Rex, Askur, jólahlaðborð

Veitingar

Góður og breyttur Rex
Matreiðslan á silfurgráum Rex í Austurstræti 9 hefur gerbreytzt síðan ég rýndi í hana fyrir tveimur árum, þótt gæðin séu svipuð. Hún leitar ekki lengur fjarlægra stranda, heldur fellur í hefðbundinn farveg og fremur traustan. Horfið er tandoori, satay og cajun úr matseðlinum og raunar flest það, sem gerði Rex að sérstæðum matstað.
Í staðinn eru komnir fornlegir réttir á borð við beikonvafinn lambahryggvöðva, sem raunar reyndist fagurlega upp settur í ltilum turnum og einstaklega bragðgóður. Ekki var síðri ofnbakaður lax í ljúfu engifersoði, sem hæfði fiskinum, borinn fram með Japans-sveppum og sætukartöflu-teningum. Rex er enn sem fyrr einn af alvöru-matstöðum borgarinnar.

Markhópurinn sést ekki
Fyrir tveimur árum lét ég í ljósi efasemdir um, að vönduð matreiðsla væri við hæfi á ímyndarhönnuðum veitingastað fyrir markhópa, svo sem tíðkast nú til dags. Fræga og fagra fólkið kæmi ekki til að pósera, ef aðrir gestir sýndu því minni áhuga en matnum. Of góður kokkur yrði rekinn til að trufla ekki þjóðfélagslega ímynd staðarins.
Skipt hefur verið um kokk í Rex, en sá nýi er góður líka, svo að markhópurinn lætur á sér standa. Við snæddum því ein sem jafnan endranær innan við risaglugga í silfurgráu umhverfi, sem er næstum því eins kuldalegt og áður, þótt gluggatjöld byrgi núna sýn út í stormgjá Austurstrætis fyrir utan og götuóeirða-felliveggi Ríkisins handan götunnar.

Askur er alltaf eins
Því meira sem krukkað er í innréttingar á steikhúsinu Aski við Suðurlandsbraut 4, þeim mun meira er staðurinn eins og hann hefur verið síðan svona staðir komust í tízku fyrir nákvæmlega tveimur áratugum. Salatbarinn er alltaf eins og matseðillinn er alltaf eins, nákvæmlega eins og framsækið fólk vildi hafa þetta fyrir 20 árum. Viðskiptavinirnir eru líka hinir sömu, en þeir hafa elzt.
Margt er gott um Ask að segja. Innréttingar eru ekki eins stirðar og þær voru, til dæmis hefur sófi við langvegg vikið fyrir básum. Glaðleg þjónusta er betri en hún hefur oft áður verið. Nú eru komnar hnappar á borðin til að kalla á þjónustu, ef menn fara að ókyrrast.
Súpa dagsins var bragðsterk tómat- og grænmetissúpa með litlum rækjum, sem höfðu stífnað og þornað. Salatborðið var ekki spennandi, en hafði þó að geyma nýsoðin egg og ýmiss konar brauð. Grillaður steinbítur dagsins bætti þessa máltíð, nákvæmlega eldaður og fallega upp settur með góðu sítrónusoði. Meðlætið var öllu lakara og einkenndist af ofsöltuðum grænmetisþráðum.

Hlaðborð á undanhaldi
Ánægjulegt er að sjá, hve mörg veitingahús eru aftur farin að hafna jólahlaðborðum og treysta sér til að hafa opið á venjulegan hátt á jólaföstunni fyrir gesti og gangandi. Hlaðborðin eru úrelt, enda veit fólk þá fyrst, hvað er ætt á borðunum, þegar það er orðið svo belgt, að það getur ekki nýtt sér þekkinguna.

Jónas Kristjánsson

DV

Áður framselt fullveldi

Greinar

Hæstiréttur er hafður fyrir rangri sök, þegar hann er sakaður um að hafa tekið sér löggjafvarvald í hendur með þeim úrskurði, að lög um skerðingu örorkubóta vegna tekna maka standist ekki stjórnarskrána. Hann er að bregðast við fyrri dreifingu löggjafarvaldsins.

Núverandi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir hafa samið við önnur ríki og við ýmis samtök ríkja um skuldbindingar, sem fela í sér framsal á hluta fullveldis Íslendinga. Þessir fjölþjóðlegu samningar og sáttmálar hafa síðan verið staðfestir af Alþingi og öðlazt lagagildi.

Hópur þýðenda er önnum kafinn við að þýða reglugerðir Evrópusambandsins á íslenzku. Eftirlitsnefnd Evrópska efnahagssvæðisins veitti samt íslenzkum stjórnvöldum nýlega ákúrur fyrir að vera að dragast aftur úr við að innleiða evrópskar reglur hér á landi.

Það var ekki Hæstiréttur, sem ákvað, að Ísland yrði aðili að Evrópska efnahagssvæðinu, heldur ríkisstjórn og Alþingi. Það var ekki Hæstiréttur, sem ákvað, að Ísland yrði aðili að Evrópudómstólnum og Mannréttindadómstóli Evrópu, heldur ríkisstjórn og Alþingi.

Dómstólar hinnar nýju Evrópu hafa reynzt athafnasamir. Þeir hafa knúið dómstóla einstakra ríkja til að breyta grundvallarviðhorfum. Þannig er til dæmis ekki lengur öruggt, að einstaklingar tapi málum, sem þeir höfða gegn stjórnvöldum í sínu landi.

Þegar nógu margir Íslendingar hafa áfrýjað úrskurðum Hæstaréttar til evrópskra dómstóla og unnið málin, fara auðvitað smám saman að renna tvær grímur á Hæstarétt. Dómurum hans finnst auðvitað niðurlægjandi að úrskurðir þeirra skuli ekki halda í útlöndum.

Fyrr á áratugum eins og á fyrri öldum starfaði Hæstiréttur eins og framlengdur armur ríkisvaldsins og úrskurðaði jafnan ríkinu í vil gegn einstaklingum. Þetta er núna að breytast, þegar Hæstiréttur er kominn undir smásjána hjá yfirdómstólum úti í Evrópu.

Dómur Hæstaréttar í máli Öryrkjabandalagsins er markaður þessari öru þróun á fjölþjóðavettvangi. Dómarar Hæstaréttar vita, að málinu hefði verið áfrýjað til Evrópu, ef þeir hefðu úrskurðað ríkinu í vil. Þeir kærðu sig ekki um að verða sér enn til minnkunar.

Hæstiréttur reynir að búa til kenningu um, að andi stjórnarskrárinnar feli í sér hugtök, sem ekki voru til, þegar hún var smíðuð í gamla daga, eða feli í sér útvíkkun eldri hugtaka. Þess vegna segir hann, að lögin um skerðingu örorkubóta standist ekki stjórnarskrána.

Í rauninni hefði Hæstiréttur bara átt að segja: Við þurfum að taka tillit til, að íslenzk stjórnvöld hafa sett Hæstarétt undir eftirlit evrópskra og annarra fjölþjóðlegra dómstóla, sem fylgja þróun þjóðfélagsins hraðar en löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið á Íslandi gera.

Ríkisstjórnin heldur hins vegar, að hún geti bæði átt kökuna og étið hana. Hún heldur, að hún geti afsalað íslenzku valdi til fjölþjóðlegra dómstóla og eigi að síður geti hún hagað sér eins og lénsherrar fyrri alda. Þess vegna er ríkisstjórnin í fýlu eftir dóm Hæstaréttar.

Núverandi landsfeður hafa á löngu valdaskeiði fengið snert af valdshyggju og eiga erfitt með að taka afleiðingum undirskrifta sinna og fyrirrennara sinna á fjölþjóðavettvangi. Þetta er algengt fyrirbæri í mannlífinu og breytist fyrst með nýjum og hógværari landsfeðrum.

Það merkilega í máli þessu er, að ástæða skuli vera til að fagna því, að núverandi og fyrrverandi landsfeður skuli hafa framselt hluta af fullveldinu til útlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Kennileiti byggðagildru

Greinar

Helzta markmið snjóflóðavarna er ekki lengur að koma í veg fyrir, að fólk lendi í snjóflóðum, heldur að hindra, að það flytji suður. Í þessu skyni er ákveðið að beita dýrari aðferðum, sem ná lakari árangri og eru þar að auki í óþökk margra þeirra, sem búa á hættusvæðum.

Varnargarðar eru reistir í stað þess að kaupa hús á hættusvæðum, taka þau úr ábúð og flytja nýbyggingarsvæði frá hættusvæðum. Sveitarstjórnir telja hættu á, að fólk flytji úr bænum, ef það geti losað um eignir sínar. Uppkaupin kunni að leysa fólk úr byggðagildrunni.

Í Bolungarvík á að reisa varnargarða fyrir 520 milljónir króna. Fyrir þá upphæð mætti kaupa 50­60 hús. Á hættusvæði eru hins vegar ekki talin vera nema 14­40 hús. Því er ljóst, að varnargarður er dýrari en húsakaup og er samt engan veginn örugg vörn gegn snjóflóðum.

Margir íbúar, sem hafa lent í snjóflóðum, vilja heldur flytjast á öruggari stað í sveitarfélaginu, heldur en að búa undir varnargarði. Þeir telja sér ekki vera rótt undir garðinum. Garðarnir megna ekki að veita fólki þá öryggistilfinningu, sem búferlaflutningur veitir.

Í fjárhagsdæminu hér að ofan er ekkert tillit tekið til óprýðinnar af varnargörðum, sem verða allsráðandi í landslagi og yfirbragði bæja á borð við Bolungarvík. Þeir munu líta út eins og tröllsleg ábending um, að menn séu staddir á endimörkum hins byggilega heims.

Byggðagildran hefur með þessu fengið dramatíska birtingarmynd í formi varnargarða. Áður hafði hún tekið á sig margar aðrar myndir, sem allar reyna að koma í veg fyrir, að fólk flytji úr bænum, og tryggja, að það verði að fara slyppt og snautt, ef það lætur slag standa.

Byggðagildra felst meðal annars í, að sveitarfélög fjárfesta í atvinnulífi í stað þess að fjárfesta í félagslegri þjónustu. Rekstur, sem beint eða óbeint er á vegum bæjarfélags, gengur verr en annar rekstur. Fjármagnið brennur upp í stað þess að nýtast samfélaginu.

Þar á ofan eru bæjarbúar hvattir til að taka sem hluthafar beinan þátt í þessum atvinnurekstri. Það fé brennur upp eins og annað og nýtist fólki ekki til að auka svigrúm sitt til ákvarðana um framtíðina. Það situr uppi með rangar fjárfestingar í pappírum og stórhýsum.

Ein nýjasta mynd byggðagildrunnar er, að verkalýðsfélög svæðisins nota lífeyrissjóði félagsmanna til að kaupa hlutabréf í hallærisfyrirtækjunum, sem bæjarfélögin eru sífellt að reyna að koma á fætur á nýjan leik. Þannig festi Lífeyrissjóður Vestfjarða fjármagn í Básafelli.

Framtíðarhagsmunum sjóðfélaga og öryggi þeirra á elliárunum er stefnt í hættu með því að brenna lífeyri þeirra í staðbundnum fyrirtækjum. Þetta er ein ógeðfelldasta mynd byggðagildrunnar, því að hún skerðir möguleika fólks á að eiga sómasamlega fyrir elliárunum.

Ýmsir þættir byggðagildrunnar mynda einn vítahring, sem knúinn er handafli sveitarstjórna. Fyrirtæki falla í verði og leggja upp laupana. Íbúðarhús falla í verði og verða illseljanleg. Fólk missir vinnutekjur og tapar lífeyri. Og nú er því sagt að hírast undir varnargörðum.

Allt er þetta ferli til þess fallið að draga kjarkinn úr heimafólki. Vegna tekjumissis, eignarýrnunar og þjónustuskerðingar hefur það minna fjárhagslegt svigrúm en ella til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína. Það situr fast í vítahring byggðagildranna.

Ekki má búast við, að þessir staðir verði girnilegri til búsetu, þegar tröllauknir varnargarðar verða orðnir að helzta kennileiti og einkennistákni þeirra.

Jónas Kristjánsson

DV

Hamlað gegn einokun

Greinar

Hliðstæð voru viðbrögð Landsbankans og Odda við banni Samkeppnisráðs við yfirtöku þessara fyrirtækja á Búnaðarbankanum í fyrra tilvikinu og Steindórsprenti-Gutenberg í hinu síðara. Þetta skaðar okkur, sögðu þeir, af því að við þurfum að keppa við útlönd.

Þau telja sig þurfa að ná meirihlutaaðstöðu á innlendum markaði til að geta mjólkað innlenda markaðinn og náð þar í peninga til að niðurgreiða tilraunir til að komast inn á erlendan markað. Þetta getur verið gott fyrir þau, en er örugglega vont fyrir innlenda neytendur.

Við sjáum mjög gott dæmi um þessa misnotkun einokunaraðstöðu hjá Flugleiðum. Þær nota hana til að niðurgreiða farseðla fyrir útlendinga og ná þannig markaðshlutdeild í flugi yfir Norður-Atlantshaf. Verð á farseðlum útlendinga er mun lægra en verð fyrir Íslendinga.

Í öllum vestrænum löndum eru til stofnanir til að gæta hagsmuna heilbrigðrar samkeppni og gera það í raun. Íslenzka stofnunin hefur hingað til ekki tekið það hlutverk alvarlega og því kom það mörgum á óvart, að hún skyldi stöðva bankasameiningu ríkisstjórnarinnar.

Umhverfisráðherra hefði ekki verið í vandræðum með viðbrögðin. Við skulum leggja niður Samkeppnisráð, hefði hún sagt, þetta er skálkaskjól fyrir róttæklinga. En viðskiptaráðherra er ekki eins forstokkuð og gefur sér þá forsendu, að þessi niðurstaða hafi verið í myndinni.

Samkeppnisstofnanir eru til á Vesturlöndum vegna brotalamar í kenningakerfi markaðsbúskapar. Ekki hefur enn fundizt nein lausn af hálfu markaðarins á viðleitni fyrirtækja til að komast í ráðandi markaðsaðstöðu og nota síðan aðstöðuna til að hækka verðlag á nýjan leik.

Hvergi er meiri þörf á slíku andófi en einmitt á Íslandi, þar sem fáokun ríkir í mörgum atvinnugreinum, í flugi, í vöruflutningum, í eldsneyti og í tryggingum. Hjá bönkunum kemur þetta fram í miklu meiri vaxtamun inn- og útlána en þekkist í nokkru öðru vestrænu ríki.

Þótt komið hafi verið upp Samkeppnisstofnun og -ráði á Íslandi, hafa ráðamenn þjóðarinnar fremur talið það vera upp á punt og til að slá ryki í augu umheimsins heldur en að vinna gegn fáokun og einokun, sem ráðamenn okkar hafa yfirleitt reynzt vera hæstánægðir með.

Íslenzk stjórnvöld eru meira að segja enn að úthluta einkaleyfum til að hindra samkeppni. Frægasta dæmið um það er bandaríska fyrirtækið deCODE Genetics, sem undir heitinu Íslenzk erfðagreining fékk einkarétt til að setja íslenzkar sjúkraskýrslur í einn gagnabanka.

Það er ríkjandi hagfræðikenning á Vesturlöndum, að samþjöppun valds á hverjum markaði fyrir sig verði skaðleg, þegar hún fer yfir visst mark. Menn eru ekki alveg sammála um hvert markið sé, enda fer það dálítið eftir aðstæðum í hverju landi og hverri grein.

Samkeppnisráð telur 53% hlutdeildar í innlánum vera of mikla markaðshlutdeild Landsbanka og Búnaðarbanka og 64% bóka- og tímaritaprentunar vera of mikla markaðshlutdeild Odda og Steindórsprents-Gutenberg. Hvarvetna á Vesturlöndum hefði niðurstaðan orðið eins.

Um leið og þessum niðurstöðum er fagnað er ástæða til að benda á, að bann við sameiningu leysir ekki allan vanda. Erlend og íslenzk reynsla sýnir, að tvö eða þrjú fyrirtæki eiga mjög auðvelt með að koma upp samráði, sem skaðar neytendur ekki minna en sameining.

Útkoman markar þó tímamót, því að rofið hefur verið skarð í notalegt samkomulag ráðamanna og stórforstjóra um að mjólka megi íslenzka neytendur að vild.

Jónas Kristjánsson

DV

Humarhúsið, Pasta Basta, Ítalía

Veitingar

Humarhúsið í toppformi
Grafin villigæsabringa með trönuberjum var frábær forréttur og undurmeyr risahörpuskel á polenta-beði með bragðmildu graskers-risotto var enn betri. Grillhumar í hvítlauk var fínn eins og vera ber á Humarhúsinu og nákvæmt pönnusteikt rauðspretta með afar fínu engifersoðbragði var einhver bezti matur, sem ég hef fengið í vetur.
Humarhúsið hefur lengi verið gott, en er nú komið í þriðja sæti matargerðarlistar á Íslandi næst á eftir Sommelier og Hótel Holti. Antik-umhverfi og glansandi aðbúnaður og fagmannleg þjónusta gefa matreiðslunni ekki eftir.
Gott er að sjá, að Humarhúsið hefur slegið í gegn. Það var fullt á venjulegu kvöldi og borð nýttust um leið og þau losnuðu. Nú er komið gott fordrykkjarpláss í turnhúsinu meðan fólk bíður eftir borði. Meðalverð þriggja rétta máltíðar með kaffi er 4000 krónur af kvöldseðlinum, en dýrir humarréttir lyfta meðalverði fastaseðilsins í 4800 krónur.

890 króna pasta-hádegi
Hlaðborðið í hádeginu hefur batnað og kostar ekki nema 890 krónur, þótt annað sé dýrt á Pasta Basta. Þar voru um daginn þrenns konar pasta, dauflegt penne, betra spaghetti og ágætt tagliatelle með kræklingi í skelinni. Blóðbergs-risotto með rækjum var ágætt. Allt var þetta því miður bara moðvolgt. Betri var sterk tómatsúpa með oregano og bezt var raunar ítalska blaðsalatið.
Einkenni margra þemastaða á borð við Pasta Basta, Ítalíu og Út í bláinn er svipað verðlag og á sumum beztu veitingahúsum landsins, svo sem Humarhúsinu, Iðnó og Tveimur fiskum, þótt allt sé lakara á fyrrnefndu stöðunum, matreiðsla, aðbúnaður og þjónusta. Þríréttað á Pasta Basta með pasta sem aðalrétt kostar að meðaltali 3800 krónur og þríréttað með öðru en pasta kostar að meðaltali 4600 krónur, hvort tveggja með kaffi.

Ítalía í þrefaldri fýlu
Þrír fulltrúar veitingahússins Ítalíu hafa opinberlega kvartað um þrennt, þar á meðal að ég hafi sagt staðinn vera þjóðlegan íslenzkan matsölustað fremur en ítalskan og vil ég árétta þá skoðun. Pasta og pitsa nægja ekki til að kalla matreiðslu ítalska.
Þeir spurðu líka, hvaðan ég hefði, að notaður sé frystur fiskur. Ég spurði þjónustuna, sem fór fram í eldhús og kom með svarið, að fiskurinn væri frystur. Sú er heimildin og voru vitni að því. Ef starfsfólk veit lítið um matinn, stafar það af, að þar starfar ólært fólk á lágu kaupi, þótt verðið sé miðað við staði, sem hafa dýrt fagfólk í vinnu.
Þriðja atriðið, sem þeir kvarta um, er, að ég telji eftirréttinn tiramisu upprunninn í Bologna, sem þeir segja að hafi verið í Feneyjum. Sú var einmitt skoðunin, sem ég hafði fyrir nokkrum árum, þegar ég skrifaði bækur mínar um Róm og Feneyjar, en síðan þá hef ég skipt um skoðun og stend við hana.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkt höfumst við að

Greinar

Flokksmennska er ein tegund blaðamennsku, sem var útbreidd fyrir mörgum áratugum, en er nú horfin að mestu. Helzt eimir eftir af henni hjá Ríkisútvarpinu, þar sem yfirmenn eru þá aðeins ráðnir, að þeir hafi flokksskírteini Sjálfstæðisflokksins upp á vasann.

Vændismennska er þeim mun meira stunduð og gætir ýmissa sérhagsmuna úti í bæ. Mest er hún stunduð á sértímaritum, til dæmis þegar tímarit birtir viðtöl við bókarhöfunda eigin forlags en ekki annarra. Sjónvarpsstöðvar birta slíkt efni, m.a. frá auglýsingastofunni Zink.

Leigumennska hefur lengi verið öflug hér á landi. Hún er einkum rekin á auglýsinga- og kynningarstofum blaðamanna, sem taka að sér að sjá um fjölmiðlasamskipti fyrir stofnanir, samtök og fyrirtæki og reyna að nota gömul sambönd sín inni á ritstjórnum alvörufjölmiðla.

Kostunarmennska hóf innreið sína með sjónvarpi. Stofnuð hafa verið blaðamennskufyrirtæki, sem fá hagsmunaaðila til að fjármagna þætti, er fjalla um efni, sem skiptir miklu fyrir sama hagsmunaaðilann, hvort sem það eru samtök útvegsmanna eða ríkisstjórnin.

Sölumennska hefur ótal myndir í fjölmiðlun. Skemmtileg tegund er stunduð á Strik.is, þar sem snarlega eru birtir ritdómar, eingöngu ákaflega jákvæðir, um bækur í tæka tíð, svo að tilvitnanir í miðilinn komist í auglýsingar bókaútgefenda og auglýsi miðilinn um leið.

Kranamennska hefur lengi verið mikið stunduð og efldist mjög við tilkomu sjónvarpsviðtala. Hún felst í að skrúfa frá einu sjónarmiði, en ekki öðrum. Þessi tegund hefur gengið í endurnýjun lífdaganna með tölvupósti, sem auðvelt er að klippa og líma á síður.

Kjaftamennska er í mikilli tízku um þessar mundir, enda ódýrt og vel þegið sjónvarpsefni, sérstaklega ef hinir málglöðu geta verið skemmtilegir á köflum. Efni skemmtikraftanna er ekki fróðlegt, en drepur tíma nútímafólks, sem skjárinn hefur tekið í gíslingu.

Frægðarmennska er skyld atvinnugrein. Hún felst í að taka frægt fólk og láta það leika hlutverk blaðamanna. Þetta þjónar persónuáhuga gíslanna við sjónvarpsskjáinn og getur framleitt kostuleg viðtöl, þar sem alls engar upplýsingar koma fram, er neinu máli skipta.

Kynóramennska er sérhæfð hliðargrein í bransanum. Hún þjónar kynórum ungra stráka, sem eru ekki komnir í færi og hefur að markmiði að mynda inn í klofið á nafngreindum stúlkum íslenzkum. Höfundarnir telja, að strákarnir verði með þessu til friðs í þjóðfélaginu.

Kíkismennska myndar fræga fólkið og hrópar upp yfir sig: Sjáið fínu kjólana, sjáið sætu stúlkurnar, sjáið flottu pörin! Allt fræga fólkið er ofsalega hamingjusamt á myndunum. Samkvæmt könnunum nýtur þessi blaðamennska mikils trausts og hæfir þar skel kjafti.

Í öllum þessum tíu ofangreindu hornsteinum nútímans ríkir áhugi á velferð venjulegrar og hefðbundinnar blaðamennsku og áhyggjur af, að hún fari “yfir strikið” í rannsóknum sínum á ýmsu því, sem aflaga fer í hinu fullkomna ímyndarþjóðfélagi hornsteinanna.

Venjuleg og hefðbundin blaðamennska er fyrirferðarlítil innan um alla þessa fjölbreytni sérhæfingarinnar, enda þykir ekki fínt að grafast fyrir um staðreyndir og birta þær, jafnvel hinar óþægilegu. Hún er ekki eitt af tízkufyrirbærum ímyndarþjóðfélags nútímans.

Eðlilegt er, að sú blaðamennska, sem ein skiptir máli, sé undir smásjá ofangreindra tíu hornsteina þjóðfélagsins, sem eru bara að vinna fyrir kaupinu sínu

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnvöld sitja eftir

Greinar

Stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum kemur skýrt fram í afnámi fjárveitinga til náttúruverndarsamtaka, rétt eins og stefna hennar í siðamálum vísinda er að leggja niður vísindasiðanefnd. Hún vonar, að óþægindin hverfi, ef hún þrengi hag stofnana eða slátri þeim.

Vandinn er sá, að ný fyrirbæri, sem stofnuð eru til að vera þæg og góð, njóta einskis trausts úti í bæ, hvort sem það er vísindasiðanefnd ríkisstjórnarinnar eða þögull fínimannsklúbbur, sem þykist styðja náttúruvernd undir forustu fyrrverandi landbúnaðarráðherra.

Óbeit ríkisstjórnarinnar á umhverfisvernd er mikil og endurspeglar raunar skoðanir háværs minnihluta meðal þjóðarinnar, sem lítur á málefnið sem eins konar helgislepju eða fílabeinsturn, svo notað sé orðalag eins þeirra á ráðstefnu um framtíð lifibrauðs Húsavíkur.

Í þessum hópi eru fjölmennir verktakar á borð við þann, sem stjórnar Kópavogi og vill ólmur láta reisa blokkir við Elliðavatn. Þar er á ferðinni fyrirhyggjulaus framtakssemi, svo notað sé orðalag Orra Vigfússonar, þegar hann gagnrýndi sjókvíaeldi á Austfjörðum.

Fyrirhyggjulaus framtakssemi er einmitt það, sem hefur hingað til einkennt Íslendinga eins og flestar þriðja heims þjóðir, sem eru að reyna að brjótast til álna. En við verðum að kunna að breyta viðhorfum okkar, þegar við höfum komizt í álnir og getum farið að njóta lífsins.

Meirihluti þjóðarinnar er samkvæmt skoðanakönnunum kominn á þá skoðun, að tími sé kominn til að leggja niður hamslausa framtakssemi og fara að gæta langtímahagsmuna okkar af að vernda umhverfið fyrir verkfræðingum og pólitískum verkefna-útvegsmönnum.

Milli meirihlutans og minnihlutans í umhverfismálum er mikið djúp, sem verður seint brúað. Ríkisstjórnin hefur í heild tekið sér eindregna stöðu með minnihlutanum og verður vonandi látin gjalda þess í næstu kosningum. Sigurför umhverfisverndar verður ekki hamin.

Þrýstingurinn er mikill og vaxandi. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að raflínur beri að grafa í jörð en ekki hengja upp í stálturna í óbyggðum. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að velja verður um, hvort Mývatn á að vera náttúruparadís eða skammvinnt verksmiðjuþorp.

Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að engin sérstök þörf er á að malbika niður í fjöru og reisa íbúðarturna við náttúruvinjar, þar sem nóg rými er fyrir slíkt annars staðar. Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að haga verður búfjárbeit í samræmi við burðargetu landsins.

Sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að brautargengi þjóðarinnar í framtíðinni fer eftir allt öðrum atvinnugreinum en stóriðju. Og sífellt fjölgar þeim, sem átta sig á, að landið er ekki eign okkar, heldur í varðveizlu okkar fyrir hönd komandi kynslóða. Sjálfbær hugsun er að síast inn.

Við þurfum í bili að sæta umhverfisráðherra sem seldi sannfæringu sína fyrir embættið og gengur svo mikinn berserksgang í andstöðu við umhverfið, hvort sem það er Mývatn eða Eyjabakkar, að hún fær upp á móti sér opinbert ráð, sem skipað er henni til ráðgjafar.

Svo tamt og ljúft er ráðherranum að fara með rangt mál, að hún fer létt með að segja útlend umhverfissamtök styðja stefnu sína og ber því síðan við, að hún hafi hitt borðalagða menn á umhverfisfundinum í Haag og talið, að þar færu talsmenn umhverfissamtaka.

Feiknarmikið verk er eftir við að skipta út stjórnmálamönnum og fá til starfa aðra, sem vilja starfa með meirihluta þjóðarinnar að verndun umhverfisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrkeypt monthús

Greinar

Allir koma af fjöllum, sem ábyrgð áttu að bera, þegar minnzt er á kostnað við innréttingu þjóðmenningarhúss í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Allra sízt tekur forsætisráðherra neinum afleiðingum gerða sinna, er 300 milljón króna áætlun varð að 400 milljón króna kostnaði.

Bakgrunnur málsins er, að þjóð, sem ekki á nothæft þjóðminjasafn og enn síður náttúruminjasafn, fær í staðinn dæmigert monthús, sem hefur lítið safnagildi og er einkum notað fyrir hanastél hins opinbera, rétt eins og ekki hafi verið til nóg af slíkum húsum hjá ríkinu.

Forsætisráðherra bjó til tvær fínimannsnefndir Þjóðmenningarhúss, aðra skipaða helztu ráðuneytisstjórum ríkisins og hina skipaða fyrrverandi forseta Alþingis og fleira fínu fólki. Þessum virðulegu nefndum til halds og trausts átti að vera Framkvæmdasýsla ríkisins.

Úr þessu varð botnlaus óráðsía. Lóðarframkvæmdir einar fóru 200% fram úr áætlun og enduðu í 44 milljónum króna. Að mestu fóru þeir peningar í að búa til montreið að höfuðdyrum hússins, sem lokið var við á síðustu stundu með því að leggja nótt við dag.

Forsætisráðherra segist ekki hafa vitað um þetta og raunar hafa spurt við opnun hússins í vor, hvort allt væri í lagi með fjármálin, og sér hafi verið sagt, að svo væri. Síðan hafi sannleikurinn komið í ljós í sumar og Ríkisendurskoðun skilað skýrslu um málið í haust.

Samkvæmt þessu var búið að eyða 400 milljónum króna og opna húsið formlega áður en menn vissu, að þeir væru komnir langt fram úr heimildum. Í alvörulöndum hefðu nokkrir fínimenn fengið að fjúka af minna tilefni, en hér á landi tekur aldrei neinn ábyrgð á neinu.

Svo forstokkaðir eru ábyrgðarmennirnir, að málið var ekki lagt fyrir fjárlaganefnd þingsins í haust. Þingmenn fengu fyrst að vita um það nýlega og það með eftirgangsmunum. Ríkisendurskoðun þagði meira að segja þunnu hljóði á hverjum fundinum á fætur öðrum.

Sjálfur lá forsætisráðherra í þrjá haustmánuði á niðurstöðum Ríkisendurskoðunar. Þannig var það ekki fyrr en um síðustu mánaðamót, að fjárveitingavaldið fékk að vita, hvernig peningum skattborgaranna hafði verið grýtt á tvist og bast í Þjóðmenningarhúsi.

Forsætisráðherra segir, að menn læri af þessu. Breytt verði verklagsreglum við opinberar framkvæmdir hjá Framkvæmdasýslu ríkisins. Áður hafa menn þó fengið tækifæri til að læra af fyrri óráðsíu í framkvæmdum forsætisráðuneytisins, en ekki notað tækifærið.

Frægt var, hvernig verkfræðingar og aðrir sérfræðingar léku lausum hala við endurbætur og viðgerðir á Bessastöðum. Þá eins og nú stafaði sukkið af, að ekkert virkt kostnaðareftirlit var af hálfu fína fólksins í framkvæmdanefndinni. Reikningarnir bara flæddu inn.

Önnur dæmi sýna ennfremur, að Ríkisendurskoðun er yfirleitt ekkert gefin fyrir að upplýsa vinnuveitanda sinn, Alþingi, um vandræði í kerfinu. Hún heldur í rauninni að hún sé í vinnu hjá ríkisstjórninni og hafi það hlutverk að halda niðurstöðum í lengstu lög frá Alþingi.

Fyrir Þjóðmenningarhús vissu menn, að eftirlitslausar fínimannsnefndir eru ávísun á vandræði í framkvæmdum og að Ríkisendurskoðun er ekkert að flíka fjárhagslegum vandamálum í kerfinu. Spurningin er, hvort menn læri nokkuð frekar í þetta sinn en í fyrri skiptin.

Ef þessar glötuðu 400 milljón krónur hefðu farið í að opna þjóðminjasafn og efna til veglegs náttúruminjasafns, hefðu landsfeður eitthvað til að monta sig af.

Jónas Kristjánsson

DV

Iðnó, Út í bláinn

Veitingar

Kryddfrelsi í Iðnó
Matreiðsla, þjónusta og aðbúnaður hafa batnað í Iðnó, matsalnum á annarri hæð leikhússins við Tjörnina. Salurinn er núna skreyttur málverkum og risaglervösum. Þjónustan er fagleg og dúkar og þurrkur eru úr drifhvítu líni. Matreiðslan er spennandi á köflum, einkum vegna frjálslegrar kryddnotkunar.
Ekki er ég að segja, að hamagangur með kryddstauka gangi alltaf upp, en skemmtileg tilbreytni var í steinselju- og hvítlaukshúðuðum laxi. Enn betur gekk dæmið upp í glóðaðri smálúðu með skemmtilega ögrandi appelsínusósu. Hins vegar var fiskurinn í báðum tilvikum lítillega of lengi eldaður.
Frísklegt og litskrúðugt salat var einn forrétta forrétt og fínlegur og góður hrísgrjónagrautur risotto kom með laxinum. Iðnó er greinilega komið á kortið sem einn alvörustaðanna í matargerðarlist. Verðið á þríréttuðu með kaffi er þægilegt miðað við gæði, að meðaltali 3.700 krónur. Aðsókn mætti vera meiri.

Heitir og er Út í bláinn
Út í bláinn heitir og er nýr tapas-bar, spánskur smáréttabar í fremur skuggalegum og grófum, en hreinlegum og ótrúlega víðum kjallara Hlaðvarpans með berum burðarvirkjum. Þar sitja gestir í hóflegum þægindum í básum við tréborð með pappírsþurrkum, njóta hóflegar fagmennsku í þjónustu og punga út 4.300 krónum fyrir frjálst val tveggja tapas í forrétt, aðalréttar og eftirréttar af seðli og kaffis. Einnig er hægt að velja milli sex fastra tapas-blandna á 1.900 krónur. Stakir kosta smáréttirnir um 400 krónur hver og í hádeginu er boðin súpa dagsins og þrír smáréttir á hóflegar 890 krónur.
Saltfiskbollurnar í kryddaðri tómatsósu voru ekki úr nógu góðum ssaltfiski, krabbasalatið var fáfengilegt og beikonvafða hörpuskelin bauð aðeins beikonbragð. Hvítlauksbakaðir humarhalar voru of lítið skornir, svo að erfitt var að ná fiskinum út, en hann var meyr og bragðgóður, rétt eins og heili smokkfiskurinn, sem borinn var fram með sterkri paprikusósu og bjargaði heiðri staðarins. Ágæt voru koníakslegin jarðarber með þeyttum rjóma og espresso-kaffið var ekta.

Þemu leysa gæði af hólmi
Í kjölfar aukinnar sýndarmennsku í þjóðfélaginu hafa risið víða um bæ þemahús veitinga, þar sem reynt er að höfða til markhópa, einkum meðal ungs fólks, með leiktjöldum eða öðrum stælum. Gestir greiða alvöruverð, en samt er sparað flest það, sem kostar peninga og áður var talið til aðalsmerkja veitingahúsa, svo sem fagleg þjónusta, dúkuð borð og vönduð matreiðsla. Matreiðslan er oft sæmileg og getur verið góð á köflum, en er yfirleitt einföld og oftast lítt minnisstæð. Vinsældir margra þessara staða benda til, að bætt hafi verið úr brýnum skorti gervimennsku í veitingabransanum

Jónas Kristjánsson

DV

Sykur er sæluduft

Greinar

“Kross þinn Jesú kæri / þá kemur að höndum mér / gefðu hann hjartað hræri / hvergi í burt frá þér / gleðinnar sykri stráðu á hann.” Þannig orti Bjarni Gissurarson fyrir um það bil þremur öldum og er það í fyrsta skipti sem sykurs er getið á íslenzkri tungu.

Næstu hálfa aðra öldina kemur sykur aðeins fyrir tvisvar í íslenzkum heimildum. Þeim fjölgar svo á síðari hluta nítjándu aldar, þegar höfðingjar fara að kaupa innfluttan sykur. Það er hins vegar ekki fyrr en á 20. öld, að sykur verður almenningseign hér á landi.

Sykur var lítt þekktur í Evrópu fram á sautjándu og átjándu öld, þegar ódýr reyrsykur fór að berast frá nýlendunum í Ameríku. Mannslíkaminn var engan veginn undir það búinn að taka við þessu hreina efni, sem nú er orðið að einni af helztu fæðutegundunum.

Það er eins og með brennivínið, að sumir þola sykur og aðrir ekki. Nýlegar rannsóknir í Bandaríkjunum benda til, að 75% þeirra, sem þjást af offitu, séu sykurfíklar. Þeir þjást af rugli í insúlínframleiðslu og insúlínvirkni og meðfylgjandi boðefnarugli í heilanum.

Að því leyti er sykur í flokki með öðrum fíkniefnum, sem valda rugli í framleiðslu og virkni boðefnanna dópamíns og serótoníns, öðru hvoru eða hvoru tveggja. Án skilnings á þessu næst ekki árangur af baráttu gegn menningarsjúkdómum, sem tengjast offitu.

Manneldisráð víða um hinn vestræna heim hafa hvatt fólk til að borða minni fitu og hafa náð þeim árangri, að fituneyzla hefur minnkað um fimmtung. Samt hefur offita aukizt og næringarsjúkdómar farið ört vaxandi, allt frá sykursýki yfir í hjarta- og æðasjúkdóma.

Hin hefðbundna næringarfræði, sem hefur verið kennd af gömlum kennslubókum, skilur ekki hugtakið fíkn. Það gerir ekki heldur hið íslenzka Manneldisráð né sú næringarfræði, sem kennd er á líkamsræktarstöðvum, þar sem menn drekka orkudrykki og éta orkuduft.

Þessir aðilar halda blákalt fram, að sykur sé ágætis krydd og bragðgóður orkugjafi. Fyrrum landlæknir Bandaríkjanna, C.E. Koop, telur hins vegar, að sykur sé vanabindandi fíkniefni, sem veldur því, að fólk missir stjórn á mataræði sínu og verður að sykurfíklum.

Á síðasta áratug 20. aldar fóru að hrannast upp í Bandaríkjunum niðurstöður rannsókna, sem benda til, að sykur sé mun skæðari en áður var talið. Nú er algengt að telja sykur með áfengi og tóbaki í hópi þeirra þriggja fíkniefna, sem valda þjóðfélaginu mestu tjóni.

Áður höfðu þúsundir félagsmanna samtakanna Overeaters Anonymus komist að þeirri niðurstöðu, að þeir næðu engum árangri í megrun nema kippa viðbættum sykri úr fæðuhringnum. Það er sykurinn, sem fellir fólk og fær það til að þyngjast óeðlilega á nýjan leik.

Þetta er skýringin á því, hvers vegna fólk fitnar og fær menningarsjúkdóma, þótt það fari eftir ráðum manneldisráða, sem boða minni fituneyzlu. Þetta er skýringin á því, hvers vegna fólki tekst ekki að halda lengi út mataræði, sem það lærir í vel meintum megrunarbókum.

Ef sykur er fíkniefni, skýrist margt af sjálfu sér. Þá skiljum við hvers vegna fólki tekst ekki að hafa það mataræði, sem það vill hafa; hvers vegna það missir stjórn. Þá skiljum við, hvers vegna menningarsjúkdómar halda áfram að hrannast upp á þekkingaröld.

“Gleðinnar sykur” var orðalag Bjarna Gissurarsonar fyrir þremur öldum. Hann komst nær skilningi á sykri sem sæludufti en margir þeir, sem síðar komu.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópa stjórnar Íslandi

Greinar

Hurð skall nærri hælum í Brussel á mánudaginn, er landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkjanna ákváðu að hlífa fiskimjöli að nokkru leyti við banninu, sem sett hefur verið á notkun kjötmjöls. Samkvæmt ákvörðun þeirra má áfram nota fiskimjöl í fiskirækt og í ræktun svína og alifugla, en ekki lengur í ræktun jórturdýra.

Utanríkisráðherra Íslands, utanríkisráðuneytið og sendimenn Íslands í löndum Evrópusambandsins unnu gott starf í þröngri stöðu máls, sem bar að með óvenjulegum hraða. Í samstarfi við Norðmenn utan bandalagsins og Breta og Dani innan þess hafðist varnarsigur.

Enginn efast um, að fiskimjöl var haft fyrir rangri sök, þegar því var slengt með kjötmjöli á bannlista Evrópusambandsins fyrir helgina. Ekkert bendir til samhengis fiskimjöls við Creutzfeld-Jakobs-heilahrörnun. Varnarstríðið hafði styrk af því að vera málefnalegt.

Málið er einkar athyglisvert og lærdómsríkt. Við getum spurt okkur, hvað gerist næst. Hvað er til ráða, ef Evrópusambandið bannar sölu á fiskafurðum með meiru en ákveðnu lágmarki af díoxíni? Þá er miklu meira í húfi en mjölið eitt og málefnastaða okkar mun veikari.

Ekki stoðar að segja, að díoxínið í Norðurhöfum hafi borizt þangað frá löndum Evrópusambandsins með hafstraumum og sé því bara komið til föðurhúsanna. Ef almenningur í Evrópu verður skelfingu lostinn út af díoxíni, verða ekki gefin út nein upprunavottorð.

Skyndibannið við kjötmjöli og að hluta til fiskimjöli stafar af hræðslu stjórnmálamanna í ríkjum Evrópusambandsins við dauðskelkaðan og fokreiðan almenning, sem veit núna, að hann hefur lengst af fengið rangar upplýsingar, sem miðuðu eingöngu að því að róa fólk.

Brezkir stjórnmálamenn hafa verið staðnir að lygum, sem hafa leitt til, að Creutzfeld-Jacobs-heilahrörnun hefur margfaldazt í Bretlandi og flutzt út til Frakklands. Áður hafa franskir stjórnmálamenn verið staðnir að lygum um, að blóðbankar þar í landi hafi aðeins ómengað blóð.

Í hverju málinu á fætur öðru hafa stjórnmálamenn verið staðnir að glæpsamlega röngum fullyrðingum til að friða fólk og þannig tafið fyrir, að tekið yrði á málum í tæka tíð. Þessir stjórnmálamenn eru núna rúnir mannorði sínu og verða nánast að fara huldu höfði.

Stjórnmálamennirnir, sem nú eru við völd í ríkjum Evrópusambandsins hafa margir hverjir lært af þessu og þora ekki annað en að hlaupa upp til handa og fóta, þegar hneykslin springa út. Þeir vilja ekki, að almenningur telji þá fara sér of hægt við að grípa í taumana.

Af ótal gefnum tilefnum hefur almenningsálitið í löndum Evrópusambandsins tekið völdin af trausti rúnum stjórnmálamönnum. Enginn veit, hvar eða hvenær reiði almennings lýstur niður næst. Díoxín-mengun í fiski af norðurslóðum gæti verið næsta hneykslismálið.

Ekki er síður lærdómsrík staða Íslands utan Evrópusambandsins. Við höfum þar engan atkvæðisrétt, þótt við sætum ákúrum fyrir að þýða ekki reglugerðir sambandsins á íslenzku með nægum hraða. Við verðum í raun að sitja og standa eins og sambandinu þóknast.

Flest er það til bóta, sem við fáum frá sambandinu með þessum hætti. Hinu er ekki að leyna, að heldur er það fátækleg staða að þiggja endalausa röð reglugerða frá sambandinu, en hafa á móti engan atkvæðisrétt í þeim fáu málum, sem varða hagsmuni okkar sérstaklega.

Þegar díoxínið verður afgreitt í Evrópusambandinu væri það hagur okkur að vera þar innanbúðarmenn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ágengir og ábyrgir

Greinar

Við því er að búast, að linir fréttastjórar, sem hafa atvinnu af að líma fréttatilkynningar úr tölvupósti inn á síður dagblaða, finnist berin súr, þegar annars staðar er verið með ærinni fyrirhöfn að grafa upp fréttir, sem skipta lesendur máli og gefa innsýn í þjóðfélagið.

Mikilvægt er fyrir lesendur að átta sig á, um hvað er verið að tala, þegar sögumönnum er kennt um ótíðindi. Þá er oftast blandað saman tvennu, annars vegar viðfangsefnum fjölmiðlanna og hins vegar vinnubrögðum þeirra. Þessir tveir ásar eru engan veginn samhliða.

Það er gilt umræðuefni, hvort fjölmiðlar komi of nálægt einkalífi fólks í leitinni að upplýsingum. En það er allt annað umræðuefni en hitt, hvort upplýsingarnar, sem finnast við gröftinn séu áreiðanlegar eða ekki. Fjölmiðlar geta hæglega verið ágengir og ábyrgir í senn.

Sumir fjölmiðlungar hafa hag af að reyna að koma því inn hjá fólki, að átakalítil kranablaðamennska þeirra sé ábyrg og vönduð, en hinir séu skítugir, sem vinna að uppgreftri staðreynda, er liggja ekki á lausu. Sumir notendur sjá gegnum þessa kenningu, en aðrir ekki.

Ef Washington Post væri gefið út á Íslandi, mundu kranablaðamenn halda fram, að það væri sorprit. Það gerðu raunar stéttarbræður þeirra vestan hafs, þegar blaðið varð frægt af Watergate-skrifum. Þeir töldu blaðið stunda ábyrgðarlitlar æsifréttir um góðborgara.

Mikilvægt er, að lesendur átti sig á, að hvorki er ábyrgðarlítið að grafa eftir staðreyndum né traustvekjandi að bíða eftir fréttatilkynningum, sem streyma úr krana tölvupóstsins. Sem betur fer sýna notkunartölur fjölmiðla, að margir eru þeir, sem átta sig á þessu.

Hér á landi eru ekki fjölmiðlar á borð við þá, sem umdeildastir eru erlendis. Íslenzkir fjölmiðlar eru allir nærfærnari í skrifum en vestrænn meðalfjölmiðill. Þeir, sem halda öðru fram, hafa ekki flutt nothæf dæmi því til stuðnings, enda þyrfti að grafa eftir slíku.

DV hefur leitazt við að fylgja ströngum vinnureglum. Ein helzta þeirra segir, að afla skuli tveggja sjálfstæðra heimilda að uppljóstrunum. Önnur af þeim helztu segir, að ekki skuli skrúfað einhliða frá krana, heldur sé aflað mismunandi sjónarmiða í umdeildum málum.

Kranablaðamenn þurfa engar slíkar vinnureglur. Þeir sitja bara við kranann og taka ekki til hendinni. Til að bæta sér upp hlutskiptið koma þeir sér saman um að kenna sögumönnum um ótíðindin og afla sér þannig siðferðilegrar undirstöðu fyrir aðgerðaleysi sínu.

Lesendur verða auðvitað að velja og hafna og gera það á ýmsa vegu. Óneitanlega eru sumir hallir undir þann draum, að ótíðindi gerðust ekki, ef þau væru látin liggja milli hluta í fjölmiðlum. Aðrir telja ekki henta lífi sínu að fá vitneskju um ýmislegt misjafnt í þjóðfélaginu.

Ef allir hugsuðu eins og kranablaðamenn og fylgismenn þeirra, mundi þjóðfélagið smám saman læsast og grotna niður að innan, án þess að greftinum verði náð út. Á endanum mundi fara illa fyrir þjóð, sem vildi lifa í ímynduðum heimi, þar sem allt er slétt og fellt.

En hinir eru sem betur fer fleiri, sem vilja láta grafa upp staðreyndir, sem ekki liggja á lausu, hvort sem þær eru notalegar eða óþægilegar. Þess vegna nýtur ábyrg og ágeng fréttamennska vaxandi vinsælda um þessar mundir, meðan harðnar á dalnum við suma kranana.

Aðalatriðið er, að sífellt fleiri átti sig á, að ábyrg vinna og ágeng vinna eru engar andstæður, heldur þvert á móti oftar hliðstæður í þjóðfélagi, sem opna þarf betur.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveir fiskar, Ítalía, jólahlaðborð

Veitingar

Tveir fiskar blómstra
Nýjar heimsóknir á Tvo fiska við Geirsgötu 9 hafa fært mér vissu um, að staðurinn stendur jafnfætis Þremur Frökkum og Tjörninni sem sjávarréttastaður. Eldunartímar fiskjar voru hárnákvæmir á keilu og rauðsprettu. Súpa dagsins var sérstætt frávik frá íslenzkum hefðum, fínleg tómat-minestrone, en ekki groddalega þykk crème.
Sushi-matreiðsla fer nú aðeins fram á kvöldin, svo að Tveir fiskar hafa gefið Sticks n’Sushi eftir Japansréttamarkaðinn. Á móti kemur, að í hádeginu er einstaklega ódýrt að borða á Tveimur fiskum. Súpa dagsins og val af aðalréttum kostar þá ekki nema 1.100 krónur. Samt er allt eins á kvöldi, hvítdúkuð borg og hvítar tauþurrkur, þjónusta fagfólks og matreiðslan í toppi. Miðað við gæði er þetta eitt bezta hádegisverðið um þessar mundir.

Íslenzk Ítalía
Við Laugaveg 11 er feiknarlega vinsælt veitingahús, þar sem hvert borð er setið hálfátta á kvöldin og biðröð komin hálfníu. Staðurinn er ekki ítalskur og heitir samt Ítalía, en ætti að heita Ísland. Þar sitja sáttir menn og konur afar þröngt í básum við glerplötur á borðum og borða pizzur og pöstur, þjóðarrétti kolvetnisærðra Íslendinga nútímans.
Af því að þetta er þjóðlegur íslenzkur staður, er fiski lítt hampað og fúslega viðurkennt, að rauðsprettan sé fryst. Aðeins ein matreiðsla er á ferskum fiski og rjómahvítvínssósan flæðir um allan disk. Kjötmatreiðsla er mun betri, en staðlað meðlæti er nákvæmlega hið sama og með fiskinum. Að íslenzkum hætti er boðið upp á tiramisu í eftirrétt og hér er hún þeirra fjarlægust upprunanum í Bologna, minnir á krem- og rjómatertu í erfidrykkju. Ég gafst upp í henni miðri.

Skelfileg jólahlaðborð
Jólahlaðborð höfða til okkar, afkomenda langsoltinna forfeðra. Fólk, sem nánast aldrei fer út að borða, flykkist í veitingahús, sem hafa orðið undir í hefðbundnum veitingum og bjóða jólahlaðborð í atvinnubótaskyni. Maturinn á jólahlaðborðum er fremur vondur í samanburði við venjulegan veitingahúsamat, en það er nóg af honum, eins og forfeður okkar töldu mundu verða í himnaríki. Þegar við höfum áttað okkur á, hvað af matnum er ætt, erum við orðin svo södd, að við getum ekki hagnýtt okkur lærdóminn. Matarsiðaðar þjóðir búa ekki við hlaðborð.
Venjuleg matreiðsla leggst niður á hlaðborðastöðunum í desember og gerir þá ónothæfa. Sem betur fer er nóg til af ágætum stöðum í öllum verðflokkum, sem ekki bjóða nein jólahlaðborð, svo að enginn er skyldugur til að ögra heilsu sinni. En vissara er að hringja á undan til að fullvissa sig um, að ekki hafi í laumi verið komið upp jólahlaðborði á staðnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kranablaðamennska

Greinar

Vottur af umræðu hefur orðið á vefnum um leiðara DV fyrir viku, þar sem gagnrýnd var kranablaðamennska í sumum fjölmiðlum og froðusnakk í öðrum. Kveinuðu sumir þeirra, sem töldu að sér eða sínum vegið, og er það vel. En fáir skildu sjálf hugtökin, sem rædd voru.

Einn kjaftaskurinn vissi ekki, hvernig sú regla er hingað komin, að fréttamaður afli fleiri en einnar sjálfstæðrar heimildar að frétt. Hann gaf í skyn, að það gæti verið frá Bild Zeitung. Vita þó allir, að þetta er bandarísk regla stórblaða, sem frægust varð á Washington Post.

Með Watergate-málinu urðu þáttaskil í vestrænni fréttamennsku. Á dagblöðum hafa verið teknar upp nýjar verklagsreglur, þar sem þær voru ekki til áður, einkum ættaðar frá bandarískum stórblöðum. Þessar reglur eiga að tryggja, að fréttir séu eins réttar og kostur er.

Raunar kom í ljós, að kjaftaskurinn lagði ekki mikið upp úr verklagsreglum, enda hafði hann ekki verið langlífur í fréttamennskunni. Það var ekki verklagið, sem hann var einkum ósáttur við, heldur umræðuefnin, sem oft snertu einkalíf fólks of mikið að hans mati.

Raunar er það eðlilegra og nærtækara umræðuefni, hvort fjölmiðlar gerist of persónulegir, heldur en hvort sjálft verklag þeirra sé í lagi. Það er sígilt vandamál, hvenær einkamálin enda og opinberu málin byrja, en seint verða stórglæpir taldir vera einkamál.

Kranablaðamennska er hugtak, sem einn pólitíski vefmiðillinn skilur ekki. Hún felst í, að fjölmiðill fer að því leyti ekki eftir verklagsreglum, að hann skrúfar frá einu sjónarmiði í fréttaflutningi, án þess að leita annarra sjónarmiða, ef ætla má, að þau séu til.

Þessi regla gildir fyrir fréttamanninn, en ekki álitsgjafann. Sá síðarnefndi getur dregið misjöfn sjónarmið inn í röksemdafærslu sína, en þarf það ekki, enda er hann bara álitsgjafi. Stundum telja álitsgjafar sum sjónarmið svo vitlaus, að ekki þurfi að ræða þau.

Góðir fjölmiðlar reyna að gæta jafnvægis í skoðunum með því að draga inn álitsgjafa úr ýmsum áttum. DV birtir til dæmis daglega skoðanir með og móti ákveðinni fullyrðingu í þjóðmálaumræðunni. Í kjallaragreinum blaðsins birtast iðulega svargreinar við leiðurum þess.

Það er góð regla dagblaða að skilja skoðanir frá fréttum, svo að lesendur viti að hverju þeir ganga á hverjum stað. Í fréttahlutanum eiga lesendur að geta treyst því, að ekki sé skrúfað frá krana eins sjónarmiðs, nema einhver málsaðili hafi ekki viljað láta ná í sig.

Frá þessari reglu hefur töluvert verið vikið á sumum dagblöðum, en einkum þó í sjónvarpi, sem byggir allt of mikið á einhliða viðtölum. Ríkissjónvarpið leyfir til dæmis útgerðarmönnum að kosta heilan framhaldsþátt um ágæti núverandi gjafakvóta í sjávarútvegi.

DV telur líka ástæðu til að vara við efnistökum ýmissa vinsælla kjaftaska í sjónvarpi, sem leika eins konar millibils-hlutverk skemmtikrafta og álitsgjafa. Þeir fara sjaldnast eftir leikreglum á borð við þær, sem góð dagblöð víða um heim og hér á landi hafa tamið sér.

Sérstaklega er varhugavert, þegar slíkir kjaftaskar byrja að herma eftir pokaprestum og hefja hræsnissöng um tillitsleysi fjölmiðla til að magna kveinstafi viðmælenda sinna. Snöktandi Nixon í Watergate-málinu hefði verið fínn viðmælandi íslenzkra kjaftaska.

Fjölmiðlar þurfa í senn að hafa gott verklag, vera ágengir og hafa bein í nefinu til að baka sér óbeit margra, ekki sízt smárra og stórra kónga í samfélaginu.

Jónas Kristjánsson

DV

Brenglað lýðræði

Greinar

Frá íslenzkum sjónarhóli er sérkennilegt, að árum og áratugum saman virðist framkvæmd kosninga í Bandaríkjunum hafa verið á þann hátt, að mikill vafi getur leikið á úrslitum. Hér á landi hefur verið og er óhugsandi, að lagaþrætur geti risið um, hvaða atkvæði séu gild.

Endurvéltalning gataðra atkvæðaseðla er engin nýjung í Bandaríkjunum. Menn hafa kosningar eftir kosningar vitað, að við hverja endurvéltalningu fyllist gólfið af litlum miðum, sem koma úr götunum. Því oftar, sem véltalið er, þeim mun fleiri atkvæði verða gild.

Augljóst er, að úrslit kosninga mega ekki hanga á bláþræði mats á því, hvort götunarvélin hafi skilað hlutverki sínu eða hvort miðinn hangi enn í gatinu. Þótt menn viti þetta, hafa menn áfram notað þessa hættulegu tækni við atkvæðagreiðslur víðs vegar í Bandaríkjunum.

Eftir þá lögfræðilegu úfa, sem nú eru risnir vestan hafs, er útilokað, að þessi aðferð verði framar notuð. Þótt talsmenn frambjóðandans Bush segi véltalningu öruggari en handtalningu, er ljóst af dæmunum frá Flórída, að véltalning í götunarvélum er algerlega út í hött.

Hér á landi væri óhugsandi að deila um, hvenær skuli hætta að telja. Hér dytti engum í hug, að hætt yrði að telja fyrr en öll vafaatriði hafa verið skýrð og úrskurðuð. Enda hafa íslenzkir lögmenn enga atvinnu af að vefengja, að birtar atkvæðatölur endurspegli vilja kjósenda.

Bandaríkjamenn þurfa ennfremur að staðla atkvæðaseðla, svo að ekki verði notaðir seðlar, þar sem nöfn frambjóðenda eru í tveimur dálkum og atkvæðareiturinn í einum dálki milli þeirra. Þessi undarlega tegund seðla hefur vakið lögfræðilegar deilur til viðbótar hinum.

Þar sem búið er að vefengja með gildum rökum, að götunarvélar skili hlutverki sínu og að undarlegir atkvæðaseðlar skili hlutverki sínu, fæst ekki lýðræðislega heiðarleg niðurstaða í Flórída, nema endurtalið sé í öllu ríkinu og endurkosið í kjördæmum skrítnu seðlanna.

Þar sem bandaríska lýðræðiskerfið hefur ekki burði til að taka heiðarlega á því undirstöðuatriði lýðræðis, að vilji kjósenda fái að koma í ljós, verður ekki endurtalið meira og enn síður endurkosið. Bush verður því að lokum skipaður forseti án þess að hafa umboð kjósenda.

Hinn vestræni heimur þarf að sæta því í fjögur ár, að forusturíkið hafi ekki lýðræðislega kjörinn forseta. Sú byrði bætist við hin augljósu vandræði af breytingu þjóðskipulagsins úr lýðræði yfir í auðræði, þar sem fjármagn ræður mestu um framgang stjórnmálamanna.

Svo er komið, að bandarískir þingmenn geta fremur talizt umboðsmenn hagsmunaaðilanna, sem fjármögnuðu kosningabaráttu þeirra, heldur en kjósenda. Að minnsta kosti hagar mikill hluti þeirra sér þannig á þingi, að ekki er hægt að efast um, hverjum þeir þjóna í raun.

Tilraunir til að koma böndum á fjárausturinn í bandarískum kosningum hafa ekki borið neinn árangur. Þeir forsetaframbjóðendur, sem vildu gera eitthvað í málinu, voru felldir í forvali innan flokkanna. Ljóst er því, að auðræði mun enn vaxa í bandarísku þjóðskipulagi.

Bandaríkjamenn geta lagað og munu væntanlega laga tæknilega framkvæmd kosninga og talningar, svo að þeir verði ekki lengur að athlægi meðal vestrænna þjóða. Þeir munu vafalítið hafa burði til að koma kosningum hið fyrsta í það horf, að þær endurspegli vilja kjósenda.

Hitt verður þyngra að hamla gegn yfirfærslu lýðræðis í auðræði. Þótt allt verði með lýðræðislega felldu á yfirborðinu, ríkir auðræði í auknum mæli undir niðri.

Jónas Kristjánsson

DV