Sléttan klippt í tvennt

Punktar

Nú liggja vegir kringum Melrakkasléttu, ekki um hana sjálfa. Vegurinn til Kópaskers og Raufarhafnar þræðir ströndina. Vegurinn til Þórshafnar liggur um Öxarfjarðarheiði, sem er bara sumarleið sunnan sléttunnar. Nú á að leggja nýjan veg um sléttuna miðja í grónu landi. Leiðin liggur austur frá Kópaskeri um Hólaheiði og Seljaheiði til Hófaskarðs ofan Kollavíkur. Ég tel þennan fyrirhugaða veg vera misráðinn. Hann klippir Sléttuna í tvennt og minnkar þannig eitt af ósnortnum víðernum landsins. Betra er að leggja slitlag á núverandi stöðum og halda ósnortinni Sléttu í samfelldum pakka.

Sælureitur náttúrunnar

Hestar

Melrakkaslétta er sælureitur náttúrunnar. Engir færir bílvegir og flestar heiðar algrónar. Alls kyns fuglar, fullt af rjúpu. Við fórum um ströndina hjá Grjótnesi, suður Blikalónsdal inn á miðja Sléttu, síðan niður í byggð sunnan Raufarhafnar. Enn fegurri var leiðin í skjóli fjalla vestan Fjallgarðs frá Raufarhöfn til Þistilfjarðar. Nyrst við íshaf gistum við á tveimur eyðibýlum, háreistum húsum með kjallara og bröttu risi. Þau eru frá þeim tíma, er Sléttan var gósenland hlunninda, rekaviðar, fugls og eggja, silungs og sels. Áður en mánaðarleg laun á mölinni urðu markmið flestra.

Svissnesk lög á Íslandi

Hestar

Svisslendingar hafa á leigu Ormarsá sunnan Raufarhafnar. Þeir láta læsa hliðum á girðingum, sem liggja með þjóðvegi. Þar hafa þeir látið leggja vegi, sem þeir telja einkavegi, þótt þær séu á gömlum leiðum. Læsingarnar eru til að trufla veiðiþjófa. Samt má ekki læsa gömlum, hefðbundnum leiðum göngufólks og hestafólks. Þær eru tryggðar í Járnsíðu og náttúruverndarlögum frá 1999. Og merktar á herforingjaráðskortunum elztu. Réttur til umferðar er æðri rétti til eignar samkvæmt íslenzkum lögum. Önnur lög gilda í Bandaríkjunum og kannski líka í Sviss. Hér á landi gilda bara vírklippur, þegar menn koma að löglausum tálmum á fornum slóðum.

Stopult í tvær vikur

Punktar

Bloggið verður stopult hjá mér í tvær vikur. Ég dett úr gemsasambandi og verð meira eða minna á heiðum. Inn á milli næ ég kannski sambandi. Við verðum að sjá til með það.

Ekta staðir falla

Veitingar

Maru er hættur í Ísafoldarhúsinu í Aðalstræti. Eitt bezta og sanngjarnasta veitingahús landsins hefur lokast. Því að Íslendingar kunna ekki að meta góðan mat. Þannig hætti Arnarhóll, þannig hætti Sommelier. Snúa má dæminu við. Smám saman hefur miðbær Reykjavíkur fyllst af marklausum matstöðum, sem lifa á einhverju öðru en góðum mat. Sum lifa vafalaust á peningaþvotti fíkniefnabransans. Flest lifa þó hreinlega á vondum smekk fólks, trú þess á ódýr trikk. Einkum trú á skreytilist og blandstíl, þar sem hamborgrinn er blásinn upp í þrjú þúsund kall. En Maru var ekta staður og því féll hann.

21 þingmaður að drukkna

Punktar

Örlög Íraks munu hvorki ráðast á vígvellinum né í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þau ráðast í bandarísku öldungadeildinni. Þar verður kosið um 33 sæti í næstu kosningum. Í 21 þeirra situr repúblikani. Þar eru þeir, sem hafa sagt skilið við Íraksstefnu forsetans: Hagel frá Nebraska, Coleman frá Minnesota, Collins frá Maine, Smith frá Oregon, Sununu frá New Hampshire og Warner frá Virgínu. Þar eru einnig þeir, sem hafa gagnrýnt stefnuna: Alexander frá Tennessee, Dole frá Norður-Karólínu og Domenici frá Nýju-Mexikó. Þeir vilja ekki falla á Írak í kosningunum að ári.

Sama blaðrið alls staðar

Punktar

Karlmenn blaðra eins mikið og konur. Þeir nota 16.000 orð á dag eins og konur. Þetta er niðurstaða rannsóknar University of California á mismun kynjanna. Konur eru eins mikið frá Marz og karlar eru eins mikið frá Venus. Það var niðurstaða eldri rannsóknar. Komið hefur í ljós, að tízkukenningar um mun kynjanna eru byggðar á sandi. Kynin eru líkari en áður hefur verið talið. Ég tel hins vegar, byggt á reynslu, að konur hugsi meira í neti og karlar meira á línu. Þess vegna muni konum vegna betur í atvinnuvegum, þar sem nethugsun leysir línuhugsun af hólmi. Til dæmis í fjölmiðlunum.

Þora ekki að játa

Punktar

Þrír ráðherrar Samfylkingarinnar hafa lýst sig afhuga stóriðju. Ráðherra umhverfismála sagði það í upphafi starfsins. Síðan gerði iðnaðarráðherra það og sagðist ekki gefa út fleiri rannsóknaleyfi. Viðskiptaráðherra kvað í gær fastar að orði. Hann segir, að samkomulag sé í ríkisstjórninni um að færa virkjanaleyfi aftur til Alþingis frá sveitarfélögum. Hann segist sjálfur vera andvígur virkjunum í neðri hluta Þjórsá. Og vonar að þær komi ekki til framkvæmda. Að baki allra þessara ummæla og aðgerða ráðherranna er ótti þeirra við að játa, að sum stóriðja sé farin að rúlla, sé óstöðvandi.

Gullið meðalverð á áfengi

Punktar

Að svo miklu leyti sem svartur markaður þrífst í áfengi, á ríkið að lækka verðið. Ríkið þarf að sjá um, að neðanjarðarhagkerfi blómstri ekki, þar á meðal í áfengi og bjór. Að svo miklu leyti sem hægt er að hafa verðið hér hærra en erlendis á það að vera hátt. Hlutverk ríkisins er að finna gullna meðalveginn. Sennilega er verð á áfengi óþarflega hátt núna. Sama hugsun og þessi á að gilda um fíkniefnin. Ríkið á að selja þau, hafa verðið nógu hátt til að fæla frá, en ekki svo hátt, að svartur markaður þrífist. Höfuðatriði málsins er, að hér þrífist ekki svart þjóðfélag með eigin lögum og reglu.

Í gasklefana með þá

Punktar

Fylgismenn George W. Bush forseta telja, að múslímar stjórni Evrópu. Johann Hari hjá Independent fór í lúxusreisu á vegum National Review um Mexikóflóa fyrir sannfært íhald. Hann lýsir tali fólks um borð. Það vill senda suma demókrata í gasklefa fyrir að vera andvígir ríkisstjórninni. Svertingi um borð lofsyngur Ku Klux Klan. Það vill láta varpa sprengjum á aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna og þýzka dómstóla. Það biður fyrir Fox sjónvarpstöðinni daglega. Það telur alla Filippseyinga vera eins. Grein Independent er hrollvekjandi lýsing á geðveiku fólki, sem stjórnar stefnu Bandaríkjanna.

Meirihlutinn er hunzaður

Punktar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra var í Palestínu og Ísrael. Hún neitaði að ræða við Hamas, sem fékk fylgi meirihlutans í Palestínu í síðustu kosningum. Hún fylgir áráttu Vesturlanda. Þau neita að ræða við þá fulltrúa úr þriðja heiminum, sem hafa fylgi almennings. Heldur Ingibjörg að lausn finnist á vanda Palestínu án aðildar meirihlutans? Er nóg að stimpla meirihluta þjóðar sem terrorista? Ég held hún sé bara að apa vitleysuna eftir Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Hún hafi sjálf enga sjálfstæða dómgreind í utanríkismálum. Hún er að minnsta kosti enginn lýðræðissinni.

Mistækur fiskur og franskar

Veitingar

Allur fiskur er djúpsteiktur á Fish & Chip í Tryggvagötu. Hæfilega eldaður upp úr nýrri repjuolíu. Á venjulegum steikarbúlum svífur fýlan út á götu, en ekki hér. Samt hélt ég út í aðeins eitt skipti. Seinni ganginn fláði ég steikarhjúpinn af fiskinum. Djúpsteiktar kartöflur voru vondar. Betra er að panta ágætis hráasalat með miklu klettasalati. Dagssúpan slær fiskinn út, án hveitis, hnausþykk grænmetissúpa, með gulrótarbrauði og hummus. Postulín og stál er notað, þangað til kemur að skyri í eftirrétt. Það er borið fram í MS-dollu úr búð, með plastskeið. Súpa og fiskur kostar 2.280 krónur.

Vefurinn sogar ekki auglýsingar

Punktar

Forrester rannsóknastofan spáir illa fyrir auglýsingum á veraldarvefnum. Hún telur tekjur vefsins munu tvöfaldast á fimm árum 2007-2012. Það þýðir, að 18% auglýsingatekna komi frá vefmiðlum eftir fimm ár, skelfilega lág tala. Nú þegar eru vefútgáfur þekktustu miðlanna orðnar útbreiddari en prentútgáfur þeirra eða ljósvakaútgáfur. Og ekkert breiðband er lengur til, sem tryggir að auglýsingar komist til nær allra. Notkun stóru fjölmiðlanna hefur minnkað og auglýsingar í þeim minnka. Það höfum við fyrir löngu séð í Bandaríkjunum. Samt gengur arftakanum illa að ná fótfestu í auglýsingum.

Krónan rís og rís

Punktar

Krónan rís og rís, þrátt fyrir tilraunir margra aðila til að tala hana niður. Hún mun enn rísa á næstu dögum. Dollarinn mun nálgast 55 krónur, þar sem hann á heima. Danska krónan mun fara niður fyrir 10 krónur, þar sem hún á heima. Þetta hefur gerzt og mun gerast, þrátt fyrir þindarlaus skrif fjárvitringa. Bak við þau felur sig óskhyggjan um, að koma megi festu í fjármál þjóðarinnar með því að rýra lífskjör hennar. Krónan neitar að taka mark á þessum kenningum og óskhyggju. En hún er lítil, þótt hún sé ekki veik. Til langs tíma væri betra að hafa evru sem miðil fremur en krónu.

Verktakarnir ráða öllu

Punktar

Aldrei þessu vant settist ég á Segafredo á Lækjartorgi. Virti fyrir mér útsýnið. Sannfærðist betur en áður um, að þar megi ekki setja minnisvarða um Frank Gehry né aðra arkitekta nútímans. Þar á að koma upprunaleg útgáfa húsanna, sem brunnu. Gamli, góði Villi lofaði því raunar, þegar hann stóð í galla og stuði framan við brunann. En virðist hafa gleymt því, verktakarnir heimta að komast að. Hvort sem vinstri menn eða hægri menn eru við völd í borginni, þá stjórna verktakarnir. Því miður hafa menningarvitarnir ekki áttað sig á, að endurgerð fornminja er fín. En Espresso staðarins var vont.