Birt í fræðiritum

Punktar

Kári Stefánsson og deCode Genetics eru komin áleiðis í vísindum. Ritgerðir á vegum fyrirtækisins eru farnar að birtast í Science og Nature Genetics. Þar hafa þær farið gegnum síu fræðimanna til að dæmast birtingarhæfar. Fyrr á árum hélt Kári bara blaðamannafundi með fáfróðum blaðamönnum og kynnti þeim frábærar uppgötvanir, sem ekki héldu vatni. Allir geta haldið fundi með fáfróðum og talað tungum. Nú er fyrirtækið komið í alvörumál og hægt að fara að taka mark á því. Keppninautur Kára, David Altshuler, segist í New York Times taka ofan hattinn fyrir deCode. Það er ánægjuleg nýbreytni.

Niðurlæging Naustsins

Veitingar

Ég sé eftir kýraugunum á Naustinu, þótt þau hafi ekki verið upprunaleg. Fyrir mér er þetta mannvirki Naustið, þar sem Sveinn Kjarval hannaði eftirlíkingu skips. Fyrir hálfri öld var þetta eina nothæfa veitingahúsið í borginni. Það bauð upp á körfukjúkling; bylting í matargerð, skyndibiti á lúxusverði fyrir nýríka blaðamenn. Það var fyrir daga þorramatar. Og þar var langbezti barinn í bænum. Langt er síðan þessi fortíð hvarf. Fyrir mörgum árum var byrjað að stúta innréttingu Sveins Kjarval. Brotthvarf kýraugnanna er lokapunktur langvinnrar niðurlægingar gamals húss.

Borgabækur á vefnum

Punktar

Árin 1981-1996 skrifaði ég vinsælar leiðsögubækur um erlendar stórborgir. Komu sumar út í nokkrum útgáfum og prentunum. Ég fjallaði um borginar Kaupmannahöfn, London, Amsterdam, París, New York, Madrid, Róm, Dublin og Feneyjar. Ég vantreysti mér til að skrifa slíkar bækur eftir 1996, því að það er bara fyrir unga menn að þeytast út um allar trissur og sofa eina nótt á hverju hóteli. Bækurnar hafa verið uppseldar lengi. Nú er hægt að nálgast þær, allar nema París, á www.jonas.is. Þú slærð bara nafn borgar í leitarreitinn og þá eiga bókarkaflarnir að koma upp í lista. Góða skemmtun.

Erfið aðlögun nýbúa

Punktar

H.D.S. Greenway ræðir í Boston Globe um tvær nýbúastefnur í Evrópu. Önnur sé brezk og hin frönsk. Bretar vilji fjölmenningarríki og Frakkar vilji, að nýbúar verði franskir. Báðar leiðirnar hafi mistekizt. Hópar nýbúa hafi lent í útistöðum við samfélagsið. Einkum hafi róttækar stefnur í heimi múslima laskað sambúðina. Svo sé komið, að þriðja kynslóð múslima hafni vestrænu samfélagi. Hvorugt ríkið hefur vandað sig nógu vel við að taka á móti nýbúum. Það gildir einnig um önnur ríki í Evrópu, hvort sem þau hafa farið brezku eða frönsku leiðina. Rétt leið aðlögunar hefur ekki fundizt.

Hart féll Jónína

Punktar

Fall Jónínu Bjartmarz var hart og hún dró Bjarna Benediktsson með sér í fallinu. Öllum utan Framsóknar er ljóst, að væntanleg tengdadóttir Jónínu fékk fyrirgreiðslu, sem aðrir nýbúar fá ekki. Umsókn Jónínu var afgreidd á tíu dögum eftir fimmtán mánaða dvöl. Aðrir fá afgreiðslu eftir mánuði, þegar þeir hafa verið árum saman í landinu. Pólitísk fyrirgreiðsla og spilling, dæmigerð Framsókn, rotin í gegn. Öllum er það ljóst. Samt kjósa málsaðilar að rífa kjaft. Jónína er þar háværust, en einnig freyðir þríeyki Bjarna í úrskurðarnefndinni. Það telur pólitíkusa mega hafa forgang.

Biðlistaþjóðin

Punktar

Hundruð aldraðra eru á biðlistum hjúkrunar. Hundruð barna eru á biðlistum geðdeilda. Hundruð hjartasjúkra eru á biðlistum hjartaþræðinga. Hundruð þroskaheftra barna eru á biðlistum greiningar. Hundruð geðfatlaðra eru á biðlistum húsnæðis. Hundruð sjúklinga eru á biðlistum liðskipta. Hundruð fatlaðra og öryrkja eru á ýmsum biðlistum. Á Landsspítalanum einum eru 3145 manns á biðlistum. Á höfuðborgarsvæðinu eru 1525 á biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði. Þetta er velsældin, sem ríkisstjórnin státar af. Hún hefur framleitt endalausa biðlista fyrir þá, sem minnst mega sín.

Ofbeldi tölvuleikja

Punktar

Ofbeldisleikir í tölvum auka ofbeldi barna og unglinga. Þeir hafa ekki slæm áhrif á öll börn, sem stunda þessa leiki. En tölfræðilegt samhengi ofbeldis og tölvuleikja er orðið ljóst. Börn, sem eru á kafi í ofbeldisleikjum, lenda meira en önnur börn í áflogum, rifrildi við kennara og sýna meiri reiði og andúð. Þau versna líka með tímanum. Þessara einkenna verður ekki vart hjá börnun, sem stunda ofbeldislausa tölvuleiki. Amanda Schaffer hjá Slate telur kennslugildi leikja vera mikið. Ofbeldi í leikjum kenni börnum að prófa ofbeldi og frekju til að stýra daglegu lífi.

Sextán ára kjósi

Punktar

Austurríkismenn eru að færa kosningaaldurinn niður í sextán ár fyrstir Evrópubúa. Það er rétt stefna. Fráleitt er að skattleggja ungt fólk án þess að réttindi fylgi á móti. Sextán ára fólk er látið borga skatta. Um leið á að leyfa því að kjósa, kaupa áfengi, keyra bíl og haga sér almennt á sama hátt og fullorðið fólk. Hins vegar þarf að bæta fræðslu unglinga um pólitík, áfengi, akstur, en það er önnur saga. Stytta þarf vandræðagang langvinnra unglingsára og gera fólk fullorðið á einum degi. Helzt á formlegan hátt með athöfn á borð við fermingu. Sextán ár eru fín tímamót.

Sarkozy sálgreindur

Punktar

William Pfaff segir í IHT, að Nicolas Sarkozy forsetaframbjóðandi í Frakklandi sé ekki gaullisti. Hann hafi ekki heldur sem efnahagsráðherra sýnt markaðshyggju, heldur stefnu ríkisafskipta. Hann sé ekki trúaður úr hófi. Sízt af öllu sé hann af grein nýja íhaldsins í Bandaríkjunum. Fyrst og fremst sé hann orkubolti og tækifærissinni, sem geri allt til að verða forseti. Þáttur í því sé að beita lögum og reglu gegn innflytjendum. Þar með hafi hann tekið atkvæði frá Le Pen. Pfaff segir hann hafa einfaldan smekk fyrir pólitík. Hún snúist um eigin velgengni. Ekki um hægri-vinstri.

Lærði af Bush og Reagan

Punktar

Þótt Sarkozy sé enginn Bush, hefur franski forsetaframbjóðandinn lært spuna af Reagan og Bush. Hann er innanbúðarmaður, ráðherra, sem þykist vera utangarðsmaður. Hann reynir að vera alþýðlegur og hafa áhuga á lágmenningu fremur en hámenningu. Hann kemur sér vel við fátæklinga, þótt hann stefni að skattfríðindum hátekjufólks. Eins og Reagan og Bush tókst svo vel. Undirstétt þjóðfélagsins kýs oft frambjóðendur yfirstéttar, einkum ef þeir lofa að halda uppi lögum og rétti og að halda útlendingum í skefjum. Þetta segir Serge Halimi í Guardian. Undirstéttin er auðvitað heimsk.

Fín kosningabarátta

Punktar

Óþarft er og ekki hægt að hleypa lífi í kosningabaráttuna. Hún er fín eins og hún er og segir okkur nóg um framboðið. Tekizt er á um mikilvæg mál, sem fólk tekur til sín. Munurinn innan fjórflokksins er greinilegur og hefur aldrei verið skýrari. Eini vandinn er hjá þáttastjórum, sem geta ekki æst frambjóðendur í spjalli um óendanlega röð hliðarmála, sem allir geispa yfir. Málið snýst um bláar og bleikar skoðanir, grænar og rauðar, svo og framsóknarsvartar. Menn segja ekki hug sinn í könnunum. Samt er allur þorri fólks þegar búinn að ákveða, hvaða liti hann vill og hvaða liti hann kýs.

Trúa spunakerlingum

Punktar

Áhrifavaldar á Vesturlöndum trúa spuna fyrirtækja betur en dagblöðum, samkvæmt rannsókn Edelmans. Niðurstöður fyrir Ísland voru birtar í Fréttablaðinu í gær. 57% trúa upplýsingum frá fyrirtækjum, en 42% trúa greinum í dagblöðum. Ekki er von, að vel fari í heiminum, þegar lygin er tekin fram yfir sannleikann. 66% trúa sjónvarpsfréttum, þótt ég hafi hvergi séð líkur þess, að sjónvarp sé sannari fréttamiðill en dagblöð. Raunar eru flestar fréttir, sem máli skipta, upprunnar í dagblöðum. Samkvæmt Edelman eru vestrænir “áhrifavaldar” illa upplýstir. Það skýrir margt.

Dýrustu buxur heims

Punktar

Roy Pearson dómari í Washington í Bandaríkjunum hefur kært fatahreinsun í borginni fyrir að týna fyrir sér buxum. Hann heimtar 67 milljónir dollara í skaðabætur. Það eru yfir fjórir milljarðar króna. Hann telur sig hafa orðið fyrir sálrænu tjóni og óþægindum vegna buxnamissis. Hann hafi ekki getað mætt í vinnuna í uppáhaldsfötunum sínum. Hann hefur boðað 63 vitni í málinu. Hin kærða Chung-fjölskylda hefur varið hundruðum þúsunda króna í málsvörnina. Frá þessu segir á ABC. Þegar dómarar komast upp með að láta svona illa í Bandaríkjunum, er von, að lögfræðingarnir séu frekir.

Ekki nógu góð vinna

Punktar

Björn Bjarnason ráðherra vinnur heimavinnuna illa, þótt hann nenni að glugga í fortíðina. Hann telur mig hafa notað misjafna túlkun á orðinu fasismi. Björn gat þess ekki, að í síðara tilvikinu vitnaði ég í skoðun nafngreinds álitsgjafa, Naomi Wolf. En Björn getur áreiðanlega fundið rétt dæmi um misjafna túlkun mína á hugtökum. Allir, sem vilja finna misræmi hjá mér, geta fundið það í aldarþriðjungi af ritferli mínum, sem er sýnilegur á jonas.is. Þar má örugglega finna margfalt misræmi skoðana. Skoðanir eiga að hníga til og frá, þótt skoðanir Björns geri það aldrei.

Wolfowitz á réttum stað

Punktar

Paul Wolfowitz er tilvalinn leiðtogi Alþjóðabankans, segir Naomi Klein í Guardian. Bankinn heimtar, að þriðji heimurinn afnemi viðskiptahindranir, en ríku löndin gera það ekki. Bankinn rústaði fjárhag Rússlands á skammri stund. Með kröfu um, að allt yrði gefið frjálst í hvelli. Glæpaforingjar, svonefndir óligarkar, eignuðust allt. Bankinn krafðist, að Tanzanía afhenti einkafyrirtækjum ferskt vatn til að selja auralausum almúga. Bankinn rústar meira og hraðar en bandaríski herinn. Equador hefur rekið hann úr landinu og neitar að borga meira. Kjörinn vettvangur fyrir spilltan Wolfowitz.