Kunna að elda fisk

Veitingar

Farðu á tvo matstaði í Lissabon. Á Caseiro við Rue de Belém 35 í hverfinu Belém. Það er gata austur frá framhlið klausturs Jeronímusar. Og skammt frá minnisvarða portúgalskra sæfara og Belém-turninum, þar sem landkönnuðir fóru út í álfur og tóku land. Þar fékk ég fjórar frábært eldaðar tegundir af fiski á einum diski á 2000 krónur. Áður hef ég sagt ykkur frá Flor dos Arcos við Fado-safnið í hverfinu Alfama. Það er ofan götunnar fremst í húsasundi til vinstri. Þar kostaði fínt eldaður sólkoli 1200 krónur. Þarf greinilega að fara til Portúgal til að fá rétt eldaðan fisk. Fyrir slikk.

Þráðlaust vefsamband

Ferðir

Þráðlaust vefsamband er orðið algengt á erlendum hótelum. Áður varð að nota rándýran gemsa til að ná GPRS-sambandi eða berjast við framandi lyklaborð á hóteltölvum. Okrarar í símaþjónustu voru raunar búin að prísa GPRS út af markaði. Og lyklaborðin eru skrítin í Portúgal, annar hver lykill á óvæntum stað. Núna koma menn með eigin tölvur, hafa öll innbyggð þægindi þeirra og þurfa ekki að borga neitt. Svona á það að vera. Gallinn er, að tollurinn í Leifsstöð telur, að menn séu að smygla tölvum, sem duttu úr framleiðslu fyrir tveimur árum. Tollurinn á að hætta þessu tölvu-smyglrugli sínu.

Gott fólk sendir tölvupóst

Fjölmiðlun

Gott er að fá lesendapóst á jonas@hestur.is frá nafngreindu fólki. Ég jafna því ekki saman við nafnlausu fíflin, sem gera athugasemdir við fréttir. Í dag sá ég marga slíka húðskamma DV. Fyrir að segja sannleikann um samband forsetafrúarinnr við sjóð, sem verðlaunaði forsetann. Auðvitað er sjúkt, að ekki megi segja sannar fréttir af súkkulaðihúðuðum forsetahjónum. Ég hef hins vegar verið að skrifa langsóttan texta um matstaði í Lissabon. Og hef fengið skæðadrífu indælla bréfa frá fólki, sem vill vita meira um svo fjarstæðukennt efni. Það eru ekki bara geðsjúklingar í tölvupóstinum.

Beztur matur í Alfama

Veitingar

Fann bezta matstað Lissabon neðst í márahverfinu Alfama. Flos dos Arcos er við Fado-safnið, þar sem eru minni um þjóðvísur portúgala. Þangað rambaði ég á rölti um þröng og brött einstigi kastalabrekkunnar. Fékk frábæran sólkola, nákvæmar eldaðan en á fínu stöðunum í Michelin. Gambrinus við aðaltorgið, Casa do Comida og Casa do Leao í márakastalanum yfir borginni voru góðir staðir. Hvergi var fiskurinn eins góður og þar sem hann kostaði þriðjung af verði annarra staða. Gambrinus er gamalfínn í sniðum, afgreiðir matinn á fötum, sem þjónar færa upp á diska, eins og gert var fyrir 1980.

Spunakarlar og blaðamenn

Fjölmiðlun

Getur Steingrímur S. Ólafsson endurfæðst sem blaðamnaður, hafandi verið spunakarl Halldórs Ásgrímssonar? Fæstir slíkir hafa getað það. Dæmi eru þó um, að það hafi tekizt. William Safire, ræðuritari Nixons forseta, var ráðinn dálkahöfundur New York Times. Honum var illa tekið í fyrstu, en vann sér smám saman álit. Hann lét ekki eindregna hægri stefnu sína rugla staðreyndum mála. Fékk Pulitzer-verðlaun fyrir blaðamennsku. Enn skrifar hann í blaðið, núna fínar greinar um meðferð bandarískrar tungu. Reynslan ein sýnir, hvort spunakarlar verða blaðamenn. Það er sjaldgæft, en kleift.

Æsifréttir eru fornar

Fjölmiðlun

Æsifréttir eru hluti af eðli frétta. Í eðli sínu er markmið frétta að æsa eða erta. Fá fólk til að staldra við og hlusta á sögumann, lesa eða horfa. Gula pressan er ekki nýjung í blaðamennsku, heldur snar þáttur sögu hennar frá upphafi. Fyrir rúmum tuttugu öldum voru morð og skilnaðir í daglegu veggblaði ríkisins í Róm. Frásögn af mannlegum harmleik er ein elsta tegund prentmiðla, frá 17.öld. Fyrstu vísar að fréttablöðum í Evrópu voru fullir af sögum um vanskapninga og skrímsli. Fólk notar fréttir sér til gagns; sér til afþreyingar og dægrastyttingar; til að fylgjast með dramatísku fólki.

Tvíeykið fer mikinn

Punktar

Héðan frá Lissabon sýnist mér tvístirni borgarinnar hafa farið mikinn. Gamli, góði Villi og Bingi á Hummernum hafa framið athafnastjórnmál. Þeir eru að reyna að draga Orkuveituna undan útsvarsgreiðendum og afhenda hana ólígörkum í útrásinni. Jafnvel Hannesi Smárasyni, sem á það sameiginlegt með Binga á Hummernum að leggja í stæði fatlaðra. Fæstir mæla bót þessum athafnastjórnmálum. Guðni Ágústsson reynir að fría Framsókn frá aðild að málinu. Hann sér líka höggstað á hinum sérkennilega arfaprinsi flokksins. Og Sjálfstæðisflokkurinn er ósáttur, þótt menn fari varlegar í orðbragðið.

Sviðin jörð í Portúgal

Punktar

Mikil fátækt er hér í Lissabon, betlarar og farandsölumenn. Portúgal er með fátækustu löndum Evrópu. Það hefur ekki grætt eins mikið á Evrópusambandinu og Spánn og Írland, sem eru á flugi. Einu sinni var Portúgal eitt ríkasta land heims, á tímum landafunda. Þá komu drekkhlaðin silfurskip frá Brazilíu til Lissabon. Auðæfin streymdu um landið og settu hefðbundna atvinnuvegi á hliðina. Þetta var eins og olían í sumum löndum nú til dags. Eða eins og stórvirkjanir og stóriðja Íslands. Eftir örfáa áratugi var búið að eyða silfrinu frá Ameríku í vitleysu. Og sviðin jörð var eftir um allt Portúgal.

Þrjú þúsund króna stjarna

Veitingar

Borðaði í hádeginu á Eleven, eina matstað Lissabon með stjörnu í Michelin. Glæsistaður með útsýni yfir miðbæinn og Tagus-fljót. Með hefðbundnum brag nýklassískra húsa. Þjónusta í yfirmáta skólagenginni nákvæmni. Smakk var borið á borð milli rétta. Boðið var upp á samræmda röð rétta og vína að nýfrönskum hætti. Sandhverfan var aðeins úr hófi elduð. Það eru algeng mistök nýklassískra staða og gerast jafnt á Íslandi sem í Portúgal. Efast um, að nokkur staður á Íslandi sé einnar stjörnu virði. Og fæstir bjóða þeir matarveizluna á þrjú þúsund krónur eins og stjörnustaðurinn Eleven.

Fólk vill fé í heilsu

Punktar

Meðan heilsukerfið er í skralli er rangt að lækka skatta. Við eigum að hafa ráð á svipaðri heilsuþjónustu og Svíar og Frakkar. Við þurfum að geta hætt að vista sjúklinga á göngum. Við þurfum að geta lagt niður biðlista. Við þurfum að jafna kostnað sjúklinga. Við þurfum að fá hjúkkur til starfa að nýju. Þorri kjósenda er þessa sinnis. Þeir vilja hækka skatta, ef það bætir heilsu fólks. En þetta þarf að gera með aðhaldi, svo að heilsukostnaður ríkisins rjúki ekki upp. Forðast ber einkarekstur á ríkisþjónustu, því að erlendis hefur hún reynst hleypa upp kostnaði. Samanber einkum Bandaríkin.

Villigötur heilsukerfis

Punktar

Ríkisstjórnin er á villigötum í heilbrigðismálum. Hún gamnar sér við að ræða aukinn einkarekstur í kerfinu. Þótt reynslan frá Bandaríkjunum sýni, að slíkt hækkar heilsukostnað. Hún gamnar sér við að ræða um að lækka skatta. Þótt umtalsverð vandræði séu í heilsukerfinu af fjárhagsástæðum. Betra væri að gamna sér við ráðagerðir um að skilgreina, hvað skuli greiða og að hvaða hluta. Hver eru mörk heilsu og fegrunaraðgerða? Eru lyf svo dýr, að þau eigi ekki að kaupa? Eða þá aðgerðir, meðferðir? Á að halda lífi í öldruðum, sem þjást. Réttar spurningar eru erfiðar, þess vegna réttar.

Spurningar um siðferði

Punktar

Heilsuvandinn stafar mest af tregðu pólitískra yfirvalda við að taka á siðferðilegum spurningum. Á að halda gömlu fólki á lífi með dýrum aðferðum? Hversu langt á að ganga á því sviði? Á að veita innfluttu fólki dýrari þjónustu en öðrum? Hafa sjúklingar rétt á mannsæmandi umhverfi, til að dæmis að liggja ekki á göngum. Eiga sjúkdómar að hafa misjafna réttarstöðu, eiga fíknir til dæmis að vera lægra skrifaðar? Eiga fegrunaraðgerðir rétt á sér, tannréttingar til dæmis? Þar sem pólitíkusar skjóta sér undan svörum við þessu, taka þeir ábyrgð á fullri þjónustu. Og standa ekki við hana.

90% aðild að normi

Punktar

Fyndið er, að vinstri flokkarnir í Reykjavík skuli hafa staðið að mismunun barna eftir fjárhag þeirra. Það þurfti hægri flokk til að ákveða að greiða skólaferðalög úr borgarsjóði. Vinstri flokkarnir létu viðgangast, að sum börn færu ekki í skólaferðir. Af því að þau höfðu ekki ráð á þeim. Einnig, að sum börn notuðu ekki fínar dagbækur eins og hin. Þannig vildu skólamenn stéttskipta börnum í 90% normalbörn og 10% riff-raff. Í Fréttablaðinu er bráðfyndið viðtal við formann Skólastjórafélagsins, Hönnu Hjartardóttur. Hún skilur greinilega ekki bofs í málinu. Henni dugar 90% aðild að normi.

Framboðið er niðurlæging

Punktar

Pétur Gunnarsson á Eyjunni bendir á einkennilega afsökunarbeiðni Íslands. Utanríkisráðuneytið biður Sri Lanka afsökunar á ferð Bjarna Vestmann til uppreisnarmanna Tamíla. Bjarni var að vinna vinnuna sína. Málið er hluti af vandræðum, sem hljótast af framboði Íslands til sætis í Öryggisráðinu. Til að kaupa atkvæði verður Ingibjörg Sólrún að skríða fyrir harðstjórum. Nú þegar er Kína sagt styðja framboð Íslands. Þaðan er von á illu einu. Þetta endar með, að Ísland verður allra gagn. Sendiherrar drekka hlandið úr sér, ef erlendir dólgar með atkvæðisrétt heimta það. Framboðið er niðurlæging.

Krítað liðugt til forna

Fjölmiðlun

Júlíus Caesar er stundum kallaður fyrsti ritstjórinn. Sem ræðismaður lét hann kríta daglegt lögbirtinga- og fréttablað á veggi Rómar. Það hét Acta Diurna. Raunar var hann bara fyrsti ritstjóri nafngreinds dagblaðs. Áður, jafnframt og síðar birtust á veggjum Rómar krítaðar fréttir, skoðanir, áróður og auglýsingar. Þaðan kemur málshátturinn “að kríta liðugt”. Þetta tíðkaðist líka áður hjá Aþeningum hinum fornu. Dagblöð eru því mjög gömul í sagnfræðinni, byggðust fyrst á tilvist krítar og útbreiddu læsi borgara. Ætíð hafa kallarar á torgum gegnt svipuðu hlutverki útvarps fyrir ólæsa.