0136 Greinin skrifuð 1

0136

Textastíll
Greinin skrifuð I

Lesendur elska hreyfingu. Blaðamaðurinn getur ekki búið til hreyfingu, ef hún finnst ekki. Ef hún er til, þarf hann að sjá hana og opinbera hana fyrir lesendum.

Ef hreyfing finnst ekki, má skipta athygli lesandans milli óhlutlægra og hlutlægra þátta sögunnar, milli almennra og sértækra þátta hennar, milli stærðar og smæðar.
(Blundell: Tuscon-liðið, bls. 56-58)

Lesandinn er á tímabili kominn út frá alþemanu yfir í alhæfingar, þegar hann er skyndilega fluttur inn að smáatriðunum. Síðan er hann aftur færður yfir til víðara sjónarhorns og það síðan þrengt aftur. Ekki samt vera með hókus-pókus. (Blundell: Walt Disney, bls. 59-61)

Sumir blaðamenn líta ekki á sig sem sögumenn. Sumir líta á sig sem eins konar lögmenn, sem eigi að sannfæra fólk um rétt og rangt eins og þeir sjá það. Aðrir eru fræðimenn, sem sökkva sér niður í mál án þess að geta skrifað um þau.

Enn aðrir blaðamenn eru eins konar staðreyndamenn. Þeir líta á sig sem eins konar trekt fyrir staðreyndir og skrifa flata sögu. Þeir eru hræddir við að vera skammaðir fyrir æsifréttamennsku.

Gleymið ekki, að blaðamaðurinn á að segja sögu. Hann er í drama. Hann reynir að fara eftir staðreyndum fremur en fordómum. En hann velur efnið og hafnar efninu, hann ákveður áherslurnar. Hann getur aldrei orðið fullkomlega óhlutdrægur.

Heiðarlegur sögumaður bregst tilfinningalega við því, sem ER. Staðreyndir og atburðir stýra viðhorfum hans. Viðhorf hans stjórna aldrei lýsingum sögu hans á staðreyndum og viðburðum. Innan þeirra marka hefur hann mikið frelsi.

Góðir sögumenn verða að hafa kjark. Sumum blaðamönnum mistekst, af því að þeir telja sig vera lögmenn eða fræðimenn eða staðreyndamenn, misskilja hlutverk sitt. Öðrum blaðamönnum mistekst, af því að þeir eru lamaðir af ótta.

Þeir óttast kannski dagblaðið, sem þeir starfa við, álit þess, ritstjóra þess, sögu þess. Allt þetta hvílir á öxlum blaðamannsins eins og mara. Honum finnst, að sagan sín sé ekki þess virði að hljóta náð fyrir augum máttarvaldanna.

Skelfingin við greinaskrif er sjúkdómur, sem sífellt þarf að kveða niður. Menn eru ekki að semja boðorðin tíu eða stjórnarskrána. Þeir eru að segja sögu, kannski sögu af ketti, sem bjargaðist úr sökkvandi skipi. Það er nóg.

Wall Street Journal hefur vissulega sinn stíl, sem blaðamaðurinn tekur tillit til. Hér hefur verið gerð og verður áfram gerð tilraun til að lýsa þessum stíl. Burtséð frá honum þá þekkja ritstjórar góða sögu, ef hún fer um hendur þeirra.

Ekki skiptir máli, hvaða áætlun þú notar til að smíða söguna. En það skiptir máli að hafa áætlun yfirleitt. Hún kann að vera losaraleg og óformleg, en samt er hún áætlun. Blundell gerir alltaf áætlun um allar greinar, sem hann skrifar í blaðið.

1. Forsagan (ekki hennar sjálfrar v.):
A: Á aðalþemað sér rætur í forsögunni, hverjar?
B: Er aðalþemað rof á forsögu, hvernig?
C: Er aðalþemað framhald af forsögunni, hvernig?
D: Get ég notað atriði úr forsögunni til að varpa ljósi?

2. Sögusvið
A: Umfangið, get ég skilgreint það myndrænt?
B. Staðsetningin, hver er hún, þorpið, ríkið, heimurinn?
C. Fjölbreytni og nánd, hvernig lýsi ég þeim í sögunni?
D. Fjarvíddin, stækkar hún söguna eða temprar hana?

3. Orsakir
A. Hagrænar, er fé í spilinu, hver er ferill fjárins? (Follow the money)
B. Félagslegar, hafa breytingar á siðum og menningu áhrif á söguna?
C. Pólitískar og lagalegar, hafa breytingar á lögum og reglum áhrif?
D. Sálrænar, til dæmis sjálfið, hefnd, þrá, persóna? Skortir oft.

4. Áhrif
A. Hverjir hagnast á atburðunum, hvernig? Hvert er umfang hagsbótanna?
B. Hverjir skaðast á atburðunum, hvernig? Hvert er umfang skaðans?
C. Hver eru tilfinningaleg viðbrögð þeirra, sem hagnast eða skaðast. Skortir oft.

5. Gagnverkanir
A. Hverjir mótmæla hæst, hvað eru þeir að segja?
B. Hvað er gert til að hamla gegn aukaverkunum atburða? Hvert er umfangið?
C. Hvernig virka þessar gagnaðgerðir?

6. Framtíðin (hvað mundi gerast, ef …)
A. Eru til rannsóknir um atburðina og hvað segja þær?
B. Hverjar eru óformlegar skoðanir aðila og álitsgjafa á þróuninni?
C. Get ÉG skýrt út, hvað fram-tíðin kunni að bera í skauti sér?

Greinin skrifuð
Sjá nánar:
William E. Blundell: The Art and Craft of Feature Writing, 1988
Vísað er til greina í þeirri bók.