Einkennilegt upphlaup hefur orðið í þjóðfélaginu vegna hækkunar iðgjalda í bílatryggingum. Bíleigendur láta eins og þeir hafi orðið fyrir óvæntum hremmingum, sem Fjármálaeftirlitið eða einhverjir aðrir opinberir aðilar eigi í krafti Stóra bróður að láta ganga til baka.
Staðreyndin er hins vegar sú, að markaðurinn ræður því, hvað tryggingafélögin telja sig geta komizt upp með. Fyrir nokkrum árum var til höfuðs þeim stofnað eigið tryggingafélag bíleigenda, sem bauð þá og býður enn miklu lægri iðgjöld en gömlu tryggingafélögin.
Í Bandaríkjunum hefði atburðarásin verið á þá leið, að meirihluti bíleigenda hefði fært sig yfir til ódýra tryggingafélagsins og þar með knúið dýru félögin til skilyrðislausrar uppgjafar. Borgaraleg samstaða Bandaríkjamanna veldur lágu verði á vöru og þjónustu.
Hér hugsa menn allt öðru vísi: Hinir mega taka þátt í að lækka verð trygginga fyrir alla með því að flytja sig til nýja félagsins, en ég ætla að vera frífarþegi á þeirri braut og bíða eftir lækkun míns gamla félags. Þannig fæ ég hagnaðinn, án þess að taka þátt í aðgerðunum.
Gömlu tryggingafélögin hjálpuðu fólki til að vera stikkfrí í verðstríðinu með því að setja bílatryggingarnar í pakka með öðrum tryggingum og veifa þar með óbeint ógnuninni um að hækka iðgjöld á öðrum sviðum, ef menn hætti að tryggja bílana hjá þeim.
Afleiðingin var sú, að flestir sátu um kyrrt hjá gömlu félögunum og sannfærðu ráðamenn þeirra um, að viðskiptamennirnir mundu sitja sem fastast, á hverju sem dyndi. Enda mun koma í ljós, að upphlaup líðandi stundar reynist vera stormur í vatnsglasi.
Reikningsmenn tryggingafélaga eiga auðvelt með að semja útreikninga, sem sýna, að þau þurfi svo og svo mikla hækkun. Reikningsmenn neytendasamtaka og bíleigendafélaga eiga jafnauðvelt með að semja útreikninga, sem sýna, að hækkunin sé að mestu óþörf.
Að undanförnu hafa tryggingafélögin safnað tugum milljarða króna í bótasjóði til að mæta óvæntum áföllum. Nýja hækkunin gerir hvort tveggja í senn að mæta óvæntum áföllum og að halda áfram að safna milljörðum á hverju ári í þessa áfallasjóði án þess að þurfa það.
Reikningarnir eru samt bara eins konar menúett, sem stiginn er formsins vegna. Upphæð iðgjalda ræðst ekki af slíkum útreikningum, heldur af mati ráðamanna gömlu tryggingafélaganna á því, hvað markaðurinn þoli, hvað þeir komist upp með að hækka iðgjöldin mikið.
Þeir gera ráð fyrir, að örlítil bylgja reiðra bíleigenda flytji tryggingar sína, en öldudalurinn komi fljótt á eftir. Hækkunin muni gera margfalt meira en að bæta upp brottfall nokkurra viðskiptamanna. Og þeir meta tryggð þrælslundaðra viðskiptamanna nákvæmlega rétt.
Eins og Bandaríkjamenn geta Íslendingar sjálfir ákveðið, hvað markaðurinn þolir há iðgjöld, eins og þeir geta ákveðið, hvað markaðurinn þolir hátt bensínverð. Reynslan sýnir, að við getum sameinazt um að leggjast á bílflautur, en ekki að taka strætó einn dag.
Við lifum í þjóðfélagi, þar sem máttur vanans er mikill, þar sem menn eru vanir að lúta yfirvaldinu og reyna að finna leiðir til að væla fríðindi út úr því, en eru ófærir um að taka höndum saman um að brjótast úr viðjum þeirra, sem hafa slegið eign sinni á þjóðfélagið.
Einkunnarorð þjóðar, sem þorir hvorki né nennir að taka afleiðingum aðgerðaleysis síns, eru réttilega þessi: Þangað sækir klárinn, sem hann er kvaldastur.
Jónas Kristjánsson
DV