Yfirheyrslur Moggans

Fjölmiðlun

Mogginn hefur lengi haldið sig vera æðri mátt. Sem slíkur hefur hann smurt stjórnmálamenn í heimsóknum þeirra í musterið. Jafnvel stjórnarandstæðinga. Jafnframt flytur Mogginn yfirheyrzlur í Staksteinum og spyr menn hvasst. Af hverju gerir Össur eitthvað? Af hverju fór hann til Indónesíu. Hvað kemur honum málið við? Í hvaða erindrekstri? Sér hann ofsjónum yfir forsetanum? Er hann að æfa forsetaframboð? Spurningaleikur án svara eru sérkennileg blaðamennska. Kannski hafði Mogginn áhrif í gamla daga, en það var fyrir mitt minni. Ég þekki engan stjórnmálamann sem telur Moggann vera æðri mátt.

Félagsleg rétttrú biblíunnar

Punktar

Félagslegur rétttrúnaður hvers ríkis og hvers tíma stjórnar biblíunni. Fyrr á öldum rifust kirkjuþing um, hvað skyldi vera og hverju skyldi sleppa. Út á þetta klofnaði kristnin í nokkra meginstrauma og svo ótal kirkjudeildir. Lúter orðaði biblíuna öðru vísi en páfinn. Þjóðkirkjan orðar hana á annan hátt árið 2007 en hún gerði árið 1981 og 1584. Biblíuþýðingar eru auðvitað skáldskapur. Biblían er ekki heilagt rit, orð guðs. Hún er samtíningur og skáldskapur munka, sums staðar studdur af sagnfræði. Hún er handbók, sem reynir að endurspegla félagslegan rétttrúnað hvers ríkis og hvers tíma.

Miðnætti í Bandaríkjunum

Punktar

“Miðnætti í Bandaríkjunum” segir fyrirsögnin. Arianna Huffington heldur því fram, að geðveiki jaðarinn hafi yfirtekið flokk repúblikana. Í stað flokks Reagans sé kominn flokkur Bush, Cheney, Rove, Limbaugh, Coulter og Malkin. Þessi flokkur styðji pyntingar og fagni framferði Blackwater. Hann sé að drepa herinn, borgaralegt frelsi, ríkissjóð, öryggi borgaranna og virðingu landsins úti í heimi. Huffington sakar fjölmiðla um að gæla við geðveikina. Hún sakar flokk demókrata um að þora ekki að fara í hart við geðsjúklinga. Hún segir alveg það sama, sem ég hef verið að segja í nokkur ár.

Finndu Finn

Punktar

Bezti texti, sem ég hef heyrt, er eftir Árna Snævarr blaðamann. Brandarinn hljóðar svona: “Follow the money, cherchez la femme, finndu Finn.” Snýst um slóðina, sem rannsóknablaðamenn þurfa að rekja til að finna skandalinn. Það var “Deep Throat”, William Mark Felt, sem sagði “Follow the money”. Hann var að leka í Bob Woodward í Watergate-málinu. “Cherchez la femme” er franskt spakmæli eftir Alexandre Dumas. Það gefur skemmtilega franska sýn á spillingu. Hér á Íslandi dugir að spyrja, hvar Finnur Ingólfsson liggi undir steini. Brandari Árna sameinar grínhefðir þriggja menningarheima.

Krár loki að nóttu

Punktar

Á Vesturlöndum mega krár ekki halda vöku fyrir borgarbúum. Krám er lokað fyrir miðnætti og næturklúbbar hafðir utan íbúðahverfa. Hér vantar þessa flokkun í krár og klúbba. Allar krár hafa opið fram á morgun. Þær eru ekki hljóðheldar, eins og þeim ber að vera. Þar á ofan hafa kráareigendur lagt hald á almenn svæði með því að senda tóbaksfólk út á götu að garga og góla. Kráareigendur bera ábyrgð á útivistarfólkinu, hávaða þess og öðrum hávaða, sem lekur út af krám. Þess vegna er sjálfsagt, að öllum krám verði lokað fyrir miðnætti. En næturklúbba má reka í iðnaðarhverfum og sandgryfjum.

Aðdráttarafl heimsveldis

Punktar

Evrópa er eina heimsveldi sögunnar með aðdráttarafli. Ríki standa í biðröð til að komast inn. Önnur heimsveldi hafa stækkað með vopnavaldi. Evrópa stækkar, af því að fátæk ríki telja Evrópusambandið vera leið til auðæfa. Frægasta fordæmið er Írland, sem varð ríkt út á aðildina. Seiðkraftur aðildar stuðlaði að hruni Sovétríkjanna og austurblokkarinnar. Evrópa er ekki sterk í hernaði. En hún er efnahags-, velferðar- og umhverfisveldi heimsins. Reglugerðir bandalagsins eru sterkari en kjarnorkusprengjur Bandaríkjanna. Þær stýra til dæmis lögum og reglum “fullvalda” Íslands.

Gott og vont í borginni

Punktar

Nýi borgarstjórinn ætlar að bjarga Kolaportinu. Það er gott, sá gamli var sofandi í því máli lífs í borg. Sá nýi vill líka Sundabraut strax. Það er líka gott, gamli meirihlutinn var þar ekki nógu harður. Ekki er þó allt eintóm sæla við skiptin. Aftur er gengin stefna Reykjavíkurlistans gegn mislægum mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Aftur verður reynt að þæfast gegn sjálfsögðu mannvirki, sem bætir umferð og minnkar mengun. Nýi meirihlutinn mun komast að því eftir hálft þriðja ár, þegar umferðin hefur þyngzt. Hann mun tapa næstu borgarstjórnarkosningum á þessu eina máli.

Lockerbie hneykslið

Punktar

Vantraust manna á hvers kyns stjórnvöldum er slíkt, að eftir áföll blómstra samsæriskenningar. Leyniþjónustunni CIA er kennt um morðið á Kennedy og árásina á tvíburaturnana. Eitt slíkra mála hefur reynzt lífseigara en flest önnur. Það er dómurinn yfir líbanska leyniþjónustumanninum Megrahi fyrir að hafa sprengt farþegaþotu yfir Lockerbie árið 1988. Flest bendir til, að það hafi verið rangur dómur. Í ljós hafa komið atriði, sem tengjast CIA. Margir hafa skrifað um þau, síðast dálkahöfundurinn Robert Fisk. Hann er þekktur af upplýsa dulda skandala í alþjóðamálum. Sjáið grein hans í Independent.

Flúið á Volgubakka

Punktar

Menn verja oft lélegan málstað með því að fara að tala um annað. Það hét í gamla daga að fara austur á Volgubakka. Bush er vondur, segir einn. Annar svarar: Hvað með Pútín? Hann vill frekar tala um Pútín en um Bush, þótt sá síðari sé til umræðu. Í annarri umræðu segir einn: Ísrael fer illa með Palestínu. Annar svarar með því að segja: Af hverju talarðu ekki um, hversu illa Kína fer með Tíbet? Þannig geta þáttakendur í umræðum komið sér undan því að tala um það, sem er til umræðu. Í gamla daga fóru íhaldsmenn jafnan að tala um stjórnarfar Stalíns, ef kvartað var yfir stjórnarfari á Íslandi.

Fagrir prentmiðlar

Fjölmiðlun

Íslenzkir prentmiðlar eru fagurt hannaðir. Sum tímarit eru hrein listaverk, jafnvel Fréttabréf Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Dagblöðin eru hreint og skýrt brotin, hvert með sínu sniði. Ég þekki opnurnar úr hverju dagblaði fyrir sig. Fréttablaðið kom inn með skýra og faglega hönnun fyrir sex árum og önnur dagblöð fylgdu á eftir. Að baki þessa ferils er ný og fjölmenn stétt hönnuða, sem hafa risið til áhrifa á prentmiðlum. Flettið prentmiðlum frá því fyrir tíu árum. Þið sjáið þar brothætta hönnun með tilviljanasniði. Flettið tveggja áratuga fjölmiðli og sjáið skort á hönnun.

Þögnin á mótorhhjólinu

Punktar

“Það var mikið frelsi að fara í útilegu á mótorhjóli og þarna lærði ég að hlusta á þögnina.” Ennfremur: “… hraðinn myndi ákveðna spennu og mikil tilfinning skapist fyrir náttúrunni, þegar setið sé á mótorhjóli.” Þetta las ég í blaðaviðtali í 24 stundum í gær. Nánari skýringu fékk ég ekki á merkilegum samhljómi vélhjóls, þagnar og náttúru. Þarna var á ferðinni enn eitt kranaviðtalið, sem einkennir íslenzka blaðamennsku umfram aðrar. Bunan stendur upp úr misjafnlega rugluðu fólki. Hún er birt án athugasemda eða skýringa. Kranaviðtöl vekja yfirleitt fleiri spurningar en þær svara.

Tilgangur Hæstaréttar

Punktar

Menn leita að réttlæti hjá Hæstarétti, en fá ekki. Hæstiréttur er ekki handhafi þess. Hann er góður í að fá niðurstöðu í mál, svo að friður ríki. En menn verða að fara lengra til að finna réttlæti. Til þess þurfa menn að leita til Evrópudómstólsins. Margir hafa gert það og fengið leiðréttingu sinna mála. Hvað eftir annað hefur Evrópudómstóllinn úrskurðað þvert gegn Hæstarétti og raunar gert hann að fífli. Hæstiréttur heldur samt áfram sínu striki sem sérfræðistofnun í lögfræðilegri þrætubókarlist. Mikilvægasta skref þjóðarinnar í leit hennar að réttlæti er aðildin að Evrópudómstólnum.

Afneitunarsinni kvartar

Punktar

Egill Helgason kveinkar sér undan uppnefninu afneitunarsinni. Er notað um fámennan hóp, sem tekur lítið mark á viðvörunum um mengun jarðar, lofts og sjávar. Þar er til dæmis brezki dómarinn Michael Burton, sem ég mundi seint gera að læriföður í náttúruvísindum. Og Plato-stofnunin, sem er enn minna virði, þótt Egill mæri próf hennar. Obbinn af andstöðu við viðvaranir kemur frá róttækum hópum og sjóðum á hægra jaðri stjórnmála, dólgafrjálshyggju og ofsakristni. Af þeim, sem vit hafa, eru yfir 95% viðvörunarsinnar. Orðið afneitunarsinni passar um hina. Líkt og hugtakið “nytsamur sakleysingi”.

Fölsun sem tæknivilla

Punktar

“Tæknilega nauðsynlegt” og “mannleg mistök” segir Sigurður F. Guðmundsson í Fréttablaðinu. Hann var að tala um endurteknar falsanir sínar og föður síns á upplýsingum til veðbókar. Þeir þóttust eiga Tívolílóðina, sem Hveragerði átti raunar. Þetta minnir á yfirlýsingar Árna Johnsen. Orðalagið þekkist: Það er tæknilega erfitt að fara eftir reglum og mannleg mistök að falsa. Þegar upp kemst. Á íslensku heitir það fölsun, þegar menn breyta ítrekað opinberum skjölum eftir undirskrift. En mörgum Íslendingum finnst það vera viðbrögð við tæknilegri nauðsyn. Sannleikurinn skiptir þá minnstu máli.

Drykkurinn er auglýsing

Punktar

Danny Crane í seríunni Boston Legal drekkur íslenzkt Reyka vodka. Stafar ekki af gæðum vodkans. Söluaðili Reyka bauð hæst í auglýsinguna. Það heitir “product placement” á amerísku. Felst í, að sjónvarpsþættir vekja athygli á vörumerkjum og taka peninga fyrir. Áður voru stjörnur fengnar til að mæla með vörumerkjum, en nú eru þau orðin hluti af settinu. Í leynilögguseríum eru notaðir klossaðir jeppar, því að framleiðendurnir borga. Apple borgar fyrir að láta tölvur sjást á skjá. Munið það, þegar íslenzkir seríukallar sjónvarps hampa gostegund. Keypt auglýsing, en því miður ómerkt sem slík.