0116 Aðskotaorð 2

0116

Textastíll
Aðskotaorð II
Sparaðu lýsingarorð, atviksorð,
þolmynd og viðtengingarhátt

Að vera eða vera ekki: Varaðu þig á “það voru” og “það eru”, einkum í upphafi málsgreina. “Það” er oft óþarft orð og sögnin að “vera” segir lítið. Ekki: “Það var enginn í hópnum, sem hjálpaði honum.” Heldur: “Enginn í hópnum hjálpaði honum.”

Ekki segja: “Við vorum að spila vel í fyrri hálfleik”. Heldur: “Við lékum vel í fyrri hálfleik.” Ekki segja: “Allir eru að gera það gott”. Heldur: “Allir gera það gott.” Ekki segja: “Þeir voru að nálgast okkur”. Heldur: “Þeir nálguðust okkur.”

Settu neikvæða meiningu í jákvæðan búning. Ekki “Þingið fjallaði ekki um málið”, heldur “Þingið lét málið eiga sig.” Jákvæðni leyfir málinu að flæða, en orðið “ekki” setur í það hraðahindrun, auk þess sem það getur valdið ruglingi aftar

Ekki: “Hann sagði, að ekki hefðu allar fjarvistir verið skýrðar”, heldur “Hann sagði bara sumar fjarvistir hafa verið skýrðar.” Ekki segja “ófáir”, heldur “margir”. Ekki segja “ekki margir”, heldur “sumir” eða “fáir”.

“Ekki satt” er “logið”, “ekki magur” er “feitur” eða “í meðalholdum”, “ekki hár” er “smár” eða “meðalhár”, “ekki hafinn leikur” er “fyrir leik”, “ekki í samræmi” er “skortir samræmi” eða “sundurleitur”.

Vanstýrður bakgrunnur:
Ekki setja bakgrunn inn í texta á óviðkomandi stöðum. Ekki skrifa: “Fæddur á Húsavík var hann mikill frímerkjasafnari.” Ekki skrifa: “Sonur póstmanns, bjó Pétur í Reykjavík, þegar ólánið bar að garði.”

Að vísu er gott að losa nauðsynlegar staðreyndir inn í textann, en þær þarf að vefa snyrtilega í hann á viðeigandi stöðum. Þær mega ekki höggva söguna. Ef þær komast þar ekki fyrir, má setja þær saman í einn málslið, en þó ekki fremst.

Hreinlegar og slípaðar málsgreinar blómstra best í vel skipulagðri sögu. Vanstýrður bakgrunnur setur tyggjó í vélina. Það skapar glundroða að hlaupa fram og aftur í tímanum, framleiðir óþörf orð og þreytir lesendur.

Tegundir frétta:
Öfugi píramídinn, hinn klassíski fréttastíll, getur skapað vanda, þegar tímaröð verður óljós. Oft er píramídinn notaður fremst, en smáatriðin látin koma á eftir í tímaröð.

Ekki skrifa: “Í gær slapp 3ja ára api úr taumi á baklóð og beit konu og son hennar eftir að hafa hoppað inn í bíl þeirra. Nágranni staðfesti, að fyrir árásina hafi krakkar gert aðsúg að apanum. Eftir bitið hoppaði hann upp í tré.”

Betri er tímaröð: “Þriggja ári api slapp í gær úr taumi á baklóð. Nágranni staðfesti, að krakkar gerðu aðsúg að honum. Hann varð hræddur og stökk inn í bíl, beit bílstjórann og son hennar. Síðan stökk hann upp í tré.”

Góð regla:
1) Einfaldaðu.
2) Forðastu ringulreið.
3) Hreinsaðu.
4) Hugsaðu tvisvar

Forðastu tvítekningar. Ekki segja “Hann gnísti tönnum fast”. Að gnísta er fast.
Forðastu langar málsgreinar, skilningur lesenda minnkar. Leitaðu að orðum á borð við “og” og “en”. Settu þar punkt og stóran staf.

Útskýrðu. Ef þú skilur textann ekki, mun lesandinn ekki skilja hann. Margir eiga auðvelt með að bera saman hluti og samhengi, aðrir þurfa að læra það. Ef útskýringar eru ekki þín sterkasta hlið, skaltu ákveða að gera þær að henni.

Reyndu að meta, hvort lesandinn viti mikið um málið. Gerðu ekki ráð fyrir, að hann hafi fylgst með fréttum í gær. Er þetta eitthvað, sem hann getur látið sig varða um? Er fréttin of flókin? Fjallar hún nógu mikið um fólk sem gerendur?

1. Þekking og meðvitund þín hjálpa þér að skilja flóknar aðstæður og lýsa þeim.
2. Æfðu. Lýstu móður þinni svo, að annar noti lýsinguna í flugstöð.
3. Berðu það óþekkta saman við það þekkta. Notaðu hugtök og þekkt dæmi.

Á tíma vefs og farsíma felst texti í auknum mæli í eins konar fyrirsögnum. Til dæmis helstið (“það var helst í fréttum”) í útvarpi og sjónvarpi. Það er bara röð af fyrirsögnum. Skjár í gemsa takmarkar enn frekar fjölda aðskotaorða, sem er til ráðstöfunar.

Vikið hafa gamlar reglur í blaðamennsku, sem gáfu svigrúm til orðavaðals. Lestur á pappír er að víkja fyrir skönnun af skjá. Þeim mun meiri ástæða til að geta skrifað stutt og laggott, geta talað í fyrirsögnum. Kröfur um stuttan texta hafa harðnað á síðustu árum.

Farsímar eru að verða tölvur almennings. Þar er skjárinn lítill. Það eykur kröfur til aukins hraða á textanum. Í forritinu Twitter, sem notað er í fjölpósti í farsíma, er hámarksfjöldi stafa 140. Það jafngildir einni 17-23 orða setningu. Einni skjámynd í farsíma.

Sjöunda regla Jónasar:
Sparaðu lýsingarorð, atviksorð,
þolmynd og viðtengingarhátt