Fín steik á Flúðum

Veitingar

Nú þarf ég ekki lengur að elda á Kaldbak, ef mér leiðist það. Stekk bara upp í bíl og fer niður að Flúðum. Þar er komið veitinga- og kaffihúsið Grund andspænis hótelinu. Ég hef haft ýmsar efasemdir um matinn og verðið á keðjuhóteli staðarins. En nú er komin samkeppni. Matseðillinn á Grund er að vísu fullur af borgurum, nöggum og pöstum, sem ég fýli grön við. En þar fékk ég eðalfína lambasteik, rétt eldað filet með piparsósu, þessu líka glæsilega hrásalati og milt pönnusteiktum kartöflum. Nú bíð ég bara eftir, að nýja Grund geri eitthvað sniðugt við glæsiafurð Gullhreppa. Grænmetið.

Yztu mörk einkavæðingar

Punktar

Ríkisrekstur er ekki lengur vandi á Íslandi. Við erum komin á yztu mörk þess, sem hægt er að einkavæða með árangri. Við skulum heldur líta kringum okkur. Við sjáum í Bandaríkjunum, að heilsugæzla er mun lakari en í Evrópu. Við sjáum í Bretlandi, að skólar reknir af trúfélögum eru mun lakari en ríkisskólar á Íslandi. Við sjáum í Kaliforníu og víðar, að einkarekstur á rafmagni skaðar neytendur. Við sjáum í þriðja heiminum, að einkarekstur á vatni að kröfu Alþjóðabankans drepur fólk. Helztu innviðir samfélagsins einkavæðast illa. Syfjuleg ríkiseinokun breytist í gráðuga einkaeinokun.

Hagkerfi fáokunar

Punktar

Samkeppni ríkir ekki í hagkerfi Íslands. Á flestum sviðum ríkir fáokun, þar sem þrjú fyrirtæki eða færri ráða markaðinum og hafa sama verð. Leitun er að greinum frjálsrar samkeppni. Það er helzt í innflutningi á bílum, fötum og raftækjum, að margir koma við sögu. Fáokun ríkir í síma, tryggingum, olíu og benzíni, flugi, vöruflutningum, neytendavörum, byggingavörum og landbúnaðarafurðum. Allur þorri útgjalda íslenzkra heimila rennur til fáokunarfyrirtækja, sem hafa eitt verð eða eins verð. Við verðum öll að hafa fulla atvinnu og vinna myrkranna milli til að seðja íslenzka fáokun.

Lögga vaknar til lífs

Punktar

Löggan í Reykjavík hefur vaknað til lífsins. Hún hefur lagt til hliðar þráhyggju um Falung Gong og Saving Iceland. Er farin að þora af stöðinni og niður í miðbæ. Farin að taka menn fasta fyrir að brúka kjaft, sóða götur og brjóta flöskur. Bravó. Lögreglustjórinn segir, að það séu bara þrjátíu menn, sem valda vandræðum í borginni. Hann var ekki að grínast. Þeir eru auðvitað miklu fleiri, sennilega þrjúhundruð, bara í ofbeldinu einu. Þá þarf að taka fasta, setja inn og sekta. Dag eftir dag. Með síhækkandi fjárhæðum. Nú byrjar löggan að bæta fyrir það, sem hún áður vanrækti.

Manhattan við Geirsnef

Punktar

Mér finnst góð tillaga Sturlu Snorrasonar um nýjan miðbæ í iðnaðarhverfum austan og norðan við Geirsnef. Ég lít á hana sem afbrigði af tillögu minni um nýjan miðbæ á Álfsnesi. Aðalatriðið er að hlífa gamla miðbænum vestan Snorrabrautar við byggðaþéttingu verktaka og fanatíkusa. Þeir mega frekar fá útrás í eins konar Manhattan við Geirsnef. Mér sýnist Sturla líka gæta hagsmuna hunda á Geirsnefi, en veit ekki um laxinn í Elliðaánum. Þar fyrir utan tel ég hugmyndir hans um sparnað í umferð vera tóma þvælu. Fræðingar ímynda sér, að fólk flytji í nágrenni vinnustaða. Það gerir fólk alls ekki.

Kvaddi fjallmenn í gær

Punktar

Fjallmenn í Hrunamannahreppi hófu leitir frá Kaldbak í gær. Við kvöddum þá með vöfflum og flatkökum og rommi út í kaffið. Afréttin nær upp í Hofsjökul og Kerlingafjöll. Nú eru aðeins 1.300 ær á fjalli plús lömb. Eins og tveir bæir í Þistilfirði. Kindurnar á Skeiða- og Flóamannaafrétt eru bara brot af þessu. Hrepparnir eru ekki lengur sauðland, enda skít og kanil upp úr því að hafa. Enn geta fjárbændur mannað sex daga göngur. En þeim fækkar með hverju árinu. Á föstudag verða réttir. Þá kemur Árni Johnsen og spilar og Dagbjartur úr Grindavík syngur. Kvenfélagið er hætt að baka, það er frat.

Fínn matur á 950 krónur

Veitingar

Ég verð að leiðrétta mig. Á föstudaginn sagði ég, að mörk góðs og vonds hádegismatar á veitingahúsum væru við 1.600 krónur. Ég gleymdi Kínahúsinu. Þar borða ég súpu og þrjá rétti fyrir 950 krónur í hádeginu. Grænmetissúpan var fín og réttirnir séreldaðir fyrir hvern kúnna, ekki upp úr hitakössum. Það voru rækjur, kjúklingur og lambakjöt. Staðurinn er friðsæll, þægileg tónlist frá Singapúr, vel í sveit settur á horni Lækjargötu og Skólabrúar. Ekki er til neinn sambærilegur staður í lágu verði og góðum mat hér á landi. Hér hef ég borðað oft í áratug. Aldrei orðið fyrir vonbrigðum.

Skortur á kvennaskólum

Punktar

Tim Harford segir í Slate, að strákar eyðileggi skóla fyrir stelpum. Vísar í rannsóknir, sem sýna, að stelpuskólar séu betri en blandaðir skólar og strákaskólar. Strákar trufla kennslu, gera kennara gráhærða. Strákar í skóla kalla á endanum á vopnaleit við innganginn eins og í Bandaríkjunum. Foreldrar vita raunar af þessum vandræðum. Þess vegna er mikil skortur á kvennaskólum, sem ekki hleypa strákum inn. Í Bretlandi eru langir biðlistar eftir plássi á slíkum skólum. En auðvelt er að komast í skóla fyrir stráka. Í hreinum kvennaskólum er friður til að læra og ná árangri í námi.

Blöðin lugu upp á Gore

Punktar

Bandarískir fjölmiðlar eru lakari en þeir eru sagðir vera. Evgenia Peretz lýsir dæmi í Vanity Fair: New York Times, Washington Post, Boston Globe og fleiri réðust á Al Gore forsetaframbjóðanda árið 2000. Fjölmiðlarnir lugu upp á Gore fullyrðingu um, að hann hefði fundið upp internetið. Hann væri söguhetjan í Love Story og margt fleira, sem Peretz rekur í greininni. Blöðin gáfu þá mynd af Gore, að hann væri stórmennskubrjálaður, ekki við hæfi almennings. Lygar blaðanna réðu úrslitum um, að Gore náði ekki kjöri. Á sama tíma skrifuðu þau um, að George W. Bush væri hvers manns hugljúfi.

Þroskað fólk í MR

Punktar

Sat í hádeginu í gær í Kínahúsinu og horfði á tolleringar Menntaskólans í Reykjvík. Þær voru eins og þær voru fyrir hálfri öld. Nemendur voru ekki að slá út aðra skóla eða fortíðina í vitleysu. Þetta er bara erfðavenja gamals skóla, sem hefur sjálfstraust. Honum virðist takast að koma fólki til þroska. Annað er uppi á teningnum í sumum öðrum menntaskólum. Á Ísafirði fólst busun í barnaskap og skrílmennsku með ívafi af sadisma. Þar vantar greinilega sjálfstraust. Þar komast nemendur lítt til þroska. Sú er einnig raunin í flestum fjölbrautar- og menntaskólum landsins. Eru bara gaggó.

Unaðslegt í Laugaási

Veitingar

Í hádeginu eru mörk vonds og góðs matar um 1600 krónur. Eftir nokkur hádegi á fiskbitastöðum, sem afgreiddu upp úr hitakössum, var unaðslegt að koma í Laugaás. Þar má velja í hádeginu milli fimm rétta dagsins með súpu. Fín grænmetissúpa var með rjóma og litlu eða engu hveiti. Rauðsprettan var nákvæmlega milt pönnusteikt. Borin fram með sítrónu, fersku grænmeti og fallegum, íslenzkum kartöflum soðnum. Eggjasósan með fiskinum var þunn og mild. Fiskbitastaðirnir verðlögðu matinn á 1200-1300 krónur, en Laugaás er með 1700 króna meðalverð. Gæðamunurinn er miklu meiri. Enda ætíð fullt hús.

Starfsmenn án skrifstofu

Punktar

IBM hefur lengi haft frjálsar reglur um vinnuskyldu. 40% starfsmanna þess erlendis hafa engan fastan vinnustað. Þeir vinna heima, hjá kúnnum, á kaffihúsum, í nærtækum tölvuverum IBM. Vinna og sumarfrí fólks er ekki skráð, það sér um þau sjálft í samráði við næsta millistjórnanda. Þetta hefur gilt í áratugi og virðast gefast vel. Flestir eru taldir taka minna frí en þeir eiga inni. Þeir taka sér frí, þegar tækifæri gefst og koma úr fríi, þegar mikið liggur við. Öfugt við IBM reyna starfsmannastjórar flestra stórfyrirtækja að vera Stóri bróðir úr “1984”. Sauma að starfsfólki, festa það í spennitreyju.

Össur hótar enn

Punktar

Össur Skarphéðinsson ráðherra hótar Birki Jóni Jónssyni framsóknarmanni á bloggsíðu sinni. Efnislega er hótunin þessi: Ef þú hættir ekki að heimta rannsókn á Grímseyjarferju, mun ég bæta við tillöguna kafla um rannsókn á Byrgismáli. Össur hefur oft hótað. Til dæmis hótaði hann embættismönnum, þegar hann var umhverfisráðherra. Og hótaði kaupsýslumanni, sem vildi ekki hafa bróður hans í vinnu. Fleiri pólitíkusar hóta en Össur einn. En þeir gera það í kyrrþey, því að þeir vita, að það er siðlaus iðja. Össur einn gerir það opinberlega. Hann virðist ekki skilja, að hótanir eru siðlausar.

Stinkaði af hvítlauk

Punktar

Fylgifiskar hafa dalað. Fyrir 1.300 krónur á súpu og fisk dagsins í hádegi færðu fiskinn óhjákvæmilega upp úr hitakassa. Þannig verður hann að minnsta kosti ofeldaður og aldrei góður. En óþarfi var að setja svo mikinn hvítlauk í silunginn, að ég stinkaði fram á kvöld. Fleiri íslenzkir kokkar misnota því miður hvítlauk, sem beita þarf í hófi. Rétturinn var ætur, en ekkert umfram það. Kartöflurnar voru pönnusteiktar. Nú er haust; hvítar kartöflur, lítið soðnar, hefðu verið betri. Karríkrydduð fisksúpa dagsins var hins vegar góð. Þrír aðalréttir voru í boði. Hinir voru langa og saltfiskur.

Síðasti hernámsliðinn

Punktar

Utanríkisstefnan batnar. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur kallað heim síðasta Íslendinginn í hernámsliði Bandaríkjanna & Co í Írak. John Craddock, skólameistari Bandaríkjanna í Atlantshafsbandalaginu, kom til Íslands til að reyna að hindra þetta og lýsa áhyggjum sínum. Bandalagið hefur undanfarin ár verið að breytast úr varnarbandalagi í skálkaskjól fyrir Bandaríkin í miðausturlöndum. Það er komið á kaf í hernám Íraks og Afganistans. Valgerður Sverrisdóttir lagaði stöðu Íslands með því að kalla “teppagengið” frá Afganistan. Ingibjörg gerir nú betur. Gott hjá henni.