Óvæntur eldmóður

Punktar

Um daginn kom í ljós, að einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur verið formaður samgöngunefndar Alþingis undanfarin ár. Enginn hafði tekið eftir þessu virðulega embætti hans, enda hefur höfuðborgarsvæðið hingað til ekki verið í náð nefndarinnar, þegar hún hefur úthlutað vegafé. Samkvæmt blaðagrein virtist nefndarformaðurinn skyndilega hafa öðlazt eldmóð til aukinna ríkisframkvæmda í mislægum gatnamótum á svæðinu, enda eru aðeins fáir mánuðir til kosninga, sem er of skammur tími til að staðfesta góðan vilja í verki.

Landsins dýrasti ómagi

Punktar

Landsvirkjun er einokunarstofnun, sem selur almenningsveitum rafmagn á verði sem er 46% hærra en kostnaðarverð rafmagns frá nýjum virkjunum. Þannig niðurgreiðum við nú þegar rafmagn til stóriðju. Þar á ofan greiðir Landsvirkjun hvorki tekju- né eignaskatt og borgar hvorki krónu fyrir ríkisábyrgðir né fyrir umhverfistjón af hennar völdum. Með nýrri Kárahnjúkavirkjun verður þetta peningadæmi ennþá óhagstæðara skattgreiðendum og raforkukaupendum, sem hafa dýrasta ómaga landsins á framfæri sínu.

Traust er bezt í lengd

Punktar

Eftir afdráttarlausar fyrri yfirlýsingar borgarstjórans í Reykjavík í haust er eðlilegt, að forustumenn Framsóknar og Vinstri grænna telji sitt fólk hafa verið svikið í tryggðum með óvæntri yfirlýsingu um þingframboð, þótt vonlaust framboð sé. Borgarstjórinn hefur fórnað trausti tveggja af þremur aðilum Reykjavíkurlistans. Líklega verður kíttað í trúnaðarbrestinn að sinni, en gömul reynsla segir, að betra sé heilt en vel gróið, hvað þá illa gróið. Samfylkingin krækir í stundargróða í kosningum næsta vors, þótt borgarstjórinn sjálfur komist ekki á þing. En bragðvísi í samstarfi er oftast einnota. Reykjavíkurlistinn verður varla aftur boðinn fram.

Feilnóta í fimmta sæti

Punktar

Til þess að koma Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á þing í fimmta sæti norðurkjördæmis Reykjavíkur þarf Samfylkingin upp undir helming alls fylgis, sem er langt umfram villtustu væntingar. Hún er því að rugga báti Reykjavíkurlistans fyrir veika von um varaþingsæti, sem er hvorki fugl né fiskur. Hún hefði getað farið í prófkjör og tekið fyrsta sæti listans með glans og hún gat tekið neðsta sætið sem áhrifalausan virðingarsess. Fimmta sætið er bara feilnóta, ekki einu sinni baráttusæti. Skýringar hennar hafa ekki verið sannfærandi. Megináhrifin eru þau, að Reykjavíkurlistinn verður ekki samur aftur.

Fullveldið er flotið burt

Punktar

Hermál Íslands hafa áratugum saman verið í Washington, fjórðungur af fullveldi þjóðarinnar. Löggjöfin og reglugerðirnar og dómsmálin eru komin til Bruxelles, samtals helmingur af fullveldi þjóðarinnar. Við erum enn með framkvæmdavaldið og efnahagsvaldið að hluta á innlendum herðum, temprað af öllum þeim sáttmálum og samþykktum, bandalögum og stofnunum, sem við erum aðilar að úti í heimi. Ef við gætum losnað við Seðlabankann og krónuna, erum við komin í ódýrt lánsfé. Það gerist því miður ekki fyrr en við göngum í Evrópusambandið. En þá fer loksins að verða líft fyrir veruleikafirrtum stjórnmálamönnum að séríslenzkum hætti.

Mútur næstar á dagskrá

Punktar

Donald Rumsfeld, stríðsmálaráðherra Bandaríkjanna, íhugar nú, hvort framkvæma skuli áætlun í ráðuneytinu um að snúa óhagstæðu almenningsáliti heimsbyggðarinnar á Bandaríkjunum, þar á meðal í ríkjum bandamanna þeirra. Thom Shanker og Eric Schmitt segja frá þessu í New York Times í dag. Mikilvægur þáttur ráðagerðarinnar er að múta fjölmiðlungum og félagsmálaberserkjum og magna þannig spillingu um allan heim. Í febrúar varð Rumsfeld að hætta við stofnun sérstakrar áróðursdeildar ráðuneytisins, sem átti einkum að planta lygum í erlenda fjölmiðla. Þá lak áætlunin til fjölmiðla og nú hefur nýja áætlunin gert það einnig. Vonandi verða örlög hennar hin sömu og hinnar fyrri. En hugarfarið að baki beggja leynir sér ekki.

Palli er einn í heiminum

Punktar

Á fjölþjóðarþinginu í Bangkok um fjölskylduáætlanir standa Bandaríkin alein þessa daga í andstöðu við fóstureyðingar. Því hefur stöðvast vinna við útfærslu samþykkta alþjóðaþingsins í Kaíró árið 1994 um fjölskylduáætlanir. Bandaríkin hóta að falla frá þeim samþykktum eins og tugum annarra samþykkta alþjóðasamfélagsins. Þau hafa fryst þriggja milljarða króna framlag til Íbúasjóðs Sameinuðu þjóðanna af ótta við, að það stuðli að fóstureyðingum í þriðja heiminum. Þau hafa ráðist hart gegn tillögu Hollands um aukna kynlífsfræðslu unglinga og aukna notkun á verjum. Allur tími þingsins í Bangkok hefur farið í þras um sérstöðu Bandaríkjanna og því hefur engin málefnavinna getað hafizt enn. Frá þessu segir James Dao í New York Times. Velkomin á framhaldsþáttinn: Palli er einn í heiminum, þátt nr. 999.

Eigendur Fréttablaðsins

Punktar

Fréttablaðið hefur kosið að þjóna ráðamönnum Húsasmiðjunnar með því að þegja um ásakanir nýútkominnar bókar á hendur þeim. Auk þess hefur ritstjóri blaðsins komið fram sem blaðurfulltrúi þeirra í öðrum fjölmiðli. Þetta er ekki gott. En lesendur Fréttablaðsins vita þó af þessu máli, ef þeir vilja vita, og geta metið efnisval blaðsins með hliðsjón af því. Alvarlegra er hins vegar, að við vitum ekki með vissu, hverjir eru aðrir eigendur blaðsins. Þess vegna vitum við ekki, hverjir aðrir fá svipaða þjónustu þess í efnisvali. Þar með getur ekki myndast traust milli höfunda og lesenda blaðsins. Þögn um eigendur er slæmt skref í þróunarsögu fjölmiðla. Gegnsæi og traust eru sjálfir hornsteinar vestræns þjóðskipulags.

Núll í verðmætasköpun

Punktar

Á krítartöflu Þorvalds Gylfasonar prófessors má sjá dapurlega stöðu íslenzks landbúnaðar. Bústuðningur á hvert ársverk í landbúnaði er meiri hér á landi, í Sviss og í Noregi en í nokkru öðru landi heims, nærri tvöfalt meiri en í Evrópusambandinu. Bústuðningur á hvern íbúa landsins er heldur meiri í Sviss og Noregi en hér á landi, en hér er hann þó nærri tvöfalt meiri en í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Alvarlegast er, að bústuðningur sem hlutfall af landframleiðslu er 2% hér á landi, sem er sama tala og hlutfall landbúnaðarins af landsframleiðslunni. Virðisaukinn í landbúnaði okkar er því alls enginn, verðmætasköpunin er núll.

Engin hátækni hér

Punktar

Þótt tölvunotkun og tölvueign sé almennari hér á landi en víðast annars staðar, skilar það sér ekki í hátækni sem uppsprettu útflutningstekna, svo sem sjá má í grafi frá Þorvaldi Gylfasyni prófessor. Aðeins 2% útflutningstekna okkar eru frá hátækni, en tíu sinnum meira eða 20% hjá Finnum og Svíum og 30% hjá Bandaríkjamönnum. Af hátækni þekkjum við helzt Oz og deCode, fyrirtæki, sem hafa aðallega útgjöld, en lítið af tekjum. Við erum enn frumvinnsluþjóðfélag, sem framleiðir fisk og kjöt og ál.

Vegakort sáttar um stríð

Punktar

Tvö vegakort þarf að teikna til að ná vestrænni sátt um árás á Írak. Í fyrsta lagi þarf að teikna vegakort að friði í Palestínu, sem er leiðin að hjarta Miðausturlanda. Vegakortið felur í sér stöðvun landnáms og brotthvarf Ísraelshers af hernumdu svæðunum og yfirtöku Atlantshafsbandlagsins á löggæzlu í Palestínu og landamæragæzlu milli Ísraels og Palestínu. Um þetta fjallar Steven R. Weisman í New York Times. Í öðru lagi þarf að teikna vegakort að stjórn Íraks eftir innrásina. Vegakortið felur í sér, að enginn fyrrverandi Saddamisti eða Baath-flokksfélagi taki völdin, heldur hópar landflótta stjórnarandstæðinga, sem undirbúa borgaralegt sambandsríki Kúrda, Sjíta og Súnna og kosningar í sambandsríkinu. Um þetta fjallar Craig S. Smith í New York Times. Bæði vegakortin þurfa að vera heiminum sýnileg, áður en árás á Írak fær siðgæðisstimpilinn, sem hún hefur alls ekki núna.

Vondur, verri, verstur

Punktar

Ísrael og Pakistan eiga gereyðingarvopn og eru hættulegri umhverfi sínu en Írak, en þau eru skjólstæðingar Bandaríkjanna og munu því ekki sæta vestrænni árás. Leiða má rök að því, að Saddam Hussein sé hættulegri eigin þjóð en nokkur annar harðstjóri heimsins og því sé rétt að ryðja honum úr vegi. Það væri trúverðugri kenning, ef hún væri hluti heildarmyndar, þar sem í framhaldinu væri gert ráð fyrir að hrekja harðstjórana í Pakistan, Indónesíu, Úsbekistan og fleiri skjólstæðinga Bandaríkjanna frá völdum. Svo er ekki. Við höfum heldur enga tryggingu fyrir því, að einhver af yfirföntum Saddam Hussein verði ekki gerður að lepp Bandaríkjamanna í stríðslok, samanber grein eftir >Bill Keller í New York Times í gær. Hræsnin er svo augljós, að ekki er rúm fyrir neitt traust á utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Hræsni heimsmálanna

Punktar

Þegar Bandaríkjastjórn segir, að ráðast þurfi til atlögu gegn ríkjum, sem safna gereyðingarvopnum og hunza alþjóðasamfélagið, hlýtur okkur fyrst af öllu að detta Ísrael í hug. Þegar Bandaríkjastjórn segir, að ráðast þurfi til atlögu gegn ríkjum, þar sem hryðjuverk eru kennd í skólum, hlýtur okkur fyrst af öllu að detta Pakistan í hug. Þegar Bandaríkjastjórn segir, að ráðast þurfi til atlögu gegn ríkjum, sem fjármagna hryðjuverk, hlýtur okkur fyrst af öllu að detta Sádi-Arabía í hug. Allt eru þetta skjólstæðingar Bandaríkjanna sjálfra. Ekki þarf að fara fleiri orðum um botnlausa hræsni heimsmálanna.

Enn eitt kraftaverkið

Punktar

Þótt skrifstofu- og reglugerðabákn Evrópusambandsins sé stundum talið þungt í vöfum, gerist þar hvert kraftaverkið á fætur öðru. Í gær var samið um að stækka það um 10 ríki eftir hálft annað ár og hefja þá aðildarviðræður við Tyrkland til viðbótar. Ekki er liðið heilt ár síðan evran kom til skjalanna. Sambandið hefur haft eigin seðlabanka í örfá ár. Á fyrri hluta næsta árs tekur það að sér fyrstu hernaðaraðgerðina, friðargæzlu í Makedóníu. Þegar Tyrkir koma inn, fer íbúafjöldi Evrópusambandsins yfir hálfan milljarð manns. Ekki amalegur markaður það. Eftir alla þessa stækkun verða mál flutt og þýdd samhliða á 22 þjóðtungum. Íslenzka er ekki þar á meðal, af því að ráðamenn Íslands eru þröngsýnir. Þeir þora ekki að taka sæti við borð ákvarðana, en þurfa þó að láta reglugerðir og fjárheimtur Evrópu yfir sig ganga.

Kalifornía komin hringinn?

Punktar

Í Kaliforníu eru menn farnir að hanna og reisa stórmarkaði, sem eru eins konar eftirlíkingar evrópskra bæja, með óreglulegum húsum, skökkum götum, torgum til að tefla skák, miklum fjölda kaffihúsa og veitingastaða, tívolíum og gosbrunnum. Fólk býr í turnum yfir þessum stórmörkuðum og bílageymslurnar eru faldar í kjallaranum. Vicky Elliott skrifar í International Herald Tribune í dag um þessa nýjung og spyr, hvort Kaliforníumenn séu komnir hringinn, búnir að hafna grillveizlunum í bakgarðinum sínum og séu orðnir reiðubúnir að faðma forna bæjarlífið að sér að nýju.