0124 Rennsli 1

0124

Textastíll
Rennsli I

Til viðbótar við rétta notkun sagna og frumlaga í texta þarf líka að hafa rétt samhengi í textanum. Tengsli þurfa að vera milli enda einnar málsgreinar og upphafs hinnar næstu. Samhengi þarf að vera í orðalagi milli málsgreina. Úr þessu þarf að verða til eðlilegt rennsli textans um söguna.

“Nokkrar athyglisverðar spurningar um eðli alheimsins hafa komið fram hjá fræðimönnum, sem rannsaka svarthol í geimnum. Hrun dauðrar stjörnu saman í lítinn punkt býr til svarthol. Svo mikið efnismagn þjappað í litlu rúmtaki breytir eðli rúmsins umhverfis á furðulegan hátt.” Berið þetta saman við:

“Nokkrar athyglisverðar spurningar um eðli alheimsins hafa komið fram hjá fræðimönnum, sem rannsaka svarthol í geimnum. Þau myndast, þegar dauð stjarna hrynur saman í lítinn punkt. Svo mikið efnismagn þjappað í litlu rúmtaki breytir eðli rúmsins umhverfis á furðulegan hátt.”

Í síðara tilvikinu er eðlilegt rennsli milli málsgreina. Í fyrstu málsgrein er endað á svartholum og í þeirri næstu eru svarthol útskýrð nánar. Í fyrra tilvikinu hrekkur texti annarrar málsgreinar yfir í “hrun dauðrar stjörnu”. Textinn rennur þar ekki, heldur hrekkur.

Athuga ber þó, að eðlilegt rennsli má ekki fela í sér nástöðu sama orðalags í enda málsgreinar og í upphafi þeirrar næstu. Ekki segja: “Nokkrar athyglisverðar spurningar um eðli alheimsins hafa komið fram hjá fræðimönnum, sem rannsaka svarthol. Svarthol myndast, þegar dauð stjarna hrynur saman.”

Reglan um rennsli texta milli málsgreina leiðir til takmörkunar á reglum um sagnorð og frumlag. Hún veldur því, að oft er gott að hafa andlag í stað frumlags. Saman mynda reglan um sagnorð, reglan um frumlag og reglan um rennsli eins konar samkomulag um, hvernig góður texti eigi að vera.

Þú verður að hafa ákveðið jafnvægi milli þess, sem hentar innan hverrar málsgreinar fyrir sig, og þess, sem hentar rennslinu milli málsgreina. Annars vegar þarf sterka framsetningu virkra sagna og frumlaga innan málsgreina. Hins vegar þarf veikt rennsli andlaga milli málsgreina.

Best er að byrja málsgreinar á efni, sem lesendur þekkja af því, sem á undan er gengið. Og enda síðan málsgreinar á efni, sem hefur að geyma nýjar upplýsingar. Þetta leiðir huga lesandans frá því létta og þægilega yfir í það þunga og erfiða. Lesendur vilja yfirleitt byrja á því léttara.

“Seynor í Wisconsin er vélsleðaborg heimsins. Kliður sleðanna fyllir loftið og snjórinn er markaður förum þeirra. Snjórinn minnir mig á kartöflustöppu mömmu, þakta rákum, sem ég dró með gaffli. Ég hafði ekki lyst á stöppunni, þess vegna dundaði ég við hana. Sálfræðingurinn minn sagði …”

Í þessum texta er eðlilegt rennsli milli málsgreina. Atriði, sem kynnt eru til sögunnar í lok fyrri málsgreinar, eru tekin til nánari skoðunar í næstu málsgrein. Úr þessu rennsli á að verða til samræmd heild. Í þessu tilviki er þó alltaf verið að færa fókusinn til, svo að heildarsamræmi vantar í textann.

Fyrst var fjallað um snjóinn í Seynor. Í þriðju málsgrein var stokkið yfir í kartöflustöppuna og í fimmtu málsgrein stokkið yfir í sálfræðinginn. Þótt samræmi sé milli sérhverra tveggja málsgreina, sem standa saman, vantar samræmið í textann í heild, sameiginlegt þema, sameiginlegar hugmyndir, fókusinn.

Við erum komin frá orðunum “Hver” og “gerði” yfir í orðið “hvað”. Við erum að tala um málefnið, atburðinn, fókusinn í sögunni, þemað. Við erum að tala um límið, sem heldur textanum saman. Ekki bara frá málsgrein til málsgreinar, heldur um langan veg textans niður dálkinn. Hér er dæmi um góðan texta:

“Lesendur leita að samræmi milli málsgreina til að átta sig á, um hvað er verið að fjalla. Ef þeim finnst rennsli málsefna vera afmarkað, finnst þeim samræmi vera í textanum. Sé hins vegar alltaf verið að færa umræðuefnið til, finnst þeim skorta samræmi og vegvísi, textinn virðist vera úr fókus.”

Erfitt er að byrja málsgreinar vel. Sumir byrja á að ræskja sig. “Og þessvegna, frá pólitísku sjónarhorni, hafa ofsarok undir Eyjafjöllum síðan 1980 verið alvarlegur vandi.” Best er að byrja málsgreinar á orðinu, sem er umræðuefni textans (ofsarok), fókus textans.

Ekki er ástæða til að óttast endurtekningar. Texti verður ekki einhæfur, þótt aftur og aftur sé vísað til sama hugtaksins. Við yfirlestur texta getur þó komið í ljós, að sama orðið er of mikið notað aftur og aftur. Á þessu sviði eins og mörgum fleirum þarf að vera jafnvægi milli festu og ofnotkunar.

Sumir höfundar búa til falskt samræmi með því að nota atviksorð á borð við “þess vegna” eða “samt sem áður”, “ennfremur”, “einnig”, “þar á ofan”, “annars”, “auðvitað” jafnvel þótt lítið eða ekkert samhengi sé milli þess, sem á undan var gengið, og þess, sem á eftir kemur. Eða að samhengið er ljóst.

“Í fyrsta þætti rannsóknarinnar könnum við, hvernig fyrirtæki í Asíu keppa við vestræn fyrirtæki á Kyrrahafssvæðinu. Við könnum eink um launakostnað og getu þeirra við að kynna nýjar vörur hratt. Á þessum grunni semjum við áætlun, sem sýnir vestrænum iðnaði, hvernig á að breyta verksmiðjunum.” Gott

Eftir frumlag og virk sagnorð kemur meginefni málsgreinarinnar, sem oft er þyngra aflestrar. Gott er, að það komi á eftir, þegar frumlag og virk sagnorð hafa gefið hraða og kraft í frásögnina. Meginefnið í síðari hluta málsgreinarinnar hefur áhrif á mat lesandans á því, hvort textinn allur sé skýr.

Ekki setja þyngslin fremst: “Tölfræðileg og bókhaldsleg rannsókn á tekjum og gjöldum Tryggingastofnunar ríkisins í sex áratugi til að ákveða breytingar á spám um greiðsluhalla hennar var verkefni okkar á þriðja stigi námsins.”

Aðgengilegra er að hafa þyngslin síðast: “Í þessu verkefni á þriðja stigi námsins skoðuðum við tekjur og gjöld Tryggingastofnunar í sex áratugi. Við notuðum tölfræðilegar og bókhaldslegar aðferðir til að ákveða breytingar á spám um greiðsluhalla hennar.”