Tyrkneskt þjóðarmorð

Punktar

Fyrir tæpri öld frömdu Tyrkir þjóðarmorð á Armenum, drápu hálfa aðra milljón. Það var fyrsta þjóðarmorð síðustu aldar, undanfari Hitlers. Þýzkir herforingjar voru viðstaddir og lærðu af reynslunni. Þetta er sagnfræðileg staðreynd, sem Tyrkir neita að viðurkenna. Þeir andmæla orðinu þjóðarmorð. Tyrkland hefur varið fúlgum í að fá bandaríska þingmenn til að falla frá orðinu í þingsályktun. Það er að takast með mútum og hótunum. Flutningsmenn ályktunarinnar hafa hver á fætur öðrum bilað í trúnni. Hið sama gildir líka um fréttamenn fjölþjóðlegra fréttastofnana. Vestrið verst ekki lyginni.

Auðræðið er komið

Punktar

Demókratar eiga erfitt með að nota sér yfirburðina í almenningsálitinu. Frambjóðendur þeirra þora ekki að vera almennilega á móti stríðinu gegn Írak. Þeir þora ekki að mæla með auknum sköttum, aukinni velferð og meiri umhverfisvernd. Þótt meirihluti þjóðarinnar vilji það. Tregða demókrata byggist á, að kjósendur skipta ekki lengur mestu máli. Það eru gjafmildu fyrirtækin, sem stýra gengi frambjóðenda gegnum dýra kosningabaráttu og inn á þing. Eða í Hvíta húsið. Fyrirtæki eru íhaldssöm. Forstjórar endurspegla ekki vilja almennings. Því eru frambjóðendur demókrata ígildi repúblikana.

Nýliðar til vandræða

Punktar

Stækkun Evrópusambandsins veldur því erfiðleikum. Sum nýju ríkin hafa verið til vandræða, einkum Pólland undir stjórn þjóðernissinna. Slíkir hugsa um sérhagsmuni og hafa lítinn áhuga á almannahagsmunum bandalagsins. Ísland mundi líklega haga sér þannig, ef það væri inni. Á leið inn eru Búlgaría og Rúmenía. Þau verða til vandræða, ekki vegna þjóðernisöfga, heldur vegna spillingar og lekra landamæra. Evrópu tókst að laga Írland, Portúgal, Spán, Ítalíu og Grikkland að vestrænni mynd. Nýju ríkin í austri meltast á lengri tíma. Samt á að taka þau strax í Schengen-landamærakerfið. Það er glannalegt.

Radíus menningar

Ferðir

Margar stórborgir Evrópu eru einn km í radíus um borgarmiðju, Vínarborg, Bruxelles, Kaupmannahöfn, Amsterdam, Madrid. Oft voru þær áður umluktar borgarmúr, sem var um sex km að lengd. Utar húktu varnarlaus Breiðholt og Grafarvogar. Reykjavík er ein af þessum borgum. Ef eins kílómetra hringur er dreginn kringum Lækjartorg, er jaðar hringsins við Snorrabraut, Ánanaust og Hringbraut. Þetta er auðvitað hverfi númer 101, nafli heimsins í flestum stórborgum. Aðeins fáar borgir eru stærri, París og New York. Menningarsaga okkar hefur verið háð innan hinna þröngu hringja. Auðvitað í hverfum 101.

Ótímabært andlát

Fjölmiðlun

Blaðið 24 stundir sótti fram í haustkönnun fjölmiðla. Að öðru leyti er lestur dagblaða í föstum skorðum hér. Heildarlestur hækkaði milli vors og hausts. Fríblöðin hafa þessi áhrif, þau eru meiri hluti pressunnar hér en annars staðar. Á vesturlöndum minnkar notkun dagblaða ár frá ári og hefur gert svo nokkra áratugi. Sum blöð hafa jafnað þetta upp með auknum lestri vefsvæða, en tekjur af því hafa verið litlar. Nú eru auglýsingar farnar að hressast á vefsvæðum fjölmiðla. Notendum finnst þau meira trausts verðar en önnur fréttasvæði á vefnum. Of snemmt er því að spá andláti dagblaða.

Öryggið kostar

Punktar

Mikilvægara er að verja fé til öryggis en til skóla og heilsu. Öryggi er grundvöllur að tilveru ríkja. Skólar og heilsa eru félagslegur lúxus til viðbótar. Þótt við fylgjum velferð og mannbótum, megum við ekki gleyma undirstöðunni. Til skamms tíma vorum við ekki fullvalda sem þjóð. Við lágum uppi á Bandaríkjunum og Atlantshafsbandalaginu. Nú þykjumst við fullvalda, erum farin að borga sjálf og það er gott. Nokkrir milljarðar króna hljóta að fara árlega í varnir landsins. Hins vegar eigum við ekki að fleygja peningum í skaðlegt rugl, Afganistan og Írak, vítisengla og stríðsleiki.

Í villu á Austurvelli

Veitingar

Villtist í hádeginu í gær inn á keðjumatstað við Austurvöll. Milli Borgar og dómkirkju er Red Chili, svo dimmur í hádegissólskini, að ég gat varla lesið matseðilinn. Einn hundrað staða, sem lifa á fólki með engan smekk fyrir mat. Gratineruð kjúklinga burritos var pönnukaka utan um næstum alls engan kjúkling. Einskis virði sem matur. Fajitas classic var betri kostur, sneiddur kjúklingur kom snarkandi á pönnu. Á undan var sæmileg grænmetis-hveitisúpa dagsins. Vel í sveit settur staður sérhæfir sig í mexikönskum pönnukökum. Aðalréttir á 2.390 krónu meðalverði. Ég mun ekki aftur villast.

Fangi auðmanna

Punktar

Hilary Clinton er merkisberi hinna nýju frambjóðenda, sem eru repúblikanar að öllu leyti nema að nafninu til. Hún veður í peningum frá fyrirtækjum og auðmönnum, sem vilja sveigja stefnu hennar til hægri. Þeim hefur tekizt það. Hún hefur lengst af verið mjög mild í andstöðu við stríðið gegn Írak. Hún vill ekki loka götum fyrir auðmenn í skattakerfinu. Meðal ráðgjafa hennar eru hatursmenn verkalýðsfélaga og beinir stuðningsmenn auðhyggju. Hún mun ekki einu sinni geta lagað sjúkratryggingar barna, ef hún verður forseti. Gjafmildir auðmenn ráða stefnu hennar. Hún endar með þeim í golfi.

Hótel í Kvosinni

Ferðir

Væri ég ferðamaður, vildi ég búa sem næst borgarmiðjunni Lækjartorgi. Þar er fjöldi hótela á næsta leiti. Í Pósthússtræti eru Hótel Borg, þar sem meðalverðið hefur undanfarið numið $ 306. Og Hótel 1919, þar sem það hefur verið $ 294, hvort tveggja samkvæmt TripAdvisor. Ódýrari herbergi eru á Hótel Centrum í Aðalstræti, á $ 220. Svipað verð er á Castle House við Skálholtsstíg, $ 211. Öll þessi hótel fá fjögur gæðastig, sem er það hæsta í bænum. Þau fá vinsamleg ummæli hótelgesta. Annars er algengt að hótel í miðborginni kosti um og yfir $ 400. Viðbrögð notenda þar eru lakari.

Persónuvernd í raun

Fjölmiðlun

Hugtakið persónuvernd er notað til að vernda glæpamenn fyrir samfélaginu. Dómarar nota það til að dæma blaðamenn fyrir að segja satt um skúrka. Nýlegir dómar gegn fjölmiðlum fjalla nærri eingöngu um mál af því tagi. Komið hefur í ljós annar flötur á persónuvernd. Lögreglan vísar til hennar, þegar hún neitar að afhenda húseigendum lögregluskýrslur um ólæti í fjölbýlishúsum. Fjöldi ölóðra Pólverja barðist með hnífum og slökkvitækjum í stiga fjölbýlishúss. Fólk varð yfir sig hrætt af skelfingu, en getur ekki losnað við ófögnuðinn. Persónuvernd hvílir nefnilega á lögregluskýrslunni.

Sagan endurskrifuð

Punktar

Stalín er aftur orðinn fínn kall í Rússlandi. Vladimir Pútín er að láta endurskrifa sögu landsins. Leiðbeiningarnar eru komnar út og fyrstu kennslubækurnar væntanlegar. Þar er alræði hafið til skýjanna, Stalín sagður vera hetja og Gorbatsjov sagður vera svikari. Vesturlönd eru sögð sitja á svikráðum við Rússland og meina því réttmæta stöðu heimsveldis. Fyrir tæpum átta árum sagði ég Pútín mundu verða nýjan Stalín og það er að koma fram. Hvorki ráðamenn né almenningur á Vesturlöndum átta sig á þessu. Vinældir Pútíns erlendis eru að vísu litlar, en þær aukast þó lítillega.

Ráðast á ElBaradei

Punktar

Bandaríkin og Ísrael fara hamförum gegn ElBaradei, forstjóra atómstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það minnir á stríð þeirra gegn Hans Blix, sem stýrði eftirliti Sameinuðu þjóðanna með vopnaþróun Íraks. Árásirnar á Blix voru undanfari stríðsins gegn Írak. Árásirnar á ElBaradei núna eru undanfari árásar á Íran. Í ljós kom, að Blix hafði rétt fyrir sér og að Bandaríkin lögðu fram falsgögn í málinu. ElBaradei hefur auðvitað líka rétt fyrir sér. En það stríðir gegn hagsmunum Ísraels og George W. Bush. Þess vegna er allt á útopnuðu til að grafa undan óhlutdrægum upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.

Rómverjar í Róm

Punktar

Þrjár af hverjum fjórum handtökum í Rómarborg eru á Roma, sígaunum frá Rúmeníu. Þeir hegða sér ekki í Róm eins og Rómverjar. Um alla Ítalíu er kvartað yfir þeim. Ríkisstjórnin er farin að senda þá til Rúmeníu hundruðum saman. Um alla Evrópu er amast við fólki, sem vill alls ekki reyna að hegða sér eins og heimafólk. Dætradráp múslima fer í taugar Norðurlandabúa. Þegar erlent fólk er orðið 5% íbúafjöldans verða líka árekstrar út af hagsmunum á borð við vinnu. Almennt hafa ríkisstjórnir í Evrópu seint skilið umfang vandans. Aðlögun gengur hægt og þjóðernisofsóknir eru því í uppsiglingu.

Belgía liðast sundur

Punktar

Þjóðernishnjaski er svo komið, að Belgar þola ekki lengur Belga. Landið liðast sundur í átökum Flæmingja og Vallóna. Síðarnefndu ruku af sáttafundi á miðvikudaginn. Sögðu hina fyrri vilja slíta sundur friðinn. Deilt er um fyrirkomulag kosninga í blandbyggðum. Einkum er það viðkvæmt í úthverfum Bruxelles. Þær voru áður flæmskar, en hafa verið að gerast vallónskar. Mánuðum saman hefur ekki verið hægt að mynda ríkisstjórn. Hingað til hafa þær byggst á sátt milli hollenzku- og frönskumælandi stjórnmálaflokka. En nú vilja menn ekki lengur tala saman. Nema ef vera skyldi á ensku.

Ofvirkur forseti

Punktar

Bandarískir þingmenn trylltust fyrir nokkrum árum í hatri á Frökkum. Vildu láta franskar kartöflur heita frelsiskartöflur í matstofunni. Var illa við, að Frakkar höfðu rétt fyrir sér um Írak. Nú hafa þeir aftur tryllzt, en klappa nú og æpa í gleði yfir heimsókn Nicolas Sarkozy forseta. Hann hefur tekið við af Tony Blair sem bezti vinurinn í Evrópu. Líklega sá eini síðan Kaczynski féll í Póllandi. Þingmennirnir virðast alltaf vera uppi á háa sé, með eða móti. Skrítnari er framganga Sarkozy í Washington, aðeins ári fyrir brottför George W. Bush. Hann er ofvirkur og gat því ekki beðið í eitt ár.