Tveir fiskar, Ítalía, jólahlaðborð

Veitingar

Tveir fiskar blómstra
Nýjar heimsóknir á Tvo fiska við Geirsgötu 9 hafa fært mér vissu um, að staðurinn stendur jafnfætis Þremur Frökkum og Tjörninni sem sjávarréttastaður. Eldunartímar fiskjar voru hárnákvæmir á keilu og rauðsprettu. Súpa dagsins var sérstætt frávik frá íslenzkum hefðum, fínleg tómat-minestrone, en ekki groddalega þykk crème.
Sushi-matreiðsla fer nú aðeins fram á kvöldin, svo að Tveir fiskar hafa gefið Sticks n’Sushi eftir Japansréttamarkaðinn. Á móti kemur, að í hádeginu er einstaklega ódýrt að borða á Tveimur fiskum. Súpa dagsins og val af aðalréttum kostar þá ekki nema 1.100 krónur. Samt er allt eins á kvöldi, hvítdúkuð borg og hvítar tauþurrkur, þjónusta fagfólks og matreiðslan í toppi. Miðað við gæði er þetta eitt bezta hádegisverðið um þessar mundir.

Íslenzk Ítalía
Við Laugaveg 11 er feiknarlega vinsælt veitingahús, þar sem hvert borð er setið hálfátta á kvöldin og biðröð komin hálfníu. Staðurinn er ekki ítalskur og heitir samt Ítalía, en ætti að heita Ísland. Þar sitja sáttir menn og konur afar þröngt í básum við glerplötur á borðum og borða pizzur og pöstur, þjóðarrétti kolvetnisærðra Íslendinga nútímans.
Af því að þetta er þjóðlegur íslenzkur staður, er fiski lítt hampað og fúslega viðurkennt, að rauðsprettan sé fryst. Aðeins ein matreiðsla er á ferskum fiski og rjómahvítvínssósan flæðir um allan disk. Kjötmatreiðsla er mun betri, en staðlað meðlæti er nákvæmlega hið sama og með fiskinum. Að íslenzkum hætti er boðið upp á tiramisu í eftirrétt og hér er hún þeirra fjarlægust upprunanum í Bologna, minnir á krem- og rjómatertu í erfidrykkju. Ég gafst upp í henni miðri.

Skelfileg jólahlaðborð
Jólahlaðborð höfða til okkar, afkomenda langsoltinna forfeðra. Fólk, sem nánast aldrei fer út að borða, flykkist í veitingahús, sem hafa orðið undir í hefðbundnum veitingum og bjóða jólahlaðborð í atvinnubótaskyni. Maturinn á jólahlaðborðum er fremur vondur í samanburði við venjulegan veitingahúsamat, en það er nóg af honum, eins og forfeður okkar töldu mundu verða í himnaríki. Þegar við höfum áttað okkur á, hvað af matnum er ætt, erum við orðin svo södd, að við getum ekki hagnýtt okkur lærdóminn. Matarsiðaðar þjóðir búa ekki við hlaðborð.
Venjuleg matreiðsla leggst niður á hlaðborðastöðunum í desember og gerir þá ónothæfa. Sem betur fer er nóg til af ágætum stöðum í öllum verðflokkum, sem ekki bjóða nein jólahlaðborð, svo að enginn er skyldugur til að ögra heilsu sinni. En vissara er að hringja á undan til að fullvissa sig um, að ekki hafi í laumi verið komið upp jólahlaðborði á staðnum.

Jónas Kristjánsson

DV