Í brezkum og bandarískum fjölmiðlum eru farnar að birtast greinar foreldra og kennara, sem hafa áhyggjur af vanheilögu samstarfi skóla og framleiðenda ruslfæðis, sem er til þess fallið að fita börn og gera úr þeim ævilanga sjúklinga. Tim Minogue skrifar í Guardian um, að börn séu látin vinna fyrir skólabókunum með því að safna miðum af ruslfæðispökkum, sem þau geta keypt í skólanum. Til þess að eignast allar skólabækur ársins, verða þau að kaupa ruslfæðispakka fyrir rúmlega 7.000 krónur á ári. John F. Borowsky skrifar í Common Dreams um, að Pepsi Cola hafi drepið hugmynd í nemendafélaginu um drykkjarvatnstanka. Framleiðandi sykursullsins óttaðist, að þeir minnkuðu sölu úr einkaleyfis-sjálfsölum hans í skólanum. Vonandi kemur þessi tegund einkavæðingar ekki til Íslands.