Heimsborgarbragurinn

Punktar

Ég hef ekkert að gera, fyrirlestrar vetrarins tilbúnir, hestarnir komnir í þjálfun og stóra ferðin byrjar um helgina. Rölti þess vegna eins og túristi um miðborgina í góða veðrinu. Tók eftir, að þar voru ekki bara túristar. Þriðji hver maður var Íslendingur. Það voru hundruð, sennilega þúsundir heimamanna að gera ekki neitt í bænum. Mér fannst það skrítið, hafandi puðað í áratugi, minnti mig á menntaskólaárin. En þá var bara eitt Mokka, núna er miðborgin ein samfelld heimsborg. Mér finnst gott, að fjöldi manna hafi ekkert þarfara að gera en að rölta eða sitja í miðri heimsborginni.

Yfirgangur löggunnar

Punktar

Af fréttum er ljóst, að löggan telur, að leyfi þurfi fyrir mótmælum. Og að löggan geti ákveðið, hvaða götur séu notaðar til mótmæla. Ennfremur að hún geti ákveðið, að mótmælin séu utan sjóndeildarhrings kínverskra glæpona. Af sömu fréttum er ljóst, að fjölmiðlungar, t.d. Morgunblaðsins, trúa þessu bókstaflega. “Engin leyfi hafa hinsvegar fengist fyrir mótmælunum,” segir mbl.is. Rétt er að minna á, að mótmæli eru lögleg í sjálfu sér og þurfa ekki að vera skipulögð af löggum. Hún hefur um nokkurt árabil reynt að koma því inn hjá fólki, að skipulagning mótmæla sé í hennar verkahring.

Ritstjórinn og borgarstjórinn

Punktar

Boris Johnson er ritstjórinn, sem eyðilagði The Spectator 1999-2005. Ég las þá stundum blaðið í flugi og þótti það lélegt. Rökhyggja var lítil. Eins og leikskóli fyrir verðandi frjálshyggjumenn. Boris þroskaðist aldrei upp úr Eton. Nú er hann kominn á þing og hyggst verða borgarstjóri í London. Þar er fyrir Ken Livingstone, sem frægur er af óhlýðni við Verkamannaflokkinn. Ken tókst það, sem enginn annar hefði þorað. Að draga úr umferðarþunga í borginni með aðgangseyri á ökumenn. Ken er einn merkasti borgarstjóri í heimi. Mesta hirðfíflið úr stétt ritstjóra mun ekki velta honum úr sessi.

Eymd Íslands í Evrópu

Punktar

Egill Helgason skrifaði í gær ágæta grein á vefinn um aðild Íslands að Evrópu. Greinin er rökfastari og markvissari en allt, sem ég hef séð á prenti um málið. Ísland býr við sama hagkerfi og samfélag og Norðurlönd. Það hefur að mestu tekið upp reglugerðir sambandsins. Þarf að vísu að laga hagstjórnina, draga úr sveiflum. Evruna þurfum við að taka upp sem allra fyrst. Svo er fásinna að halda, að samið verði um aðgang erlendra flota að íslenzkum fiski. Það verður eina umræðuefni okkar á samningafundum, eina sérþörfin. Að vera enn utangerðs er til marks um eymd íslenzkra stjórnmála.

Lúkas og fjölmiðlarnir

Punktar

Hvað gerðist á fylleríshátíð Akureyringa? Var hundi sparkað þar í poka milli bjána? Var hundurinn Lúkas í pokanum? Hefur hann eða draugur hans sézt uppi í Hlíðarfjalli? Var fjarstaddur piltur hafður fyrir rangri sök í bloggheimum? Hvað gerðist í raun? Hefðbundnum fjölmiðlum ber að sýna yfirburði yfir bloggheima með því að segja okkur hvað gerðist. Það hefur þeim ekki tekizt. Þeir þegja þunnu hljóði, rannsaka ekkert, tina af elli. Þeir hafa yfirgefið frumburðarréttinn og gefið vígvöllinn eftir nafnlausum bloggurum. Mæðraland er voldugra en samanlagðir hefðbundnu fjölmiðlarnir.

Munur Jóns og séra Jóns

Punktar

Hinn spillti Bjarni Benediktsson þingmaður getur auðveldlega kallað saman fund í allsherjarnefnd Alþingis strax í dag. Hann getur látið nefndina bjarga ríkisborgararétti í hvelli fyrir Alejöndru frá El Salvador. En gerir það ekki, því að afi og amma hennar eru bara Ísfirðingar, ekki ráðherrar. Enga stund tók hann að redda ríkisborgararétti fyrir verðandi tengdadóttur hinnar gerspilltu Jónínu Bjartmarz, sem þá var ráðherra. Ekki tók heldur nokkra stund að redda rétti fyrir Bobby Fishcer. En af og frá er, að Bjarni Benediktsson lyfti litla fingri gegn okkar fasistísku Útlendingastofnun.

Fjallasýn í stað fjallasýnar

Punktar

Ég hef misst fjallasýn og fengið Fjallasýn. Bezta fjallasýn landsins hefur lengi verið úr stofuglugganum. Þangað til í fyrradag. Þá lagði Fjallasýn Rúnar Óskarsson ehf. rútu sinni fyrir utan. Þegar ég gekk með tebollann út að glugganum til að skoða fjallasýnina, blasti við mér orðið Fjallasýn. Ég hélt, að þarna væri seldur aðgangur að fjallasýn. En svo var ekki, bíllinn stóð bara læstur. Ég vona svo sannarlega, að fyrirtækið Fjallasýn finni bílastæði heima í Reykjahverfi. En þar er víst engin fjallasýn. Ég skil því vel, að Rúnar þurfi að koma suður að leita að fjallasýn heima hjá mér.

Ísland er á réttri leið

Punktar

Íslandi vegnar vel í nýjum samanburði ríkja. Þar er meira tillit tekið til hamingju fólks en hinnar villandi landsframleiðslu (GDP). Hún endurspeglar ekki hamingju, heldur margvíslegan óþarfa. Ísland er í öðru sæti á Human Developement Index hjá Sameinuðu þjóðunum. Það er í fyrsta sæti á European Happy Planet Index hjá New Economics Foundation, þar sem landsframleiðslu er alveg sleppt. Áberandi er þar, að engilsaxnesk ríki, svo sem Bretland, fara illa út úr mælingu, en Norðurlöndin og Frakkland vel. Áður hefur komið fram, að heilbrigðisþjónusta Frakklands og Norðurlanda er bezt í heiminum.

Velferðin skiptir máli

Punktar

Menn horfa ekki lengur upp til Bandaríkjanna sem forusturíkis í þróun mannkyns. Mælingar sýna, að fólki líður betur í öðrum ríkum löndum. Einkum í þeim, sem kunna að flétta saman markaðsbúskap og velferð. Það kunna Norðurlönd og Frakkland, sumpart Þýzkaland, en alls ekki Bandaríkin og Bretland. Velferð almennings hefur drabbast niður í tveimur síðastnefndu ríkjunum, en eflzt í hinum fyrrnefndu. Nýr mælikvarði á velgengni ríkja, European Happy Planet Incex, setur Norðurlöndin öll í efstu sæti. Og í hópi Norðurlandanna trónir Ísland efst. Við höfum ekki gleymt velferðinni.

Tvenns konar mælikvarðar

Punktar

Sameinuðu þjóðirnar nota þrjá þætti til að meta þroska ríkja: 1) Ævilíkur fólks við fæðingu, 2) menntun þess á ýmsum stigum skólakerfisins og 3)landsframleiðslu þess á hvern haus. New Economic Foundation notar líka þrjá þætti, þar á meðal ævilíkur fólks við fæðingu. Hinir tveir þættirnir eru aðrir. Í fyrsta lagi kolefnisfótspor á mann sem mælikvarða á mengun. Í öðru lagi blandaðan mælikvarða, þar sem mældur er jöfnuður fólks, glæpatíðni, ánægja fólks og ýmsir aðrir þættir, er ekki mælast sem landsframleiðsla. Slíkar blöndur mælikvarða eru betri en gamaldags mæling á landsframleiðslu.

Kindur fljúga yfir rist

Punktar

Undanfarna daga hef ég unnið við að smala kindum nágrannabóndans af jörð minni. Ég smala þeim til baka á hverjum degi og morguninn eftir eru þær komnar til baka. Vel er samt girt á milli okkar nágranna. Þrjár kindur með fimm lömb hafa þjálfað sig í að stökkva yfir ristarhlið. Þær fara ekki um opið hestahliðið, heldur stökkva tvo metra yfir ristina. Þær fljúga nánast yfir ristina. Þetta vekur mér spurningar: Er að koma upp sauðfjárkyn í landinu, sem fer yfir ristarhlið eins og ekkert sé? Er ekki hægt að nýta þessa hæfni dýranna á uppbyggilegri hátt, t.d. í sirkus?

Löggan er úti að aka

Punktar

Löggan getur ekki gætt öryggis borgaranna. Á hverri helgarnótt verður fólk fyrir barsmíðum vitfirringa, sem ganga lausir. Einn vinur löggunnar er svo sterkur, að hann reif upp vegstólpa til að nota sem barefli. Er kannski hægt að fá einkafyrirtæki til að halda uppi lögum og reglu í miðbænum? Í stað þess að sinna skyldum sínum, eyðir löggan tímanum í eltingaleik við saklausa mótmælendur. Þeir gera auðvitað grín að henni og löggan sturlast. Síðan hvenær mega menn ekki ganga um götur án lögguleyfis? Heldur löggan, að hún hafi löggjafarvaldið? Þarf ekki að skipta út yfirmönnum hennar?

Samningar rifnir og tættir

Punktar

Rússland hefur ógilt samninginn, sem batt enda á kalda stríðið í Evrópu. Samninginn um minnkun hefðbundinna vopna á tilteknum svæðum í Evrópu. Vladimir Pútín forseta þykir í lagi að ógilda samning, sem hentar honum ekki. Fyrirmynd hans er George W. Bush, sem hefur ógilt fjölda samninga með einhliða yfirlýsingu. Í raun gerir Pútín þetta í reiði út af fyrirhugaðri eldflauga-regnhlíf Bandaríkjanna í Póllandi. Það er ferlegt að hafa svona menn við stjórnvölinn. Pútín líkist Stalín meira með hverju árinu. Og Bush hefur frá upphafi verið geðveikur, þótt Bandaríkjamenn sjái það ekki.

Þrír óhæfir embættismenn

Punktar

Ríkisstjórnin hlýtur að geta stöðvað óhæfa embættismenn, sem valda fólki vandræðum. Í þann hóp hefur bætzt forstjóri Leifsstöðvar, sem lætur leita að sprengjum á Íslendingum við komu. Viðurkennir, að þetta sé vitleysa, sem verði löguð “í haust”. Auðvitað á að laga þetta núna. Nýlega var fjallað um sýslumanninn í Leifsstöð, sem stofnaði stéttaskiptingu í vopnaleit. Hann var gagnrýndur af öllum, meðal annars ráðherranum. Í Morgunblaðinu í dag er svo fjallað um þriðja rugludallinn. Það er yfirmaður Útlendingastofnunar, sem rekur hana með reglum mannhaturs, slítur börn frá mæðrum sínum.

Pétur þykist málefnalegur

Punktar

Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, gagnrýnir lélegan undirbúning og tímahrak Alþingis við gerð skattalaga. Í tímaritsgrein sagði hann lýðskrum og hentistefnu ráða ferð. Nefndi lækkun matarskatts sem dæmi. Pétur Blöndal þingmaður tók þetta óstinnt upp, sagði Indriða ekki vera málefnalegan. Mér sýnist hann þó fjalla efnislega um þetta mál eins og önnur. Það gildir hins vegar ekki um Pétur. Hann þykist gera vinsælan ágreining við stjórnina um ýmis mál, en kýs samt alltaf með sínu liði. Þegar á reynir. Þingmaðurinn er gott dæmi um lýðskrum og hentistefnu.