Kynórar repúblikana

Punktar

Hátt skrifaðir repúblikanar hafa vikulega í ár lent í kasti við lög og siði. Kynferðismál og mútur ber þar hæst. Árið hófst með Scott Eller Cortelyou, sem notaði netið til að komast yfir börn. Ágúst lauk með, að öldungadeildar-þingmaðurinn Larry Craig var tekinn fyrir að reyna kynóra á klósetti flugstöðvar. Listinn er á Senate 2008 Guru. Þeim, sem flagga guði, fjölskyldu og gagnkynhneigð, er hætt við að gera það, sem þeir fordæma. Barnaníðingar verða kaþólskir prestar, samkynhneigðir verða baðverðir, ofbeldismenn verða löggur. Um þetta hafa verið skrifaðar ýmsar fræðibækur.

Verndarenglar rugludalla

Punktar

Enn eru menn að tala um Díönu. Time segir á forsíðu, að andlát hennar hafi breytt Bretlandi. Hvílíkt rugl. Telegraph kemst nær sanni í fyrirsögn á forsíðu: “Diana just another dead glamorous celebrity”. Nú eru blóm alls staðar um London, ekki bara við Kensington og Buckingham hallir, heldur við dyr veitingahúsa og heilsuræktarstöðva, sem hún sótti. Samt er allt eins og það var áður, líka kóngafjölskyldan. Díana var bara frægðarfólk, lesefni í Séð og heyrt. Dellan um hana er eins og dellan um Graceland, sveitasetur Elvis Prestley. Elvis og Díana eru verndarenglar rugludalla, sjá Slate.

Þrjúhundruð hættulegir

Punktar

Tölfræði mín er engin, en hugboðið segir mér, að dreifing áfengisvandans sé þessi: Virkir drykkjurútar eru 30.000 í landinu, þar af 3.000, sem drekka iðulega frá sér ráð og rænu. Þar af eru 300 hættulegir umhverfinu, einkum vegna ofbeldis. Þessi vandræði verða yfirleitt ekki læknuð frekar en önnur vandræði. Þegar drykkjurútar eru komnir á ofbeldisstigið, verða sjónarmið meðvirkra vandamálafræðinga um lækningar og meðferðir að víkja fyrir þörf samfélagsins um öryggi. Ríkisstjórn, lögregla, dómstólar og borgarstjórn hafa svikist um að gæta öryggis borgaranna. Hafa framleitt miðbæjarvandann.

Björgólfur ritskoðari

Punktar

Fjölmiðlar fjalla um ritskoðun Björgólfs Guðmundssonar á tveimur bókum, er hann átti Eddu. Observer segir Björgólf játa að hafa fargað bókinni um Thorsarana. Hann lét taka úr henni kafla um hjónaband Þóru Hallgrímsson og bandaríska nýnazistans George L. Rockwell. Fréttablaðið staðfestir svo í morgun, að Björgólfur hafi látið taka kafla úr annarri bók, um Sverri Hermannsson. Í kaflanum voru bréfaskriftir milli Moggans og Landsbankans. Björgólfur Guðmundsson hefur í krafti peninga hagað sér ósæmilega, svikið hefðir í vestrænni bókaútgáfu og orðið af því réttilega illræmdur erlendis.

Súpa úr reyktum silungi

Veitingar

Sjávarbarinn á Granda selur fiskihlaðborð á 1200 kr í hádegi og 2400 krónur að kvöldi. Hádegið er þjóðlegt fyrir verka- og kaupsýslumenn, kvöldin með fjölþjóðlegra ívafi fyrir hina. Í hádeginu í gær var gratíneruð ýsa og ufsi, hvort tveggja gott, en ofeldað. Það er óhjákvæmilegt í hlaðborði með hitakössum. Til hliðar var góð súpa úr reyktum silungi; vondur saltfiskur; ágætis laxafroða; og hefðbundnar fiskibollur og plokkfiskur með rúgbrauði. Hlaðborðið er svipað frá degi til dags. Magnús Ingi Magnússon kokkur og veitingamaður þessa snyrtilega staðar tekur ljúflega á móti gestum sínum.

Á síðasta snúningi

Punktar

Tveimur dögum fyrir kosningarnar í vor veitti þáverandi ríkisstjórn leyfi til rannsókna á gufuöflun í Gjástykki sunnan Kelduhverfis. Forsendur voru vafasamar, því að Landsvirkjun hafði lagt inn erindið tveimur dögum áður. Það erindi var útvíkkun eldri beiðnar frá 2004. Greinilega lá mikið á að koma útvíkkuðu leyfi í gegn fyrir kosningar. Kannanir höfðu þá sýnt, að ríkisstjórnin mundi falla. Í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins var oft skautað á jaðri laga og siða. Sama ríkisstjórn gaf Landsvirkjun vatnsréttindi Þjórsár þremur dögum fyrir sömu kosningar.

Marxistar endurholdga

Punktar

Kínverski kommaflokkurinn hefur bannað endurholdgun án samþykkis flokksins. Senn kemur að endurholdgun Dalai Lama, sem er fjórtándi í röðinni og orðinn 72 ára gamall. Kommarnir eru hræddir við hann og vilja ráða, hver verður eftirmaður hans. Þeir sættu sig ekki við elleftu endurholdgun Panchen Lama árið 1995, létu barnið hverfa og skipuðu gæludýr flokksins í staðinn. Hið sama munu þeir gera, þegar Dalai Lama deyr. Allt er það pólitík. Flokkurinn er annars vegar veraldlegur, segir trú vera ópíum fyrir fólkið. Hins vegar tekur hann sér geistlegt vald til að úrskurða um réttmæti endurholdgana.

Merkel og Havel

Punktar

Í samskiptum ríkja gleyma menn oft mannréttindum. Kaupsýslumenn segja, að hugmyndafræði megi ekki spilla möguleikum gróðans. Evrópusambandið var stofnað á grunni mannréttinda, en gleymir þeim samt oft. Það er í vandræðum út af Angelu Merkel, kanzlara Þýzkalands. Hún áminnir alla, sem hún hittir, George W. Bush, Vladimir Putín og Hu Jintao, leiðtoga heimsveldanna. Enn meiri taugaveiklun er út af aðild Tékklands. Undir áhrifum frá Vaclav Havel heimta fulltrúar Tékklands, að Evrópusambandið gegni mannréttinda-skyldum sínum. Fulltrúar Norðurlanda skammast sín auðvitað. Segja Tékkana ruglaða.

Dregið úr einföldunum

Punktar

Ég var í gær sakaður um að einfalda hluti of mikið. Það var ekki á vefnum, heldur maður, sem ég hitti. Hér með ætla ég að bæta úr því. Bandaríkjamenn eru ekki allir eins og hafa ekki allir sömu skoðanir á pólitík. Ekki frekar en Íslendingar. Til eru svo vinstri sinnaðir Bandaríkjamenn, að þeir eru á svipuðum nótum og hægri sinnaðir sjálfstæðismenn. Kannski svona tíu til fimmtán manns. Til er vinstri sinnað dagblað í Bandaríkjunum, The New York Times. Svo mikið, að það er í kallfæri við helztu hægri blöð Evrópu, France Soir, Times, Jyllandsposten, Junge Freiheit. En samt hægra megin við þau.

Líkræða yfir hesti

Hestar

Rútsstaða-Jarpur var heygður fyrir öld. Séra Stefán Jónsson á Auðkúlu las yfir moldum hans og fjölmenni kom til erfidrykkju. Víða um Húnaþing voru reiðhestar þá svo frægir, að þeir voru heygðir og haldnar erfidrykkjur. Frá þessum hestum segir í Horfnum góðhestum eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp. Hestar voru jeppar þess tíma, samgöngutæki bænda á faraldsfæti. Menn bjuggu á þremur-fjórum bæjum um ævina og fluttust milli landshluta. Reiðgötur þess tíma eru skráðar á herforingjaráðskortin dönsku á fyrsta áratug tuttugustu aldar. Þessar merkustu fornminjar landsins eru nú að týnast og gleymast.

Magnaðir og ólmir hestar

Hestar

Þegar Húnvetningar og Skagfirðingar fóru milli bæja fyrir einni öld, vildu þeir snarpa hesta, sem fóru þrjátíu kílómetra á tveimur klukkutímum. Þetta voru ólmir hestar, svo magnaðir, að lag og þolinmæði þurfti til að temja þá. Skeið og stökk voru kjörgangur, en samt fundu þessir bændur upp tölt til að nota til spari í kirkjuferðum. Að geta geisað á góðri götu var öldum saman þörf og vilji fólks. Löngu seinna var farið að rækta hesta, sem gátu hoppað upp á fótinn að hætti reiðskólans í Vínarborg. Leitun er orðin að hestum, sem Húnvetningar hefðu fyrir hundrað árum minnzt í erfidrykkju.

Reiðgötur í GPS-punktum

Hestar

Fyrir ári fór ég að færa reiðleiðir herforingjaráðskortanna í kerfi GPS-punkta. Því verki er lokið. Sexhundruð leiðir eru öllum aðgengilegar á vefnum jonas.is/reidleidir. Mikilvægt er að varðveita slíkar leiðir. Þær eru hluti af sögu okkar og meðal mikilvægustu fornminja landsins. Samt hefur þeim lítið verið sinnt. Fornleifafræðingar hafa bara áhuga á húsum og kumlum. Sumar reiðleiðir eru komnar undir bílvegi og aðrar horfnar í mýrum. Sumar hafa verið skornar sundur af skurðum og aðrar af girðingum. Víða má þó enn ríða góðar götur, sem riðnar hafa verið þindarlaust í ellefu aldir.

Gervimennska bönnuð

Punktar

Channel 5 í Bretlandi hefur bannað gervimennsku í fréttum. Ekki eru lengur notaðar myndir af fréttamönnum að þykjast bregðast við því, sem viðmælendur segja. Ekki eru notaðar myndir af þeim við að endurtaka spurningar eftir viðtöl. Ekki eru notaðar myndir af þeim á göngu í átt að myndavélinni. Ráðamenn stöðvarinnar hafa komizt að raun um, að billeg trikk af þessu tagi raski trausti hennar. Guardian sagði í gær, að Sky og BBC muni fylgja í kjölfar Channel 5. Ekki var minnst á, hvort stöðvarnar muni hætta því, sem alvarlegast er, Docudrama. Það eru leikin atriði undir yfirskyni frétta.

Eyðimörk matargerðar

Veitingar

Lyppast hafa niður matstaðir, sem áður voru góðir, frægastir Grillið á Sögu og Sjávarkjallarinn í Geysishúsinu. Mér er sagt, að senn muni Holtið rísa úr öskustó. Ekki veitir af, því að matreiðslu hefur farið aftur í borginni á síðustu árum. Sommelier og Maru hættu og Apótekið er að hætta. Sumir nýir staðir eru sjónhverfingar, líklega settir upp til að vaska peninga úr fíknibransanum. Ég borða á Primavera og Tjörninni, Þremur frökkum og Austur-Indíafélaginu, Laugaási og Tilverunni, Sægreifanum og Kínahúsinu, Jómfrúnni og heima. Því færri verðlaun kokkanna, þeim mun betri matur.

Bandaríkin skelfa mig

Punktar

Ég skelfist hrinur ásakana og hótana ríkisstjórnar Bandaríkjanna í garð Persíu. Sumir bandarískir álitsgjafar fullyrða, að George W. Bush ætli þar í enn eitt stríðið. Ég veit ekki, hvar þessi stríðsþrá endar. Því miður er bandaríska þjóðin höll undir stríð, knúin fram af vafasömum bíómyndum. Það er skelfileg staða mannkyns að vera kúgað af ruglaðri þjóð, sem kýs sér aula og vitfirring sem forseta. Sem styður ofbeldi í fjölbreyttri mynd, stríð við útlendinga, pyndingar sakborninga, brot á öllum fjölþjóðlegum samningum. Skelfilegt er að sá gereyðingarvopn í höndum ruglaðrar þjóðar.