0127 Fegurð 2

0127

Textastíll
Fegurð II

Hemingway: “Allt er öðru vísi núna. Líklega hafa fjarlægðir breyst. Allt verður smærra, þegar þú eldist. Svo eru vegirnir betri og ekkert ryk. Áður fór ég bara í hestvagni. Oftast gekk ég. Ég horfði á skugga og vatnspósta. Og skurði líka, hugsaði hann. Ég gáði að skurðum alls staðar.”

Hugsaðu um orðafjöldann í málsgreinum þínum. Farðu að gæta þín, ef þau fara upp fyrir fimmtán. Og þú ert kominn í hættu, þegar þau fara upp fyrir þrjátíu. Það einfalda er oftast best, því að minnst hætta er á mistökum, þegar málsgreinarnar eru stystar. Mundu eftir Hemingway.

Shaw: “Skólastjóri er persóna, sem losar foreldra við börn gegn þóknun. Hann býr til barnafangelsi, ræður kennara sem fangaverði. Hann felur grimmd og óeðli aðstæðnanna með því að kvelja börnin, ef þau læra ekki. Hann segir þetta ferli, sem öll fífl og illmenni geta ráðið við, vera göfuga kennslu.”

Gallinn við myndlíkingar og aðrar aðferðir til að framkalla glæsibrag er, að þér kann að mistakast það og verða svo svekktur, að þú hættir ekki á slíkt aftur. Aðeins er hægt að mæla með því, að þú takir í góðu skapi á móti mistökum, sem við öll lifum af.

Við skulum forðast flókinn texta og þungmeltan. Ef við kærum okkur ekki um að berjast gegnum þvælinn texta annarra höfunda, eigum við ekki að bjóða lesendum okkar upp á slíkt. Það, sem þú vilt, að aðrir skrifi fyrir yður, skulið þér og þeim skrifa.

Stundum er flækjan markviss, fyrirtæki er að þyrla upp ryki: “Þegar þjónustaðar eru tvær milljónir bílaeigenda í Kaliforníu, geta orðið mistök. Samt vill Sears að þú vitir, að fyrirtækið mundi aldrei af ásettu ráði bregðast því trausti, sem neytendur hafa sýnt því í 105 ár.”

Fyrst og fremst þarf texti að skila tilgangi sínum. Blaðamenn skrifa þannig, að málið komist til skila. Þeir eru ekki að skrifa bókmenntir, heldur sannar sögur, sem ekki má misskilja. Mikið af þeim texta, sem rekur á fjörur blaðamanna, er saminn af sérfræðingum, sem ekki kunna mikið í tungumálinu.

Við getum reynt að skilja flókinn og þvælinn texta, en við ráðum aldrei við texta, sem skortir samhengi. Byrjaðu sérhverja málsgrein á þætti, sem er stuttur og auðskilinn og kynnir lengra og flóknara framhald.

Ekki segja: “Á síðustu árum hefur innleiðing nýrra túlkana á gildi fundar Ameríku leitt til endurmats á stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda.” Heldur: “Jared Diamond hefur endurmetið stöðu Kólumbusar í sögu vesturlanda, af því að hann hefur túlkað fund Ameríku á nýjan hátt.”

Til að átta sig á samhengi einingar, þarftu 1) að láta stuttan og auðskilinn texta kynna málið, 2) síðan láta koma fókus málsins, sem afgangur málsliðarins þróar, skýrir eða styður, 3) og láta málsliðinn síðan enda á lykilatriðunum. Þetta gildir allt frá málsgreinum upp í langan texta.

Lesendur þurfa að sjá, hvernig allt skiptir máli fyrir fókusinn. Málsgreinar skipta máli, ef þær koma með bakgrunn eða samhengi, fókuspunkta málsliðar, röksemdafærslu, staðfestingar eða staðreyndir, útskýringar á aðferðum, tillit til annarra sjónarmiða.

Lesendur þurfa að sjá, hvernig hlutum greinarinnar er raðað upp. Það getur verið í tímaröð eða hnitaröð eða rökréttri röð. Tímaröð er einföld. Hnitaröð myndar röð af súlum undir sameiginlegu þaki. Rökrétt röð er flóknust.

Ekki hvatning: “Þegar háskólastúdentar fara út að slaka á um helgar, fara sumir á skallann, sturta í sig nokkrum drykkjum á stuttum tíma, verða öskufullir og líða jafnvel út af. Þessi hegðun hefur breiðst út í háskólum. Áður voru það einkum karlar, sem gerðu þetta, en núna eru það einnig konur.”

Hvatning: “Alkóhól hefur verið stór hluti af háskólalífi í hundruð ára. Á krám og í heimahúsum drekka stúdentar og sumir þeirra mikið. En nú fara menn meira á skallann en áður, þegar þeir fara út um helgar. Menn sturta í sig nokkrum drykkjum á skömnmum tíma, verða öskufullir og líða jafnvel út af.

Hvað með það? Öskufyllerí er ekki skaðlaust. Á síðustu sex mánuðum hafa tveir menn látist, margir slasast og mikið eignatjón orðið af þess völdum. Öskufyllerí er hegðun, sem er ekki lengur skemmtun, heldur ábyrgðarleysi, sem drepur og slasar, ekki bara fylliraftana, heldur líka fólkið í kring.”

Alhæfingin hljóðar svo: Lesendur eru líklegri til að skilja texta, þar sem málsgreinar, málsliðir, kaflar og greinar byrja á stuttum kafla sem rammar inn lengri og flóknari kafla, sem á eftir kemur. Við skulum taka nokkur dæmi um þetta:

Ekki skrifa: “Andstaða í Nevada gegn notkun ríkisins fyrir urðun úrgangs kjarnorkustöðva hefur verið hörð.” Heldur svona: “Nevada hefur barist hart gegn urðun úrgangs kjarnorkustöðva í ríkinu.”

Ekki skrifa: “Fullyrðing þingmannsins um, að efnahagsbati sé framundan vegna bjartra vona í hátækni, er ekki studd af staðreyndum málsins.” Heldur: Þingmaðurinn hefur engar staðreyndir til stuðnings þeirri fullyrðingu, að efnahagsbati sé framundan vegna bjartra vona í hátækni.”

Alla leiðina frá stuttri málsgrein yfir í heila grein þarf lesandinn fyrst að fá stutta hugmynd um eðli málsins, sem rammar inn lengri og flóknari texta, sem á eftir kemur. Hafðu þetta hugfast. Byrjaðu á því stutta og létta og láttu það langa og flókna koma á eftir.

Fegurð
“Ef stórt er spurt, verður oft lítið svar væni minn. Hann séra Jón boðaði fátt hér áður og enn færra nú. Sem betur fer, mundi margur segja.”