Hornsteinn í tilverunni

Greinar

Náttúruminjasafn Íslands er að hluta í nokkrum óvistlegum kompum við Hlemmtorg, en að mestu leyti niðri í kössum. Bráðlega verður því endanlega lokað, því að húseigandi þarf að koma þar fyrir gistiheimili. Þetta er einstæð umgerð náttúruminja á Vesturlöndum.

Virðingarleysi menntaráðuneytis og Alþingis við íslenzkar náttúruminjar endurspeglast í því, að Ísland er eina vestræna ríkið, sem ekki státar af nothæfu náttúruminjasafni. Innan um öll monthús ríkisvaldsins er ekki fjárhagslegt rými fyrir náttúruminjasafn.

Ekki stafar þetta af, að samband manns og náttúru sé eða hafi verið minna hér á landi en annars staðar á Vesturlöndum. Þvert á móti er öll saga þjóðarinnar samofin náttúrunni í blíðu og stríðu. Við höfum haft og höfum enn þá sérstöðu að búa í landi, sem er enn í mótun.

Á síðustu árum hefur þjóðin verið að vakna til vitundar um náttúruna og ganga á vit hennar. Ferðalög um hálendið eru orðin eitt af fremstu áhugamálum þjóðarinnar. Fólk fer um ósnortin víðerni á tveimur jafnfljótum, á hestbaki, á hjólum, í fjórhjóladrifsbílum og á vélsleðum.

Á ferðum þessum hafa menn lesið í náttúruna, fræðst um fjölbreyttan og litskarpan gróður hálendisins, lesið í jarðlög frá misjöfnum tímum og aðstæðum, virt fyrir sér sveitir fugla og skordýra og staðið í undrun andspænis risavöxnum gljúfrum, fossum og hömrum.

Þjóðin hefur komið til baka reynslunni ríkari. Menn hafa komizt í tæri við tign og dulúð öræfanna. Síazt hefur inn virðing fyrir víðerni landsins, sem ekki hefur skilað sér til ráðamanna þjóðarinnar. Fólk hefur á nýjan leik gert náttúruna að hornsteini í tilveru sinni.

Þetta endurspeglast í skoðanakönnunum. Helmingur þjóðarinnar, 45%­60% eftir orðalagi spurninga, er jákvæður í garð umhverfisverndar, til dæmis þegar spurt er um orkuver við Eyjabakka eða Kárahnjúka. Að baki þessum tölum er mikil viðhorfsbreyting á skömmum tíma.

Að vísu eigum við nokkuð í land til að verða eins vistvæn og íbúar Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, þar sem 60­80% fólks er samkvæmt skoðanakönnunum jákvætt í garð skilgreindra þátta umhverfisverndar. Við erum um það bil 15 prósentum og hálfum áratug á eftir.

Ekkert getur komið í veg fyrir, að Íslendingar fylgi í humátt á eftir vestrænum auðþjóðum, jafnvel þótt ráðamenn okkar prédiki, að þjóðin hætti að geta skaffað, ef hún fái of mikinn áhuga á umhverfismálum. Sultaráróður stjórnvalda hættir smám saman að hafa áhrif.

Menn vita af fenginni reynslu, að hvalaskoðun gefur margfalt meiri tekjur en hvalveiði. Menn eru smám saman að átta sig á, að ekki felst efnahagsleg byrði í að gæta hagsmuna náttúrunnar. Við erum farin að læra af þjóðum á borð við Svisslendinga og Þjóðverja.

Svisslendingar hafa losað sig við öll sín álver og eru grátfegnir, enda vegnar þeim betur en nokkru sinni fyrr. Í Alpalöndum dettur engum lengur í hug að reisa risavaxnar stíflur með breytilegri vatnsborðshæð. Norðmönnum dettur bara í hug að láta fremja slíkt á Íslandi.

Baráttan gegn eyðingu Eyjabakka sameinaði nývöknuð öfl umhverfisverndar hér á landi. Baráttan heldur áfram, því að þrautseig eyðingaröfl meðal ráðamanna þjóðarinnar vilja núna reisa stíflur, sem spilla Þjórsáverum sunnan Hofsjökuls og Miklagljúfri norðan Vatnajökuls.

Hafa má til marks um, að eyðingaröflin hafa beðið ósigur, þegar stjórnvöldum finnst vera sjálfsagt, að Íslendingar eigi náttúruminjasafn að hætti siðaðra þjóða.

Jónas Kristjánsson

DV

Virkjað verður

Greinar

Flest bendir til, að virkjað verði við Kárahnjúka. Ríkisstjórnin mun hafna málefnalegri niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara” og leggja málið fyrir Alþingi á komandi vetri. Þar verður virkjunin samþykkt fyrir jól með öruggum meirihluta stjórnarflokkanna.

Þetta er eðlileg málsmeðferð í lýðræðisríki. Kjörnir fulltrúar taka endanlega ákvörðun eftir mikla umræðu í þjóðfélaginu. Þeir þurfa ekki að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða að hætti embættismanna. Þeir hafa pólitískt vald til að taka ranga ákvörðun, sem öðlast gildi.

Steinarnir í vegi virkjunarinnar eru annars eðlis og snúa fremur að fjármögnun álversins á Reyðarfirði. Ekki hefur reynzt kleift að fá erlendan ofurfjárfesti til að kosta verið. Niðurstaða Skipulagsstofnunar verður ekki til að efla áhuga manna á að taka þátt í harmleiknum.

Norsk Hydro vill bara eiga lítinn hluta í álverinu, en ætlar sér eigi að síður að hafa sömu viðskiptaeinokun og Alusuisse hefur gagnvart Ísal. Gróði Norsk Hydro verður til með því að sitja beggja vegna borðsins, selja Reyðaráli allt hráefnið og kaupa síðan allt álið frá því.

Mjög er horft til lífeyrissjóðanna. Þar sitja menn, er girnast persónulegar tekjur og persónuleg völd af setu í stjórnum fyrirtækja og hafa reynslu af því að láta sjóðina kaupa handa sér stjórnarsæti. Þeir munu eftir nokkurt hik fórna hagsmunum sjóðfélaganna fyrir sína eigin.

Lífeyrissjóðir eiga að festa peninga sína sem víðast til að tryggja öryggi sjóðfélaga. Heppilegast er að fjárfesta í erlendum safnsjóðum til að útiloka íslenzkar sveiflur. Heimskulegast er að fjárfesta mikið í stökum fyrirtækjum, því að það eykur áhættu sjóðfélaga of mikið.

Stjórnarmenn lífeyrissjóða geta litið fram hjá slíkum málefnalegum sjónarmiðum alveg eins og íslenzkir stjórnmálamenn geta litið fram hjá málefnalegri úttekt Skipulagsstofnunar. Lýðræðið stendur hvorki né fellur af völdum rangra ákvarðana, sem teknar eru í nafni þess.

Ef við gerum ráð fyrir, að hægt verði að kría saman peninga í Reyðarál, er fátt, sem getur komið í veg fyrir Kárahnjúkavirkjun. Ekki er að vænta umhverfisstuðnings norskra stjórnvalda sem aðaleiganda Norsk Hydro, því að áhugi er lítill í Noregi á íslenzku umhverfi.

Ekki verður horft fram hjá þeirri staðreynd, að drjúgur meirihluti kjósenda ríkisstjórnarflokkanna tveggja á Íslandi er fylgjandi Kárahnjúkavirkjun. Ríkisstjórnin hefur því umboð fylgismanna sinna til að halda áfram með málið meðan þessi stuðningur grasrótarinnar bilar ekki.

Komið hefur í ljós, að ítarleg greinargerð og niðurstaða Skipulagsstofnunar hefur ekki magnað andstöðuna við Kárahnjúkavirkjun í þeim mæli, sem búast hefði mátt við. Umhverfissjónarmið hafa ekki átt eins greiðan aðgang að hjörtum Íslendinga og ætla mætti af umræðunni.

Málið snýst ekki um val milli efnahags og umhverfis. Leidd hafa verið sterk rök að því, að virkjun og álver séu þjóðhagslega óhagkvæm, beini fjármagni og kröftum landsmanna inn á gamaldags brautir, sem hamli gegn sókn þjóðarinnar til atvinnuhátta framtíðarinnar.

Málið snýst frekar um gamla nítjándu aldar drauminn frá upphafi iðnvæðingarinnar, þegar menn vildu beizla náttúruna með valdi og knýja hana til fylgilags. Þetta er svipuð ranghugsun og felst í tröllslegum mannvirkjum, sem risið hafa í hlíðum yfir snjóflóðaplássum.

Hálf þjóðin er enn þeirrar skoðunar, að lifibrauðið felist í baráttu við náttúruöflin, og hefur ekki áttað sig á, að tækifæri nútímans eru allt önnur. Því verður virkjað.

Jónas Kristjánsson

DV

Af því bara

Greinar

Ferli Kárahnjúkamálsins er aðeins formsatriði í augum Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra. Eftir 280 blaðsíðna vandaða úttekt og eindreginn úrskurð Skipulagsstofnunar lýsti hann yfir, að það hefði verið og væri enn stefna ríkisstjórnarinnar að reisa þessa virkjun.

Davíð Oddsson skýrði þetta viðhorf enn betur. Í hans augum er ferli Kárahnjúkamálsins þykjustuleikur til að fullnægja formsatriðum, sem tíðkast í útlöndum. Hér á landi eiga opinberar stofnanir hins vegar að þóknast ríkisstjórninni. Annars gefur hann þeim á kjaftinn.

Norsk Hydro er sama sinnis, enda er það fyrirtæki eini aðilinn, sem hagnast á vitleysunni. Henrik Andenæs, blaðafulltrúi fyrirtækisins, segir efnislega, að ferlið haldi áfram, ef Halldór og Davíð vilja láta það halda áfram. Málefnaleg bakslög skipta Norsk Hydro litlu.

Öðru máli er að gegna um íslenzku lífeyrissjóðina, sem áttu að verða dráttardýr Norsk Hydro. Forstjóri stærsta sjóðsins segir: “Það er ljóst, að ein af grunnforsendum fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna að verkefninu var, að bæði álver og virkjun stæðust skoðun skipulagsyfirvalda.”

Úrskurður Skipulagsstofnunar er ítarlegri og eindregnari en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona. Þar er umhverfismat Landsvirkjunar á Kárahnjúkavirkjun hakkað svo rækilega í spað, að ekki stendur lengur steinn yfir steini í röksemdafærslu virkjunarsinna.

Mikilvægasta afleiðing úrskurðarins er, að hann kemur til með að sameina fólk gegn Kárahnjúkavirkjun eins og fólk sameinaðist gegn Eyjabakkavirkjun. Þá sameinuðust þeir, sem voru beinlínis andvígir Eyjabakkavirkjun og hinir, sem vildu fyrst umhverfismat.

Nú geta þeir sameinast í andstöðunni við Kárahnjúkavirkjun, sem hafa verið andvígir henni og hinir, sem vildu bíða eftir faglegri niðurstöðu, sem nú hefur verið fengin með úrskurði Skipulagsstofnunar. Endurvakinn hefur verið meirihlutinn gegn áformum stjórnvalda.

Sif Friðleifsdóttir mun sameina þjóðina gegn sér, þegar hún ákveður að hafna niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara”. Eina leiðin til að keyra málið áfram málefnalega væri að gera viðamikla úttekt á öllum þáttum úrskurðar Skipulagsstofnunar með ólíkri niðurstöðu.

Umhverfisráðuneytið getur ekki framleitt slíka úttekt og því mun ráðherrann hafna niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara”. Ekki þýðir síðan að treysta kærumálum fyrir dómstólum, því að þeir hafa hefðbundið þá skoðun, að æðstu stjórnvöld hafi alltaf rétt fyrir sér.

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar munu hins vegar fá mikinn stuðning að utan, þegar kemur í ljós, að stjórnvöld ætla að hunza niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Norsk stjórnvöld og Norsk Hydro verða beitt miklum þrýstingi, sem mun valda þeim töluverðum áhyggjum.

Ekkert hindrar þó, að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson reisi Kárahnjúkavirkjun “af því bara”, annað en eindregin samstaða meirihluta þjóðarinnar um aðgerðir til að stöðva málið. Mál Kárahnjúka er því komið í svipaða stöðu og mál Eyjabakka var á sínum tíma.

Þá sameinaðist fólk um að heimta umhverfismat og felldi málið með mikilli fyrirhöfn. Nú getur fólk sameinast um að heimta, að tekið verði mark á umhverfisúrskurði Skipulagsstofnunar, og fellt málið, en aðeins með mikilli fyrirhöfn. Annars valtar ríkisstjórnin yfir alla.

Það er út í hött að halda, að Kárahnjúkavirkjun sé sjálfdauð. Landið okkar verður aðeins varið með markvissu og fjölbreyttu átaki meirihluta þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

1-2 milljarða mengun

Greinar

Robert Watson, sérfræðingur Alþjóðabankans í mengunarmálum, metur verðgildi mengunarréttar fyrir koltvísýring á 15-30 dollara tonnið. Það eru tölurnar, sem bankinn miðar við, þegar hann er að reyna að meta mengunarþátt stórverkefna, sem hann fjármagnar.

Mengunarskattur er á næsta leiti í Evrópu. Frakkland byrjaði að nota slíkan skatt í tilraunarskyni fyrir ári. Búizt er við, að staðfesting Kyoto-bókunarinnar um takmörkun á útblæstri koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda leiði til samevrópsks mengunarskatts.

Stórfyrirtæki eru byrjuð að búa sig undir skattinn, þar á meðal olíufélögin Shell og BP. Stjórnarformaður British Airways er formaður brezkrar nefndar af hálfu viðskiptalífsins, sem hefur mælt með mengunarskatti í Bretlandi. Menn hafa þegar sætt sig við hugmyndina.

Verðgildi mengunar með koltvísýringi er mikilvæg reikningseining, þegar ríki og fyrirtæki fara að verzla með réttinn til að menga. Flestir sérfróðir menn telja slíka verzlun með mengun gagnlega til að gera minnkun mengunar í heiminum sem hagkvæmasta í kostnaði.

Verðgildið ræðst auðvitað að lokum af framboði og eftirspurn. En nota má spátölur Alþjóðabankans til að verðleggja ýmis atriði, sem varða Ísland. Þannig er verðgildi íslenzka ákvæðisins í tengslum við Kyoto-bókunina frá 2,5 milljörðum upp í 5 milljarða króna á hverju ári.

Mengunarverð Reyðaráls eins verður samkvæmt tölum Alþjóðabankans 1-2 milljarðar króna á hverju ári. Það er skatturinn, sem Reyðarál þarf að bera, ef íslenzk stjórnvöld taka á sama hátt og aðrar ríkisstjórnir á Vesturlöndum á kostnaði við nýja mengun stórfyrirtækja.

Þótt Ísland fái ókeypis mengunarkvóta við frágang Kyoto-bókunarinnar, er ekkert, sem segir, að gefa eigi Reyðaráli þennan kvóta. Sjávarútvegurinn mun vafalaust telja sig standa nær slíkri fyrirgreiðslu ríkisvaldsins. Og bíleigendur telja sig þegar borga miklu meira.

Ísland verður fyrr eða síðar að leggja á mengunarskatta og leyfa verzlun með mengun eins og nágrannaríkin. Þar með verður fyrr eða síðar ekki komizt hjá því að skattleggja Reyðarál um 1-2 milljarða króna á ári, jafnvel þótt núverandi ríkisstjórn vilji gefa skattinn eftir.

Nauðsynlegt verður fyrir íslenzka lífeyrissjóði og aðra stórfjárfesta í Reyðaráli að gera sér grein fyrir, að fyrr eða síðar kemur þessi skattur á fyrirtækið. Engin pólitísk samstaða er í landinu um að veita þessu fyrirtæki mengunarlegan forgang fram yfir önnur fyrirtæki.

Á allra næstu árum munu Vesturlandabúar vakna til meðvitundar um vandræðin í tengslum við gróðurhúsalofttegundir. Öll vísindaleg rök hafa á síðustu misserum hneigzt að sömu niðurstöðu, sem segir okkur, að minnka verði mengun til mikilla muna á næstu árum.

Evrópskir og amerískir framleiðendur mengunar í álfyrirtækjum munu ekki sætta sig við til lengdar að keppa við dótturfyrirtæki Norsk Hydro á Íslandi, sem hafi þá samkeppnisaðstöðu umfram önnur slík fyrirtæki að þurfa ekki að borga mengunarskatt á koltvísýring.

Þeir, sem gæla við hugmyndir um fjárfestingu í Reyðaráli, þurfa að gera ráð fyrir, að fyrirtækið verði fyrr eða síðar að borga 1-2 milljarða króna á ári fyrir réttinn til að menga andrúmsloftið í heiminum. Umheimurinn setur annars innflutningsbann á afurðir verksmiðjunnar.

Hingað til hafa málsaðilar ekki reiknað með að þurfa að borga slíkar upphæðir. Þeir hafa verið að leika sér með óraunhæfar tölur um rekstrarkostnað Reyðaráls.

Jónas Kristjánsson

DV

Tíu ár til hvers?

Greinar

Davíð Oddsson fann ekki margt afreksverkið í drottningarviðtali helgarblaðs DV um tíu ára feril sinn í forsætisráðuneytinu. Ríkisbáknið hefur gengið sinn vanalega gang með rólegum framförum, svo sem aukinni opnun þjóðfélagsins og aukinni aðild að umheiminum.

Margt það bezta, sem gert hefur verið þennan áratug, er afleiðing aðildar okkar að fjölþjóðlegum samtökum, sem gera kröfur til félagsmanna. Þannig hefur réttlæti aukizt í dómkerfinu og skilvirkni framkvæmdavaldsins aukizt með skýrari, opnari og réttlátari reglum að utan.

Forsætisráðherra hefur hins vegar sjálfur lítið gert til að láta rætast draum sinn um alþjóðlegt viðskiptaumhverfi á Íslandi. Það væri verðugt verkefni, sem mundi magna tekjur fólks, en til þess þarf markvissari aðgerðir en ríkisstjórnin hefur reynzt fær um að framkvæma.

Almenn reynsla Vesturlanda segir okkur, að ný störf verði eingöngu til í nýjum og litlum fyrirtækjum, en ekki í grónum stórfyrirtækjum. Almenn reynsla Vesturlanda segir okkur, að hátekjustörf verði helzt til í nýjum atvinnugreinum, en ekki í hefðbundnum greinum.

Stjórnvöld geta á ýmsan hátt stuðlað að framþróun af þessu tagi, en það hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki gert. Þvert á móti hefur hún verið upptekin af vandræðum hefðbundinna greina og reynt að binda fjármagn þjóðarinnar í málmbræðslu austur á fjörðum.

Stjórnvöld gætu til dæmis veitt öllum, sem hafa vilja, ókeypis gagnaflutning um símalínur innan lands og til útlanda, rétt eins og nú er ókeypis aðgangur að vegum landsins. Slíkt vegakerfi gagnaflutninga mundi stuðla að stofnun fjármála- og hátæknifyrirtækja hér á landi.

Stjórnvöld gætu til dæmis gefið öllum Íslendingum tölvur og látið kenna þeim að nota þær. Skólakerfið gæti breytt áherzlum sínum yfir í nám í fjármálum, stjórnun og tölvufræði á öllum stigum skólakerfisins til að gera Íslendinga gjaldgenga í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi.

Stjórnvöld gætu til dæmis reynt að hafa kjark til að koma á flötum og lágum sköttum, til dæmis 25% tekjuskatti einstaklinga og 15% virðisaukaskatti, svo og lágsköttun fyrirtækja til að laða hingað aðila, sem vilja forðast hátekju-refsiskatta sumra nágrannaríkjanna.

Engu slíku hefur ríkisstjórnin sinnt að neinu gagni. Hún treður marvaðann í hvalveiðimálum, skipuleggur fiskveiðar niður í smæstu atriði, reynir kerfisbundið undanhald í landbúnaði og berst með klóm og kjafti fyrir bindingu dýrmæts fjármagns í nítjándu aldar iðnaði.

Ríkisstjórnin greip ekki einu sinni tækifæri mála Árna Johnsens til að auka gegnsæi í stjórnmálum og stjórnsýslu. Davíð Oddsson neitar að sjá, hvernig núverandi kerfi er ávísun á vandamál af tagi Árna, og heimtar að sjá eingöngu persónulegt vandamál eins manns í kerfinu.

Stjórnvöld gætu til dæmis komið upp traustari reglum og harðara eftirliti í stjórnsýslunni, svo sem með meiri útboðum ríkisins og gegnsærri fjármálum stjórnmála. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar neitar hins vegar staðfastlega að fylgja fordæmi Vesturlanda á þessum sviðum.

Af eyðunum í drottningarviðtalinu við Davíð Oddsson má sjá, að hann rekur fremur íhaldssama ríkisstjórn, sem er upptekin af fortíðarmálum og pólitísku þrasi við stjórnarandstöðuna um nánast einskisverða hluti. Forsætisráðherra kann raunar bezt við sig í leðjuslagnum.

Þegar fram líða stundir munu menn gleyma áratug Davíðs Oddssonar við stjórnvölinn. Ríkisstjórn hans hefur engan sérstakan framtíðartilgang. Hún er bara þarna.

Jónas Kristjánsson

DV

Árni hengdur fyrir alla

Greinar

Kerfið hefur ákveðið að fórna Árna Johnsen og honum einum. Ráðamenn embætta og stjórnmála keppast um að lýsa yfir, að velt verði við hverjum steini í fjármálaumsvifum Árna á vegum ríkisvaldsins. Þeir þegja hins vegar þunnu hljóði um kringumstæður spillingarinnar.

Árni var ekki einn í heiminum. Hann var aðili að kerfi, sem gerði honum kleift að leika lausum hala árum saman. Hann hefði áfram fengið að valsa um gullkistur ríkisins, ef DV og að nokkru Ríkisútvarpið hefðu ekki opnað gröftinn út með töngum, gegn vilja ráðamanna.

Hvarvetna reyndu ráðamenn embætta og einkafyrirtækja að slá skjaldborg um Árna og hylma yfir með honum. Það voru hins vegar óbreyttir starfsmenn á ýmsum stöðum, sem höfðu augun hjá sér, undruðust takmarkalausa ósvífni og gáfu fjölmiðlum upplýsingar.

Að baki Árna voru ráðuneyti menntamála og fjármála, svo og sérstök Framkvæmdasýsla ríkisins. Á öllum þessum stöðum vissu háttsettir embættismenn um fjármálaumsvif Árna, skrifuðu upp á reikningana og létu greiða þá, stundum eftir útskýringar til málamynda.

Rannsókn ríkisendurskoðanda ætti að beinast að þessu kerfi. Hún ætti að leita svara við, hvernig embættismenn samþykkja umsvif af því tagi, sem upplýst hafa verið undanfarna daga. Telja embættismenn sig stikkfrí, ef umsvifamaðurinn er flokksbróðir ráðherrans?

Eðlilega leikur nokkur forvitni á að vita, hvort háttsettir embættismenn ríkisins hafa sett kíkinn fyrir blinda augað í fleiri tilvikum en Árna eins. Hvað ræður því, hvenær og hvernig eðlileg stjórnsýsla er látinn lönd og leið og einum manni leyft að valsa um hirzlurnar?

Fyrstu ummæli ríkisendurskoðandans benda til, að honum hafi verið sagt að takmarka rannsóknina við Árna einan og láta umhverfi hans kyrrt liggja. Hann á að velta við hverjum steini í sögu Árna, en ekki rannsaka aðstæðurnar, sem gerðu harmsögu hans mögulega.

Efasemdarmenn hljóta að spyrja, hvort Árni sé eini stjórnmálamaðurinn, sem hafi makað krókinn með aðstoð embættismanna. Þeir hljóta líka að spyrja, hvort fleiri einstaklingar, stofnanir eða fyrirtæki, t.d. verktakar hafi makað krókinn með aðstoð embættismanna.

Fyrir þjóðfélagið og ríkið ætti að skipta miklu meira máli að finna orsakir meinsins en að ná sér niðri á Árna. Ef brotalamirnar finnast og vinnureglum stjórnsýslunnar verður breytt, höfum við lært af reynslunni og dregið úr líkum á hliðstæðri spillingu í framtíðinni.

Harmleikur Árna kemur að gagni, ef ríkiskerfið verður gert gegnsærra, ef fjölmiðlar fá betri og skjótari aðgang að gögnum embætta, ef enginn verður sinn eigin eftirlitsmaður í kerfinu, ef embættismenn verða látnir sæta ábyrgð fyrir vanrækslu og yfirhylmingar.

Í nágrannaríkjum okkar væru ráðherrar menntamála og fjármála búnir að segja af sér, ennfremur embættismenn ráðuneytanna, sem höfðu með Árna að gera, svo og forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Hér ber hins vegar enginn neina ábyrgð og allra sízt stjórnmálamenn.

Í staðinn keppast allir þessir valdaaðilar við að lýsa frati á Árna og heimta, að ríkisendurskoðunin valti yfir hann kruss og þvers, en bara hann einan. Markmið þeirra er að hindra, að almennar ályktanir verði dregnar af málinu og að vinnubrögð annarra verði skoðuð.

Málið er komið í þennan notalega farveg. Kerfið hefur ákveðið að fórna einum til að friða þjóðina, svo að hinir sleppi. Það hefur ákveðið að hengja Árna fyrir alla.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýr höfuðóvinur allra

Greinar

Ráðamenn fimmtánveldanna í Evrópusambandinu eru ákveðnir í að undirrita Kyoto-bókunina um aðgerðir gegn gróðurhúsalofttegundum og eru reiðir Bandaríkjastjórn, ekki bara fyrir fráhvarf hennar frá bókuninni, heldur einnig fyrir undirferli og svik í tengslum við hana.

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fékk 180 þjóða fundinum í Bonn um Kyoto-bókunina frestað um tvo mánuði til að semja tillögur um breytingar á texta hennar. Hann lofaði þar á ofan, að fresturinn yrði ekki notaður til að grafa undan bókuninni.

Þegar fundurinn er nú hafinn seint og um síðir, kemur í ljós, að Bandaríkjastjórn hefur alls ekki notað frestinn til að semja neinar nýjar tillögur, heldur til að beita Japan, Ástralíu og Kanada þrýstingi til að falla frá Kyoto-bókuninni. Colin Powell var bara að ljúga að Evrópu.

Þar á ofan hefur Bandaríkjastjórn fallið frá loforði, sem hún gaf í tengslum við frestunina, um að borga 250 milljónir dollara í sjóð til aðstoðar þriðja heiminum við að hamla gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Ekkert samband virðist lengur vera milli loforða og gerða.

Ýmsir ráðamenn í Evrópu hafa tjáð sig vafningalaust um undirferlið. Þar á meðal eru Jan Pronk, forseti ráðstefnunnar í Bonn, og Margot Wallström, umhverfisráðherra Evrópusambandsins. Ljóst er, að lygar Powells eru einnota, því að menn treysta honum ekki lengur.

Öll fimmtán ríki Evrópusambandsins styðja Kyoto-bókunina eindregið, þótt hún geri ráð fyrir meiri samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda í Evrópu en í Bandaríkjunum og Japan. Þessir þrír heimshlutar bera mesta ábyrgð á uppsafnaðri loftmengun frá fyrri tímum.

Reiði ráðamanna Evrópu endurspeglar skoðanir almennings í þessum löndum. Mönnum finnst almennt lélegt hjá Bush Bandaríkjaforseta að segja Bandaríkin ekki hafa efni á aðgerðum í samræmi við Kyoto-bókunina og segja þriðja heiminn þurfa að taka meiri þátt.

Mikill meirihluti kjósenda í Evrópu styður öll umhverfissjónarmið núverandi fjölþjóðaumræðu, þar á meðal Kyoto-bókunina, sem nýtur til dæmis stuðnings 86% Þjóðverja. Raunar má segja, að pólitísk samstaða hafi náðst í Evrópu um öll helztu stefnumál grænu flokkanna.

Svipuð þróun hefur orðið í Bandaríkjunum, þar sem 71% kjósenda vill tafarlausar aðgerðir gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Afturhvarf stjórnar Bush Bandaríkjaforseta til frekari rannsókna í stað aðgerða, nýtur því ekki stuðnings almennings í hans eigin landi.

Það er nú að renna upp fyrir mönnum í Bandaríkjunum, að Bush hefur logið sig inn á þjóðina. Hann er fyrst og fremst hagsmunagæzlumaður fyrirtækja í afmörkuðum geirum efnahagslífsins, svo sem olíuiðnaðarins og timburiðnarðarins, sem heimta meira svigrúm fyrir sig.

Ótrúlegt er, að kjósendur sætti sig lengi við ríkisstjórn, sem vill, að Bandaríkin verði áfram langmesti umhverfissóði veraldar og haldi ótrauð áfram að eitra framtíð barna okkar og barnabarna. Umhverfisbaráttan mun í vaxandi mæli snúast um að fella fylgismenn Bush af þingi.

Bandarískir kjósendur hljóta að fara að sjá vaxandi einangrun landsins á mörgum öðrum sviðum, í andstöðu Bandaríkjastjórnar við alþjóðlegan stríðsglæpadómstól, við alþjóðabann við milliríkjaverzlun handvopna, við alþjóðabann við jarðsprengjum, svo að dæmi séu nefnd.

Eftir valdatöku Bush hafa Bandaríkin færzt óðfluga í stöðu einangraðs höfuðóvinar mannkyns um þessar mundir. Bandaríkjamenn munu ekki lengi þola það.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðstandendur harmleiks

Greinar

Harmleikur Árna Johnsen alþingismanns í Þjóðleikhúsinu vekur spurningar um, hvaða aðstæður í þjóðfélaginu valdi röð tilviljana af því tagi, sem þingmaðurinn hefur lýst í fjölmiðlum. Mistökin voru framin fyrir opnum tjöldum, án þess að viðvörunarbjöllur hringdu.

Sjaldgæft er, að íslenzkir stjórnmálamenn séu taldir skara eld að eigin köku á þann hátt, sem óttazt er, að gerzt hafi í bygginganefnd Þjóðleikhússins og hugsanlega víðar í fjölbreyttum stjórnarstörfum þingmannsins. Pólitísk spilling á Íslandi er yfirleitt allt annars eðlis.

Stjórnmálamenn reyna að vísu að koma sér í notalega stóla í stjórnkerfinu, þegar þeir eru orðnir þreyttir í pólitíkinni. Og margir eru mikið fyrir sértæka góðgerðastarfsemi á kostnað skattborgaranna, til dæmis þegar kosningastjórar þeirra fá ábúð á ríkisjörðum.

Hins vegar hefur á síðustu árum verið lítið um, að stjórnmálamenn rugli saman eigin vösum og vösum stofnana á valdasviði þeirra. Menn hafa því haldið, að stjórnsýsla ríkisins sé almennt í þeim skorðum, að harmleikur af tagi Árna Johnsen komist ekki á fjalirnar.

Umhverfis formann byggingarnefndar Þjóðleikhússins standa samt nokkrir menn, sem höfðu aðstöðu til að benda þingmanninum á að fara að stjórnsýslulögum. Þeir létu eigi að síður gott heita og bera því sameiginlega ábyrgð á frekari þróun málsins yfir í harmleik.

Athyglisverður er þáttur framkvæmdastjóra BYKO, sem neitaði að upplýsa um leiðréttingar og bakfærslur í bókhaldi fyrirtækisins, þótt þar væri að finna þau atriði, sem einna mestu ljósi gætu varpað á tilraunir manna til að mynda varnarmúr um mistök þingmannsins.

Auðvitað er alvarlegt, ef bókhald fyrirtækja úti í bæ er leiðrétt og bakfært til að draga úr líkum á frekari framvindu uppljóstrana í meintu spillingarmáli viðskiptaaðila. Því má búast við, að framkvæmdastjórinn þurfi að útskýra sumt, þegar málið fer í opinbera rannsókn.

Þjóðleikhússtjóri virðist hafa sofið á fundum í tveggja manna byggingarnefnd Þjóðleikhússins og látið formanninn um vinnuna. Hann kom af fjöllum, þegar málið sprakk í loft upp og er seint og um síðir að reyna að nudda stírurnar úr augunum og átta sig á dagsbirtunni.

Það boðar ekki gott, ef fínimenn taka sæti í nefndum án þess að vilja vinna í þeim og hafa ekki hugmynd um, hvort þar sé farið að reglum eða ekki. Menn verða sam-ábyrgir í framgöngu nefnda, þótt þeir hafi aðeins farið með þægileg grínhlutverk í harmleiknum.

Einna undarlegastur er þáttur framkvæmdastjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, sem virðist líta á sig sem eins konar bókara með það hlutverk að raða reikningum í möppur og skrifa nafnið sitt á þá, án þess að í því felist neitt samþykki fyrir innihaldi reikninganna.

Efasemdir hljóta að vakna um, hvort ríkið þurfi Framkvæmdasýslu, sem lítur á sig sem bókara fremur en eftirlitsaðila. Annaðhvort má leggja stofnunina niður eða draga hana til ábyrgðar fyrir að hafa látið viðgangast sérstæða starfshætti, sem eru ávísun á vandamál.

Alvarlegastur er þáttur menntaráðherra, sem skipar byggingarnefnd Þjóðleikhússins og leyfði, að formaður hennar væri sinn eigin eftirlitsaðili. Sú ákvörðun stríðir beinlínis gegn stjórnsýslulögum og var raunar upphafleg forsenda þess, að málið rambaði í núverandi stöðu.

Þingmaðurinn hefði aldrei lent í harmleik sínum, ef einn af ofangreindum aðilum hefði unnið vinnuna sína í samræmi við reglur um opinberar framkvæmdir.

Jónas Kristjánsson

DV

Jarðgöng í Reykjavík

Greinar

Umferðarræsi eiga heima niðri í jörðinni eins og önnur holræsi. Þau fækka umtalsvert vandamálunum, sem fylgja utanáliggjandi umferðarræsum á borð við Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Reykjanesbraut, er mynda eins konar einskismannsland milli hverfa.

Aukin bortækni við jarðgöng hefur gert þau að fjárhagslega álitlegum kosti við skipulag umferðar í stórborgum. Nýjar hugmyndir skipulagsyfirvalda um að bora gat á Skólavörðuholt, Öskjuhlíð og Digranesháls eru í ánægjulegu samræmi við þessa tækniframför.

Með jarðgöngum undir Skólavörðuholt má tengja Sæbraut og Hringbraut. Með jarðgöngum undir Öskjuhlíð má tengja Hringbraut og Hafnarfjarðarveg. Með jarðgöngum undir Digranesháls má tengja Hafnarfjarðarveg og Reykjanesbraut. Allt væri þetta til þæginda.

Raunar má halda áfram á sömu braut. Væri ekki líka góður kostur að leggja Miklubraut gegnum Háaleitið til að losna við gatnamót Háaleitisbrautar? Og skipulagsyfirvöld eru raunar með ágæta hugmynd um að leggja Kringlumýrarbraut undir Miklubraut.

Umferðarholræsi eru efnahagsleg nauðsyn í stórborgum nútímans. Þau ein geta flutt mikinn fjölda fólks og mikinn varning milli borgarhverfa á skjótan og viðstöðulausan hátt. Þau draga líka úr menguninni, sem fylgir því að koma bílum úr kyrrstöðu við umferðarljós.

Umferðarræsi eru hins vegar rúmfrek á yfirborði jarðar. Slaufur við gatnamót taka mikið rými og draga úr hlýju í yfirbragði borgar. Mannvirkin þvælast fyrir gangandi fólki, sem þarf að bíða lengi við gangbrautarljós og fara yfir hverja reinina á fætur annarri.

Núverandi lausnir fyrir gangandi vegfarendur gera takmarkað gagn. Það kostar fólk fyrirhöfn að príla upp á göngubrýr, sem liggja yfir umferðarræsi. Og göngubrautir við mislæg gatnamót ná ekki til hættulegra hliðar-akreina, þar sem bílar eru oft á nokkurri ferð.

Með því að færa umferðarræsin niður í jörðina eru því margar flugur slegnar í einu höggi. Við náum kostum umferðarræsanna og losnum við þungbærustu galla þeirra. Yfirborð jarðar verður skipulagslega og fagurfræðilega betri heild. Borgin fær mýkra yfirbragð.

Fjármálin eru einföld. Jarðgöng höfuðborgarsvæðisins eiga að hafa forgang. Þau verða svo mikið notuð, að þau verða langsamlega arðbærasta vegagerð, sem hugsast getur í landinu, hundraðfalt arðbærari en önnur jarðgöng, sem nefnd hafa verið í fjölmiðlaumræðunni.

Jarðgöng undir Skólavörðuholt, Öskjuhlíð og Digranesháls mynda sameiginlega einn umferðarás, sem styttir ferðatímann milli Kvosar og Smára niður í lítinn hluta af því, sem hann er núna. Þetta skapar nýja möguleika í almenningssamgöngum höfuðborgarsvæðisins.

Stjórnarformaður Strætó hefur lagt til að flutt verði hingað erlend nýjung, sem leysir neðanjarðarlestir af hólmi á fjárhagslega hagkvæman hátt. Það eru litlir, sjálfvirkir rafbílar, sem ganga á gúmhjólum á eins konar teinum í göngunum og tengja saman hverfismiðstöðvar.

Þegar miðstöðvar helztu byggðakjarna svæðisins hafa verið tengdar með viðstöðulausum samgönguæðum, sem að töluverðu leyti eru neðanjarðar, verður orðið einkar fljótlegt og ódýrt að ferðast langar leiðir á svæðinu, hvort sem er í einkabílum eða almenningsvögnum.

Umferðarholræsi í jarðgöngum undir höfuðborgarsvæðinu eru ein skynsamasta hugmyndin í skipulagsmálum höfuðborgarsvæðisins um langan aldur.

Jónas Kristjánsson

DV

Innansveitarkronika

Greinar

Hæstiréttur hindraði í fyrradag það gerræði fyrrverandi stjórnar Lyfjaverzlunar Íslands að afhenda einum aðila nærri 40% af hlutafé fyrirtækisins og leyfa honum síðan að samþykkja söluna sem 40% hluthafi, áður en hluthafafundur gæti tekið afstöðu til sölunnar.

Ýmis sérkennileg ummæli féllu í hita aðdragandans. Meðal annars kom fram sú kenning, að þeir, sem hindra gróða, séu skaðabótaskyldir, af því að þeir valdi tjóni. Hugsunin er sú, að maður verði fyrir tjóni, ef hugmyndir hans um skjótan gróða ná ekki fram að ganga.

Tjón er í rauninni mælanlegt mat á rýrnun efnislegra verðmæta. Takmarkanir í umhverfinu á möguleikum manna til að láta drauma sína verða að veruleika, verða seint flokkaðar undir tjón. Fjölmiðill væri tæpast skaðabótaskyldur, þótt hann varaði við skottulækni.

Tengd þessu var sú fjarstæðukenning, að verðgildi felist í gróðadraumum, sem menn setja niður á blað með morgunkaffinu. Ýmsa óra af því tagi megi flokka sem eins konar viðskiptavild og verðleggja í áætlunum og bókhaldi á hundruð milljóna króna, jafnvel tvo milljarða.

Í þriðja lagi kom fram sú undarlega skoðun, að þjónustusamningur við ríkið feli í sér skjóttekinn gróða, sem jafngildi stórum hluta veltunnar. Samt vita þeir, sem hafa gert þjónustusamninga við ríkið, að harðsótt er að ná jöfnu í slíkum viðskiptum, hvað þá meiru.

Staðreyndin á bak við allar þessar fullyrðingar var, að fyrrverandi stjórn Lyfjaverzlunarinnar afhenti hlutabréf fyrir loftkastala í draumaheimi og skaðaði þannig hagsmuni fyrirtækisins. Hæstaréttardómur og hluthafafundur hindruðu þessi róttæku afglöp í fyrradag.

Lága planið í röksemdafærslu þeirra, sem stóðu að grófri og misheppnaðri tilraun til yfirtöku Lyfjaverzlunarinnar er ekki einstakt í sinni röð. Ótrúlega margir virðast telja almenning vera bjána. Í fjölmiðlum má sífellt lesa hundalógík og útúrsnúninga af hálfu málsaðila.

Nýlega sagði grófyrtur formaður Lánasjóðs námsmanna, að sjóðurinn þyrfti ekki að taka mark á aðfinnslum umboðsmanns Alþingis, af því að hann væri bara fimmti lögfræðingurinn, sem hefði fjallað um málið. Hinir fjórir voru lögfræðingar á vegum lánasjóðsins.

Þetta minnir á fleyg ummæli fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forstjóra Landsvirkjunar, þegar hann taldi ríkið ekki þurfa að hlíta hæstaréttardómi, af því að samtals hefðu fleiri dómarar á ýmsum dómstigum stutt málstað ríkisins en verið á móti honum.

Einna djarfast og skemmtilegast komst forstjóri deCODE genetics að orði í umræðuþætti í sjónvarpi, þegar hann sagði, að fræðimaðurinn, sem sat á móti honum, væri ekki marktækur í málinu, því að hann ynni hjá háskólastofnun og gæti því haft hagsmuna að gæta.

Sjónvarpsmaðurinn, sem stjórnaði umræðunni, staðfesti skoðunina um, að Íslendingar væru bjánar, með því að láta hjá líða að spyrja forstjórann að því, hver væri meiri hagsmunaaðili í hagsmunamálum deCODE genetics en sjálfur forstjóri þess sama fyrirtækis.

Halldór Laxness gaf í Innansveitarkroniku ágæta lýsingu á sterkri stöðu útúrsnúninga og hundalógíkur í hugarheimi Íslendinga. Innansveitarkronika Lyfjaverzlunar ríkisins er enn ein birtingarmynd fjölbreytts frjálslyndis manna í umgengni við málsefni og málsrök.

Sérstaklega þarf varast ýmsa meinta sérfræðinga í fjármálum, sem framleiða marklaus gögn eftir þörfum og meta verðgildi til að þjónusta hóflausa gróðafíkn.

Jónas Kristjánsson

DV

Andhverfir ólympíuleikar

Greinar

Spilltu gamlingjarnir í alþjóða ólympíunefndinni munu koma saman á föstudaginn til að ákveða, að andhverfa gríska ólympíuandans og helztu óvinir mannkyns um þessar mundir fái að halda ólympíuleikana í Peking árið 2008 og blakkeppnina á Torgi hins himneska friðar.

Ólympíuleikarnir eru grísk arfleifð með rætur í opnu og gegnsæju þjóðfélagi laga og réttar, dreifðu valdi og vel skilgreindum mannréttindum. Þeir eru samofnir lýðræðinu, sem var fundið upp í Grikklandi hinu forna og hefur löngu síðar blómstrað á Vesturlöndum og víðar.

Gríski andinn blómstrar hins vegar engan veginn í Kína, lokuðu eins flokks ríki, þar sem valdi er safnað á einn stað og stjórnað með gerræði, aftökum og pyndingum í stærri stíl, en þekkist annars staðar í heiminum og þar sem stjórnvöld eiga í útistöðum við nágrannaríkin.

Harðstjórar á borð við stjórnendur Kína hafa alltaf viljað fá tæki til að breiða yfir muninn á stjórnarfari þeirra og vestræna lýðræðinu frá Grikklandi ólympíuleikanna. Frægasta dæmið um það er Hitler, sem tókst að halda ólympíuleika nazismans í Berlín árið 1936.

Þrátt fyrir mótbyr í árangri Jesse Owens tókst Hitler í stórum dráttum ætlunarverkið. Hann auglýsti þjóðskipulag nazismans heima og erlendis, þjappaði þjóðinni í kringum sig og veikti mótstöðuvilja annarra stórvelda. Ólympíuleikar hans voru upphaf stríðsins mikla.

Stjórnarfarið í Kína fer versnandi um þessar mundir. Ráðamenn hafa alveg afklæðst gamalli hugmyndafræði og stefna nú eingöngu að varðveizlu valda sinna. Þeir óttast, að tilslakanir í stíl Gorbatsjovs muni leiða til valdamissis og þess vegna herða þeir tökin jafnt og þétt.

Ofsóknir gegn trúuðu fólki fara vaxandi, einkum gegn kristnum kaþólikkum og Falun Gong. Fylgismenn slíkra hreyfinga eru fangelsaðir hundruðum saman og láta lífið í pyndingum tugum saman. Ofsóknir eru nýlega hafnar gegn vísindamönnum, sem hafa vestræn sambönd.

Kínastjórn berst líka gegn Internetinu og leggur mikla áherzlu á að loka aðgangi að vefútgáfum vestrænna fjölmiðla og samtaka, sem hafa pólitískt gildi. Hún lítur á alla samkeppni um trú, þekkingu og skoðanir sem árás á valdastöðu sína. Hún er óvinur mannkyns númer eitt.

Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs lét ógnarstjórnin í Kína taka 1.780 menn af lífi, miklu fleiri en teknir voru af lífi í öðrum hlutum heimsins samanlagt. Hún lætur setja sjálfstætt hugsandi fólk á geðveikrahæli, þar sem persónur þeirra eru eyðilagðar með lyfjagjöf.

Meðferðin á Tíbetum er vel þekkt um heim allan, sömuleiðis ágengni Kínastjórnar gagnvart nágrannaríkjunum, einkum þeim, sem eiga lönd að Kínahafi. Kínastjórn er ekki aðeins ógnarstjórn inn á við, heldur einnig friðarspillir og óróaafl í fjölþjóðlegum samskiptum.

Tákn stjórnarfarsins í Kína eru skriðdrekarnir, sem óku yfir friðsama mótmælendur á Torgi hins himneska friðar fyrir tólf árum. Hafa má það til marks um niðurlægingu ólympíunefndarinnar, að ætlunin er að hafa keppnina í blaki ofan á tannaförum skriðdrekanna.

Alþjóða ólympíunefndin er heimskunn fyrir spillingu og mútuþægni, einkum á valdaskeiði núverandi formanns, Juans Antonio Samaranch, sem hefur breytt þeim í fjárhagslegt hóruhús, þar sem hlaupið með ólympíueldinn er selt á 3.000 dollara kílómetrann.

Þetta alþjóðlega einkennistákn spillingar mun á föstudaginn kunngera, að það ætli að leyfa hættulegustu harðstjórum heims að endurtaka leikana frá 1936.

Jónas Kristjánsson

DV

Réttarfarsbrestur

Greinar

Brotalöm er í einum af fimm hornsteinum vestræns lýðræðis hér á landi. Þótt þættir á borð við kosningar, mannréttindi, valddreifingu og gegnsæi séu með nokkrum undantekningum í þolanlegu lagi hér á landi, fer því fjarri, að sómasamlega sé haldið á lögum og rétti.

Stofnanir ríkisvaldsins tryggja ekki öryggi borgaranna nægilega vel. Dómar yfir ofbeldishneigðum síbrotamönnum eru vægir eins og ótal dæmi sanna. Nýlegur þriggja ára dómur í óvenjulega grófu ofbeldismáli er ávísun á meira af sama ofbeldi eftir skamman tíma.

Umræðu um væga dóma er drepið á dreif með deilu um, hvort fangelsisdómar eigi að vera uppeldi eða hefnd. Þeir hafa í rauninni hvorugt hlutverkið. Fangelsisdómum er ætlað að losa þjóðfélagið við hættulega menn, suma um tíma, meðan þeir ná áttum, en aðra ævilangt.

Tilgangslaust er að reyna að ala síbrotamenn til betri hegðunar, jafnvel þótt fangelsin væru rekin sem slíkar stofnanir með ærnum kostnaði. Fólk á hins vegar þá kröfu á hendur ríkinu, að það sjái um, að hættulega ofbeldishneigðir síbrotamenn verði ekki á vegi þess.

Vandinn er sumpart, að dómarar beita oft lægri kanti svigrúmsins, sem þeir hafa. Ennfremur hafa þeir tilhneigingu til að leggja ekki saman brot, þegar þeir dæma síbrotamenn, heldur veita þeim magnafslátt. Í færri tilvikum hefur Alþingi sett dómurum of þröngt svigrúm.

Alþingi þarf að fara yfir gildandi ákvæði laga um þyngd refsinga og færa ofar svigrúmið í lengd dóma í sumum tilvikum, einkum í síbrotum. Jafnframt þarf að mennta starfandi dómara betur til að fá þá til að skilja, að svigrúm í lögum er ekki aðeins sett til að nota neðri kantinn.

Framkvæmdavaldið á sinn þátt í öryggisleysi manna. Það rekur svo fámenna og lélega löggæzlu, að hún ein slíkra stofnana á Vesturlöndum getur ekki varið miðbæ höfuðborgarinnar fyrir drukknum skríl. Slíkt ástand er hvorki í London né New York, París né Amsterdam.

Virðingarleysi framkvæmdavaldsins fyrir limum og eignum fólk er slíkt, að nú er í alvöru ráðgert að halda hér að ári í einum rykk tvo fundi óvinsælla stofnana, sem eru samkvæmt reynslunni til þess fallnir að draga að sér athygli ofsafenginna mótmælenda af ýmsu tagi.

Framkvæmdavaldið rýrir á ýmsan annan hátt stöðu laga og réttar í landinu. Ríkið hefur lagt fram kröfur um bótalaust eignarnám í þinglýstum landeignum bænda víða um land. Slík árás á eignaréttinn væri óhugsandi í nokkru ríki, sem flokkast til lýðræðisríkja jarðar.

Sem betur fer hafa borgarar landsins öðlast mikilvægan búhnykk lýðræðis í aðgangi að yfirdómstólum úti í heimi. Þegar héraðsdómarar og jafnvel hæstaréttardómarar ganga erinda ríkisvaldsins gegn fólki, eiga menn kost á að kæra til Strassborgar, Bruxelles eða Haag.

Þess vegna nær ásælni ríkisins í eigur bænda ekki fram að ganga. Þess vegna hefur ríkið á ýmsum sviðum orðið að draga saman seglin í yfirgangi gegn borgurum landsins. Þess vegna hefur réttarstaða Íslendinga batnað og þessi fimmti hornsteinn lýðræðisins styrkzt að mun.

Réttarbótin að utan virkar aðeins í borgaralegum málum, þar sem einstaklingar eða samtök einstaklinga geta sótt rétt sinn til útlanda. Hún nær ekki til sakamála. Engin leið er fyrir fólk að kæra ríkið til Strassborgar, Bruxelles eða Haag fyrir að láta síbrotamenn ganga lausa.

Þessi vandamál eru margrædd. Endurbætur þurfa ekki að vera flóknar. Ráðamenn láta eigi að síður reka á reiðanum og efna í mesta lagi til enn eins fundarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Vanmetin veitingahús

Veitingar

Vanmetin veitingahús
Þrír Frakkar við Óðinsgötu er eina úrvalsveitingahúsið á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur slegið svo rækilega í gegn, að það er fullt út úr dyrum hádegis og kvölds alla daga vikunnar. Önnur úrvalshús búa oft við eyður á virkum dögum og bezta veitingahúsið treystir sér jafnvel ekki til að hafa opið hádegis. Þrátt fyrir ferðamenn er markaðurinn of lítill fyrir fimmtíu veitingahús með þjónustu og matargestir rata ekki endilega inn á tuttugu beztu staðina. Skyndibitastaðir taka svo auðvitað sinn toll.

Hótel Holt og Kínahúsið
Þegar ég tala um góð veitingahús, hef ég í huga metnaðinn, sem lýsir sér í verðlagi staðarins. Þannig get ég í sömu andrá sagt, að Hótel Holt við Bergstaðastræti og Kínahúsið við Lækjargötu séu vanmetin veitingahús, þótt þau hafi gerólíkt verðlag. Þau eru úrvalsstaðir, hvort með sínum hætti og hvort með sínu verðlagi og eiga það sameiginlegt, að vera oft ekki fullsetin í miðri viku, Holtið í hádeginu og Kínahúsið að kvöldi. Í erlendum stórborgum væru biðraðir á báðum stöðum, sem mundi auðvitað auðvelda þeim að halda uppi metnaði.

Tveir fiskar og Galileo
Ný veitingahús eiga oft erfitt með hasla sér völl, ekki sízt ef þau leggja fremur áherzlu á innri gæði en ytri markaðssetningu og töffaraskap ímyndartízkunnar. Þannig er enn sparlega setinn bekkurinn í ágætu fiskréttahúsi, Tveimur fiskum við Tryggvagötu og á spánnýjum Ítalíustað, Galileo við Ingólfstorg, sem slær við hinum, sem fyrir eru. Þessir staðir hafa fjárfest í gæðum frekar en stælum og eru því lengi að síazt inn í vitund áhugafólks um heimsóknir á veitingahús með þjónustu. Ágætum Sticks ‘n Sushi hefur gengið heldur betur að ryðja sér til rúms, enda er hann töluvert sér á parti.

Sommelier og Humarhúsið
Ef til vill er hugtakið vanmetinn teygt of langt til að láta það ná yfir tvo staði, sem væru upppantaðir margar vikur fram í tímann, ef þeir væru í stórborgarmiðju. Sommelier við Hverfisgötu og Humarhúsið við Amtmannsstíg eru oft vel setnir, einkum um helgar, en stundum má sjá þar eyður í miðri viku og Sommelier er harðlæstur í hádeginu. Með Hótel Holti og Tjörninni við Templarasund eru þetta þeir fjórir staðir í Reykjavík, sem helzt halda heiðri matargerðarlistar á lofti, en Tjörninni einni þeirra hefur tekizt að þétta aðsóknina nógu mikið til að falla ekki lengur undir hugtakið vanmetinn.

Argentína og Indíafélagið
Fleiri ágæt veitingahús af ólíkum toga eiga öll það sameiginlegt, að þau hefðu gott af meiri aðsókn. Stundum er eyðilegt á Argentínu eða í Austur-Indíafélaginu. Utan ferðamennavertíðarinnar er stundum fátt um manninn í Lækjarbrekku og Pottinum & pönnunni. Creole Mex lagði beinlínis upp laupana um daginn eftir ágæta rispu í matargerðarlist. Á sama tíma er töluverður slæðingur af fólki á matstöðum, sem fátt hafa fram að færa, nema helzt stæla og sjónhverfingar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kommúnistar stjórna

Greinar

Ráðamenn Íslands eru uppteknir við að skipuleggja atvinnulífið. Þótt þeir neyðist stöku sinnum til að selja ríkisfyrirtæki, hafa þeir strangar skoðanir á, hverjir megi kaupa þau og reyna að beina sölunni í þá átt. Nú síðast mega bara útlendingar kaupa Landsbankann.

Mikið umstang ráðamanna og mikið fé skattgreiðenda rennur til að halda úti atvinnugreinum, sem stjórnvöld telja merkari en annan atvinnurekstur. Sérstakan áhuga hafa þeir á að koma hér upp nítjándu aldar stóriðju og varðveita forna atvinnuvegi til lands og sjávar.

Skjalfest erlend og hérlend reynsla er fyrir því, að vaxtarbroddur atvinnu og tækifæra er alls ekki í stórum fyrirtækjum í öldruðum greinum, heldur eingöngu í fámennum fyrirtækjum í nýjum greinum. Vaxtarbroddurinn er eðlis síns vegna óskipulagður niðri í grasrótinni.

Ef markaðurinn fengi að ráða ferðinni, þyrftum við ekki að kvíða framtíðinni. Grasrótin mundi sjá um, að sífellt væri verið að stofna ný smáfyrirtæki í nýjum greinum. Þessi fyrirtæki mundu kalla eftir menntun við hæfi. Íslendingar yrðu með á nótum framtíðarinnar.

Ef markaðurinn fengi að ráða ferðinni, mundu stjórnvöld sjá um heilbrigt rekstrarumhverfi, þar sem gamalt og gróið hefði engan forgang fram yfir nýtt og viðkvæmt. Þau mundu tryggja fulla aðild Íslands að öllum hugsanlegum efnahags- og viðskiptasvæðum auðþjóða jarðarinnar.

Ráðamenn þjóðarinnar eru ekki vaxnir upp í atvinnulífi, heldur ríkisforsjá. Að svo miklu leyti sem þeir hafa skoðanir á efnahags- og atvinnulífi, eru þeir kommúnistar í hjarta sínu. Þeir telja það vera hlutverk sitt að stýra vegferð atvinnulífsins og hafa vit fyrir fólki.

Dæmigert fyrir verndarstefnu kommúnistanna er, að það skuli vera opinber stefna stjórnvalda, að þátttaka í Evrópusambandinu skuli alls ekki vera til umræðu hér á landi, einkum af því að hún gæti hugsanlega skaðað forna atvinnuhætti til lands og einkum þó til sjávar.

Eitt meginatriðanna í stefnu stjórnvalda er, að hádegisverðurinn sé ókeypis. Ráðamenn telja það vera eitt meginhlutverk sitt að skipuleggja ókeypis aðgang tilgreindra aðila að auðlindum lands og sjávar. Frægasta dæmið um þetta er sovézka kvótakerfið í fiskveiðum okkar.

Nýjustu dæmin felast hins vegar í ókeypis aðgangi orkuvera og stóriðju að þeim fáu verðmætum í landinu, sem mölur og ryð fá ekki grandað. Hamingja kommúnistanna í ríkisstjórn yrði mest, ef Ísland fengi stóra reykháfa á borð við þá, sem eru í Novosibirsk í Rússlandi.

Eins og kommúnistar Sovétríkjanna sálugu eru ráðamenn Íslands uppteknir við að troða lausnum nítjándu aldar upp á þjóð, sem hefur þarfir tuttugustu og fyrstu aldar og biður ekki um aðra aðstoð stjórnvalda en að fá að vera í friði við að byggja upp framtíð sína.

Hér eru afdankaðir stjórnmálamenn að ramba um með gengi krónunnar, öllum hugsandi mönnum til skelfingar, meðan aðrar þjóðir fá tækifæri til að taka upp nothæfa fjölþjóðapeninga. Hér ráða afdankaðir stjórnmálamenn ferðinni í Landsvirkjunum ríkisrekins atvinnulífs.

Lögfræðimenntaðir kommúnistar eru aldir upp á opinberum kontórum frá blautu barnsbeini og þykjast geta stjórnað vegferð okkar inn í framtíð, sem verður ótrygg, en örugglega óralangt frá fornum atvinnuháttum og krampakenndri skipulagsáráttu kommúnismans.

Ef þið viljið tryggja framtíð barna ykkar í framtíð, sem verður gerólík fortíðinni, eigið þið að hætta að velja íhaldssama kommúnista til að fara með ríkisvaldið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ekki bjóða óeirðum heim

Greinar

Heimskulegt er að bjóða hættunni heim með því að halda hér á landi utanríkisráðherrafund Evrópusambandsins og utanríkisráðherrafund Atlantshafsbandalagsins í einum rykk í maí á næsta ári. Hvor fundurinn um sig er ávísun á vandræði, óeirðir og mannfall.

Fjölþjóðlegir yfirstéttarfundir hafa orðið að geigvænlegu vandamáli síðan ráðstefna Heimsviðskiptastofnunarinnar fór út um þúfur í Seattle fyrir tveimur árum. Hámarki náðu ósköpin, þegar Evrópusambandið hélt aðalfund sinn í Gautaborg um miðjan þennan mánuð.

Á þessum tveimur árum hafa mismunandi ófriðleg mótmæli einkennt fundi fjölþjóðlegra stofnana á borð við Alþjóðabankann, Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, Davos-auðklúbbinn og Evrópska efnahagsklúbbinn, þar sem fundurinn í Salzburg hófst með óeirðum á sunnudaginn.

Tíðni vandamálsins fer ört vaxandi og er orðið vikulegt. Fyrir tveimur vikum urðu óeirðir og mannfall við fund Evrópusambandsins í Gautaborg. Fyrir viku urðu óeirðir við fund Alþjóðabankans í Barcelona og um þessa helgi við fund Evrópska efnahagsklúbbsins í Salzburg.

Í öllum óeirðaborgum mótmælaöldunnar hefur orðið gífurlegt eignatjón, sem mælt er í milljörðum króna, því að innan um mótmælendur eru róttækir hópar stjórnleysingja. Alls staðar hafa orðið líkamsmeiðingar og í Gautaborg varð lögreglan þremur mönnum að bana.

Svo alvarlegt er ástandið orðið, að Alþjóðabankinn hyggst ekki halda næsta ársþing sitt á neinum sérstökum stað, heldur á netinu. Rætt hefur verið um að halda fundi í óvinsælum fjölþjóðasamtökum um borð í flugmóðurskipum úti á rúmsjó, sem væri sannarlega táknrænt.

Hér á landi eru ekki til neinir innviðir löggæzlu, sem ráða við vandamál af þessu tagi. Hætt er við, að reynslulítið löggæzlufólk fari á taugum og verði til að hella olíu á elda mótmælanna. Sænska lögreglan klúðraði málum sínum í Gautaborg og við gerum varla mikið betur.

Við höfum til dæmis ríkislögreglustjóra, sem er svo fáfróður, að hann telur mótmælendur hafa “að skemmtun sinni eða atvinnu” að hleypa upp fjölþjóðafundum. Hann hefur engan skilning á hinni margvíslegu og fjölbreyttu hugmyndafræði, sem liggur óeirðunum að baki.

Hvort sem mótmælendur eru friðsamlegir eða ófriðlegir, eiga þeir það sameiginlegt að hafa mótmælin hvorki að skemmtun né atvinnu, heldur dauðans alvöru. Að baki mótmælunum er algert vantraust fjölmennra hópa á fjölþjóðamynd hins vestræna þjóðskipulags.

Þetta er sorglegt, því að vestrænt þjóðskipulag er bezta fáanlega þjóðskipulag. Það er auðvitað stórgallað eins og önnur mannana verk. Sérstaklega hafa verið misheppnuð ýmis skilyrði, sem Alþjóðabankinn hefur sett ríkjum þriðja heimsins fyrir vestrænni efnahagsaðstoð.

Vestrænar fjölþjóðastofnanir súpa seyðið af að hafa verið of seinar að átta sig á ýmsum vandamálum, sem hafa gerzt áleitin upp á síðkastið, svo sem spjöll á umhverfi og mannlífi af völdum tillitslausrar efnahagsstarfsemi, einkum af hálfu gírugra fjölþjóðafyrirtækja.

Í öllum fjölþjóðastofnunum vita menn, að Ísland er fámennt og friðsamt ríki, sem getur ekki tekið þátt í átaki vestrænnar yfirstéttar í að sanna, að kerfið gangi sinn vanagang, þrátt fyrir aðgerðir mótmælenda. Íslandi yrði fyrirgefið, þótt það segði pass með sín lélegu spil.

Ef ráðamenn landsins þrjózkast við að bjóða hættunni heim, taka þeir um leið á sig siðferðilega ábyrgð af vandræðum, sem þeir geta engan veginn staðið undir.

Jónas Kristjánsson

DV