Af því bara

Greinar

Ferli Kárahnjúkamálsins er aðeins formsatriði í augum Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra. Eftir 280 blaðsíðna vandaða úttekt og eindreginn úrskurð Skipulagsstofnunar lýsti hann yfir, að það hefði verið og væri enn stefna ríkisstjórnarinnar að reisa þessa virkjun.

Davíð Oddsson skýrði þetta viðhorf enn betur. Í hans augum er ferli Kárahnjúkamálsins þykjustuleikur til að fullnægja formsatriðum, sem tíðkast í útlöndum. Hér á landi eiga opinberar stofnanir hins vegar að þóknast ríkisstjórninni. Annars gefur hann þeim á kjaftinn.

Norsk Hydro er sama sinnis, enda er það fyrirtæki eini aðilinn, sem hagnast á vitleysunni. Henrik Andenæs, blaðafulltrúi fyrirtækisins, segir efnislega, að ferlið haldi áfram, ef Halldór og Davíð vilja láta það halda áfram. Málefnaleg bakslög skipta Norsk Hydro litlu.

Öðru máli er að gegna um íslenzku lífeyrissjóðina, sem áttu að verða dráttardýr Norsk Hydro. Forstjóri stærsta sjóðsins segir: “Það er ljóst, að ein af grunnforsendum fyrir aðkomu lífeyrissjóðanna að verkefninu var, að bæði álver og virkjun stæðust skoðun skipulagsyfirvalda.”

Úrskurður Skipulagsstofnunar er ítarlegri og eindregnari en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona. Þar er umhverfismat Landsvirkjunar á Kárahnjúkavirkjun hakkað svo rækilega í spað, að ekki stendur lengur steinn yfir steini í röksemdafærslu virkjunarsinna.

Mikilvægasta afleiðing úrskurðarins er, að hann kemur til með að sameina fólk gegn Kárahnjúkavirkjun eins og fólk sameinaðist gegn Eyjabakkavirkjun. Þá sameinuðust þeir, sem voru beinlínis andvígir Eyjabakkavirkjun og hinir, sem vildu fyrst umhverfismat.

Nú geta þeir sameinast í andstöðunni við Kárahnjúkavirkjun, sem hafa verið andvígir henni og hinir, sem vildu bíða eftir faglegri niðurstöðu, sem nú hefur verið fengin með úrskurði Skipulagsstofnunar. Endurvakinn hefur verið meirihlutinn gegn áformum stjórnvalda.

Sif Friðleifsdóttir mun sameina þjóðina gegn sér, þegar hún ákveður að hafna niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara”. Eina leiðin til að keyra málið áfram málefnalega væri að gera viðamikla úttekt á öllum þáttum úrskurðar Skipulagsstofnunar með ólíkri niðurstöðu.

Umhverfisráðuneytið getur ekki framleitt slíka úttekt og því mun ráðherrann hafna niðurstöðu Skipulagsstofnunar “af því bara”. Ekki þýðir síðan að treysta kærumálum fyrir dómstólum, því að þeir hafa hefðbundið þá skoðun, að æðstu stjórnvöld hafi alltaf rétt fyrir sér.

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar munu hins vegar fá mikinn stuðning að utan, þegar kemur í ljós, að stjórnvöld ætla að hunza niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Norsk stjórnvöld og Norsk Hydro verða beitt miklum þrýstingi, sem mun valda þeim töluverðum áhyggjum.

Ekkert hindrar þó, að Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson reisi Kárahnjúkavirkjun “af því bara”, annað en eindregin samstaða meirihluta þjóðarinnar um aðgerðir til að stöðva málið. Mál Kárahnjúka er því komið í svipaða stöðu og mál Eyjabakka var á sínum tíma.

Þá sameinaðist fólk um að heimta umhverfismat og felldi málið með mikilli fyrirhöfn. Nú getur fólk sameinast um að heimta, að tekið verði mark á umhverfisúrskurði Skipulagsstofnunar, og fellt málið, en aðeins með mikilli fyrirhöfn. Annars valtar ríkisstjórnin yfir alla.

Það er út í hött að halda, að Kárahnjúkavirkjun sé sjálfdauð. Landið okkar verður aðeins varið með markvissu og fjölbreyttu átaki meirihluta þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV