Ruslfæði erlendra skóla

Punktar

Í brezkum og bandarískum fjölmiðlum eru farnar að birtast greinar foreldra og kennara, sem hafa áhyggjur af vanheilögu samstarfi skóla og framleiðenda ruslfæðis, sem er til þess fallið að fita börn og gera úr þeim ævilanga sjúklinga. Tim Minogue skrifar í Guardian um, að börn séu látin vinna fyrir skólabókunum með því að safna miðum af ruslfæðispökkum, sem þau geta keypt í skólanum. Til þess að eignast allar skólabækur ársins, verða þau að kaupa ruslfæðispakka fyrir rúmlega 7.000 krónur á ári. John F. Borowsky skrifar í Common Dreams um, að Pepsi Cola hafi drepið hugmynd í nemendafélaginu um drykkjarvatnstanka. Framleiðandi sykursullsins óttaðist, að þeir minnkuðu sölu úr einkaleyfis-sjálfsölum hans í skólanum. Vonandi kemur þessi tegund einkavæðingar ekki til Íslands.

Fyrirhugað olíustríð

Punktar

Thomas L. Friedman spyr í kjallaragrein í New York Times, hvort fyrirhugað stríð Bandaríkjanna við Írak sé fyrst og fremst ásælni í olíu. Hann minnir á andstöðu Bandaríkjanna við Kyoto-bókunina um minnkun á útblæstri koltvísýrings. Hann minnir á mikla olíunotkun Bandaríkjanna í samanburði við önnur iðnríki. Hann spyr, hvort fyrsta verk sigurvegarans verði að koma sér upp nýjum harðstjóra í Bagdað, sem láti verða sitt fyrsta verk að veita bandarískum olíufélögum sérleyfi til olíuvinnslu. Spurningin er, hvort Bandaríkjamenn séu að tryggja sér að geta haldið áfram að sukka með takmarkaða auðlind.

Varanleg veðurbreyting

Punktar

Meiri úrkoma, meiri hiti, stærri flóð, öflugri stormar, minni snjór, hærra sjávarborð og veikari Golfstraumur eiga það sameiginlegt að vera einkenni hættulegra breytinga á veðurfari um þessar mundir. Stórborgir á borð við Prag og Dresden hafa nýlega orðið fyrir miklum skemmdum af völdum náttúruhamfara. Í auknum mæli kenna veðurfræðingar þetta útblæstri koltvísýrings af mannavöldum. Brezka ríkisveðurstofan telur, að sú mengun, sem þegar er orðin af mannavöldum, muni hafa áhrif á líf mannkyns næstu þúsund ár. Tryggingafélagið Munich Re telur, að tjón mengunar andrúmsloftsins af mannavöldum hafi tvöfaldazt í fyrra og náð samtals rúmlega 4.000.000.000.000 krónum á árinu. Mark Townsend segir frá þessu í Observer í gær.

Fréttir af frændum

Punktar

Í náttúrusögusafninu í New York hefur tekizt að setja saman heila beinagrind af dæmigerðum manni af Neanderdalstegundinni, sem bjó í Evrópu fyrir rúmlega 200.000 árum og varð útdauð fyrir 30.000 árum, þegar Cro Magnon manngerðin varð einráð um allan heim. John Noble Wilford segir frá þessu í New York Times. Höfundar verksins telja útkomuna benda til, að Neanderdalsmaðurinn hafi ekki verið afbrigði mannsins, heldur sérstök tegund, svo ólíkur okkur, að hann skæri í augu, ef hann væri uppáklæddur á ferð um New York nútímans. Á sama tíma segir BBC frá rannsóknum, sem benda til, að órangútan apinn í Indónesíu sé líkari manninum en áður hefur verið talið og sýni 24 einkenni menningarlífs. Fjölþjóðahópur fræðimanna, sem fann þetta út, segir það sýna, að sérþróun mannsins hafi byrjað fyrir 14 milljón árum, miklu fyrr en áður var talið.

Framleidd ímyndunarveiki

Punktar

British Medical Journal kastaði sprengju á lyfjaiðnaðinn á föstudaginn með grein, þar sem er fullyrt, að læknar tengdir lyfjafyrirtækjum hafi framleitt ímyndaðan sjúkdóm kynkulda kvenna til þess að selja meira af lyfinu Viagra. Í greininni eru raktar ráðstefnur á kostnað lyfjaiðnaðarins síðan 1997, þar sem fyrirlesarar með fjárhagsleg tengsl við lyfjafyrirtæki hafa reynt að sjúkdómavæða kynkulda kvenna. Árið 1999 tókst læknum með fjárhagsleg tengsl við Pfizer-lyfjarisann að koma grein í Journal of the American Medical Association um að 43% kvenna væru haldin þessum ímyndaða sjúkdómi. Í grein British Medical Journal er sagt, að kynkuldi kvenna sé ekki líkamlegur sjúkdómur, heldur andlegt ástand, sem felist í þreytu, streitu eða andúð. Barry James fjallar um þetta mál í International Herald Tribune í dag og birtir viðtöl við ýmsa fræðimenn.

Betri merking matvæla

Punktar

Nýjar reglur um merkingu matvæla, sem tóku gildi í Kanada um áramótin, eru nákvæmari en slíkar merkingar í öðrum vestrænum löndum. Hér eftir verða umbúðir matvæla að greina frá þyngd þrettán atriða, svo sem kolvetna, sykurs, trefja, próteins, kólesteróls og nokkurra vítamína og steinefna. Gera þarf grein fyrir ýmsum gerðum fitu, svo sem mettaðrar og fjölómettaðrar og gera greinarmun á ómega-3 og ómega-6 fitu. Þetta er langt umfram þær reglur, sem nú gilda á Íslandi. Frá þessu segir á Canada.com og í Globe & Mail.

Fáránlegur samningur

Punktar

Nú hefur komið í ljós, að tapið á Kárahnjúkavirkjun verður enn hrikalegra en óttazt hefur verið, rúmlega fjórir milljarðar króna á ári hverju. Miðað við núverandi álverð, sem er 1370 dollarar á tonnið, verður kílówattstundin frá Kárahnjúkum seld á 1,30 kr, en þyrfti að seljast á 2,30 kr til að svara kostnaði. Nýgerður og óstaðfestur samningur Landsvirkjunar við Alcoa jafngildir þrúgandi skuldafangelsi afkomenda okkar áratugum saman, fáránlegasti samningur Íslandssögunnar.

Bretar keppa við Kára

Punktar

Brezka stjórnin hyggst hefja samkeppni við deCode og Kára Stefánsson með gagnabanka brezkra gena. Öfugt við Kára ætla Bretar ekki að byggja á misnotkun sjúkraskýrslna, heldur blóðsýnum sjálfboðaliða, alls hálfrar milljónar manna á 5-6 árum. Bretar telja það kost, að þjóðin sé fjölbreytt, en ekki einhæf eins og Íslendingar. Gwen Kinkead skrifar um þetta í New York Times í gær. Hún segir, að Bretar hyggist læra af erfiðleikum Kára á Íslandi og gæta þess, að brezki gagnabankinn leiði ekki til ólgu og andstöðu í þjóðfélaginu. Markmið gagnabankans er að finna, að hve miklu leyti flestir algengir sjúkdómar stafa af erfðum og að hve miklu leyti af öðrum þáttum á borð við reykingar, áfengi, veirur, mengun, hreyfingarleysi og rangt mataræði. Til að ná slíkum árangri þurfi fjölbreytt blóðsýni, sem fáist ekki á einhæfu Íslandi.

Eins máls Hvíta hús

Punktar

Warren M. Christopher, fyrrum utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skrifaði grein í New York Times á gamlársdag, þar sem hann segir sagnfræðina sýna, að starfslið forsetans í Hvíta húsinu sé ófært um að hugsa um fleiri en eitt vandamál í einu. Það sé ekki af hernaðarlegum eða fjárhagslegum ástæðum, heldur skipulagslegum, að Bandaríkin geta aðeins háð eitt stríð í einu. Christopher telur þrotlausan áhuga Hvíta hússins á undirbúningi stríðs við Írak dreifa athygli þess frá brýnni vandamálum, svo sem fjölgun hryðjuverka og orsökum þeirra í deilu Ísraels og Palestínu, sem hvort tveggja er óviðkomandi Saddam Hussein. Christopher telur þó öryggi Bandaríkjanna stafa mest hætta af framleiðslu atómvopna og langdrægra eldflauga í Norður-Kóreu. Eins máls Hvíta hús ætti fyrst og fremst að beina orku sinni að þeim vanda.

Suður-Kóreuvandi

Punktar

Steven R. Weisman skrifar í dag grein í New York Times um byltinguna, í samskiptum Bandaríkjanna og Suður-Kóreu. Hún náði hámarki við kjör mannréttindalögmannsins Roh Moo Hyun sem forseta Suður-Kóreu. Fyrir og eftir kjörið hafa verið mótmæli og óeirðir í landinu gegn Bandaríkjunum, 37.000 manna hersetu þeirra í Suður-Kóreu og stefnu þeirra gagnvart Norður-Kóreu, sem hinn nýi forseti segir, að komi ekki að gagni. Bandaríkin eru nú að súpa seyðið af stuðningi við einræðisherra og herforingja fyrri tíma, sem lengi stóðu í vegi fyrir lýðræði í Suður-Kóreu. Til langt tíma litið er dýrkeypt að styðja óvinsælar herforingjastjórnir gegn almenningi, svo sem nú má sjá í Pakistan, þar sem almennir borgarar hata Bandaríkin meira en nokkru sinni fyrr og skjóta skjólshúsi yfir hryðjuverkamenn.

Nýnorskt stýrikerfi

Punktar

Microsoft vildi ekki þýða Windows á sjaldgæfa nýnorsku fremur en álíka sjaldgæfa íslenzku. En Norðmenn voru harðari af sér en Íslendingar. Skólarnir þar tóku sig saman um að hóta að hætta að nota hugbúnað frá Microsoft, ef stýrikerfið yrði ekki þýtt á nýnorsku, enda eru betri stýrikerfi til. Einokunarstofnunin sá fram á mikinn tekjumissi og gafst upp fyrir samheldni Norðmanna. Frá þessu sagði BBC í gær. Þegar Björn Bjarnason var menntaráðherra, gafst hann hins vegar upp og samþykkti, að íslenzka ríkið borgaði fyrir þýðingu Windows á íslenzku. Enginn hefur fetað slóð hinnar undirgefnu þjóðar og hins undirgefna ráðherra, en ýmsir minnihlutahópar hafa áhuga á norsku leiðinni, þar á meðal Katalúnar á Spáni.

Framtíðin arðrænd

Punktar

Eftir davíðska síbylju um, hvað við höfum það gott, er hollt að fá kalda gusu í grein, sem birtist í gær í Guardian eftir helzta dálkahöfund blaðsins, George Monbiot. Hann segir velmegun nútímans byggjast á arðráni framtíðarinnar, tæmingu auðlinda jarðar allt frá vatni yfir í olíu. Davíðar nútímans afli sér atkvæða með því að taka frá börnum okkar og barnabörnum til að geta hrósað sér af því, hvað þeir láti okkur hafa það gott. Þeir reki skammsýna hagstefnu takmarkalausrar þenslu í heimi takmarkaðra og rýrnandi auðlinda. Íslenzkir Davíðar vilja ekki einu sinni beita auðlinda- og umhverfisrentu í fiski og fallvötnum, hvað þá í aðgangi að sjúkraupplýsingum. Enda láta kjósendur sér það vel líka.

Bush sendi Saddam eitrið

Punktar

Í Bandaríkjunum hafa verið opnuð 20 ára gömul skjöl, sem sýna, að ríkisstjórnir Reagans og Bush útveguðu Saddam Hussein efni til framleiðslu eiturvopna til daglegrar notkunar í stríði Íraks við Íran árin 1980-1988, þar á meðal miltisbrand og svartadauða. Í miðjum eiturhernaði Saddams var Donald Rumsfeld, sem nú er stríðsmálaráðherra, sendur til Íraks til að lýsa stuðningi Bandaríkjastjórnar við brjálæðinginn, sem þá var hættulegri umhverfi sínu en hann er núna. Washington Post sagði í gær frá þessum leyniskjölum, sem varpa ljósi á hræsni heimsmálanna. Saddam er ekki lengur skjólstæðingur, en kominn er nýr Bandaríkjavinur, einræðisherrann Musharraf í Pakistan, er samkvæmt fréttum BBC ógnar heimsfriðnum með hótunum um atómstríð.

Með myndavél í maganum

Punktar

Komin er á markað einnota örmyndavél, M2A, á stærð við stóra töflu af fjölvítamíni, notuð til sjúkdómsgreininga. Hún er gleypt með vatni eins og hvert annað lyf, ferðast í átta tíma niður meltingarveginn og tekur tvær myndir á sekúndu. Notkunin kostar tæpar 90.000 krónur í hverju tilviki. Myndavélin sjálf kostar núna 40.000 krónur stykkið og mun lækka í verði, þegar fjöldaframleiðsla hefst. Margs konar örhlutir eru að ryðja sér til rúms í læknisfræði, svo sem til að leiðrétta hjartslátt, dæla insúlíni og til að leysa upp töflur á réttu andartaki. Í vændum eru örtæki sem leyfa sjónskertum og jafnvel blindum að sjá. Frá þessu segir Rob Stein í Washington Post í dag.

Fánýtir ferlishönnuðir

Punktar

Þeir verða að kyngja þessu, sögðu ferlishönnuðir, sem síðan misstu atburðarás borgarstjóramálsins úr böndum. Framsóknarmenn kusu að kyngja ekki, þótt óhagstæðri skoðanakönnun væri veifað framan í þá. Aðstandendum Reykjavíkurlistans er öllum sameiginlega um að kenna, að Reykvíkingar missa eftir mánuð borgarstjórann, sem þeir vildu hafa og sem þeim hafði verið heitið til heils kjörtímabils. Mest er þó sök þeirra, sem settu af stað ferli, er þeir réðu ekki við, af því að þeir vanmátu viðbrögð sumra þeirra, sem áttu að vera fórnardýr ferlisins.