Aflátsbréf seld

Punktar

Kaupsýslan á Íslandi er farin að kaupa sér ódýr aflátsbréf Kolviðar. Hann býður kolefnisjöfnun sem þægilega aðferð við að víkja frá sér samvizkubiti. Bílaumboð vilja fylgja tízkunni og þykjast vera græn. Bílar eru seldir með eins árs kolefnisjöfnun til að setja á þá græna slikju. Rangt er að kalla þetta jöfnun, því að það snýr aðeins að hluta af vanda bílanna. Raunveruleg jöfnun mundi felast í bílum, sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti. Greiðslur til skógræktar eru ágætar, en mega ekki koma í stað raunhæfra aðgerða til varnar vistkerfinu. Við þurfum að greina milli áróðurs og veruleika.

Stafræn frelsun

Fjölmiðlun

Ég ferðast um borg, land og heim með fartölvu á poka og farsíma, sem talar við vefinn. Í tölvunni eru 8.052 greinar, sem ég hef skrifað. Þar er skrá um 51.254 ræktunarhross, ættir þeirra og árangur. Þar eru hnit 695 reiðleiða frá fornum tíma og nýjum. Þar eru 12.195 skyggnur, sem fylgja 219 fyrirlestrum mínum um blaðamennsku. Og heilar bíómyndir, sem fylgja fyrirlestrum. Fyrirvaralaust flyt ég fyrirlestur um fyrirsagnir í fjölmiðlum, studdan dæmum úr dagblöðum. Hef ekki átt prentara í ár, það er fín bylting. Ég er ekki staðbundinn. Stafræna tæknin hefur frelsað mig.

Minna skakkur turn

Punktar

Feginn er ég, að verkfræðingum tókst að minnka hallann á Skakka turninum í Písa. Ég klifraði upp turninn fyrir nákvæmlega fjörutíu árum og mér er það enn í fersku minni. Þá fóru menn að vild í turninn, enda voru aðstandendur hans þá ekki orðnir hræddir um hrun. Í mörg ár hefur hann verið lokaður vegna hættu á hruni. Nú hefur hann verið pumpaður upp í hæfilegan og hættulausan halla. Farið er að hleypa ferðafólki upp í hann í hollum. Ef ég kem til Toskaníu á næstu árum, verð ég samt að sætta mig við að horfa á turninn neðan frá. Stigagangar eru ekki lengur í uppáhaldi hjá mér.

Einlægur lygari

Punktar

Ég hef gleymt að skrifa minningargrein um Tony Blair. Hér kemur hún. Hann var því einlægari á svipinn, sem hann laug meira. Ríkisstjórn hans snerist um almannatengsl. Hann hafði hirð kringum sig til að pakka inn pólitík, spinna vefi og ljúga að fólki. Því meira sem hann þráði ást þjóðarinnar og heimsins, þeim mun meira var hann hataður af öllum. Óeinlægni hans var svo augljós, að fólki hryllti við. Síðast var hann í illa launuðu hlutvrki smalahunds hjá George W. Bush. Það lýsir frati á Palestínumenn að gera skúrkinn að sendiherra fyrir kvartett stórveldanna í Palestínudeilunni.

Fjórir trúflokkar

Punktar

Margir Íslendingar trúa á æðri mátt. Enn fleiri trúa til viðbótar á mátt bænarinnar. Hvorugt dugir til að teljast kristinn. Þeir teljast kristnir, sem trúa á trúarjátninguna. Þar er minnst á nokkur atriði úr ævi Krists og guðleg tengsl hans. Svo og upprisu og eilíft líf. Kirkjan er sögð heilög. Í trúarjátningunni er ekkert minnst á biblíuna og þá auðvitað ekki á neinar spásagnir. Kristnir teljast tæpast róttækir söfnuðir, sem trúa bókstaflega á biblíuna og spádóma, sem þeir segjast finna þar. Þar safnast ofsafólk, sem þekkist í öllum trúarbrögðum og veldur mestum vandræðum um heim allan.

Peningalyktin farin

Punktar

Ég mætti ekki bíl á þjóðleiðinni milli Kópaskers og Raufarhafnar. Ég var einn í heiminum. Á stangli sá ég yfirgefin bæjarhús og engar kindur. Ég fór fram og aftur um Raufarhöfn áður en ég fann vel falda benzínstöð, sjálfsafgreiðslu. Búðin var líka vandfundin, en var þó opin á sunnudegi og bauð tveggja daga gamalt Fréttablað. Eina konu sá ég á gangi. Að öðru leyti minnti þetta á dauðan gullgrafarabæ. Eina blokk sá ég, að mestu leyti auða. Að hætti norðursýslunnar eru húshorn í sérlit. Í Öxarfirði eru þau dökk, en á Melrakkasléttu eru þau ljós. Hér fannst ekki lengur nein peningalykt.

Rasismi og stóriðja

Punktar

Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að banna innflutning á Búlgörum og Rúmenum. Fyrir kosningar höfðu flokkar hennar skammað þriðja flokkinn fyrir rasisma. Þannig er hræsnin á Íslandi í dag. Fyrir kosningar lofaði Samfylkingin, að frekari stóriðja yrði fryst í fjögur ár meðan málið yrði skoðað. Eftir kosningar er stóriðja á fullu og ekkert stopp. Samfylkingin notar eftir kosningar sömu rök og Framsókn notaði fyrir kosningar. Að þetta sé ekki mál ríkis, heldur sveitarfélaga. Þeim er auðvelt að múta. Þannig er Íslandi í dag. Samfylkingin framkvæmir stefnu forsmáðrar Framsóknar.

Dýr þjónusta er góð

Punktar

Fínt er, að útlendingar telja Ísland vera dýrt. Við þurfum ekki nema brotabrot af öllum ferðamönnum heims. Fólk á að vera viðbúið háu verði. Í gamla daga var ferðaþjónustan sökuð um að greiða hærra kaup en tíðkaðist í öðrum löndum. En ég sé engan tilgang með ferðaþjónustu, sem hefur að markmiði að borga skítakaup. Ástæðulaust er að hvetja til eflingar atvinnugreinar nema að hún veiti gott lifibrauð. Við skulum því láta af harmagráti út af háu verði á þjónustu. Annað mál er með matinn. Of hátt verð á honum stafar af landbúnaðarstefnu, sem skaðar lífskjör okkar.

Bubbi vitnaði

Punktar

Ég sá Bubba á Omega og varð ekki hissa. Hann er áhrifamesti lýðskrumari landsins og endar líklega sem predikari á Krossinum. Talaði þarna eins og bókstafstrúarmaður og potaði í biblíuna, þekktasta ofbeldis- og kynórarit allra tíma. Mér finnst þetta vel við hæfi. Íslendingar lenda óhjákvæmilega í iðu bókstafs- og spádómstrúar, sem sækir að kristni trúarjátningarinnar. Við þurfum að gæta okkur á þrætubókarsöfnuðum frá Bandaríkjunum. Vegna meintra spádóma styðja þeir hryðjuvrkastefnu Ísraels. Einnig segja þeir verndun lífríkis óþarfa, því að biblían hafi spáð heimsendi eftir örfá ár.

Séra Jón og bókstafurinn

Punktar

Séra Jón Þorvarðarson fermdi mig. Hann fylgdi trúarjátningunni, var laus við bókstafstrú og trú á spádóma. Hann sagði, að enginn ágreiningur væri milli kristni og vísinda. Kirkjan væri sátt við þróunarkenninguna. Orðalag biblíunnar væri fremur táknrænt en innblásið. Hann var ólíkur róttæklingum, sem fara hamförum á Omega. Þeir stunda þrætubók í túlkunum á biblíunni, trúa á heimsenda í nánd og þykjast vita, hvernig hann gerist. Minn prestur hefði ekki samþykkt hina sérstæðu og langsóttu útgáfu Omega af kristni. Mér sýnist hún jafngilda gyðingatrú og íslam í spádómum, ofsa og þrætubók.

Reki hleðst upp

Punktar

Reki hleðst í fjörur á Ströndum og Melrakkasléttu. Enginn hirðir lengur um stórviði. Enginn byggir lengur stórhýsi úr rekavið eins og á Grjótnesi á Sléttu. Fáir kljúfa viði niður í staura, því að betri staurar fást á hundraðkall í búð. Rekinn safnast bara upp. Fólkið er að mestu flutt eftir björginni á mölina og bæirnir standa eftir sem sumarhús fjölskyldna og ætta. Þær geta ekki nýtt rekann. Á landnámsöld voru flest hús á landinu smíðuð úr rekavið. Þá voru strendur Dumbshafs með mikilvægustu hlunnindum landsins. Og smám saman verður ströndin eins og hún var við landnám.

Lýðskrum pólitíkusa

Punktar

Sumir álitsgjafar eiga erfitt með að fjalla efnislega um minni fiskistofna og þrengri veiðiheimildir. Þeir kjósa fremur að þyrla upp ryki. Með því að tala um vont kvótakerfi, vonda Hafrannsóknastofnun og vondan stað hennar í ríkisgeiranum. Ekki stækka fiskistofnar, þótt tekið verði upp færeyskt kerfi, hætt að taka mark á Hafró eða hún flutt í annað ráðuneyti. Hugmyndir Einars Odds Kristjánssonar, Sturlu Böðvarssonar og Össurar Skarphéðinssonar fjölga ekki fiski í sjó. Vandinn er einfaldur, við veiðum of mikið. Við þurfum ekki meira lýðskrum. Lausnin er einföld, við drögum úr útgerðinni.

Frumskógur þá og nú

Punktar

Kjalarnes var frumskógur við landnám. Forfeðurnir gátu ekki komizt ferða sinna milli bæja fyrr en þeir höfðu rutt einstigi um skóginn. Samkvæmt fornsögum týndust húsdýr þeirra inn í frumskóginn og fundust ekki aftur. Þá hefur verið logn í skjóli trjánna. Með stækkun Reykjavíkur munu hús veita skjól, tré vaxa að nýju og vindar kyrrast. Aftur er komin umferðarteppa á nesið. Á sunnudaginn siluðust menn á gönguhraða um frumskóg bíla rétt eins og hinir fornu Kjalnesingar í skóginum. Meðan grafin eru veggöng í fáförnum óbyggðum hafa samgönguæðar höfuðborgarinnar stíflast án sérstaks tilefnis.

Stíflaður Mosó

Punktar

Hvalfjarðargöngin voru ekki stíflan í umferðinni á sunnudaginn. Það var samgöngukerfið í Mosfellsbæ, sem stóð ekki undir hlutverki sínu. Halinn af vandanum náði inn í göngin, svo að nokkrum sinnum þurfti að stöðva umferð um þau. Öngþveitið í Mosfellsbæ sýnir okkur, að sundabraut er orðin brýn. Hún er enn á stigi kjaftavaðals, en framkvæmdir þurfa að hefjast strax. Við þurfum að ná viðstöðulausum vegi frá Kjalarnesi um Álfsnes, Geldinganes og Elliðaárvog í borgina. Ekki í hverjum áfanga á fætur öðrum, heldur samhliða. Það er brýnna en göng í Héðinsfirði, Vaðlaheiði og Mjóafirði.

Matreiðsla í Öxnadal

Veitingar

Halastjarnan er matreiðsluvin í eyðimörkinni. Undir þekktasta fjallvegi landsins kúrir hún á bænum Hóli í Öxnadal. Ótrúlegur staður fyrir nýklassískt eldhús. Þar eldar Guðveig Eyglóardóttir með kryddi úr hólunum við bæinn. Um daginn fékk ég hráan lax næfurþunnan, risarækjur á saltfiskstöppu, bláskel í súpu, kola með sætukartöflum, tiramisu. Eftir fjögurra tíma akstur úr Reykjavík er Halastjarnan réttur áningarstaður. Enda reyni ég að haga brottferð úr borginni þannig, að ég sé á matmálstíma í Öxnadalsheiði. Annað eins musteri er hvergi utan höfuðborgarinnar.