Örmagna heimsveldi

Punktar

Ósigur Bandaríkjanna og Bretlands í Írak stöðvar frekari árásir þeirra á harðstjóra. Hugsjón íhlutunar í skítaríki, sem hófst til virðingar á Balkanskaga, hrundi aftur í Afganistan og Írak. Menn treysta sér ekki í slíkt eftir hrunið í Írak. Allir sjá, að ástandið þar var betra á tíma Saddam Hussein. Vesturveldin þora því ekki að ráðast á Súdan og frelsa Darfur-hérað. Hin skýringin á vangetunni er sú, að Bandaríkin standa ekki í skilum með greiðslur til friðargæzluliða í Darfur. Vanskil Bandaríkjanna nema einum milljarði dollara. Fjárhagslegt og hernaðarlegt vanhæfi í senn.

Valdshyggja magnast

Punktar

Slegið hefur í gamlar kenningar um, að lýðræði og markaðsbúskapur styðji hvort annað og fari saman. Dæmin um annað eru orðin mörg, ekki bara Malasía og Singapúr, heldur líka Kína og Venezúela og í seinni tíð einnig Rússland. Þar ríkir markaðsbúskapur með valdshyggju fremur en lýðræði. Fræðimenn, sem áður hömpuðu markaðsbúskap sem hinni hliðinni á lýðræði, hafa sumir snúið við blaðinu. Patricia Cohen skrifar um þetta fróðlega grein í New York Times og International Herald Tribune. Hún vitnar í Dahrendorf lávarð, Bruce Scott, Joseph Stiglitz, Michael Mandelbaum og Francis Fukuyama.

Gamlir fara og nýir koma

Punktar

Mér finnst ég vera meira lesinn á vefnum en ég var á prenti. Að minnsta kosti vita fleiri af því. Sumpart er þetta sama fólkið, en sumpart hafa gamlir kúnnar dottið út og nýir komið inn. Gamla fólkið notar ekki vefinn og unga fólkið notar ekki prentið. Skoðanir í leiðurum og kjöllurum á prenti verða smám saman úrelt fyrirbæri. Þær duga aðeins snillingum á borð við dr. Gunna og Davíð Þór, Guðberg og Erp. Allur þorri leiðara og greina í Mogganum er til dæmis ólæsilegur. Sama er auðvitað að segja um bloggið á vefnum. En gullmolunum þar fjölgar og þeir rotta sig saman á safnsíður.

Grænir fara flokkavillt

Punktar

Kommúnistum fækkar á Íslandi vikulega með eðlilegu brottfalli aldraðs fólks. Vinstri grænir sækja lítið fylgi þangað, en eiga þeim mun meiri möguleika á grænu fylgi. Þeir eru í samstarfi við hliðstæða flokka á Norðurlöndum. Málið vandast, þegar suður í álfuna kemur. Þar eru annars vegar grænir flokkar og hins vegar kommúnistaflokkar undir ýmsum felunöfnum. Vinstri grænir hafa kosið að heimsækja landsþing kommanna (Die Linke) í Þýzkalandi en ekki landsþing græningjana (Die Grünen). Ég held, að tímaskökk viðhorfin að baki þessa muni reynast vinstri grænum hættuleg.

Streita hjá Yahoo

Punktar

Styrjöld raunverulegu heimsveldanna harðnar. Forstjóri Yahoo, Terry Semel, varð að segja af sér um helgina, því að Google hefur valtað yfir Yahoo. Og sækir nú að Microsft með nýrri blöndu forrita með leit, skrifstofubúnaði, stýrikerfi og vafra. Því er beint gegn Windows, Office og Explorer. Nýi pakkinn er ókeypis og notar Open Office. Hann verður auðvitað veiru- og ormafrír, því að hann er ekki Windows. Google hefur lengi verið fremst í leit. Yahoo reyndi að andæfa með því að skipta inn Panama leitarbúnaði fyrir Overture. Það jók notkunina, en hún magnaðist enn meira hjá Google.

Þeir öfunda Kópavog

Punktar

Gunnar Birgisson svaraði fyrir sig í tveggja síðna viðtali í DV í gær. Þetta var svona Frankín Steiner viðtal, nema hvað Franklín otaði barninu sínu framan í myndavélina. Ég las það tvisvar og snara því hér með yfir á íslenzku: “Greinarnar um mig stafa af öfund í garð Kópavogs. Ég er firna góður, duglegur og siðprúður maður, þekki biskupinn. Mér er sama um gagnrýni, en fjölskylda mín þjáist.” Gunnar hefði mátt hugsa meira um hana, er hann kaus að hafa dólgslæti á oddinum í samskiptum við fólk, fyrirtæki og stofnanir. En hann sakar ekki sig, heldur tímarit, sem öfunda Kópavog.

Fyrirlestrar og samtöl

Punktar

Enn hef ég ekki opnað heimasíðuna fyrir viðbrögðum annarra. Samt á slíkt að vera þáttur í nýmiðluninni. Hún er sögð eiga að vera samtal frekar en fyrirlestur. Ég er hins vegar gamaldags. Hef aldrei séð neitt gagn í að lesa viðbrögð neðan við fréttir eða blogg. Ég er líka hræddur við, að menn setji þar inn orðbragð og leiðindi. Ég vil gjarna vera skammaður af fólki, sem ég tek mark á. Það fólk getur tekið mig í bakaríið á sínum heimasíðum. Nafnlaust fólk og leiðindatröll þoli ég hins vegar ekki. Því verður bið á, að ég breyti heimasíðunni úr gamaldags fyrirlestri í nýmóðins samtal.

Verktakaspillingin komin

Punktar

Árborg hefur breytt skipulagi, ætlar að taka lóð eignarnámi, rífa þar hús og reisa stórhýsi. Ekki hefur verið talað við eigandann. Yfirgangur hreppa er hinn sami í Árborg sem í Kópavogi eða Reykjavík, hvaða flokkar sem eru við völd. Athyglisvert er þó, að Framsókn er í stjórn á báðum stöðum. Í Bandaríkjunum er meira en helmingur allrar spillingar talinn tengjast sveitarstjórnum og skipulagsnefndum, sem makka við verktaka. Hér á landi virðast þessir opinberu aðilar í auknum mæli þjónusta verktaka, til dæmis í Örfirisey og við Mýrargötu. Ég tel, að ameríska spillingin sé komin.

Bullur í gapastokka

Punktar

Bullur úr Verzló kvarta í fjölmiðlum um aðbúð á Kanarí. Næturlífið er minna í Fuertevertura en þær héldu. Næturklúbbar loka klukkan tvö að morgni. Eftir þann tíma er ekki vinsælt á hótelum að sjá og heyra bullur vaða um með gargi og ælum. Við þurfum sérhótel, segja bullurnar. Svo illa létu þær, að herlögregla kom á vettvang. Það er fín landkynningin þarna í sólinni. Daginn eftir segir Blaðið, að bullur séu óhæfar í unglingavinnu, því að þær hóti stúlkum nauðgunum, gangi um með klámi og dónaskap í garð minnihluta. Er ekki hægt að stinga slíkum bullum í gapastokk? Til dæmis í Leifsstöð.

Smálúða sem pappi

Veitingar

Þegar fiskur er eldaður, verður hann allt í einu passlegur. Eftir það þornar hann bara og verður fljótt óætur. Þetta hafa lengi vitað fagmenn í stétt matreiðslumanna. Þess vegna er talað vel um matreiðslu hér á landi, enda vilja útlendingar borða fisk. Lengi hefur Potturinn og pannan í Nóatúni verið góður fiskistaður. Í gær lauk því tímabili. Ég fékk þurra smálúðu. Þurr smálúða bragðast eins og pappi. Þannig fer heimsins dýrð. Ég hef oft læðst inn á þennan túristavæna stað, en nú mun þeim ferðum fækka. Að borga 2.400 krónur fyrir að borða pappa er ekki mín sýn á himnaríki.

Skipulagðar hörmungar

Punktar

Mogginn rýndi bókina Confessions of an Economic Hit Man eftir John Perkins og var hrifinn. Bókin segir hörmungar þriðja heimsins ekki stafa af fávísri hagfræði Chicago-skólans. Heldur skipulagðar til að magna gróða Halliburton og fleiri risafyrirtækja, með aðstoð Alþjóðabankans og Gjaldeyrissjóðsins. Þetta er ekki ný bók, kom út fyrir tveimur árum, þá skömmuð fyrir skort á staðreyndum. Nú er svo komin út bókin A Game As Old As Empire eftir Perkins og annan mann, Steven Hiatt. Þar eru staðreyndirnar, sem skorti í þá fyrri. Sérfræðingar skrifa þar hver sinn kaflann. Írak var eyðilagt út á olíuna.

Kominn á Tíðarandann

Punktar

Loks er ég með RSS á blogginu mínu. Það gerir notendum kleift að beita fréttasafnara til að pikka upp mitt blogg með bloggi frá öðrum. Þykir sjálfsagt nú til dags. Það kemur mér líka inn á tidarandinn.is, þar sem safnað er ýmsu góðu bloggi, einkum pólitísku. Ég nota sjálfur bloggsafn Tíðarandans. Það er að því leyti betra en heimatilbúið safn, að það sér oft nýtt blogg, sem ég hafði ekki tekið eftir. En ég á enn eftir að bæta við plássi fyrir viðbrögð notenda. Ég hef efasemdir um nafnleysi og skítkast. Ég les ALDREI athugasemdir við blogg annarra. Er því enn að hugsa málið.

Óbreytt á heimsenda

Veitingar

Tilveran breytist ekkert. Fiskréttir veitingahússins í Hafnarfirði eru alltaf hæfilega og nærfærnislega eldaðir. Gott dæmi um það er rauðspretta, sem þolir ekki ofeldun. Svo er þetta ódýr staður, 2.400 krónur fiskréttur og 3.100 krónur með súpu með ís og kaffi til viðbótar. Það er náttúrlega vont að ferðast á heimsenda til að ná í góðan fisk. Samt geri ég það stundum, því að tæpast fer ég aleinn á Þrjá frakka. Þetta er þægilegur staður með óvenjulega þykkum pappírsþurrkum og öldruðum myndum á vegg. En kaffið á Tilverunni er því miður lapþunnt american, sér í botn með mjólk í.

Ónothæf siðareglunefnd

Fjölmiðlun

Sannleikurinn er lágt skrifaður í gömlum og úreltum siðareglum blaðamanna á Íslandi. Það er helzti munurinn á þeim reglum og erlendum reglum. Um leið er það helmingurinn af vandræðunum af völdum úrskurða siðareglunefndar. Hinn helmingur vandræðanna stafar af, að nefndin ber ekkert skynbragð á blaðamennsku og metur hana augum félagsfræðamenntaðra vandamálafræðinga. Úrskurður nefndarinnar gegn skúbbi Kastljóss um spillingu við veitingu ríkisborgararéttar er gott dæmi um þessa vandræðasúpu. Hún er hins vegar ekki ný af nálinnu. Siðareglunefndin hefur áratugum saman verið ónothæf.

Lygar í sjónvarpi

Punktar

Ríkisútvarpinu er ekki sæmandi að birta úthrópaðan áróðursþátt 4. rásar í Bretlandi gegn aðgerðum til björgunar andrúmsloftinu. Sjónvarpið kynnir þáttinn sem vísindalegan. Hann er það ekki. Þar koma fram nokkrir menn, sem eru á mála hjá mengunarfyrirtækjum og njóta einskis álits. Svo og menn, sem síðan hafa kvartað yfir, að skoðanir sínar hafi þarna verið mistsúlkaðar. Í umræðunni erlendis hefur þátturinn verið málefnalega tættur í spað í öllum smáatriðum. Kannski næsta skref ríkissjónvarpsins verði að sýna áróðursþátt um, að þróunarkenningin hafi verið afsönnuð hjá hvítasunnumönnum í Kansas.