0104 Punktur 2

0104

Textastíll
Punktur II
Settu sem víðast
punkt og stóran staf

Ekki skrifa: ”Þriðju kynslóðar símar eru hannaðir fyrir háhraða gagnaflutning og geta sýnt sjónvarpsefni án vandræða á dreifisvæðum.” Heldur: ”Þriðju kynslóðar símar eru hannaðir fyrir háhraða gagnaflutning. Þeir geta sýnt sjónvarpsefni án …”

Ekki skrifa: “Í staðinn verða dreifisvæði og þá er ég að tala um heilu borgirnar.” Heldur: “Í staðinn verða dreifisvæði. Þá er ég að tala um heilu borgirnar.”

Ekki skrifa: “Lítið lát virðist vera á eftirspurn á húsnæðismarkaði og fjölgaði kaupsamningum í febrúar.” Heldur: “Lítið lát virðist vera á eftirspurn á húsnæðismarkaði. Kaupsamningum fjölgaði í febrúar.”

Ekki skrifa: “Aðrir þættir gætu haft áhrif og nefnir Hjördís hækkun launa og lækkun skatta.” Heldur: “Aðrir þættir gætu haft áhrif. Nefnir Hjördís hækkun launa og lækkun skatta.”

Ekki skrifa: “Markaðurinn hefur verið í líflegra lagi það sem af er ári og býst hún ekki við jafnörum hækkunum á næstunni.” Heldur: “Markaðurinn hefur verið í líflegra lagi það sem af er ári. Hún býst ekki við jafnörum hækkunum á næstunni.”

Ekki skrifa: “Flokkurinn hefur lengi haft ójafnt fylgi meðal kynjanna og þarf á frekari umræðum innan sinna raða um jafnréttismál.” Heldur: “Flokkurinn hefur lengi haft ójafnt fylgi meðal kynjanna. Hann þarf að ræða frekar um …”

Ekki skrifa: “30,7% kvenna styðja flokkinn og 41,7% karla en ójafnt fylgi kynjanna hefur verið einkennandi fyrir flokkinn.” Heldur: “30,7% kvenna styðja flokkinn og 41,7% karla. Ójafnt fylgi kynjanna hefur einkennt flokkinn.”
“Og”, “en”, “þegar”, “eftir að”, “þar sem”, “þótt” eru dæmi um orð, sem lengja málsgreinar. Í stað þeirra á að koma punktur og stór stafur. Þessi aukaorð segja yfirleitt ekkert sérstakt, sem ekki er augljóst af öðrum orðum textans.

Ekki skrifa: “Fyrirtækið mun ekki innkalla vöruna, eftir að heilbrigðisráðuneytið gaf út bráðabirgðaákvörðun um, að hún fæli ekki í sér hættu fyrir almenning, sagði Pétur.”

Betra: “Fyrirtækið mun ekki innkalla vöruna. Samkvæmt bráðabirgðaákvörðun heilbrigðisráðuneytisins felur hún ekki í sér hættu fyrir almenning, sagði Pétur.” Ljóst er að ákvörðun um enga innköllun kom á eftir ákvörðun um enga hættu.

Oft er ÞEGAR óþarft: “Maðurinn sneri við þegar komið var að tannlæknastofunni, tók á sprett og faldi sig í félagsmiðstöð í bænum.” Betra er: “Hjá tannlæknastofunni sneri maðurinn við, tók á sprett og faldi sig í félagsmiðstöð í bænum.”

Ekki: “Jón Jónsson leikmaður Hauka sýndi meistaratakta þegar lið hans sigraði Val með þriggja stiga mun í úrvalsdeildinni á föstudaginn var.” Heldur: “Jón Jónsson í Haukum sýndi meistaratakta í úrvalsdeildinni á föstudaginn. Lið hans sigraði Val …”

Klippið líka þetta: “Davíð Oddsson Seðlabankastjóri sagði í dag, að hagkerfið væri komið yfir hættuna á samdrætti og hann spáði stöðugum og lágum hagvexti út þetta ár.” Settu punkt á eftir samdrætti og stórt H í hann.

Ekki “vegna þeirrar staðreyndar að”, heldur “því að”. Ekki “vekja athygli þína á þeirri staðreynd að”, heldur “minna þig á”. Ekki “sú staðreynd að honum hafði mistekist”, heldur “mistök hans”.

Tímaritið Economist fjallar um þungt efni, en skrifin eru létt og skýr. Meðallengd á málsgreinum í inngangi frétta er 16 orð. Almenn meðallengd málsgreina er 16-19 orð. Economist er samt ekki skrifað fyrir fífl.

Notaðu málsliði sem einingar. Þegar þú hefur skrifað málslið (paragraff), skaltu líta yfir hann og skoða, hvort megi skipta honum. Gættu þín á mjög löngum málsliðum. Þeir eru ekki árennilegir fyrir lesandann. Skiptu þeim í fleiri málsliði.

Málsliðir mega ekki vera margar málsgreinar að lengd. Og hver málsgrein má ekki vera mörg orð að lengd. Áður var miðað við, að málsgrein væri ekki lengri en 23 orð, en nú er notuð talan 17 orð. Þetta er fyrir áhrif sjónvarps og netmiðla, nú síðast farsíma.

Meginreglan er þessi: Ein hugsun sé í hverri málsgrein, 23 orð eða færri. Skyldar málsgreinar séu saman í málslið, 8 málsgreinar eða færri í hverjum málslið. Ný lína, nýr málsliður táknar, að fókusinn er færður til.

Þú þarft að neyða þig til að skrifa stuttar málsgreinar. Þá hefur þú ekki pláss fyrir froðuna, orðtökin, klisjurnar og endurtekningarnar, sem þú mundir annars setja inn. Þessi regla hjálpar þér að fylgja öðrum reglum. Hún spúlar froðunni úr texta þínum.

2. regla Jónasar:
Settu sem víðast
punkt og stóran staf

Reglur Jónasar um stíl:
1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd, andlag og viðtengingarhátt.
8. Hafðu innganginn skýran og sértækan.
-Sjá www.jonas.is