Rústir í Reykjavík

Punktar

Framsóknarmenn í Reykjavík hafa alltaf verið tæpir í tryggð við Reykjavíkurlistann og sætt gagnrýni sumra ráðamanna í flokknum fyrir að styðja í borgarstjórninni annað mynztur en í landsstjórninni. Brotthætt samstarf listans þoldi ekki álagið af óvæntri uppákomu borgarstjórans í fimmta sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík. Með afsögn Ingibjargar Sólrúnar hefur formlegt samstarf um listann verið plástrað til endingar út kjörtímabilið, en ekki stundinni lengur. Innihaldið er brostið, enda gat hún ekki dulið gremju sína í gær. Allir málsaðilar hafa tapað. Miðað við útkomuna hefði verið skynsamlegra að tala við samstarfsflokkana á undan ákvörðun, gera það strax í haust, fara þá í prófkjör og taka efsta sæti í öðru kjördæmi borgarinnar. Það hefði hámarkað gróða Samfylkingarinnar og lágmarkað tjón Reykjavíkurlistans.

Það góða sem ég vil …

Punktar

Menn halda áfram að reykja, þótt þeir þjáist af sjúkdómum, sem tengjast reykingum og læknar hafi sagt þeim að hætta. Niðurstaða fjölmennrar rannsóknar á vegum bandarískrar ríkisstofnunar á sviði heilsurannsókna sýnir, að margir geta ekki hætt að reykja, þótt þeim hafi verið sýnt fram á, að þeir verði að hætta. Þeir hætta jafnvel ekki, þótt þeim sé sagt, að lungu þeirra lagist, þegar þeir hætti að reykja. Þetta segir Norman H. Edelman við ríkisháskólann í New York, að stafi auðvitað af, að tóbaksnautn sé fíkn eins og svo margar aðrar fíknir, sem sumir ráða ekki við, þótt þeir fegnir vildu. Frá rannsókninni segir nánar í frétt frá Associated Press.

Undir ózongati

Punktar

Gatið í ózonlaginu yfir suðurskautslandinu hefur nú stækkað inn yfir Chile. Gerðar hafa verið ýmsar ráðstafanir í 125.000 manna bænum Punta Arenas, sem er fyrsti þéttbýlisstaður heims undir ózongati. Fólk fer út með síðar ermar, sólgleraugu og öflug sólkrem. Viðvörunarljós hafa verið sett upp í skólum og stórmörkuðum. Vísindamenn hafa áhyggjur af miklum vexti húðkrabbameins í Chile. Melanoma tvöfaldaðist í Santiago árin 1992-1998. Frá 1985 hefur ózongatið yfir suðurskautalandinu tvöfaldazt að flatarmáli. Búizt er við, að gatið mundi halda áfram að stækka næstu áratugi. Frá þessu segir Larry Rohter í New York Times í morgun.

Bandarískir stríðsglæpir

Punktar

Fangar, sem eru grunaðir um að vera liðsmenn Al Kaída, sæta pyndingum bandarísku leyniþjónustunnar í Bagram flugherstöðinni í Afganistan, að sögn Washington Post í gær. Þetta brot á alþjóðasamningum gegn stríðsglæpum er varið með tvöföldum útúrsnúningi, að bandarísk lög nái ekki til Bagram og að hinir grunuðu séu ekki hermenn. Ef þeir játa ekki, eru þeir sendir leyniþjónustum Jórdaníu, Egyptalands og Marokko, sem hafa enn verra orð á sér. BBC segir í morgun, að vestræn mannréttindasamtök heimti rannsókn og bendi á, að fjöldi yfirmanna bandarísku leyniþjónustunnar og bandarískra stjórnvalda, þar á meðal forseti landsins, muni erlendis sæta ákærum fyrir stríðsglæpi. Þetta minnir á, að Bandaríkin reyndu ákaft að hindra stofnun Alþjóða stríðsglæpadómstólsins í Haag fyrr á þessu ári.

Aðgerðir gegn offitu

Punktar

Í Kaliforníu hefur verið samþykkt að takmarka sölu gosdrykkja í skólum. Þar er í undirbúningi frumvarp um sykurskatt á gosdrykki. Í Bretlandi hefur komið fram tillaga um strangt eftirlit með auglýsingum gosdrykkja nálægt skólum og fyrir miðnætti í sjónvarpi. Í New York eru hafin málaferli gegn McDonalds, Burger King og Kentucky Fried fyrir sölu fitandi fæðu til barna og unglinga. Allt þetta eru beinar afleiðingar þess, að sjúkrakostnaður vegna offitu er orðinn 70 milljarðar dollara á ári í Bandaríkjunum eða 7% alls sjúkrakostnaðar. >Richard Adams skrifar um þetta í Guardian í dag og telur, að sama ferli sé að hefjast í fitu- og sykuriðnaði og hófst í tóbaksiðnaði á sínum tíma. Eftir áratug verður fólk að fara í felur til að fá sér kók og hamborgara með frönskum og ís á eftir.

Þrjár fréttir flækja mál

Punktar

Stundum flækja fréttir málin. Þrjár fréttir í New York Times í dag sýna, að ekki er allt eins einfalt og við höfum viljað vera láta. Í nokkra áratugi höfum við trúað, að Dauðahafshandritin frá Kumram hafi verið skrifuð í einangruðu munkaklaustri Essena. Nú hefur fornleifagröftur leitt í ljós ýmis atriði, sem benda til, að þetta geti hafa verið venjulegt þorp í samskiptum við umhverfið. Í nokkur ár höfum við trúað, að lýsi eða feitur fiskur tvisvar í viku bægði frá hjartasjúkdómum. Nú bendir ný rannsókn frá Harvard til, að þessi árangur geti náðst, þótt menn fái fisk bara einu sinni til þrisvar í mánuði og að það sé sama, hvort fiskurinn sé feitur eða magur. Loks er sagt frá rannsóknum, sem benda til, að ekki sé endilega neitt unnið við brjóstaskoðun vegna krabbameins, heldur feli hún í sér yfirkeyrða sölumennsku hagsmunaaðila í heilbrigðisþjónustu. Lesið þið og dæmið sjálf. John Noble Wilford skrifar um handritin, Donald G. McNeil um fiskinn og Gina Kolata um krabbameinið.

Kristur í kóraninum

Punktar

Múslimar líta á Krist sem spámann. Fornar moskur þeirra eru þaktar tilvitnunum í orð hans úr guðspjöllunum eins og við þekkjum þau og úr fleiri kristnum helgiritum, sem miðaldakirkjan hafnaði á kirkjuþingum. Í kóraninum er Kristur kallaður messías, spámaðurinn, orð og andi guðs. Þar er Kristur að vísu talinn maður en ekki guð, eins og raunar ýmsir kristnir söfnuðir gerðu snemma á miðöldum, þegar íslam varð til. William Dalrymple heldur því fram í Guardian, að kristinn miðaldamunkur frá Miklagarði, sem kæmi til nútímans, mundi kannast betur við messur íslamskra súfista en bandarískra ofsatrúarpresta. Ekki er eins langt milli kristni og íslams og margir halda.

Jólum stolið í Betlehem

Punktar

Jólahald verður lítið á fæðingarstað frelsarans í Betlehem að þessu sinni. Ísrael hefur stolið jólunum. Hernámið hefur valdið 70% atvinnuleysi og lækkað meðaltekjur íbúanna niður fyrir 100 krónur á dag. Skriðdrekar Ísraelshers fara um göturnar og Ísraelsher hefur tekið helztu hótel bæjarins til sinna þarfa. Engar skrúðgöngur kristinna manna verða að þessu sinni og jólatré er ekki að þessu sinni á kirkjutorginu. Í fæðingarkirkju frelsarans mun kristinn munkur, Amjad Sabarra, tala um dauðann og minnast kristinna barna, sem hafa verið drepin af hermönnum Ísraels. Vegna fréttaflutnings erlendra fjölmiðla af framgöngu hersins í bænum var í morgun ákveðið að láta herinn hörfa 200 metra frá fæðingarkirkjunni á jólanótt. Frá þessu er sagt í Guardian og BBC.

Misjöfn er kristnin

Punktar

Aðeins 20% íbúa Vestur-Evrópu sækja kirkju vikulega og aðeins 14% íbúa Austur-Evrópu. Hins vegar sækja 47% Bandaríkjamanna kirkju vikulega. Ef Evrópumenn eru ekki af rómverskum eða grískum rétttrúnaði, eru þeir lútersmenn, kalvínsmenn eða biskupakirkjumenn, það er í ríkiskirkju eða staðarkirkju hvers héraðs. Allt aðrir söfnuðir hafa sótt fram í Bandaríkjunum, sértrúarsöfnuðir með róttæku messuhaldi, svo sem hvítasunnusöfnuðir af ýmsu tagi, svo og mormónar. Slíkir söfnuðir eru líka duglegastir við að breiða boðskapinn um þriðja heiminn, oft í samkeppni við Íslam. Bandarískir hvítasunnusöfnuðir eru flestir andvígir þróunarkenningu Darwins og hommum og styðja Ísrael eindregið. Frá þessu segir í jólahefti Economist. Gleðileg jól.

Sundabraut hin innsta

Punktar

Deilt er um, hvort væntanleg Sundabraut ofan af Kjalarnesi yfir Elliðavoginn eigi að taka land á Holtavegi eða Kleppsmýrarvegi. Af hverju ekki taka land innar, á Naustavegi milli austurjaðars lystibátahafnarinnar og Elliðaánna, og síðan áfram undir Sæbrautina og í tvær slaufur á óbyggða svæðinu handan gatnamóta Sæbrautar og Skútuvogs? Á þann hátt næst viðstöðulaus akstur milli þriggja af fjórum meginæðum höfuðborgarsvæðisins, Sundabrautar, Sæbrautar – Reykjanesbrautar og Miklubrautar. Með mislægum slaufugatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar bætist svo fjórða viðstöðulausa meginæðin við þetta kerfi.

Viðstöðulaus akstur

Punktar

Brýnustu samgöngumannvirki landsins eru mislæg gatnamót með viðstöðulausum akstri án umferðarljósa á þremur meginæðum höfuðborgarsvæðisins, Miklubraut-Vesturlandsvegi-Suðurlandsvegi, Kringlubraut-Hafnarfjarðarvegi, Reykjanesbraut-Sæbraut-Sundabraut. Þetta eru allt fjölfarnar þjóðbrautir á vegum ríkisins, sem hefur meira dálæti á borun fjalla í fámennum héruðum. Með því að gera meginæðar Reykjavíkursvæðisins viðstöðulausar í akstri sparast tími, benzín og mengun. Kjósendur þriggja kjördæma ættu að spyrja þingmannsefni sín um þetta í kosningabaráttunni.

Símtalið og mannslífin

Punktar

Með voru 143 ríki og á móti voru Bandaríkin ein. Dick Cheney varaforseti hringdi á föstudaginn var til Genfar í Robert Zoellick, formann samninganefndar Bandaríkjanna, og bannaði honum að skrifa undir samkomulag allra þjóða heims um nánari útfærslu á ákvörðun Doha-ráðstefnu Heimsviðskiptastofnunarinnar í fyrra um ódýrari lyf handa þriðja heiminum. Með símtalinu fór ráðstefnan í Genf út um þúfur. Risafyrirtæki bandaríska lyfjaiðnaðarins töldu einkaleyfum sínum stefnt í hættu á of mörgum sviðum. Þau eru einn helzti fjárhagslegi bakhjarl repúblikana í Bandaríkjunum og tóku út inneign sína á þennan hátt. Símtal Cheney varaforseta í þágu lyfjarisanna mun kosta milljónir manna lífið í þriðja heiminum á hverju ári. Frá þessu er sagt í fjölmiðlunum BBC og Guardian.

Vinstra sundrungartáknið

Punktar

Tröllatrú Reykvíkinga á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjóra stafar meðal annars af, að hún hefur verið eins konar andamamma með alla vinstri ungana undir vængnum. Vinsældir hennar stafa ekki frá henni einni og sér í heiminum, heldur af ýmsum þáttum, þar sem pólitíska móðurhlutverkið skipti máli. Þegar hún er ekki lengur sameiningartákn vinstri manna, heldur sundrungartákn þeirra, hverfur mikilvæg forsenda fyrir yfirburðastöðu hennar í stjórnmálum. Sjálfumglaðir ferlishönnuðir Samfylkingarinnar skilja þetta ekki og verða ekki vitrari af lestri nýrrar skoðanakönnunar.

Leynisátt fjórvelda

Punktar

Fjórveldafundi Bandaríkjanna, Evrópusambandsins, Rússlands og Sameinuðu þjóðanna lauk í Washington í gær án þess að birt væri sameiginleg niðurstaða fundarins um nýtt vegakort friðar í Palestínu. Efnislega er komið samkomulag fjórveldanna um þriggja ára ferli og sjálfstæði Palestínu, en af tillitssemi við Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, vilja Bandaríkin ekki, að það sé birt opinberlega fyrir kosningarnar í Ísrael í lok janúar. Hinir aðilar samkomulagsins telja ekki hægt að fara í stríð við Írak fyrr en niðurstaðan hafi verið birt. Raunar er þetta deila um keisarans skegg, því að niðurstaðan hefur þegar lekið til fjölmiðla og Steven R. Weisman segir frá henni í New York Times í dag. Því er líklegt, að stríðið við Írak hefjist ekki fyrr en eftir kosningarnar.

Fimm kvíslir mannkyns

Punktar

Nýjar rannsóknir við Yale og Stanford háskóla á erfðamengi , sem birtar voru í Science í gær, benda til mismunar á fólki eftir heimsálfunum fimm, þótt 95% fjölbreytileikans séu sameiginlegar öllu mannkyni. Fyrir 50.000 árum var mannkynið aðeins eitt og átti uppruna sinn í Afríku. Síðan hafa orðið breytingar í erfðum eftir heimshlutum, svo sem sjá má af misjöfnu sjúkdómamynztri í höfuðálfunum fimm, Afríku, Ameríku, Asíu, Evrópu og Eyjaálfu. Frá þessu er sagði Nicholas Wade í New York Times í gær. Það er því ekki lengur hægt að líta á framsóknarmenn sem sérstakan kynstofn.