Nanna Rögnvaldardóttir: Matreiðslubók Nönnu. Iðunn 2001.

Veitingar

Höfundur kraftaverkabókarinnar Matarást frá 1998 hefur nú gefið út nærri eins stóra fylgibók, Matreiðslubók Nönnu, með 3600 uppskriftum í framhaldi af hinni þriggja ára gömlu orðabók matargerðarlistarinnar. Saman veita þessar tvær bókstaflegu þungavigtarbækur eins konar háskólamenntun í matargerðarlist.

Óþekkt vann Nanna Rögnvaldardóttir svo mikinn sigur með fyrri bókinni, að miklar kröfur eru sjálfkrafa gerðar til hinnar síðari. Fyrri bókin bar raunar af orðabókum matargerðarlistar á öðrum tungum, sem ég hafði þá séð og hef enn séð, þar á meðal hinum gamalfranska Larousse, sem margir útlendingar nota enn sem biblíu matargerðarlistar.

Síðari bók Nönnu gengur ekki svona langt, þótt hún sé rúmlega þrjú kíló að þyngd eins og hin fyrri. Hún er raunar minni að vöxtum en sum hliðstæð undirstöðurit uppskrifta í matargerðarlist á öðrum tungumálum. Hin bandaríska Joy of Cooking er til dæmis með tvöfalt fleiri uppskriftir í útgáfu frá 1963, sem ég nota stundum heima.

En Matreiðslubók Nönnu er á íslenzku og notar íslenzkar mælieiningar. Hún er ríkulega skreytt litmyndum alþjóðlegrar söluskrifstofu matargerðarljósmynda. Hún er skýrari og fegurri en erlendar bækur af þessum toga, til dæmis hin jafnstóra Blå kogebog frá Gyldendal. Uppskriftirnar eru tiltölulega einfaldar og miðast við hráefni, sem fæst hér á landi.

Uppskriftunum er raðað í hefðbundna flokka. Aftast eru tvær skrár, önnur nafnaskrá og hin flokkar uppskriftirnar eftir matreiðsluhefðum hvorki fleiri né færri en 130 landa og þjóða. Í klukkutíma leitaði ég árangurslaust að villum í skránum. Af því ræð ég, að nákvæmni sé ekki síðri í nýju bókinni en hinni fyrri, auk þess sem stafrófsröð broddstafa er orðin rétt.

Bókin er þjóðleg og alþjóðleg í senn. Þar má finna heimilismat á borð við ediksoðinn rauðmaga, plokkfisk á rúgbrauði og íslenzka kjötsúpu, franska klassík á borð við átta tegundir af frönsku soufflé og framandi rétti frá ýmsum heimshornum, svo sem tagína frá Túnis, grænlenskt selkjöt í hrísgrjónavellingi og fylltan lunda frá Færeyjum.

Með fjölbreyttar þungavigtarbækur Nönnu á hillunni fyrir ofan eldavélina þurfa íslenzk heimili tæpast fleiri, nema heimiliskokkurinn hafi brennandi áhuga á þröngum sérsviðum matargerðarlistar. Við skulum samt vona, að afrekið lami ekki framtak annarra höfunda. Þótt undirstöðuritin séu fengin, þurfum við áfram sérbækur og persónulegar bækur.

Jónas Kristjánsson

DV

Plástrar og pillur

Greinar

Ekki getur gengið til lengdar, að kostnaður ríkisins af heilsufari þjóðarinnar aukist um 11 milljarða króna á ári. Ekki getur gengið til lengdar, að lyfjakostnaður Íslendinga aukist um 11­14% á hverju ári, ár eftir ár. Þetta getur aðeins endað með hruni sjúkrakerfisins.

Bilunareinkenni velferðarinnar eru farin að koma í ljós. Ríkið hefur á undanförnum árum smám saman verið að auka hlut sjúklinga í kostnaði. Samkvæmt mælingum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja nam þessi hækkun meira en 200% á tímabilinu frá 1990 til 2001.

Sprenging varð síðan á þessu sviði í fjárlögum fyrir næsta ár. Þar eru miklar hækkanir á kostnaði sjúklinga, í einu tilviki 469% hækkun. Með nýju fjárlagaári erum við komin á hraðferð út úr velferðarkerfi heilbrigðismála yfir í það kerfi, að hver sé sjálfum sér næstur.

Aukinn hraði á hækkun hlutdeildar sjúklinga nægir samt ekki til að láta enda ná saman. Biðlistar sjúkrastofnana hafa á einu ári lengzt úr 6266 sjúklingum í 6384. Aukningin er mest í bið eftir endurhæfingu, sem virðist hreinlega vera að hrynja í velferðarkerfinu.

Innan skamms verður komið hér tvöfalt kerfi sjúkratrygginga, þar sem skynsamt og vel stætt fólk kýs að kaupa sér aukatryggingu á frjálsum markaði fyrir hlutdeild sinni í kostnaði heilbrigðisþjónustunnar. Stéttaskipting Íslendinga mun aukast af þessum sökum.

Samkvæmt skoðanakönnunum vilja menn hafa áfram samtryggingarkerfi á þessu sviði og greiða fyrir það með sköttum. Þessi vilji endurspeglast ekki í stjórnmálunum, því að mikill meirihluti kjósenda styður stjórnmálaflokka, sem eru að minnka hlutdeild samtryggingarinnar.

Það dugar heldur ekki að gefast upp fyrir hækkun sjúkrakostnaðar og játast undir hærri skatta til að greiða hann. Þjóðfélagið verður að ná tökum á sérverðbólgu heilbrigðisgeirans, svo að hlutur hans í þjóðarútgjöldum haldist óbreyttur, þrátt fyrir verndun velferðar.

Grófasta dæmið um sérverðbólguna er lyfjakostnaðurinn, sem eykst um 11­14% á hverju einasta ári. Það endar bara með því, að allar þjóðartekjurnar fara í pilluát. Enginn getur haldið fram með neinni sanngirni, að gagnið af lyfjunum sé að aukast um þessi 11­14% á ári.

Lyfjanefnd hefur ekki staðið sig, enda virðist hún sætta sig við þá viðmiðun, að lyfjaverð sé 15% hærra hér á landi en á Norðurlöndunum, þar sem lyf eru dýr. Beita þarf meiri hörku í útboðum og neita blákalt að taka inn merkjavöru í lyfjum, sem ekki fæst á útsöluverði.

Bezta ráðið til þess er að gera bandalag við önnur velferðarríki um sameiginleg innkaup á merkjavöru í lyfjum, svo að beita megi freistingu magninnkaupa til að fá lyfjaiðnaðinn til að lækka verð. Engin merki sjást um, að Norðurlönd séu farin að feta inn á þessa braut.

Fjölþjóðleg útboð á lyfjum eru aðeins eitt dæmi af aðgerðum, sem hægt er að beita til að halda sjúkrakostnaði þjóðarinnar innan fastákveðins hluta af þjóðarútgjöldum og til að halda jafnframt óbreyttri velferð, þar sem allir fá fulla þjónustu án tillits til greiðslugetu sinnar.

Úttekt DV í gær á auknum sjúkrakostnaði og aukinni hlutdeild sjúklinga gaf innsýn í kerfi, sem hefur siðferðilega gefizt upp gagnvart fyrirsjáanlegu hruni velferðar, skortir þrótt til að taka róttækt á vandanum og fer í staðinn undan í flæmingi með plástra og pillur á lofti.

Miðað við morð fjár heilbrigðisgeirans er átakanlegt, hversu lítið fé fer í fyrirbyggjandi aðgerðir, sem spara fleira fólki þrautagöngur á náðir sjúkrastofnana.

Jónas Kristjánsson

DV

Saddam Hussein í sigti

Greinar

Stjórn Talibana í Afganistan er fáum harmdauði. Illa upplýstir ofstækismenn kúguðu þjóðina og reyndu að eyðileggja menningarsögu hennar. Þeir sóru sig í ætt við Rauðu kmerana í Kampútseu, sem eru versta skólabókardæmi síðustu áratuga um glórulaust ofstæki.

Af trúarástæðum sprengdu Talibanar frægustu risastyttur í heimi, sem engir múslímar höfðu amast við á undan þeim. Menntaráðherra og fjármálaráðherra þeirra fóru saman í þjóðminjasafnið í Kabúl í fyrra og réðust á dýrgripina með öxum. Þetta eru snarbilaðir menn.

Saddam Hussein Íraksforseti er annars eðlis. Hann líkist fremur Jósef Stalín, skipulagssinnaður grimmdarseggur, sem heldur skjálfandi hirð sinni saman með ógnum og refsingum. Hussein er ekki sjálfur trúaður, en notar trúna sér til framdráttar, þegar það hentar honum.

Sameiginlegt eiga Talibanar og Hussein að vera hættulegir vestrænum hagsmunum. Osama bin Laden og fjölmennar sveitir hans fengu landvist hjá Talibönum og Hussein reynir í felum að koma sér upp ógnarvopnum til að beita gegn andstæðingum sínum í útlöndum.

Vikum saman hefur verið tekizt á um það í hópi ráðamanna Bandaríkjanna, hvort taka skuli Saddam Hussein í bakaríið eins og Talibana. Forseti Bandaríkjanna hefur beinlínis ógnað honum opinberlega, þótt ekki hafi fundizt nein tengsli milli hans og Osama bin Laden.

Bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu hafa þungar áhyggjur af þessum hótunum og vilja ekki með nokkru móti, að kné verði látið fylgja kviði á slíkan hátt. Bandaríkjastjórn getur ekki vænzt neins stuðnings frá Evrópu, nema frá jaðarríki engilsaxa á Bretlandseyjum.

Andstaða ráðamanna meginlandsríkja Evrópu við útþenslu á stríðsrekstri Bandaríkjanna er lituð af andstöðu þeirra við vaxandi einleik Bandaríkjanna í utanríkismálum, sem kemur meðal annars fram í, að Bandaríkin neita að axla ýmsar fjölþjóðlegar ábyrgðir og sáttmála.

Afleitt er, að vík skuli vera komin milli vina á Vesturlöndum. En óhjákvæmilegt var, að tillitsleysi og einstefna Bandaríkjanna eftir valdatöku Bush yngri mundi leiða til samstöðu á meginlandi Evrópu um andóf gegn utanríkisstefnu hans, þar á meðal í máli Íraksforseta.

Þegar Bandaríkin og bandamenn þeirra höfðu stökkt herjum Saddam Hussein á flótta í Persaflóastríðinu fyrir áratug, stöðvaði þáverandi Bandaríkjaforseti sóknina og leyfði Íraksforseta að halda völdum. Kúrdar og Shítar voru sviknir í tryggðum og skildir eftir í klóm hans.

Freistandi er fyrir soninn að ljúka því, sem föðurnum mistókst svo herfilega árið 1991. Því miður eru aðstæður allt aðrar og lakari en þær voru þá. Mestu máli skiptir, að ekki er til nein blóðþyrst stjórnarandstaða til að vígvæða á sama hátt og norðurbandalagið í Afganistan.

Eftir reynsluna fyrir áratug þora Írakar ekki að treysta Bandaríkjunum og telja uppreisn jafngilda sjálfsmorði. Langan tíma og þolinmæði þarf til að rækta betri sambönd við óánægjuöfl Íraks og til að fá nágrannaríkin til að sýna íröksku uppreisnarliði jákvætt hlutleysi.

Þar sem Bandaríkin tóku upp strangan einleik í utanríkismálum við valdatöku Bush yngri, geta þau ekki látið draum feðganna rætast beint í kjölfar hruns Talibana. Bandaríkin þurfa stuðning annarra ríkja til átaka í Írak eins og í Afganistan og hann hafa þau alls ekki.

Hins vegar er misráðið af Evrópu að refsa Bush fyrir einleikinn með því að neita honum um herstuðning gegn Hussein, sem er hættulegur öllu mannkyni.

Jónas Kristjánsson

DV

Rauði þráðurinn

Greinar

Aðgerðaleysið er einn helzti kostur ríkisstjórnarinnar. Hún lætur ekki taka sig á taugum, þegar hagsmunaaðilar heimta ýmiss konar aðgerðir, enda er síður en svo sjálfgefið, að handafl að ofan leysi vanda og verkefni líðandi stundar betur en sjálfvirku öflin í þjóðfélaginu.

Rólyndið hefur enn einu sinni leitt til svokallaðrar þjóðarsáttar, sem felst í, að samtök vinnumarkaðarins taka af skarið og gera ríkisstjórninni tilboð, sem hún getur ekki hafnað. Þannig hefur hluti ákvörðunarvalds í stjórnkerfinu dreifzt út til samtaka vinnumarkaðarins.

Orðið þjóðarsátt gefur ekki rétta mynd af samkomulagi aðila vinnumarkaðarins. Alþýðusambandið hefur ákveðið að gæta ekki fleiri hagsmuna í þjóðfélaginu en launafólks og neytenda, sem fá lækkað grænmetisverð. Sjúklingar, öryrkjar, gamalmenni og nemendur eru utan sáttar.

Ef slíkir minni máttar aðilar væru teknir inn í samkrull hagsmunaaðila um stjórnarstefnuna, mætti segja, að hér ríkti sænskt friðarástand, þar sem menn leysa sérhvern samfélagsvanda með því að halda nógu marga málefnalega fundi og láta aldrei skerast í odda.

Svo friðsælt er þjóðfélagið ekki orðið, en svigrúm fyrir ágreining í stjórnmálum hefur þó minnkað töluvert við sameiginlega yfirtöku samtaka vinnumarkaðarins á mikilvægum þáttum landstjórnarinnar. Enda skipa stjórnmál minni sess í hugum almennings en áður fyrr.

Helzt eru það Evrópa og vaffin fjögur, sem valda ágreiningi, vextir og verðbólga, virkjanir og veiðigjald. Um ekkert þeirra ríkir nein sátt í þjóðfélaginu og verður tæpast á næstu misserum. Þess vegna er ótímabært að spá, að hnignun stjórnmálanna leiði til andláts þeirra.

Því miður er aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ekki nógu markvisst og sízt nógu markaðsvænt. Það hvílir ekki nema stundum á því grundvallarsjónarmiði, að stjórnvöld eigi að láta þá þætti eiga sig, sem markaðurinn ræður betur við. Í ýmsum tilvikum ræður handafl að ofan.

Vafasamt er, að frjálsi markaðurinn hefði áhuga á að ráðast í stóriðju á Austurlandi, ef ríkið gengi ekki fram fyrir skjöldu með ýmiss konar handafli, tilboðum um niðurgreitt orkuverð, ókeypis ríkisábyrgð, niðurgreitt mengunargjald og ókeypis spjöll á náttúruverðmætum.

Með annarri hendinni er ríkisvaldið að losa sig við ýmsa innviði á borð við símann, póstinn og ríkisbankana. Með hinni hendinni er það að auka hlutafé sitt í hallærislegu járnblendisveri í Hvalfirði, sem nýtur niðurgreiddrar orku, en hefur samt aldrei gefið neitt af sér.

Enn er landbúnaði og sjávarútvegi stjórnað með flóknu kerfi ríkisafskipta, sem annars vegar er ætlað að vernda ríkjandi hagsmuni og hins vegar að tryggja búsetu á mörgum stöðum. Í raun virkar þetta handafl sem hemill á vöxt og viðgang allra hinna atvinnuveganna.

Þótt erfitt sé að lesa rökrétt samhengi úr fjölbreyttum aðgerðum og ekki síður fjölbreyttu aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, má þó segja, að rauði þráðurinn sé verndun ríkjandi hagsmuna og friður á vinnumarkaði. Hvort tveggja hefur ríkisstjórninni tekizt bærilega.

Fólk verður þó að taka eftir, að svokölluð þjóðarsátt í fyrradag var aðeins frestun á vandamáli um hálft ár og stendur þar að auki ekki undir nafni, því að öllum vandamálum velferðar var haldið utan við sáttina, svo sem rækilega mun heyrast, þegar líður á veturinn.

Það mun svo bæta stöðu aðgerðalítillar ríkisstjórnar, ef þjóðarsáttin leiðir til, að verðbólga lækkar hratt á næstu mánuðum og vextir lækka að sama skapi.

Jónas Kristjánsson

DV

Snjór og kuldi seldur

Greinar

Sumt er svo einfalt og rökrétt, að engum dettur í hug að framkvæma það. Þegar svo einum dettur það í hug, ljúka allir upp einum munni og segja: Auðvitað! Þannig virkar snilligáfan. Allir geta verið vitrir eftir á, en það er aðeins einn, sem er vitur, þegar byrjað er á nýjung.

Arngrímur Hermannsson hefur stofnað fyrirtæki um snjó og storm, volk og kulda. Hann þarf ekki að gá til sólar á hverjum morgni og spyrja: Skyldu ferðamenn mínir koma í dag? Hann er ekki að selja sól og sumaryl, heldur vanstillta náttúru Íslands eins og hún er.

Flestir erlendir ferðamenn taka þátt í ferðum Ævintýraferða, af því að þeir hafa aldrei kynnst snjó. Aðrir reyndari koma til að öðlast lífsreynslu í vetrarhrakningum. Hvorir tveggja verja sumarleyfinu til að prófa eitthvað öðruvísi. Og það getur Arngrímur boðið þeim.

Hann byggir á mikilvægri reynslu íslenzkra björgunarsveita, þar sem þróast hefur tækni, sem er einstök fyrir Ísland. Það eru vel búnir ofurjeppar á víðáttumiklum hjólbörðum, sem komast hvert á land sem er, á hvaða árstíma sem er. Ísland er orðið þekkt fyrir þessa ofurjeppa.

Vettvangur ferðanna breytist eftir árstímum. Þegar snjóa leysir, færast þær upp á sjálfa jöklana, þar sem nógur er snjórinn árið um kring. Þannig eru Ævintýraferðir heils árs rekstur, sem getur deilt miklum tækjakostnaði niður á fleiri daga ársins en aðrir í ferðaþjónustu.

Þetta er mikilvægt fyrir aðra. Hótel og veitingahús hafa risið til að þjóna skammvinnum ferðamannatíma og hafa verið rekin með tapi á öðrum tímum ársins. Nú streyma ferðamenn á vegum Arngríms inn á þessa staði árið um kring og gerbreyta fjárhagsforsendum ferðaþjónustu.

Arngrímur var á forsíðu DV á laugardaginn og hlaut frumkvöðlaverðlaun blaðsins, Stöðvar 2 og Viðskiptablaðsins á þriðjudaginn. Í viðtalinu segir hann ferðaþjónusta verða atvinnugrein framtíðarinnar á Íslandi. Enda er hún í þann mund að verða heils árs grein.

Arngrímur efast um stórvirkjanir á hálendinu og sambýli þeirra við ferðaþjónustu. Hann telur orkuver verða orðin safngripir eftir hundrað ár, þegar ferðaþjónusta og landvarzla verður höfuðatvinnugrein okkar. Hann nefnir Villinganesvirkjun sem dæmi um stórspjöll.

Hann segir menn ekki virðast reikna niðurrif og skemmdir á náttúrunni, þegar þeir reikna hagkvæmni orkuvera. Hann segir, að hér á landi séu menn alveg staðnaðir í að hugsa um vatnsföll og uppistöðulón, og bendir á, að betra sé að snúa sér að jarðhitanum.

Kominn er tími til, að stjórnvöld landsins fari að átta sig á auðlind ósnortinna víðerna landsins, þar sem hvergi blettar hús, stífla eða raflína. Framtak Ævintýraferða vísar veginn til framtíðarinnar, þegar óspjölluð náttúra landsins, snjór og veðurfar verða mesta auðlindin.

Þótt meirihluti ferðamanna heimsins vilji halda áfram að sóla sig á Kanaríeyjum heimsins, fjölgar sífellt þeim, sem vilja verja sumarleyfinu á annan hátt en að liggja í leti. Þeir vilja reyna eitthvað nýtt, gera eitthvað spennandi, leika sér og öðlast lífsreynslu.

Þessi geiri er þegar orðinn svo stór, að markaðurinn getur frá íslenzku sjónarmiði talizt takmarkalaus. Hann á eftir að stækka enn frekar, studdur frásögnum þeirra, sem þegar hafa tekið þátt í ævintýraferðunum. Nú þegar þetta ferli er byrjað, sjáum við hvað það er augljóst.

“Ofurjeppar og íslenzk náttúra er vara, sem er hvergi annars staðar í heiminum og á þessu sviði keppir enginn við okkur,” segir Arngrímur í viðtalinu við DV.

Jónas Kristjánsson

DV

Kosningar nægja ekki

Greinar

Argentína er dæmi um, að frjálsar kosningar nægja ekki til að tryggja landi almenna hagsæld. Svo hart hafa sigurvegarar frjálsra kosninga leikið landið, allt frá Júan Perón til Carlos Menem, að það rambar nú á barmi gjaldþrots, síðan þreyttir alþjóðabankar lokuðu á það.

Á Vesturlöndum hefur mótazt ný skilgreining á lýðræði, sem stundum er kallað vestrænt lýðræði. Það felur í sér miklu meira en frjálsar kosningar. Þær geta einar út af fyrir sig verið hættulegar, ef ekki fylgja þeim aðrir mikilvægir þættir, sem virkja og treysta lýðræðið.

Adolf Hitler fékk stuðning í kosningum, ennfremur Sulfikar Ali Bhutto í Pakistan, Júan Luis Chaves í Venezuela og nú síðast Silvio Berlusconi á Ítalíu. Saga síðustu aldar var stanzlaus harmsaga afleiðinga frjálsra kosninga í ríkjum, þar sem jarðveginn skorti.

Vestrænt lýðræði byggist á traustri stöðu laga og réttar í þjóðskipulaginu, langri röð mannréttinda að hætti sáttmála Sameinuðu þjóðanna, dreifingu valdsins á marga staði, gegnsæi í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptum, og aðskilnaði ríkisvalds og trúarbragða.

Berlusconi hefur valdið og mun valda Ítalíu miklum hremmingum. Hann hefur til dæmis beitt neitunarvaldi Ítalíu í Evrópusambandinu til að hindra innreið samevrópskra handtökuheimilda, af því að þær eiga að ná til peningaþvættis og höggva nærri hagsmunum hans.

Evrópa mun fljótlega ná sínum handtökuheimildum á annan hátt og Ítalía mun um síðir losna við Berlusconi. Með aðildinni að Evrópu hefur Ítalía náð aðild að vestrænu lýðræði í ofangreindum skilningi og mun lifa af, þótt kjósendur hafi brugðizt í frjálsum kosningum.

Einn máttarstólpinn getur bilað í vestrænu lýðræðisríki, en hinir stólparnir halda kerfinu uppi, unz gert hefur verið við bilaða stólpann. Þetta gerir þjóðskipulagið einstaklega öruggt í sessi og vel fallið til traustra samskipta, þar á meðal til arðbærra viðskipta.

Skortur á aðskilnaði ríkisvalds og trúarbragða er ein helzta forsenda þess, að arftakaríki Múhameðs spámanns eiga erfitt uppdráttar í nútímanum. Tyrkland er aleitt þeirra á jaðri aðildar að vestrænu lýðræði og kostum þess, einmitt vegna markviss aðskilnaðar ríkis og trúar.

Indland, Rússland og gervöll rómanska Ameríka eru einnig nálægt skilgreiningu vestræns lýðræðis. Helzt er það spillingin, sem stafar af miðstýringu, litlu gegnsæi í stjórnsýslu og tæpri stöðu laga og réttar, sem hindrar þessi lönd í að höndla gæfu vestræns lýðræðis.

Vestræn lýðræðisríki hafa hag af útbreiðslu hugmyndafræði sinnar. Sigurför hennar fækkar kostnaðarsömum styrjöldum, eflir reisn alþýðunnar, magnar almenna hagsæld og eykur traust í viðskiptum. Samt eru ekki til nein sérstök samtök vestrænna ríkja um þessa þróun.

Tímabært er orðið að stofna slík samtök vestrænna lýðræðisríkja um að efla lög og rétt í heiminum, gera sáttmála Sameinuðu þjóðanna virkan á fleiri stöðum, dreifa valdi og auka gegnsæi í hverju þjóðfélagi fyrir sig, svo og að losa veraldlega valdið úr viðjum trúarbragða.

Með því að taka í félagið ýmis ríki, sem eru nálægt því að fylla skilyrði vestræns lýðræðis og vilja komast alla leið, er léttara að veita þeim peningalegan, siðferðilegan og pólitískan stuðning og gefa þeim betri aðgang en öðrum að viðskiptum við auðríki Vesturlanda.

Þannig má smám saman stækka svigrúm vestræns lýðræðis, friðar og hagsældar. Og þannig má minnka svigrúm hörmunga, styrjalda og hryðjuverka.

Jónas Kristjánsson

DV

Treystu mér

Greinar

Í sömu viku og hagsmunaaðilar verzlunar voru að lýsa dálæti sínu á siðareglum, sem þeir hafa sett um samskipti sín, úrskurðaði samkeppnisráð þessa aðila í háar sektir fyrir brot á lögum um slík samskipti. Þetta segir okkur, að siðareglurnar séu ímynd en ekki innihald.

Hvenær sem voldugir aðilar í þjóðfélaginu eru sakaðir um pukur og leynimakk, setja þeir upp heilagra manna vandlætingarsvip og segja: Treystu mér. Gildir þá einu, hvort rætt er um leynilegar fjárreiður stjórnmálaflokka eða leynikostnað ríkisins vegna einkavinavæðingar.

Hagsmunaaðilar peninga og valda reyna yfirleitt að andæfa, þegar aukið er gegnsæi í viðskiptum og stjórnmálum. Þeir vilja heldur, að almenningur sýni valdastofnunum þjóðfélagsins blint traust. En reynslan sýnir því miður, að ekki eru forsendur fyrir því.

Gegnsæið er ein af meginstoðum vestræns lýðræðis, enda greinilega betri en blindan sem forsenda fyrir trausti. Ef spilin liggja á borðinu, er tilgangslítið að reyna að hafa falda ása uppi í erminni. Traustið skapast þá af opnum leikreglum, sem eru öllum sýnilegar.

Fyrir ári voru Samkeppnisráði gefnar tennur. Ráðið fékk heimild til að beita háum sektum við brotum á samkeppnislögum. Núna er ráðið byrjað að beita hinum nýfengnu tönnum gegn ólöglegu samráði um síma- og gagnaflutning og um dreifingu á geisladiskum.

Sektirnar voru þó smámunir í samanburði við yfirhalninguna, sem Landssíminn fékk í texta úrskurðarins. Þar stóð beinlínis, að ráðamenn fyrirtækisins hafi margsinnis misnotað markaðsráðandi stöðu þess, sem þýðir á lögreglumáli, að þeir hafi sýnt eindreginn brotavilja.

Endurtekin brot Landssímans á samkeppnislögum gefa skýra mynd af íslenzkri einkavæðingu, sem byrjaði með bifreiðaeftirlitinu og endaði með símanum. Hún felur í sér, að völdum aðilum er afhent einokun, sem breytist í hlutafélagsform, en heldur áfram að vera einokun.

Íslenzk stjórnvöld hafa gegn vilja sínum neyðst til að þýða evrópskar reglugerðir um gegnsæi og samkeppni og gera að íslenzkum lögum. Þannig hafa verið stigin skref til að koma böndum á fjármálamarkaðinn og um samskipti kaupenda og seljenda innan verzlunarinnar.

Spurningin er bara, hvort dugir að beita síbrotamenn háum sektum. Er ekki meira samræmi í að dæma slíka menn á Litla-Hraun eins og síbrotamenn á öðrum sviðum afbrota? Að minnsta kosti virðast sumir ráðamenn Landssímans vera hinir dreissugustu eftir dóminn.

Færst hefur í vöxt hjá voldugum mönnum hér heima sem erlendis að bera höfuðið hátt og reyna með markaðssetningu að búa til ímynd, sem er óháð veruleikanum og oft fjarri honum, jafnvel andstæð. Reynt er að fela veruleikann og markaðssetja ímyndina sem ígildi hans.

Þannig fjölyrða ráðamenn lyfjarisa heimsins um, að gífurlegur kostnaður fari í að þróa ný lyf, þegar sannleikurinn er þvert á móti sá, að gífurlegur kostnaður fer í að markaðssetja ný lyf með góðu og illu, þar á meðal með mútum og fölsuðum niðurstöðum rannsókna.

Venjulegir menn hafa sem neytendur og kjósendur litla þekkingu til að sjá bolabrögðin, sem þeir eru beittir af aðilunum, sem valdið hafa og peningana. Með samevrópskum reglum um aukið gegnsæi í þjóðfélaginu er verið að andæfa gegn sífellt betri vopnum hinna sterku.

Réttur Samkeppnisráðs til að beita sektum gegn samkeppnishömlum risanna er lítið, en brýnt skref í baráttunni við þá, sem brosa ljúft og segja: Treystu mér.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpir lyfjabransans

Greinar

Nýleg bandarísk rannsókn bendir til, að lyfjafyrirtæki verji ekki nema 14% af tekjum sínum til rannsókna, sömu upphæð og þau verja til markaðssetningar lyfja. Þessar niðurstöður kollvarpa vörn lyfjabransans og talsmanna hans fyrir háu og hækkandi lyfjaverði í heiminum.

Af fullyrðingum vina lyfjafyrirtækjanna hefði mátt ætla, að meirihluti tekna þeirra færi í rannsóknir og þess vegna væri nánast ósiðlegt að gagnrýna þau. Staðreyndin er hins vegar, að rannsóknir skipa ekki hærri sess hjá þessum fyrirtækjum en söluáróður þeirra.

Markaðssetning er miklu hærra hlutfall af tekjum lyfjabransans en algengt er í verzlunargreinum harðrar samkeppni. Til samanburðar má nefna, að bandarísk tóbaksfyrirtæki og stórmarkaðir verja 4% tekna sinna í markaðssetningu. Lyf eru seld af óvenjulegri hörku.

Hér á landi hefur þetta ástand réttilega verið gagnrýnt á pólitískum vettvangi, en samtök verzlunarinnar gripið til varna á hæpnum forsendum. Sérstaklega hefur verið gagnrýnt, að lyfjafyrirtæki greiða ferðakostnað lækna, ráðstefnukostnað og tímaritaútgáfu þeirra.

Erlendis hafa miklu alvarlegri hlutir komið í ljós. Ritstjórar ýmissa þekktustu vísindatímarita læknisfræðinnar hafa tekið saman höndum um að verjast ósæmilegri framgöngu lyfjafyrirtækja, sem hafa meira eða minna ráðið niðurstöðum vísindaritgerða þekktra lækna.

Tímaritin eru The Lancet, The New England Journal of Medicine, The Annals of Internal Medicine og Journal of the American Medical Association. Þau hafa tekið saman höndum um að setja mun strangari reglur um birtingu ritgerða, sem kostaðar eru af lyfjabransanum.

Komið hefur í ljós, að lyfjafyrirtæki hafa reynt að beina rannsóknum, sem þau hafa fjármagnað, í ákveðna farvegi og að hindra birtingu niðurstaðna, sem þeim eru ekki þóknanlegar. Svo langt var stundum gengið, að “höfundar” ritgerðanna höfðu ekki einu sinni séð þær sjálfir!

Einnig hefur komið í ljós, að höfundar niðurstaðna, sem voru lyfjabransanum ekki þóknanlegar, voru ofsóttir í stofnunum, sem þeir störfuðu við, af því að þær nutu fjárhagslegs stuðnings lyfjafyrirtækja. Veruleikinn er eins og í nýjasta reyfaranum eftir John le Carré.

Sérstaklega er lyfjafyrirtækjunum í nöp við, að birtar séu rannsóknir, sem sýna aukaverkanir lyfja. Frægt er dæmið um OxyContin, sem hefur átt þátt í dauða 120 manna. Það varð til þess, að New York Times og Washington Post fóru að rannsaka lyfjafyrirtækin.

Niðurstaða dagblaðanna var, að lyfjaframleiðendur greiddu heilu ráðstefnurnar fyrir lækna, allan ferðakostnað þeirra, borguðu þeim fyrir að kynna lyfið fyrir starfsfélögum, mútuðu þeim til að ávísa því og fengu stjórnvöld til að beita volaðan þriðja heiminn þrýstingi.

Við sjáum hluta af þessum þrýstingi hér á landi, til dæmis í áherzlunni á notkun geðbreytilyfja, sem í eðli sínu eru fíkniefni. Þannig eru Íslendingar látnir gleypa 10.000 Prozak-töflur á hverjum morgni og þannig er Rítalíni troðið ofan í óþæg börn í skólum landsins.

Reynslan sýnir, að ekki er óhætt að treysta ráðleggingum lækna um lyfjanotkun. Engin leið er að átta sig á, hvort það eru hollráð eða ekki. Þótt læknir sjálfur hafi ekki beinna hagsmuna að gæta, kann hann að vera undir sefjunaráhrifum af völdum hagsmunaaðila.

Afleitt er, að læknar skuli hafa teflt málum í þá stöðu, að ekki skuli vera hægt að treysta ráðum þeirra. Samtökum þeirra ber að efna til slíks trausts að nýju.

Jónas Kristjánsson

DV

Breytt umhverfi Íslands

Greinar

Tilboð Atlantshafsbandalagsins um óbeina aðild Rússlands er gott dæmi um, að pólitískt umhverfi Íslands er að breytast á nýrri öld. Við erum ekki lengur á hernaðarlega mikilvægu svæði. Skurðfletir átaka hafa færzt sunnar, fyrst suður á Balkanskaga og síðan enn suðaustar.

Afnám helztu gjaldmiðla Evrópu um áramótin eru annað dæmi um breytt umhverfi okkar. Stórþjóðirnar á meginlandi Evrópu eru að taka saman höndum um aukið afsal fullveldis í hendur fjölþjóðlegra stofnana, sem þær hafa komið á fót til að standa sig í framtíðinni.

Vaxandi ágreiningur Bandaríkjanna og Evrópu um fjölþjóðlega sáttmála af ýmsu tagi virðist líklegur til að verða eitt af meginviðfangsefnum heimsmálanna í upphafi nýrrar aldar. Evrópa hefur tekið forustu í þessum sáttmálum, en Bandaríkin neita að taka þátt í þeim.

Íslenzk stjórnvöld hljóta að taka eftir þessum breytingum og hafa vilja til að bregðast við. Því miður er nær engin marktæk umræða hér á landi um neinar breytinganna á pólitísku umhverfi okkar, þótt einstaka dálka- og leiðarahöfundar reyni stundum að opna umræðu.

Forsætisráðherra hefur þó lagt niður kenninguna um, að viðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild eigi bara alls ekki að vera til umræðu hér á landi. Og tveir minni stjórnmálaflokkarnir af hinum fjórum stóru eru alténd farnir að senda sambandinu þýða tóna.

Af dæmunum hér í upphafi er ljóst, að heimurinn er að raðast í fylkingar á annan og flóknari hátt en áður var, þegar öllu var skipt í gott og illt. Gömul bandalög eru breytingum háð og ný verða til. Mestu máli skiptir þó, að víkur verða milli þeirra, sem áður voru vinir.

Bandaríkin og Evrópa eru að fjarlægjast. Bandaríkin eru orðið eina marktæka herveldið í heiminum, meðan Evrópa er orðin að hernaðarlegum dvergi, sem hefur sérhæft sig svo í efnahagsmálum og viðskiptum, að hagkerfi hennar er orðið nokkru stærra en Bandaríkjanna.

Innra þjarkið í stofnunum Evrópu hefur gert það verkum, að Evrópa og ríki hennar kunna vel við sig í fjölþjóðasamstarfi, þar sem unnið er á svipaðan hátt. Bandaríkin hafa hins vegar ítrekað neitað að taka þátt í slíku samstarfi og sáttamálum, jafnvel einir gegn öllum.

Risið hefur röð nýrra mála, þar sem Bandaríkin standa ein eða fámenn gegn heimsbyggðinni. Þar ber hæst stríðsglæpadómstól, takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, eftirlit með eiturefnavopnum, bann við jarðsprengjum og takmarkanir við peningaþvætti.

Í öllum þessum málum hefur Evrópa haft forustu um að ná alþjóðlegu samkomulagi, sem Bandaríkin hafa barizt gegn. Svo virðist sem báðir aðilar hafi valið að skilja að skiptum, Evrópa sérhæfir sig í að vinna með öðrum, en Bandaríkin sérhæfa sig í að hunza allt og alla.

Íslendingar þurfa að meta stöðu sína í þessum heimi. Bandaríkin í dag eru ekki hin sömu og þau voru, þegar þau töldu sig þurfa herstöð á Íslandi vegna ógnunar frá Kólaskaga í þáverandi Sovétríkjum. Nú eru Bandaríkin ein á vettvangi og spyrja ekki neinn að neinu.

Sumir vilja halla sér að Bandaríkjunum og einhliða ákvörðunum þeirra. Aðrir vilja halla sér að Evrópu og þeim niðurstöðum, sem þar fást með langvinnu þjarki. Flestir eru þó þeir, sem vilja loka augunum fyrir breytingum á pólitísku umhverfi Íslands og vona hið bezta.

Í öllum tilvikum, einnig hinu síðasta, takmarkast fullveldi landsins. Val okkar snýst eingöngu um, hvernig við viljum skerða fullveldi okkar, en alls ekki hvort.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestræn hryðjuverk

Greinar

Helztu fjöldamorðingjar Rómönsku Ameríku eiga eitt sameiginlegt. Þeir lærðu í sama skóla, þar sem meðal annars voru kenndar pyndingar og aftökur. Afbrotaskrá nemenda skólans er margfalt lengri en nemenda Osama bin Ladens og morðin miklu meira en tífalt fleiri.

Nokkrir illræmdir hershöfðingjar og valdaræningjar gengu í þennan sama skóla. Þar voru Roberto Viola og Leopoldo Galtieri frá Argentínu, einnig Manuel Noriega og Omar Torrijos frá Panama, svo og Juan Velasco Alvarada frá Perú og Guillermo Rodriguez frá Ekvador.

Fjórir af hverjum tíu ráðherrum í morðóðum ríkisstjórnum Lucas Garcia í Perú, Rios Montt og Mejia Victores í Gvatemala gengu í þennan sama skóla, sem skipti um nafn í byrjun þessa árs, þegar nokkrir bandarískir þingmenn höfðu gert harða hríð að honum.

Meðal annarra nemenda skólans eru Byron Lima Estrada, sem stjórnaði morðinu á Juan Gerardi biskupi í Gvatemala árið 1998. Einna illræmdastur allra nemenda skólans er þó Roberto d’Aubuisson, sem stjórnaði dauðasveitum ríkisstjórnarinnar í El Salvador.

Nemendur skólans hafa stjórnað og stjórna enn dauðasveitum um alla Rómönsku Ameríku, allt suður til stjórnar Pinochets í Chile, þar sem þeir skipuðu leyniþjónustu hersins. 19 af 26 morðingjum kaþólsku prestanna í El Salvador voru nemendur skólans.

Tveir nemendur skólans myrtu friðarumba ríkisstjórnarinnar í Kólumbíu í fyrra. Nemandi skólans stjórnaði hinni illræmdu aftökusveit Grupos Colina, sem starfaði á vegum Albertos Fujimori, sem síðar flúði land, einnig sá sem stjórnaði morðunum í Ocosingo í Mexíkó.

Skólinn, sem ofantaldir brjálæðingar sóttu, hét Skóli Ameríku fram í byrjun þessa árs, er nafninu var breytt í Vesturheimsstofnun öryggissamvinnu. Skólinn er enn á sama stað í Fort Benning í Georgíu í Bandaríkjunum með sömu kennurum með sömu kennslubækur.

Skólinn hefur í 55 ár verið kostaður af bandaríska ríkinu til að grafa undan löglegum ríkisstjórnum í Rómönsku Ameríku og koma þar til valda harðstjórum, sem væru líklegir til að þjóna bandarískum hagsmunum. Hann hefur haft 60 þúsund nemendur á þessum árum.

Nemendur skólans hafa gengið af göflunum um alla Rómönsku Ameríku, myrt tugþúsundir manna, meira en tífalt fleiri en féllu í árásinni á World Trade Center og Pentagon. Þeir bera mesta ábyrgð á, að Rómanska Ameríka hefur efnahagslega staðnað á þessum áratugum.

Skólinn í Fort Benning er tífalt eða tuttugufalt eða þrítugfalt meiri hryðjuverkastofnun en samtök Osama bin Ladens. Ríkið, sem kostar skólann, er tífalt eða tuttugufalt eða þrítugfalt meira hryðjuverkaríki en það ríki talibana í Afganistan, sem var skjól Osama bin Ladens.

Baráttan gegn Osama bin Laden og talibönum er út af fyrir sig réttlát, en hún er ekki barátta gegn hryðjuverkum í heiminum. Þau munu halda áfram eins og ekkert hafi ískorizt, þótt sigur vinnist í Afganistan. Skólinn í Fort Benning mun sjá til þess, að svo verði.

Dæmið um Vesturheimsstofnun öryggissamvinnu sýnir, að fréttaneytendur ættu að fara varlega í trúgirni, þegar valdamenn Bandaríkjanna alhæfa um stríðið í Afganistan sem upphaf að baráttu gegn hryðjuverkum í heiminum. Þar er um einfalt hefndarstríð að ræða.

Ef Bandaríkin vilja uppræta hryðjuverk í heiminum eru hægust heimatökin að byrja á eigin skóla í Fort Benning í Georgíu, heimsbyggðinni til farsældar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvar eru ráðherra, dómarar og löggur?

Punktar

GJÁ HEFUR MYNDAZT milli raunveruleikans í landinu og yfirmanna dóms og laga. Hinir síðarnefndu sjá ekki þjóðfélag hryðjuverka, sem hefur risið neðanjarðar, þar sem handrukkarar og aðrir ofbeldismenn ganga sífellt harðar fram í aðgerðum, er kerfið getur ekki mætt eða vill ekki mæta. Nokkrir aðilar eru ábyrgir fyrir þessari gjá.

DÓMSMÁLARÁÐHERRA eyðir tímanum í drauma um að breyta víkingasveitum í hermenn, sem geti varið þjóðina fyrir hryðjuverkamönnum frá útlöndum og virðist þá aðallega eiga við friðarsinna á borð við Falun Gong og náttúruverndarfólk á borð við Greenpeace. Ráðuneyti hans hefur ekki neinn viðbúnað til að mæta alinnlendum hryðjuverkum, sem tengjast einkum viðskiptum með fíkniefni. Engin frumvörp og engar reglugerðir birtast úr ráðuneytinu og auðvitað ekkert fé.

DÓMARI í Hafnarfirði neitaði vitni um vernd gegn axarmanni, sem gekk berserksgang á veitingahúsi og hefur síðan ógnað vitnum. Hvorki dómarinn né aðrir slíkir gera sér grein fyrir, að hér á landi eru þjóðfélagshópar, þar sem hótanir handrukkara og annarra ofbeldismanna eru teknar alvarlegar en lög og réttur kerfisins. Þetta virðast sumir dómarar alls ekki skilja, enda eru dómar þeirra oft aftan úr forneskju, þegar afbrot voru annars eðlis en núna.

LÖGREGLAN tekur lífinu með ró eins og venjulega. Þegar DV er búið að birta nöfn og myndir af ofbeldismönnum, svo og viðtöl við þá, með játningum og öllu, segir löggan í viðtölum við Mogga: “Hefur enginn verið handtekinn vegna málsins” og “ekki sjálfgefið að menn séu handteknir umsvifalaust, þótt þeir séu grunaðir um brot”. Svo virðist sem hugtakið “vinir lögreglunnar” sé farið að ná til fólks, sem markvisst grefur undan lögum og rétti.

ALMENNINGUR í landinu er ekki sáttur við aðgerðaleysi dómsmálaráðherra, dómara og lögreglunnar. Vaxandi ofbeldi handrukkara og annars undirheimalýðs kallar á, að handhafar valdsins í þjóðfélaginu hætti að sætta sig við, að lög og reglur undirheimanna taki við af lögum og reglum kerfisins.

DV

Vanda þarf forgangsröðun

Greinar

Forgangsröðun sjúklinga kemst fyrr eða síðar til framkvæmda á heilbrigðisstofnunum. Hún er óhjákvæmileg vegna þess eins, að dýr tækni og dýr lyf eru að koma og munu koma hraðar til sögunnar en sem svarar aukinni getu okkar til að leggja fé til heilbrigðismála.

Taka þarf ákvörðun um að velja þessa dýru kosti eða hafna þeim. Ef einhverjir þeirra eru valdir, verða aðrir, eldri kostir að víkja. Af því að eldri kostirnir eru yfirleitt ódýrari, verða fleiri slíkir að víkja en sem svarar hinum nýju. Þetta er vítahringur, sem erfitt er að rjúfa.

Þegar farið er út í að láta sjúklinga greiða kostnað, er reynt að hafa það á tiltölulega ódýrum sviðum, en hlífa á móti sjúklingum á dýrum sviðum. Með þessu er reynt að jafna stöðu fólks. Fórnardýr sparnaðarins verða mörg, en upphæðinni á hvert þeirra haldið í skefjum.

Þetta hefur þá aukaverkun, að áherzlur heilbrigðiskerfisins færast meira en ella yfir í dýru kostina. Þetta byrjar sem viðbót við það, sem fyrir er, en endar með því að fækka ódýru kostunum, þegar greiðslugeta heilbrigðiskerfisins er sprungin eins og nú hefur gerzt.

Það er til dæmis athyglisvert í sparnaðarviðleitni hins opinbera, að reynt er að draga úr notkun ódýrra kosta, svo sem fyrirbyggjandi aðgerða og heilsuhæla, til þess að unnt sé að halda uppi tæknilega fullkominni þjónustu á langdýrustu deildum háþróuðustu sjúkrahúsanna.

Peningarnir mundu nýtast betur, ef ódýra meðferðin væri sjúklingum að kostnaðarlausu eða kostnaðarlitlu, en dýra meðferðin kallaði hins vegar á aukna þáttöku sjúklinga í kostnaði. Ýmis önnur sjónarmið en peningaleg valda því, að þessi leið er alls ekki auðfarin.

Það flækir málið, að hagkvæmnin kemur fram á öðrum stað en þeim, sem um er verið að fjalla. Fyrirbyggjandi aðgerðir sitja til dæmis á hakanum, af því að þær leiða ekki til lækkunar á tilgreindum fjárlagaliðum hér og nú. Þær auðvelda til dæmis ekki rekstur sjúkrahúsa.

Ef hægt væri með fyrirbyggjandi aðgerðum að fá fólk til að hætta að reykja og drekka og fara að borða hollan mat, hreyfa sig mikið og stunda slökun, byltir það heilsufari þjóðarinnar til batnaðar, þegar til langs tíma er litið. En það linar ekki kostnað ríkisins á líðandi stund.

Til langs tíma litið valda fyrirbyggjandi aðgerðir sparnaði í heilbrigðisgeira ríkisins. Til skamms tíma keppa þær hins vegar við dýrar stofnanir um takmarkað fjármagn heilbrigðismála. Og oftast verða fyrirbyggjandi aðgerðir að víkja fyrir tækniundrum sjúkrahúsa.

Hin sídýrari lyf og hin sídýrari tæki sjúkrahúsanna eru í mörgum tilvikum notuð til að fresta aðsteðjandi andláti um daga eða vikur og í sumum tilvikum til að framlengja dauðastríð fólks án vilja þess og jafnvel gegn vilja þess. Á þessu sviði er tímabært að staldra við.

Brýnt er að forgangsraða framboði á heilbrigðisþjónustu og aðgangi að henni, af því að kerfið er þegar sprungið. Í forgangsröðun hlýtur annars vegar að vera um pólitíska ákvörðun að ræða og hins vegar um faglega ákvörðun, eftir því um hvaða atriði er verið að fjalla.

Það er pólitísk ákvörðun að velja milli málaflokka eins og fyrirbyggjandi aðgerða annars vegar og sjúkrahúsa hins vegar. Hins vegar er það fagleg ákvörðun að velja milli sjúklinga. Milli hins almenna og hins sértæka er svo líklega grátt svæði með blönduðu ákvörðunarvaldi.

Forgangsröðun í heilbrigðismálum hefur lengi verið feimnismál. Það er að breytast um þessar mundir. Mikilvægt er, að vanda vel til þessarar forgangsröðunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Upplýsingahraðbrautin

Greinar

Tvær byltingar hafa orðið á vegferð mannkyns eftir svonefndri upplýsingahraðbraut inn í framtíðina. Báðar tengjast þær internetinu, alþjóðlegu og næsta stjórnlausu galdrafyrirbæri, sem þenst út með ógnarhraða, án þess að nokkur aðili eigi eða skipuleggi internetið.

Fyrri byltingin var alþjóðlegi tölvupósturinn. Með tengingu við internetið getur fólk sent ódýran og leifturhraðan póst um heim allan og tekið við slíkum pósti. Þetta gerist mun ódýrar og þægilegar en með faxi, enda varð þetta til að hleypa ofurvexti í internetið.

Önnur byltingin er að gerast þessa dagana. Með myndvirkum forritum getur fólk tengst internetinu og notað það án þess að þurfa að skilja neitt í tölvum eða skipanakerfum forrita. Fólk notar bara tölvumús og potar bendlinum í þá kosti, sem skjárinn býður hverju sinni.

Merkast við þetta er, að internetið hefur ekki sprungið, þótt notkun þess hafi margfaldazt með hverju ári og þyngd upplýsinga margfaldist snögglega við tilkomu myndvirkra forrita. Í rúmt ár hefur verið spáð hruni internetsins, en það heldur samt áfram vaxandi þenslu.

Næstmerkilegast er, að vel skipulögð upplýsinganet, sem einkum hafa náð fótfestu í Bandaríkjunum, geta alls ekki keppt við óskipulagt internet um hylli fólks og reyna nú hvert um annað þvert að tengjast internetinu svo nánum böndum, að viðskiptavinirnir flýi ekki.

Internetið hefur náð öruggri fótfestu hér á landi. Ísinn braut íslenzka menntanetið, sem á rætur sínar á Kópaskeri á Melrakkasléttu. Menntanetið íslenzka hefur vakið alþjóðlega athygli, svo sem sjá má af skjölum frá Evrópusambandinu um upplýsingahraðbraut nútímans.

Dæmi Kópaskers og íslenzka menntanetsins sýnir einmitt í hnotskurn, að internetið er þess eðlis, að það jafnar aðstöðu þeirra, sem búa afskekkt og hinna, sem búa í þungamiðjum heimsins. Kópasker getur keppt á jafnréttisgrundvelli við Reykjavík, London og New York.

Pappírslaus viðskipti eru í augsýn. Þar á meðal er sjálfvirk færsla upplýsinga milli sviða, svo sem frá vörupöntun, yfir flutningaskýrslur, tollpappíra, hvers konar bókhald fyrirtækja og skattskýrslur til sölunótna. Það verður hamingjudagur, þegar tollskjöl fá afgreiðslu á neti.

Svipuð bylting verður í útgáfustarfi. Internetið jafnar þar aðstöðuna. Fólk getur stofnað eigin prentsmiðju og útgáfufyrirtæki á internetinu með óverulegum stofnkostnaði. Þúsundir aðila víða um heim hafa byrjað að feta sig fram eftir þessari akrein hraðbrautarinnar.

Verið er að finna traustari leiðir til að auðvelda greiðslur á internetinu, án þess að netþjófar geti komizt yfir plastkortanúmer fólks og misnotað þau. Verið er að finna traustari leiðir til að rugla og afrugla viðkvæmar upplýsingar, svo að óviðkomandi aðilar komist ekki í þær.

Enn er internetið niðurgreitt af háskólum og öðrum opinberum stofnunum, sem halda úti stofnæðum netsins notendum að kostnaðarlausu, svo að þeir þurfa aðeins að greiða verð innanbæjarsímtala. Búast má við, að það óraunhæfa dæmi verði fyrr en síðar reiknað upp á nýtt.

Mikilvægt er, að íslenzk stjórnvöld sjái um, að upplýsingahraðbrautin haldist ódýr fyrir innlenda notendur, þótt hún hætti að vera alveg ókeypis. Einnig er mikilvægt, að stjórnvöld knýi opinberar þjónustustofnanir til að vera með og taka á sig kostnað á móti sparnaði sínum.

Vaxtarbrodd upplýsingahraðbrautarinnar er að finna á óskipulögðu interneti, sem enginn á og enginn rekur. Saga þess verður áfram undarlegt og ótrúlegt ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV

Að ráði Mandela

Greinar

Mikilvægt er, að Ísland haldi áfram að taka þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum og öðrum þvingunum gegn ríkjum og stofnunum, sem ganga svo langt út fyrir mörk velsæmis, að samstaða næst á fjölþjóðlegum vettvangi um að reyna að kúga ráðamenn þeirra til endurbóta.

Stundum er haldið fram, nú síðast af fjórtán íslenzkum undirskriftamönnum, að refsiaðgerðir eigi ekki rétt á sér, því að þær feli í sér hóprefsingu, sem komi niður á saklausu fólki. Refsingum megi aðeins beita gegn einstaklingum, ekki hópum, og ekki án dóms og laga.

Undirskriftamenn telja, að refsiaðgerðir umheimsins komi mest niður á almenningi í þessum ríkjum og auki þannig beinlínis kúgun fólks. Mest þjáist börn, sjúklingar og gamalmenni í ríkjum eins og Serbíu, Líbýu og Írak, þar sem stjórnvöld sæta efnahagslegum refsiaðgerðum.

Viðurkenndir fulltrúar hinna kúguðu í ríkjum af þessu tagi hafa þurft að taka afstöðu til þessara sjónarmiða. Þeir telja allir, að efnahagslegar refsiaðgerðir af hálfu umheimsins séu nauðsynlegar, þótt skjólstæðingar þeirra finni meira fyrir þeim en valdhafarnir.

Þannig barðist Nelson Mandela alltaf fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Suður-Afríku og þannig berst séra Aristide fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Haítí. Íslenzku undirskriftamennirnir fjórtán eru því að hafna ráðleggingum þessara mætu mannréttindasinna.

Nelson Mandela hefur tjáð sig rækilega um þetta ágreiningsefni. Hann sagði, að erfiðleikar skjólstæðinga sinna vegna refsiaðgerðanna væru að vísu sárir, en tímabundnir, því að refsiaðgerðirnar mundu leiða til falls kúgunarvaldsins, svo sem raunin varð á í Suður-Afríku.

Þeir, sem hafa öðlazt frelsi í Suður-Afríku, eru áreiðanlega að öllum þorra sammála um, að erfiðleikar vegna refsiaðgerða hafi verið tiltölulega lítill fórnarkostnaður til að ná þeim glæsilega árangri, sem nú er öllum ljós, þegar Nelson Mandela er orðinn forseti ríkisins.

Gallinn við efnahagslegar refsiaðgerðir er ekki siðferðilegur, heldur sá, að stundum ná þær ekki árangri, af því að þær eru framkvæmdar með hangandi hendi. Þannig hafa aðgerðirnar gegn Serbíu ekki náð árangri, einkum af því að Grikkir hafa smyglað vörum til Serbíu.

Með því að leyfa gróðafíknum Grikkjum að halda uppi glæpastjórninni í Serbíu eru leiðtogar vestrænna stórvelda að spilla árangri refsiaðgerðanna og gera þúsundum Serba kleift að stunda þá glæpi gegn mannkyninu, sem hefur gert þá að verst ræmdu þjóð vorra daga.

Ráðamönnum Vesturlanda ber raunar að hefja efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Grikklandi fyrir aðstoð þess við Serbíu. Sama má segja um refsiaðgerðir gegn Dóminíska lýðveldinu fyrir að leyfa víðtækt smygl til Haítí. Refsiaðgerðir mega aldrei vera gatasigti.

Þar á ofan er nauðsynlegt, að ráðamenn Vesturlanda geri sér grein fyrir takmörkunum refsiaðgerða. Þær ná stundum ekki árangri, nema menn hafi pólitískan vilja til að fylgja þeim eftir með hernaðaraðgerðum, þegar búið er að rýra varnarmátt hinna illu stjórnvalda.

Auðvitað verður fólk að átta sig á, að efnahagslegar refsiaðgerðir eru aðeins viðeigandi, þegar útbreidd samstaða er með lýðræðisríkjum heims um skilgreiningu vandans. Slíkar aðgerðir eru afar slæmar, ef þær eru einkum þáttur í viðskiptastríði og hagsmunapoti.

Af framansögðu er ljóst, að það er siðferðisskylda stjórnvalda að verða ekki við ósk fjórtán undirskriftamanna um, að Ísland hverfi frá aðild að refsiaðgerðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðja heims þjóð

Greinar

Þegar venjulegt fólk með sæmilegt siðferði telur sig vera nálægt jaðri hins leyfilega, heldur það sig í öruggri fjarlægð frá gráa svæðinu. Ráðherrar Alþýðubandalagsins eru hins vegar nokkurn veginn siðblindir, þegar þeir rugla saman reytum flokks og þjóðar.

Með því að reka kosningabaráttu Alþýðubandalagsins á kostnað almennings hafa siðblindir ráðherrar flokksins stigið skref út í þriðja heims spillingu, sem mundi í siðuðu þjóðfélagi þurrka flokkinn út af þingi. En íslenzkir kjósendur eru því miður lítt siðsýnir enn.

Ráðherrar Alþýðubandalagsins hafa varið meira en tíu milljónum króna af almannafé til að auglýsa sig og flokk sinn í kosningunum. Þetta gera þeir með auglýsingum og bæklingum, þar sem hallað er réttu máli í flokksþágu og birtar sparimyndir af ráðherrunum.

Dæmigerður er áróður, sem kostaður er af almannafé fjármálaráðuneytis, þar sem ráðherra hossar sér á litlum lántökum erlendis, en gætir þess um leið að minnast ekki á, að hann leysti ekki vandamálið, heldur jók yfirdrátt ríkisins í Seðlabanka, prentaði seðla.

Sérgrein ráðherra Alþýðubandalagsins er að láta almenning borga útgáfukostnað flokksins. Aðrir ráðherrar eru ekki lausir við hliðstæða spillingu. Þeir láta almenning borga fyrir sig dýran flutning í einkaflugvélum á kosninga- og áróðursfundi út um land.

Svo eru það hirðmennirnir sextán, sem ráðherrar allra stjórnarflokkanna hafa hlaðið umhverfis sig í ráðuneytunum. Hirðmennirnir eru þessa dagana önnum kafnir við að reka kosningabaráttu sinna flokka og sinna ráðherra, en taka laun sín hjá almenningi.

Munurinn á spillingu ráðherra Alþýðubandalagsins og annarra ráðherra á þessu sviði felst fyrst og fremst í, að hinir fyrrnefndu hafa fundið nýtt og áður lítt kannað svið til að maka krókinn, meðan hinir síðarnefndu halda sig að mestu nálægt fyrri ramma spillingar.

Ekki má gleyma, að spilling er spilling, hvort sem hún er ný eða gömul. Og spilling íslenzkra ráðherra felst í mörgu öðru en því að láta kostnað, sem með réttu ætti að falla á flokkinn, lenda á herðum skattgreiðenda. Spilling getur verið í þágu annarra en flokksins.

Ráðherrar Alþýðuflokksins hafa með forsætisráðherra gengið fram fyrir skjöldu í persónulegri spillingu, sem felst í að láta kostnað, sem með réttu ætti að falla á þá sjálfa, lenda á herðum skattgreiðenda. Þeir halda vinum og vandamönnum veizlur á kostnað ykkar.

Þegar iðnaðarráðherra bauð skólabræðrum freyðivín skattgreiðenda á Breiðafirði í fyrravor, urðu margir til að dásama ráðherrann, en fáir til að furða sig á, hvers vegna skattgreiðendur skyldu veita þessum árgangi slíka þjónustu. Spillinginn féll í góðan jarðveg.

Ráðherrar eru sérfræðingar í að útvega sér kaupauka í dagpeningum með því að vera langtímum saman í útlöndum. Þeir undanskilja sig reglum, sem þeir setja um bifreiðahlunnindi annarra í þjóðfélaginu. Þeir afla sér lífeyrisréttinda með undraverðum hraða.

Hér á landi má sjá ráðherrabílstjóra hanga tímum saman fyrir utan hús, þar sem ráðherrafrúr eru í teboði. Hér á landi má sjá ráðherrabílstjóra rogast með innkaupapoka fyrir ráðherrafrúr. Ekkert af slíku þekkist í nágrannalöndunum, þar sem fólk er siðaðra.

Þetta leyfa ráðherrar sér, af því að hér býr þjóð með fyrsta heims tekjur, en þriðja heims siðferði, þar sem gildir sama siðblinda hjá háum og lágum og í Afríku.

Jónas Kristjánsson

DV