Að boxa við guð

Punktar

Heimskasti og hrokafyllsti bókartitill vertíðarinnar er: “Að kasta flugu í straumvatn er eins og að tala við guð”. Ekki er gerlegt að sjá neitt guðlegt við að veiða fisk. Ekki er ekki hægt að rjúfa tengingu milli þess að kasta flugu og veiða fisk. Aldrei mundi Sigmari B. Haukssyni detta í hug að rita bókina: “Að spenna rjúpnabyssu er eins og að tala við guð”. Til að semja slíkan titil þarf ótrúlega sjálfhverfan hroka. Hann finnst aðeins hjá þeim, sem hafa lengi stundað sjónhverfingar og blindazt af fágætri getu í þeim. Betri titill er: “Að kasta flugu í straumvatn er eins og að boxa við guð”.

Andlát markaðarins

Punktar

Ríkidæmi Íslendinga stafar af fráhvarfi frá eysteinsku, sem ríkti hér fyrir hálfri öld. Auðurinn stafar af markaðsbúskap, sem smám saman hefur verið tekinn upp. Ég hef alltaf stutt það hagkerfi. Ég tel það hafa verið 99% til góðs. Ég tel það henta atvinnulífinu. En ekki endilega neinu öðru. Reynslan sýnir það líka. Einkavæðing hentar til dæmis ekki sósíalnum og ýmsum myndum hans, svo sem menntun og heilsu. Reynsla útlanda sýnir þar slakan árangur, svo sem í Bandaríkjunum og Bretlandi. Og ófundið er framhald hagkerfisins, er markaðurinn hefur náð eðlilegum endalokum og andláti í íslenzkri fáokun.

Dauðir bankar og klúbbar

Punktar

Dauðar húshliðar með læstum dyrum eru ekki miðbær gangandi fólks. Þær eru Wall Street og Threadneedle Street að kvöldi. Enginn fer í kaffi eftir þrjú í bankahverfi. Sama er um klúbbahverfi, sem lifna eftir tíu. Bær gangandi fólks þarf fullt af sjoppum, tuskubúðum, galleríum og kaffihúsum, sem kalla á fólk allan daginn. Skólavörðustígur og Laugavegur eru miðbær, Kvosin er það ekki. Þar eru Landsbankinn og Héraðsdómur með þungar húshliðar. Þar var Pravda, sem brann, og þar er kominn arftaki Apóteks. Klúbbar eiga að vera í sandgryfjum utanbæjar. Og bankarnir geta á tölvuöld verið í Ódáðahrauni.

Ómar er óþreytandi

Fjölmiðlun

Gaman er að hitta Ómar Ragnarsson og spjalla við hugmyndaríkasta mann, sem ég hef kynnzt. Hugur hans ólgar eins og fossarnir í Jökulsá gerðu fyrir Kárahnjúkavirkjun. Ég er auðvitað sammála honum um hvert einasta orð um náttúru Íslands. Frábærast við Ómar er, að hann lætur vondar fréttir og vont fólk ekki buga sig. Hann er ævinlega léttur í lund. Við Ómar áttum í vikunni sameiginlegt fimmtíu ára afmæli í fjölmiðlun. Við hittumst fyrst 1957 í Skólablaðinu, sem gefið var út í Menntaskólanum í Reykjavík. Ég vil hins vegar síður sitja í flugvél hjá honum niðri í gljúfrum við Kárahnjúka.

Illa skrifað blað

Fjölmiðlun

Morgunblaðið hefur ævinlega verið illa skrifað. Í gamla daga var það frægt fyrir mogga-fjólurnar. Stíll blaðsins hefur versnað undanfarin ár með klunnalegum nafnorðastíl skólaritgerða. Þetta er fjölmiðill, sem skrifar: “Ekki er vitað til, að neinn hafi orðið fyrir slysi.” Þegar tvö orð duga: “Engan sakaði”. Þegar ég kenndi textastíl fyrir fjölmiðla í vor, reyndist vel að nota forsíðu Moggans til leiðréttinga. Villurnar voru svo augljósar, þokan svo þétt. Í ljósi þessa var fyndið að lesa sjálfshól starfsmanns á blaðsíðu 30 í blaðinu í gær. Honum er sælt að vaða í villu um eigin sök.

Mútuðu Ölfushreppi

Punktar

Orkuveitan mútaði Ölfushreppi með 45 milljónum til að hefja undirbúning Bitruvirkjunar. Fyrir þetta fé fékk hún hagstæðan skipulagsúrskurð og framkvæmdaleyfi. Nýjasta dæmið um siðleysi stofnunar borgarinnar er í stíl við önnur vinnubrögð þar undanfarin ár. Mér sýnist, að Orkuveitan sé verra fyrirtæki en Landsvirkjun, sem þó er skelfileg. Ölfushreppur er líka fræg spillingarbúla. Nýr meirihluti í borginni þarf að ná tökum og reka liðið, sem stjórnar veitunni. Það er einmitt í stofnunum og nefndum sveitarfélaga, þar sem spilling hefur mælzt vera mest á auðugum vesturlöndum.

Eftirlit með bílum

Punktar

Ef Stóri bróðir er ekki kominn til Íslands, kemur hann, þegar gervihnettir fylgjast með öllum bílum. Samgönguráðuneytið vinnur að slíku kerfi til að geta fundið slysabíla og týnda bíla. Það er eins og að setja upp kerfi til að hlera alla síma við að finna vandamál í samfélaginu. Ríkið kann sér ekki læti í eftirlitshneigð. “Umræða um slíkt er ekki viðeigandi”, sagði einn forkólfurinn á forsíðu 24 stunda. Staðsetningarkerfi bíla er eins og að skjóta úr fílabyssu á mús. Slíkt kerfi getur komið að gagni í sárafáum tilvikum árlega. Og freistar auvðitað þeirra, sem vilja leika Stóra bróður.

Evrópa endurskoðuð

Punktar

Enn hafa endurskoðendur Evrópusambandsins neitað að skrifa undir reikninga þess. Í þrettánda skipti í röð fá þeir ekki undirritun. Í þetta sinn hafa rúmlega fjórir milljarðar evra verið greiddir án fullnægjandi skýringa. Áður var þetta einkum í landbúnaði, en að þessu sinni eru syndirnar einkum í innviða- og svæðishjálp. Þetta er náttúrulega afleitt fyrir bandalagið. Að vísu er því ekki einu um að kenna. Einstök ríki áttu að hafa eftirlit með fjórum evrum af hverjum fimm, sem hafa týnzt. Samt er ljóst, að stærsta hagkerfi heims getur ekki lengur sætt háði og spotti fyrir svona rugl.

Dýrastur og beztur

Punktar

Marc Veyrat er bezti kokkur í heimi. Sá eini, sem Gault-Millau gefa tuttugu stig af tuttugu mögulegum. Hann kokkar á sumrin í eigin höll í Veyrier og á veturna í föðurhúsum á skíðastaðnum Megeve. Þú getur gist hjá honum fyrir € 350 og fengið fimmtán rétta kvöldverð fyrir € 350 í viðbót. Þú getur líka fengið sautján rétta kvöldverð. Ef þú átt pening afgangs, verður þú að fara annað í hádeginu, þá er lokað. Veyrat varð viðurkenndur heimsmeistari árið 2003. Eldhúsið er opið, hann gengur um sal með stóran, svartan hatt á höfði og gerir athugasemdir við borðhald fólks. Menn þurfa að fara rétt að öllu.

Afturhald á Alþingi

Punktar

Nú eru þeir farnir að ræða jarðasöfnun auðmanna. Flest getur orðið til að drepa tímann á Alþingi. Fjöldi bænda hefur getað brugðið búi með seðla í vasanum, í flestum tilvikum nægileg eftirlaun. Þeir, sem keyptu jarðirnar, gerðu þetta kleift. Í stað þess að jarðir legðust sjálfkrafa í eyði, engum að gagni. Afturhald Jóns Bjarnasonar og Bjarna Harðarsonar þingmanna hefði skaðað fólk. Hindrað það í að beita markaðsbúskap og hafa gott fyrir sinn snúð. Svonefndir auðmenn flikka svo upp á hús og girðingar. Þeir koma sér upp stóði, sumir rækta skóg, einn ræktaði hör. Allt er þetta af hinu góða.

Miðja Berlínar

Ferðir

Miðja Berlínar er hornið á Unter den Linden og Friðriksstræti. Þaðan sker eins km radíusinn Brandenborgarhliðið, Potsdamer Platz, Safnaeyju og bakka árinnar Spree. Ekki er nauðsynlegt að búa á Adlon fyrir € 330 til að geta farið fótgangandi um hverfi 10117. Það er heiti hverfis 101 í Berlín. Enn nær borgarmiðju er Jolly Hotel Vivaldi á € 149 og Hotel Berlin Mitte á € 137. Hvort tveggja er í Michelin-klassa. Ódýrara hótel á svæðinu er Mercure Checkpoint Charlie á € 129. Fær fín meðmæli í TripAdvisor og 4,5 stig af 5 mögulegum. Frambærileg hótel fást ekki á lægra verði þar fremur en hér.

Þyrping enn á ferð

Punktar

Fasteignafélagið Þyrping reynir ítrekað að skerða lífsgæði Seltirninga. Með stuðningi áróðursritsins Nesfrétta. Áður reyndi félagið að fá að byggja í sjó við Eiðistorg. Nú beinir það arnaraugum að griðastað fugla í nágrenni Gróttu. Fyrir mörgum árum var háð barátta á Seltjarnarnesi gegn byggð við Nesstofu. Friðunarsinnar náðu fram, að fallið var frá hluta fyrirhugaðrar byggðar. Sá sigur virðist ætla að endast of skammst. Því að skipulagsnefnd hreppsins hefur tekið vel í nýjustu ágirnd Þyrpingar. Áhugafólk um leifar ósnortinnar náttúru á vestanverðu Nesinu þarf því að grípa aftur til vopna.

Draumar um netþjóna

Punktar

Mér kom á óvart, að bara 3,7% vinnuafls á Íslandi sé í upplýsingatækni. Ég hélt, að skólakerfið ungaði út vel menntuðu fólki í öllu, sem kemur við tölvum. Ég vissi að vísu, að það hefur aldrei haft marktæka menntun fyrir blaðamenn. En þeir eru bara hluti upplýsingatækninnar. Við lesum í miðlum um netþjónabú sem vænlegan kost í atvinnulífinu. Sem ódýra aðferð við að útvega margfalt fleiri færi á vinnu heldur en stóriðjan getur. Skipti úr stóriðjudraumum yfir í netþjónadrauma eru þáttaskil í draumórum okkar. Samt draumórar. Vitlegra er þó að flytja inn tölvufólk en starfsfólk álvera.

Sýslumenn vernda löggur

Punktar

Kona varð 85% öryrki árið 2003 á hátíð embættis sýslumannsins á Selfossi. Það var afleiðing af bumbuslag tveggja lögreglumanna. Sýslumaðurinn og kollegi hans á Hvolsvelli klúðruðu kærumáli konunnar. Ríkissaksóknari sagði rannsóknina hafa brotið lög um stjórnsýslu og meðferð opinberra mála. Vitni voru að málinu, en þau voru ekki kölluð til, heldur bara valin einkavitni lögreglunnar. Umboðsmaður Alþingis hafði afskipti af málinu og taldi það forkastanlegt. Klúður tveggja sýslumanna er greinilega vísvitandi. Hafði þau hörmulegu áhrif, að konan náði ekki rétti sínum og fær engar bætur.

Skætingur ráðgjafanna

Punktar

Gísli Már Gíslason prófessor hefur birt rökstudda skoðun, skýrða með dæmum. Hann fjallaði þar um, að stungið hafi verið undir stól mikilvægum gögnum um áhrif Bitruvirkjunar á umhverfið á Hellisheiði. VSÓ Ráðgjöf hefur svarað þessu með skætingi, án þess að taka efnislega á málinu, án þess að vísa til gagna. Viðbrögð VSÓ eru því miður dæmigerð um viðbrögð við gagnrýni hér á landi. Menn garga bara og segja fólk eiga bara að treysta sér. Því miður er engin ástæða til að treysta ráðgjöfum, sem geta ekki fjallað málefnalega um deilumál. Allt of mikið af umræðu í þjóðfélaginu er af tagi VSÓ Ráðgjafar.