem ríkti um áratugi í landbúnaði, var ekki rekin í þágu bænda. Þeir voru bara vinnudýr stefnunnar, hvattir til að framleiða meira og meira, unz markaðurinn hrundi. Þá voru þeir látnir borga brúsann með kvótakerfi, sem hertist að hálsi þeirra.

Mikilvægt markmið offramleiðslustefnunnar var, að kaupfélög reistu frystigeymslur og kæligeymslur, sem þau síðan leigðu ríkinu fyrir okurverð til að geyma óseljanlegar afurðir, sem biðu útflutnings. Mikilvægt var, að halda þessum geymslum alltaf sneisafullum.

Óvinir bænda voru þeir kallaðir, sem börðust gegn offramleiðslustefnunni á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum. Bændur trúðu þessu margir, þótt hinn raunverulegi óvinur þeirra væri yfirstéttin, sem réð ríkjum syðra í keðju fyrirtækja og stofnana landbúnaðarins.

Síðan hrundi offramleiðslukerfið og bændur um allt land voru gerðir að fátæklingum. Fyrirlitningin á þeim lifir góðu lífi í ráðstöfun eigna Kaupfélags Þingeyinga.

Jónas Kristjánsson

DV

Assýringar Balkanskaga

Greinar

Fyrir þremur árþúsundum voru Assýringar plága Miðausturlanda. Með hléum voru þeir öldum saman skelfing fólks í fljótalandi Efrat og Tígris. Fólk hvítnaði, þegar þeir voru nefndir, svo grimmir voru þeir, þegar þeir fóru um og kvöldu alla, sem þeir fundu.

Heimildir um æði Assýringa er ekki aðeins að finna í textum frá þjóðum, sem urðu fyrir barðinu á þeim, heldur eru þær einnig staðfestar í áletrunum þeirra sjálfra. Þar gorta þeir sig af illverkum sínum og lýsa þeim af óhugnanlega sjúklegri nákvæmni.

Allar tilraunir nágrannaþjóða til að hafa hemil á Assýringum fóru út um þúfur. Þeir risu alltaf upp aftur eftir ósigra sína. Það var ekki fyrr en Medar og Babýlóníumenn tóku sig saman um að útrýma vandamálinu, að lagður var grunnur að friði í Miðausturlöndum.

Í veraldarsögunni hafa stundum verið til þjóðir, sem hafa verið nágrönnum sínum til meiri vandræða en títt er um aðrar þjóðir. Þannig stóð Evrópu ógn af Húnum og Mið-Ameríku af Aztekum og þannig hafa Serbar öldum saman verið meginplága Balkanskaga.

Habsborgarar og Ottómanar skiptu löngum með sér skyldum að halda friði á þessu svæði, einkum með því að halda Serbum í skefjum. Þegar gömlu stórveldin hrundu snemma á þessari öld, fóru Serbar aftur á stúfana í assýrískri umgengni við nágranna sína.

Skelfingin, sem Serbar hafa á síðustu árum stráð í kringum sig, er ekki einum Slobodan Milosevic að kenna. Hann nýtur stuðnings meirihluta þjóðar sinnar og hefur ítrekað fengið hann staðfestan. Serbar vilja koma fram við nágranna sína á assýrískan hátt.

Þegar fjallað var um voðaverk Serba í Bosníu og þegar fjallað er nú um voðaverk þeirra í Kosovo, er viðkvæði brottfluttra Serba jafnt sem heimaalinna, að Vesturveldin séu að hefta svigrúm Serba og koma í veg fyrir eign þeirra á sagnfræðilega heilögu landi þeirra.

Aldrei láta þeir, hvort sem þeir búa á Íslandi eða annars staðar í heiminum, í ljósi nokkurn skilning á örlögum fólksins, sem verður fyrir trylltu æði Serba, þegar þeir berja, nauðga, brenna og taka af lífi. Í hugum alls þorra þeirra helgar tilgangurinn öll meðöl, öll.

Óeðli Serba liggur ekki í litningum, heldur er það drukkið með móðurmjólkinni kynslóð eftir kynslóð. Það verður aðeins stöðvað með skilyrðislausri uppgjöf þeirra, hernámi alls landsins og endurmenntun heilla kynslóða eins og í Þýzkalandi eftir heimsstyrjöldina.

Þar sem Vesturveldin hafa glatað hæfninni til að heyja stríð og mega raunar ekki lengur sjá blóð, er þessi kostur ekki lengur í stöðunni. Þess vegna eru loftárásir Atlantshafsbandalagsins gagnslitlar og hafa aðeins hleypt enn verra blóði í hina hatursfullu þjóð.

Hér í blaðinu var fyrirfram varað við þessu stríði, af því að Vesturveldin hafa ekki bein í nefinu til að heyja það í botn. Bent var á skárri kost í vondri stöðu að loka landamærunum og vernda þá, sem eru svo heppnir að vera utan þeirra, en láta hina um örlög sín.

Hins vegar er fráleitt, að Vesturlönd eigi framvegis nein viðskipti eða önnur samskipti við Serbíu eða Serba, hvort sem það eru íþróttamenn eða aðrir. Fráleitt er að veita neinum einasta Serba landvist utan þess helvítis, sem þeir hafa sjálfir framleitt á Balkanskaga.

Þótt Vesturveldin hafi glatað getunni til hernaðar gegn illum öflum, hafa þau nægan mátt til að loka Assýringa nútímans inni í hatri sínu og forneskju.

Jónas Kristjánsson

DV

Davíð skaffaði

Greinar

Sigursæl kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins var einföld og æsingalaus. Það mannlega sameinaði hún tilvísunum í almælt tíðindi. Hún vakti athygli á foringja flokksins og góðærinu, sem verið hafði á kjörtímabilinu. Í stuttu máli sagði flokkurinn: Davíð skaffaði.

Baráttan vísaði ekki til nútíðar og því síður til framtíðar. Hún var hugsuð í þátíð og höfðaði til þess, að fólk telur sig í framtíðinni geta treyst þeim, sem hafi staðið sig vel í fortíðinni. Tilvísun til reynslu er oft sterkari áróður en loforð um gull og græna skóga.

Markhópur Sjálfstæðisflokksins var sá ríflegi meirihluti kjósenda, sem hefur það töluvert betra núna en hann hafði fyrir fjórum árum. Það var nægilega stór markhópur fyrir stærsta flokk þjóðarinnar, enda reyndist hann vera móttækilegur fyrir áróðrinum.

Stærsti flokkurinn taldi sig hafa ráð á að forðast í kosningabaráttunni að þykjast vera allt fyrir alla. Hann féll ekki í gryfju Framsóknarflokksins og Samfylkingarinnar. Hann valdi sér markhóp og náði góðu sambandi við hann, en lét smælingja þjóðfélagsins eiga sig.

Þar sem skilaboðin voru skýr, þurfti Sjálfstæðisflokkurinn ekki dýra kosningabaráttu til að koma þeim á framfæri. Hann notaði helmingi minna fé en keppinautarnir tveir notuðu hvor um sig og kom því um leið til skila, að hann væri hófsamur innan um eyðsluseggi.

Græna vinstrið fetaði svipaða braut og Sjálfstæðisflokkurinn og þurfti sáralitla peninga til að koma því á framfæri, að það væri allt öðruvísi flokkur en allir hinir flokkarnir. Hér væri kominn flokkur, sem hefði sérstöðu og nánast sérvizku á öllum helztu sviðum.

Markhópurinn var tiltölulega fámennur, innan við fimmtungur þjóðarinnar. Flokkurinn taldi sig geta leyft sér að hafa á ýmsum sviðum stefnu, sem meirihluti þjóðarinnar er andsnúinn. Flokkurinn vildi virðast vera eins konar fjölmennur sértrúarsöfnuður og tókst það.

Líkt og Sjálfstæðisflokkurinn lofaði Græna vinstrið kjósendum ekki gulli og grænum skógum, heldur vakti athygli á sérstöðu sinni í pólitíkinni. Þetta þótti traustvekjandi og varð til þess, að nýi flokkurinn náði öllu því fylgi, sem hann hafði fyrirfram sagzt stefna að.

Þessi tvö dæmi sýna yfirvegaða stjórnmálaflokka, sem vissu, hverjir voru vænlegir markhópar og sneru sér að þeim, eyddu litlu fé í baráttuna, lofuðu fáu fögru, og komu á framfæri, fyrir hvað þeir stæðu, fremur en væntanlegar velgjörðir sínar á næsta kjörtímabili.

Aðrir stjórnmálaflokkar geta ýmislegt lært af þessu. Það er til dæmis tvíeggjað að selja sál sína gjafmildum stórhvelum fjármálanna til að fjármagna allt of dýra kosningabaráttu. Það er líka tvíeggjað að þykjast vilja vera allt fyrir alla. Allt vitnar þetta um óráðsíu.

Niðurstaða kosninganna gefur tilefni til að ætla, að vel þegið hlé verði næsta áratuginn á undanhaldi stjórnmálanna yfir í umbúðir og ímyndir án innihalds, fjárhagslegt vændi og hrun góðra siða. Í næstu kosningum verður öllum ráðlegt að fara að slíkum æfingum með gát.

Hingað til hafa ímyndunarfræðingar og auglýsingamenn talið okkur trú um, að leiðin til viðskiptalegrar velgengni felist í því sem næst algeru sambandsleysi umbúða og innihalds, botnlausum ýkjum og hressilegum rangfærslum, fluttum með engilhreinum svip.

Hingað til hefur verið haft fyrir satt, að fólk kunni engin ráð við þessum brögðum og láti teyma sig á asnaeyrunum. En kannski er heimurinn hættur að versna.

Jónas Kristjánsson

DV

Samfylkingin sleikir sárin

Greinar

Eins og Framsóknarflokkurinn á Samfylkingin eftir að útskýra, hver borgaði 60­70 milljón króna kosningabaráttu flokksins. Það geta ekki hafa verið ríkið, flokksmenn og velviljaðir athafnamenn nema að litlum hluta. Meirihluti upphæðarinnar er þar fyrir utan.

Við stefnum í humátt á eftir Bandaríkjamönnum, þar sem stjórnmálamenn og -flokkar eru að meira eða minna leyti í eigu hagsmunaaðila. Stjórnmálamenn verja þar langmestum hluta tíma síns í kosningabaráttu til að safna fé til baráttunnar hjá hagsmunaaðilum.

Ríkið hefur svo mikil völd til að greiða götu stórfyrirtækja og atvinnugreina eða standa í vegi þeirra, að það er hagsmunamál stórforstjóra, að mikilvægir stjórnmálaflokkar og -menn séu þeim vinveittir fremur en andsnúnir. Pólitískt vændi er því í blóma á Vesturlöndum.

Þótt Samfylkingin hafi glutrað sínum 60­70 milljónum í misheppnaða og árangurslitla kosningabaráttu, breytir það ekki því, að einn risaaðili eða örfáir stórir aðilar eiga hönk upp í bak hennar. Þessu samhengi er haldið leyndu fyrir almenningi í okkar lokaða þjóðfélagi.

Framsóknarflokkurinn stóð undir væntingum helztu vildarvina sinna með því að halda völdum í ríkisstjórn, en Samfylkingin stóð ekki undir væntingum sinna vildarvina. Hún fær nú langvinnt tækifæri til að sleikja sárin utan ríkisstjórnar og gera sig bardagafæra.

Ekki var hægt að búast við betri árangri eftir erfiða fæðingu Samfylkingarinnar í vetur. Hún vann varnarsigur með því einu að komast í heilu lagi yfir þröskuld kosninganna og geta farið að snúa sér að því að stofna einn stórflokk úr fjórum aðstandendaflokkum.

Bezt er fyrir Samfylkinguna, að stofnun flokksfélaga og smíði nýs flokkskerfis taki sem stytztan tíma. Dráttur á slíku er til þess eins fallinn að endurvekja minningar um gamlar sælustundir í gömlu smáflokkunum. Nýi flokkurinn þarf að neyta meðan á nefinu stendur.

Meðan Samfylkingin er að ljúka fæðingunni, þarf hún friðarleiðtoga, sem ber klæði á vopnin innanhúss og fær ólíka hópa til að vinna saman í stað þess að grafa hver undan öðrum. Fátt bendir til, að neinn sé betur til þess fallinn en núverandi talsmaður flokksins.

Ósigurinn í kosningunum er ekki Margréti Frímannsdóttur að kenna. Hún hefur staðið sig vel í því hlutverki að halda utan um óstýrilátt lið á þann hátt, að það kemur sem ein heild frá orrahríðinni og getur lokið við stofnun flokksins. Mikið meira var ekki í spilunum.

Þegar næstu kosningar nálgast, þarf Samfylkingin samt að koma sér upp stórforingja, sem hún getur teflt fram með sama hætti og Davíð Oddssyni, Halldóri Ásgrímssyni og Steingrími Sigfússyni var að þessu sinni hampað af hinum flokkunum í tíma og ótíma.

Við núverandi aðstæður má ljóst vera, að raunverulegur leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Alþingi verður Steingrímur Sigfússon, sem hefur kraft og úthald til að standa undir slíku hlutverki. Í núverandi þingliði Samfylkingarinnar finnst tæpast neinn verðugur keppinautur.

Sumir sjá framtíðarforingja í borgarstjóranum í Reykjavík, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hún hefur tvíþætta reynslu, annars vegar af því að halda friðinn milli hópanna í Reykjavíkurlistanum og hins vegar af því að lemja duglega á stjórnarandstöðuflokknum.

En erfitt verður að taka Samfylkinguna alvarlega fyrr en hún er búinn að játa fyrir almenningi og skilgreina fjárhagslegar syndir kosningabaráttu sinnar.

Jónas Kristjánsson

DV