Kofi Annan

Punktar

Bandaríkjastjórn hefur lengi reynt að ófrægja Kofi Annan, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem helmingur repúblikana telur vera sjálfan Antí-Krist heimsins. Bandarískir áhrifamenn tóku Annan 5. desember á eintal í húsi Richard Holbrooke, fyrrum sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum, og sögðu honum, að hann yrði að endurvinna traust ríkisstjórnar USA, því að öðrum kosti væru SÞ fallin stofnun. Ólíklegt er, að önnur ríki taki undir þetta, þótt margt hafi illa farið á valdatíma Annan, einkum vegna ráðríkra embættismanna, sem hann hefur verndað.

Skúrkarnir dæma

Punktar

Frank Rich segir í New York Times, að fréttamennska í Bandaríkjunum fari versnandi. Hann nefnir þáttinn Crossfire, sem sé orðinn að skrípaleik. Þar hafi verið farið silkihönskum um fréttamanninn Armstrong Williams, sem fékk 240.000 dollara fyrir að styðja sjónarmið ráðuneytis menntamála. Rich gagnrýnir einnig, að Robert Novak, sem flæktur er í ýmsa spillingu, skuli vera annar stjórnandi þáttarins, hafandi þegið greiðslur frá fyrirtæki, sem kom á framfæri upplognum og óviðeigandi sjónarmiðum í aðdraganda síðustu kosninga um aðild John Kerry að stríðinu í Víetnam.

Fréttamennska

Punktar

Loubna Freih segir í International Herald Tribune, að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sé orðin ónýt, af því að þar hafi myndazt samsæri skúrkanna. Ríki á borð við Rússland, Kína, Kúba, Sádi-Arabía,Súdan og Simbabve taki saman höndum í atkvæðagreiðslum og hafni ályktunum um mannréttindi á þeirri forsendu, að þær séu afskipti af innanríkismálum. Hún vill, að ríki þurfi að fullnægja skilyrðum til að fá sæti í mannréttindanefndinni. Þetta er dapurlegt dæmi um, að Sameinuðu þjóðirnar eru engan veginn það framfaraafl, sem stofnendurnir ætluðust til.

Ritskoðun

Punktar

George Monbiot segir í Guardian, að stóru fyrirtækin, sem eigi bandaríska fjölmiðla, einkum sjónvarpsstöðvar, séu almennt mjög höll undir repúblikana og að það endurspeglist í fjölmiðlunum. Hann nefnir dæmi um, að fjölmiðlar hafi í kosningabaráttunni átölulaust birt rangfærslur um John Kerry, en rangfærslur um George W. Bush hafi leitt til afsökunarbeiðna og brottrekstrar. Einnig nefnir hann dæmi um, að stuðningur við Bush sé ávísun á gott gengi og frama á ritstjórnarskrifstofum fjölmiðla. Pólitískt siðleysi í fjölmiðlum á svo þátt í vanþroska bandarískra kjósenda.

Brjálaðir Menn

Punktar

Ný skýrsla frá British Museum staðfestir, að bandaríski herinn hefur valdið óbætanlegu tjóni á fornleifum í Babýlon í Mesópótamíu. Þrátt fyrir aðvaranir settu þeir þar upp óþarfa herstöð með stæðum fyrir þungavopn og þyrlupöllum. Babýlon var ein elzta menningarborg sögunnar, krossgötur ótal menningarheima. Framferði Bandaríkjamanna er árás á heiminn eins og það væri árás á Ísland, ef þeir gerðu Þingvöll að herstöð, sprengdu þar kletta, settu upp sandhauga, bílaplön og þyrlupalla. Bandaríkjamenn eru hamslausir gagnvart erlendum þjóðum, menningu og sögu.

Víðförul trú

Punktar

Timbuktu í Sahara er í nútímanum frægust fyrir áningar í eyðimerkurralli, en er sögufræg borg fyrir samskipti milli menningarheima um aldabil, á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Nú hafa kristilegir fræðimenn fundið út, að Timbuktu sé miðja kristninnar, ef endimörk hennar eru talin vera íshöfin og Kyrrahaf. Jafnmargir kristnir menn búa sunnan við borgina og norðan við hana, vestan við hana og austan við hana. Þannig hefur kristni breiðst út frá uppruna sínum í Jerúsalem, Miklagarði og Róm. Spurning er, hvort þetta sé enn sama trúin, þegar ólíkir menningarheimar stunda hana.

Fúlsað við fiski?

Punktar

Bandaríski prófessorinn Jared Diamond hefur gefið út bók, “Collapse: How Societies Choose to Fail or Survive”, þar sem hann heldur fram, að Grænlendingar hinir fornu hafi dáið út, af því að þeir voru svo hortugir, að þeir vildu ekki borða fisk, hafi heldur viljað éta hundana sína. Guardian er svo hrifið af kenningu hans, að blaðið tók hana upp í leiðara á laugardaginn. Ekki veit ég, hvar hinn verðlaunaði prófessor hefur fundið heimildir sínar, en vitað er, að Íslendingar á þeim tíma veiddu fisk og átu. Hafa má kenninguna að dæmi um, oft eru búnar til hátimbraðar kenningar á mjóum þvengjum.

Austur-Indíafélagið

Veitingar

Ekta etnísk Asía
****

Austur-Indíafélagið við hlið Regnbogans í Hverfisgötu er undantekning frá reglunni, ekta veitingahús með etnísku sniði. Þú finnur það strax og þú pantar grillað poppadum-hrökkbrauð og raita-jógúrt grænmetiskryddaða meðan þú hyggst skoða matseðilinn. Það er eins og að vera kominn á gott indverskt veitingahús í London eða Dehli. Hér er sérstaklega gott að slaka á og láta sér líða vel. Slíka tilfinningu færðu ekki á öðrum asískum stað í Reykjavík.

Staðurinn hefur lækkað í verði, kominn í verð ítalskra staða í Reykjavík. Forréttir kosta að meðaltali 1300 krónur og aðalréttir 2300 krónur, sem hlýtur hér að teljast frambærilegt. Hann er líka orðinn einfaldari og kaldari en áður. Loftslæður eru horfnar, svo og gluggatjöld, kannski eru þau í hreinsun. Í stað glerplatna á borðum er nú kominn fallegur harðviður. Nýlegir tágastólar eru þægilegir. Pappírsþurrkur eru svo þykkar, að þær minna á tau.

Þjónusta er indversk og fín, líður áfram í notalegheitum. Hún færir þér hefðbundinn tandúrí jógúrtkryddaðan kjúkling, kryddleginn í koríander, kúmeni og garam masala kryddblöndu, sem einnig er búin til úr koríander og kúmeni. Kjúklingurinn kom á borðið snarkandi heitur á pönnu úr leirofni, hálfur kjúklingur, aðeins meira eldaður en þörf krefur, ekki farinn að þorna enn. Þetta er algengasti réttur indverskra veitingahúsa í London.

Með honum er fínt að borða ofnsteiktar nan-flatkökur, afar mjúkar. Ennfremur pulau-hrísgjrón krydduð með grænmeti og kryddjurtum, snöggtum betri en hvítu hrísgrjón asísku staðanna. Pulau er nokkuð, sem fólk pantar sjálfkrafa á svona stað, rétt eins og nan, poppadum og raita, einkennistákn indverskrar matreiðslu, eins og við þekkjum hana á Vesturlöndum. Hafa verður þó í huga, að Indland er nánast heimsálfa með ótal tilbrigðum í matreiðslu.

Fiskur er ekki á boðstólum, utan lax. Flestir réttirnir eru úr kjúklingi, sem hentar norður-indverskri matreiðslu vel. Einnig eru nokkrir lambakjöts- og grænmetisréttir. Allt er þetta mismunandi sterkt, yfirleitt bakað í indverskum leirofni. Kjúkling má til dæmis fá kryddaðan með chili, engifer, hvítlauk, bukksmára og fenniku, eða þá með lauki, kókos, sinnepsfræjum og chili. Allt fremur spennandi og lystugar útgáfur, sem gaman er að prófa.

Jónas Kristjánsson

DV

Hobbitinn

Punktar

Risin er vísindadeila um, hvort beinafundur á eyjunni Flores við Indónesíu sýni, að til skamms tíma hafi lifað sérstakt mannkyn smávaxið og nokkuð loðið, eins konar Hobbitar, svo sem 125 sm á hæðina. Ástralskir vísindamenn, sem fundu beinin, halda því fram, en sumir aðrir fræðimenn telja, að einungis hafi verið um að ræða erfðabreytta einstaklinga, en ekki samfélag hobbita. Grein um þetta efni birtist fyrst í Nature, en hefur síðan ómað í fjölmiðlum erlendis. Meira að segja hefur verið spáð í, að hobbitar séu enn á lífi langt inni í frumskóginum á Flores og á öðrum eyjum Indónesíu.

Þeir borga ekki

Punktar

Argentína hefur gefið langt nef ofsækjendum sínum í Alþjóða
gjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum, öðru nafni Chicago-skólanum og Washington-samkomulaginu. Argentína býður 25% greiðslur til lánardrottna eða þeir fái ekkert. Svo virðist sem ríkisstjórn Néstor Kirchner komist upp með þetta, enda neitar hún öllum samningaviðræðum við lánardrottna. Eftir hörmulegar afleiðingar af stefnu bankanna í Rússlandi og víða um Asíu og rómönsku Ameríku hefur komið í ljós, að þau ríki ein græddu, sem höfnuðu skipunum bankanna tveggja, svo sem Indland og Kína. Því eru bankarnir siðferðileg þrotabú.

Alþjóðadómstóllinn

Punktar

Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur verið leystur af hólmi af nýjum dómstólum í milliríkjamálum, sem ekki liggja undir því fargi letinnar, sem einkennir stofnanir Sameinuðu þjóðanna. Þessi dómstóll tekur fyrir 50 mál á ári, sama fjölda og fyrr á árum og áratugum. En áratugs gömul Heimsviðskiptastofnun hefur tekið fyrir nokkur hundruð mál og hálfrar aldar Evrópudómstóll hefur tekið fyrir þúsundir mála. Hluti af vandanum felst líka í, að Alþjóðadómstólnum er ekki treyst, dómarar hafa reynzt háðir föðurlandi sínu og dómarar frá alræðísríkjum hafa reynzt hallir undir alræðisstefnur.

Síðasta klukkustundin

Greinar

Helmings líkur eru sagðar á, að börn, sem fæðast á næstu árum, verði vitni að endalokum mannkyns eins og við þekkjum það. Þekktasti stjörnufræðingur Bretlands, sir Martin Rees við Cambridge-háskóla, telur, að þessar séu horfurnar á tilvist nútíma siðmenningar um næstu aldamót, eftir 95 ár.

Í bókinni Our Final Hour er Rees hvorki að tala um hættu á kjarnorkustríði né hættu á árekstri loftsteins við jörðina. Hann er bara að tala um vísindi og vísindamenn, hættuna á að fikt við erfðaefni muni leiða af sér breytingar, sem menn missi tökin á, leiði til dæmis til ógnvekjandi farsótta.

Sitt sýnist hverjum um skoðanir Rees, en enginn efast um, að hann er einn þekktasti fræðimaður heims á sviði svarthola í geimnum. Hann segir, að tímabært sé að fara að gera sér ekki bara grein fyrir möguleikum á sviði yztu vísinda, heldur einnig hættum, sem fylgja því að leika guð yfir jörðinni.

Rees varð allt í einu þungamiðja í deilum fræðimanna um stöðu þeirra í tilverunni. Annars vegar eru hinir bjartsýnu arftakar upplýsingaaldar, sem segja: Því meiri þekking, þeim mun betra. Hins vegar eru hinir svartsýnu, sem segja, að kominn sé tími til að meta áhættuna og setja hömlur á fót.

Þetta varðar ýmsa hluti, sem verið er að gera um þessar mundir. Erfðabreytt matvæli eru komin til sögunnar við mikla hrifningu fólks í Bandaríkjunum og miklar efasemdir fólks í Vestur-Evrópu. Það er orðið að heimspólitísku deilumáli, hvernig selja megi erfðabreytt matvæli í Evrópusambandinu.

Bandaríkjamenn telja, að Evrópusambandið sé að reyna að verja landbúnaðinn heima fyrir með því að setja hömlur á innflutning á afurðum bandarísks landbúnaðar. Hið sanna er, að Evrópumenn eru svartsýnni en Bandaríkjamenn og miklu líklegri til að setja upp varnagla gegn róttækum nýjungum.

Þegar kúariðan hafði hrist upp í Bretum fyrir nokkrum árum, ætlaði landbúnaðarráðherrann að lægja öldurnar með því að gefa dóttur sinni erfðabreyttan hamborgara í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þetta fór á öfugan veg, æsingurinn varð svo mikill, að ráðherrann varð að segja af sér.

Tveir þriðju hlutar Evrópubúa eru andvígir erfðabreyttum matvælum og neita algerlega að kaupa þau. Aðeins hér á Íslandi leika þau lausum hala. Aðeins hér á Íslandi eru stundaðar erfðabreytingar á korni. Við erum greinilega bandaríkjamegin í afstöðu til kosta og galla yztu vísinda.

Í Evrópu telja menn alls ekki gefið, að meiri og meiri vísindi feli endalaust í sér framþróun. Þar telja margir, að einhvern tíma fari mannkynið sér að voða við að leika guð.

Jónas Kristjánsson

Vefauglýsingar

Punktar

Árum saman hafa vefauglýsingar verið í skammarkróknum. Eftir miklar væntingar í upphafi netvæðingar heimsins fóru margir flatt í tilraunum til að græða peninga á vefauglýsingum. Þær komust aldrei á flug, hvorki banners né pop-ups. Fyrirtæki héldu áfram að auglýsa í blöðum og sjónvarpi. Nú er loksins komið merki um, að vefauglýsingar séu að vakna til lífsins. Auglýsingastofur erlendis spá, að á þessu ári muni auglýsingar aukast um 5% í heiminum og að vefauglýsingar muni aukast um 22%. Þær verða þó enn um sinn sáralítið brot af heildarmarkaðinum, en er þó vaknaðar til lífsins.

Pyndingarnar

Punktar

Umræðan um pyndingar í Bandaríkjunum er dálítið sér á parti, enda hafa stjórnvöld þar sagt skilið við vestrænt siðferði. Menn tala minna um siðferði og meira um hagkvæmni. Óvinir pyndinga segja, að rannsóknir og skoðanir sérfræðinga bendi til, að marklitlar séu upplýsingar, sem fást með þessum hætti. Leiddir eru fram gamlir sérfræðingar í yfirheyrslum, sem lýsa frati á pyndingar sem aðferðafræði. Sagnfræðin bendir til hins sama, Frökkum komu pyndingar í Alsír ekki að gagni og þeir töpuðu stríðinu. Það er dæmigert fyrir ógæfu Bandaríkjanna, að svona umræða skuli þurfa að fara fram.

Hestarútur

Punktar

Nokkur fyrirtæki reka óvenjulegar rútuferðir á hverju sumri, einkum um hálendið. Það eru fyrirtæki á borð við Íshesta og Eldhesta, Hestasport og Pólarhesta, svo og staðbundnari fyrirtæki, sem eru að fara um landið með útlendinga á hestbaki í heilar viku ferðir. Sums staðar eru þau með vikulegar áætlanir. Á vinsælustu leiðunum, svo sem á Kili, má stundum sjá nokkrar slíkar hestarútuferðir á sama degi. Þetta er að verða meiriháttar atvinnuvegur utan um lífsstíl hirðingjans, sem heimamenn vita lítið um.