Að ráði Mandela

Greinar

Mikilvægt er, að Ísland haldi áfram að taka þátt í efnahagslegum refsiaðgerðum og öðrum þvingunum gegn ríkjum og stofnunum, sem ganga svo langt út fyrir mörk velsæmis, að samstaða næst á fjölþjóðlegum vettvangi um að reyna að kúga ráðamenn þeirra til endurbóta.

Stundum er haldið fram, nú síðast af fjórtán íslenzkum undirskriftamönnum, að refsiaðgerðir eigi ekki rétt á sér, því að þær feli í sér hóprefsingu, sem komi niður á saklausu fólki. Refsingum megi aðeins beita gegn einstaklingum, ekki hópum, og ekki án dóms og laga.

Undirskriftamenn telja, að refsiaðgerðir umheimsins komi mest niður á almenningi í þessum ríkjum og auki þannig beinlínis kúgun fólks. Mest þjáist börn, sjúklingar og gamalmenni í ríkjum eins og Serbíu, Líbýu og Írak, þar sem stjórnvöld sæta efnahagslegum refsiaðgerðum.

Viðurkenndir fulltrúar hinna kúguðu í ríkjum af þessu tagi hafa þurft að taka afstöðu til þessara sjónarmiða. Þeir telja allir, að efnahagslegar refsiaðgerðir af hálfu umheimsins séu nauðsynlegar, þótt skjólstæðingar þeirra finni meira fyrir þeim en valdhafarnir.

Þannig barðist Nelson Mandela alltaf fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Suður-Afríku og þannig berst séra Aristide fyrir efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Haítí. Íslenzku undirskriftamennirnir fjórtán eru því að hafna ráðleggingum þessara mætu mannréttindasinna.

Nelson Mandela hefur tjáð sig rækilega um þetta ágreiningsefni. Hann sagði, að erfiðleikar skjólstæðinga sinna vegna refsiaðgerðanna væru að vísu sárir, en tímabundnir, því að refsiaðgerðirnar mundu leiða til falls kúgunarvaldsins, svo sem raunin varð á í Suður-Afríku.

Þeir, sem hafa öðlazt frelsi í Suður-Afríku, eru áreiðanlega að öllum þorra sammála um, að erfiðleikar vegna refsiaðgerða hafi verið tiltölulega lítill fórnarkostnaður til að ná þeim glæsilega árangri, sem nú er öllum ljós, þegar Nelson Mandela er orðinn forseti ríkisins.

Gallinn við efnahagslegar refsiaðgerðir er ekki siðferðilegur, heldur sá, að stundum ná þær ekki árangri, af því að þær eru framkvæmdar með hangandi hendi. Þannig hafa aðgerðirnar gegn Serbíu ekki náð árangri, einkum af því að Grikkir hafa smyglað vörum til Serbíu.

Með því að leyfa gróðafíknum Grikkjum að halda uppi glæpastjórninni í Serbíu eru leiðtogar vestrænna stórvelda að spilla árangri refsiaðgerðanna og gera þúsundum Serba kleift að stunda þá glæpi gegn mannkyninu, sem hefur gert þá að verst ræmdu þjóð vorra daga.

Ráðamönnum Vesturlanda ber raunar að hefja efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Grikklandi fyrir aðstoð þess við Serbíu. Sama má segja um refsiaðgerðir gegn Dóminíska lýðveldinu fyrir að leyfa víðtækt smygl til Haítí. Refsiaðgerðir mega aldrei vera gatasigti.

Þar á ofan er nauðsynlegt, að ráðamenn Vesturlanda geri sér grein fyrir takmörkunum refsiaðgerða. Þær ná stundum ekki árangri, nema menn hafi pólitískan vilja til að fylgja þeim eftir með hernaðaraðgerðum, þegar búið er að rýra varnarmátt hinna illu stjórnvalda.

Auðvitað verður fólk að átta sig á, að efnahagslegar refsiaðgerðir eru aðeins viðeigandi, þegar útbreidd samstaða er með lýðræðisríkjum heims um skilgreiningu vandans. Slíkar aðgerðir eru afar slæmar, ef þær eru einkum þáttur í viðskiptastríði og hagsmunapoti.

Af framansögðu er ljóst, að það er siðferðisskylda stjórnvalda að verða ekki við ósk fjórtán undirskriftamanna um, að Ísland hverfi frá aðild að refsiaðgerðum.

Jónas Kristjánsson

DV